Atli Harðarson
Af vefnum - febrúar og mars 2006

29. mars: Skattalækkun eða skattahækkun?
Merkileg er þessi umræða um skattamál sem meðal annars fer fram í aðsendum greinum í Morgunblaðinu. Þar hefur því aftur og aftur verið haldið fram að skattalækkanir undanfarið séu í raun skattahækkanir. Ég vissi fyrst ekki hvað ég ætti að halda um þetta. Svo ég fór að skoða og reikna hvernig menn fá það út að skattur hafi hækkað. Til að fá þessu útkomu eru að mér virðist aðallega notaðar tvær aðferðir. Önnur er að miða við nógu langt tímabil og vissulega hafa skattar hækkað frá því staðgreiðslukerfið var tekið upp árið 1988, en þá var staðgreiðsluhlutfallið 35,2%. Hin aðferðin er að uppfæra sumar tölur sem reiknað er með miðað við vísitölu launa. Undanfarin ár hefur hún hækkað meira en vísitala neyslukostnaðar. Þetta virkar þannig að látið er heita að sá sem er á sama stað í röðinni (t.d. í miðjunni þannig að helmingur landsmanna hafi hærri tekjur en hann og helmingur lægri) nú og fyrir svo og svo mörgum árum hafi í raun sömu tekjur en borgi samt hærri skatt. Þetta er blekking að því leyti að sá sem er á miðjum tekjuskalanum núna hefur hærri tekjur en sá sem var á miðjum skalanum fyrir nokkrum árum síðan vegna þess að meðalkaupmáttur hefur aukist. Þessar tvær aðferðir eru skólabókardæmi um hvernig hægt er að blekkja með útreikningum og talnakúnstum. Það er ljótur leikur.
   Ég skoðaði vefi Ríkisskattstjóra og Hagstofunnar og sótti þar þær upplýsingar sem þarf til að reikna hvernig skattbyrði hefur breyst frá árinu 2002 til 2005 eða á því tímabili sem um er að ræða, þ.e. síðan ríkisstjórnarflokkarnir kunngerðu að þeir ætluðu að lækka tekjuskatt. Ég umreiknaði tölur fyrir 2002 í gengi ársins 2005 með því að nota vísitölur neysluverðs frá miðju ári 2002 og miðju ári 2005. Þegar ég tala um að maður hafi haft t.d. 2 milljónir í tekjur árið 2002 meina ég því að hann hafi haft tekjur sem dugðu til að kaupa jafnmikið af neysluvörum og hægt var að fá fyrir 2 milljónir á miðju árinu 2005. Sama gildir um skattana- þegar ég segi að hann hafi borgað 433 þúsund í skatta árið 2002 meina ég þá upphæð sem dugar til að kaupa jafnmikið af vörum og hægt var að fá fyrir 433 þúsund krónur árið 2005.
   Útkomurnar úr þessum reikningi eru í stuttu máli að sá sem hafði t.d. 2 milljónir í árstekjur borgaði 177 þúsund í tekjuskatt árið 2002 en 155 þúsund árið 2005. Þetta er lækkun um 12%. Staðgreiðslan í heild lækkaði ekki eins mikið. Hún fór úr 433 þúsund krónum í 415 þúsund krónur eða niður um 4%. Þetta er vegna þess að hækkun útsvars vegur á móti lækkun tekjuskatts. Lækkunin á sköttunum er heldur meiri hjá þeim sem hafa lágar tekjur en þeim sem hafa háar tekjur. Fyrir þá sem eru undir þeim mörkum að greiða hátekjuskatt gildir nokkurn veginn að sá sem hefur í tekjur:

  • 1 milljón borgaði 47 þús. í skatt 2002 en 37 þús. 2005 (lækkun um 21%);
  • 2 milljónir borgaði 433 þús. í skatt 2002 en 415 þús. 2005 (lækkun um 4%);
  • 3 milljónir borgaði 818 þús. í skatt 2002 en 792 þús. 2005 (lækkun um 3%);
  • 4 milljónir borgaði 1.203 þús. í skatt 2002 en 1.169 þús. 2005 (lækkun um 3%);

Forsendur þessara útreikninga eru að neysluverðsvísitala á miðju ári 2002 hafi verið 222,90 stig og á miðju ári 2005 hafi hún verið 241,55 stig. Skatthlutföll á árinu 2002 hafi verið 25,75% tekjuskattur og 12,79% útsvar en á árinu 2005 hafi þau verið 24,75% tekjuskattur og 12,98% útsvar. Persónuafsláttur árið 2002 var 312.024 kr. sem uppreiknað á verðlag ársins 2005 (m.v. breytingar á vísitölu neysluverðs) jafngildir 338.131 kr. Persónuafsláttur árið 2005 var 339.846 kr.

25. mars 2006: Um sannleikann
Nú á vormisseri 2006 tek ég eitt námskeið í framhaldsnámi í menntunarfræðum við Háskóla Íslands. Það heitir Skólaþróun og sjálfsmat. Kennari er Hafdís Ingvarsdóttir. Mér finnst hún kenna þetta vel og hafa gott lag á að fjalla um erfiðar spurningar um skólamál og menntapólitík.
  
Lesefnið sem Hafdís setur nemendum sínum fyrir að læra er úr ýmsum áttum. En það þarf ekki að blaða lengi í því til að sjá að heimspekilegir tískustraumar hafa áhrif í menntunarfræðum ekki síður en öðrum greinum félagsvísinda. Mér finnst svolítil synd hvernig heimspeki er eins og hafin á stall í þessum fræðum og klisjur um kenningar heimspekinga þuldar gagnrýnislaust og látið með þá eins og einhvers konar spámenn. Ég hélt að heimspeki snerist um að þora að efast og hugsa sjálfstætt. Sá sem þarf leiðtoga, spámann eða gúru getur ekki verið heimspekingur.
   Richard Rorty er einn þeirra heimspekinga sem hafa lent í að verða átrúnaðargoð félagsvísindamanna. Þetta er svolítið kaldhæðnislegt því í sinni frægustu bók, Philosophy and the Mirror of Nature, sem Rorty skrifaði fyrir 27 árum sagði hann mönnum að hætta að snobba fyrir heimspekingum eða láta þá segja sér fyrir verkum. Þessi bók var talsvert umtöluð þegar ég var í heimspeki við Háskóla Íslands um 1980. Ég las hana þá til að tolla í tískunni en pragmatisminn sem Rorty boðaði höfðaði ekki til mín þá og gerir það ekki heldur nú.
   Aðalkenning pragmatismans, sem Rorty reynir að rökstyðja í Philosophy and the Mirror of Nature og er nú orðin tískustefna hjá mönnum sem eru nógu litlir heimspekingar til að þurfa á tísku að halda, er að sannleiksgildi fullyrðinga, kenninga eða skoðana velti á nytsemi þeirra en ekki á því hvort þær samsvara veruleikanum. Andstæða þessarar kenningar er samsvörunarkenning um sannleikann sem segir að kenning, skoðun eða fullyrðing sé sönn ef og aðeins ef hún samsvarar veruleikanum, þ.e. segir að hlutirnir séu eins og þeir eru í raun og veru.
   Pragmatistar segja að menn geti ekkert um það vitað hvort kenningar þeirra eru eftirmyndir af raunveruleikanum og það sé tómt mál um að tala að menn flokki kenningar í sannar og ósannar eftir því hvort þær gefa rétta mynd af því hvernig heimurinn er. Samkvæmt þeim getum við í besta falli vitað hvort kenningar virka vel eða illa, hvort þær hjálpa okkur að ná tökum á tilverunni.
   Það segir sig auðvitað sjálft að við samþykkjum kenningar oft vegna þess að þær virka, koma að gagni. Rafmagnsverkfræðingar samþykkja til dæmis kenningu Maxwells um samband raf- og segulkrafta vegna þess að hún virkar. Það er hægt að nota hana til að smíða mótor sem snýst í alvöru og útvarpssendi sem flytur raunveruleg boð. En hvers vegna skyldi kenningin virka? Andstæðingar pragmatista segja að trúlegast sé það sé vegna þess að raunveruleikinn sem um er fjallað sé að minnsta kosti nokkurn veginn eins og kenningin segir að hann sé.
   Rorty segir að kenning sé sönn vegna þess að hún virkar (en hefur enga skýringu á hvers vegna hún virkar). Þeir sem halda fram samsvörunarkenningunni um sannleika segja hins vegar að kenningin virki vegna þess að hún er sönn (en vefst tunga um tönn þegar þeir eru spurðir hvernig þeir geti vitað að hún sé sönn með öðru móti en því að kanna hvort hún er nýtileg). Talsmenn beggja kenninganna standa frammi fyrir spurningum sem þeir eiga engin góð svör við en vandi pragmatistanna er þó verri því að á þeirra eigin mælikvarða er samsvörunarkenningin rétt, því hún virkar. Það svínvirkar að trúa því að þekking okkar gefi rétta mynd af því hvernig veruleikinn er.
   Ég talaði annars um daginn við mann sem kom á fund í Rótarýklúbbi Akraness og hefur verið að hjálpa fólki í Afríku að grafa brunna. Hann útskýrði að þorpsbúar græfu brunnana að mestu leyti sjálfir og það væri ekki svo mikið mál. Peningarnir sem safnað væri á Íslandi og í öðrum ríkum löndum færu í að kaupa sement, rör og dælur. Ég spurði hann þá hvers vegna þetta fólk væri ekki löngu búið að grafa brunna fyrst það væri svona lítið mál. (Það ætti kannski ekki fyrir dælu en gæti þá í staðin notað snæri og fötu.) Svarið var að það gæti þetta en gæfist upp á að gera það því það hefði enga jarðfræðiþekkingu til að finna út hvar væri helst vit í að grafa. Það vissi ekki hvernig jarðlög liggja og hvar væri vatn að finna. Ef þetta fólk hefur einhverjar hugmyndir um hvað er ofan í jörðinni þá virka þær ekki (a.m.k. ekki til að finna vatn). Hugmyndir jarðfræðinga frá Íslandi virka hins vegar og á mælikvarða Rortys eru þær þá sannar. En hvers vegna skyldu þær virka? Hlýtur það ekki að vera vegna þess að jarðlögin eru að minnsta kosti nokkurn vegin eins og jarðfræðingarnir halda. Er samsvörunarkenningin (sem pragmatistar hafna) ekki eina sennilega skýringin á því að sannindi eru nytsamleg?
   Pragmatisminn er ásamt extistensíalisma og því afbrigði af marxisma sem kallast Frankfurt skólinn aðaluppistaðan í heimspeki póstmódernista. Rorty er stundum flokkaður sem póstmódernisti ásamt þeim Fransmönnum: Foucault, Derrida og Lyotard. Hvað sem þessari flokkun líður eiga þessir menn a.m.k. þrennt sameiginlegt. Þeim er afar illa við samsvörunarkenningu um sannleikann, þeir hafa talsverð áhrif innan félagsvísinda og þeir leggja áherslu á að þekking sé eitthvað sem menn skapa í félagi með því að nota tungumál: Þeir álíta að mynd okkar af heiminum sé sköpuð með því að tala og skrifa og þessi mynd móti líf okkar, við sjáum ekki út fyrir hana og við getum ekki borið hana saman við neinn veruleika sem er til óháð málinu (eða „orðræðunni“ svo ég sletti vinsælu orðskrípi úr fræðunum).
   Þessi hugmynd um manngerða þekkingu er kannski ekkert svo ósennileg ef við hugsum um þekkingu á sviðum eins og hagfræði, fjölmiðlafræði eða listfræði, þ.e.a.s þekkingu á manngerðum veruleika sem er mótaður af þessari sömu þekkingu. En vitneskja músarinnar um hvar er hola til að skjótast í þegar kisa birtist eða vitneskja ómálga barns um nærveru eða fjarveru mömmu sinnar er varla nein félagsleg smíð og varla sköpuð með máli og textagerð. Einhvern veginn finnst mér eins og grunnur allrar þekkingar sé vitneskja af þessu tagi sem málleysingjar hafa ekki síður en þeir sem kunna að tala og get því varla tekið alvarlega kenningar um að öll þekking sé búin til með því að tala og skrifa.
   Við teljum okkur vita margt (og sumt af því er vonandi raunveruleg þekking þótt vafalaust sé margt af því líka blekking). Við vitum til dæmis að það er óhollt að reykja sígarettur og teljum að sá sem segir að tóbak sé eitur, segi satt. Hvers vegna skyldi þetta vera satt? Sanntrúaður pragmatisti segir að það sé vegna þess að það kemur sér vel að trúa þessu. Sumir póstmódernistar mundu segja að þetta sé satt vegna þess hvernig menn tala um tóbak, hvernig orðræða um hollustuhætti hefur þróast. En þeir sem trúa samsvörunarkenningunni segja að þetta sé satt vegna þess að í raun og veru verða reykingamenn oftar lasnir og lifa að jafnaði skemur en þeir sem ekki reykja. Ég held að allir sem ekki hafa fengið þess lengri skólagöngu í fimbulfambi hallist á sveif með samsvörunarkenningunni og álíti að fullyrðingar um óhollustu tóbaks séu sannar vegna þess hvernig veruleikinn er en ekki vegna þess hvernig fólk talar eða hverju er hentugast að trúa. Það þarf nefnilega talsverða skólun, tamningu og félagsmótun til að verða handgenginn mjög flóknum og viðamiklum lokleysum ekkert síður en til að læra flókin fræði á borð við jöfnur Maxwells.
   En hvað um það. Þótt pragmatistar og póstmódernistar hafi skrýtna hugmynd um sannleikann sem stingur í stúf við það sem flestum þykir augljóst þá eru rit þeirra í tísku í sumum greinum félagsvísinda. Hvers vegna ætli þau séu í tísku? Kannski er ástæðan fyrir því að þessar heimspekikenningar eru svona vinsælar að einhverju leyti að það er erfitt og seinlegt að komast að sannleikanum. Fræði eru torf. Flestar leiðir sem menn velja reynast blindgötur og flestar tilgátur reynast rangar. Þetta er ergilegt og freistandi að bregðast við eins og Pílatus sem spurði „Hvað er sannleikur?“ (Jóh. 18:38). Ef manni tekst ekki að finna nein sannindi getur maður látist gáfaður með því að segja eitthvað óskiljanlegt um sannleikann svona almennt og yfirleitt, og það sem pragmatistar segja um sannleikann þarf helst að vera nokkurn veginn óskiljanlegt því ef menn skilja það sjá þeir um leið að það er óttaleg þvæla.
   Um þessar mundir er tíðarandinn heldur fráhverfur öllu sem er seinlegt og erfitt. Menn vilja heldur að allt sé fljótlegt og auðvelt og trúa því auk þess að þekking sé mikilvægari en allt annað og það verði því að vera þokkalega greið leið að henni. Þess vegna eru þeir tilbúnir að kyngja góðum skammti af þvælu frekar en að fallast á að það sé oftast nær seinlegt og erfitt að komast að sannleikanum og tilraunir til að afla þekkingar mistakist oftar en ekki.
   Það er annars merkilegt að þeir sem tala mest um að menn skapi (konstrúeri) sannleika með félagslegri málnotkun segja ósköp lítið um aðra sköpun sem ekki er síður umhugsunarefni því málæðið í mannfólkinu framleiðir ekki bara þekkingu heldur líka blekkingu og það er hægt að segja ósatt á miklu fleiri vegu heldur en satt. Það er a.m.k. miklu trúlegri saga að málæði geti eitt og sér skapað blekkingu heldur en að það dugi til að framleiða þekkingu.

18. mars 2006: Eru „nútímalegir“ jafnaðarmenn kommar inn við beinið?
Það kemur svo sem ekki á óvart að Vinstri grænir séu á móti því að bændur og aðrir landeigendur geti átt uppsprettulind, læk eða foss. Þeir eru flestir lítt hrifnir af eignarrétti, markaðsbúskap og svoleiðis frjálshyggju. Hins vegar kemur það á óvart hvernig þingflokkur Samfylkingarinnar hamast gegn vatnalagafrumvarpi sem iðnaðarráðherra hefur lagt fyrir Alþingi. Aðalatriðið sem tekist er á um er skilgreining á eignarrétti svo ljóst sé hver á hvað. Löggjöf sem tryggir eignarrétt er ein mikilvægasta forsenda þess að náttúrleg gæði verði að auðlind. Eignarréttur á landgæðum (hvort sem þau eru veiði, beit, dúntekja, ræktarland, jarðhiti eða neysluhæft vatn) tryggir því ekki aðeins að einhver sjái sér hag í að vernda þau og fara vel með þau heldur eru þau ein af forsendunum fyrir skaplegu efnahangsástandi og almennri velmegun.
  
Heldur er sorglegt til þess að vita að stjórnmálaflokkur eins og Samfylkingin, sem stundum kemur fram eins og frjálslyndur flokkur sem vill að landsmenn njóti þess í senn að búa við markaðshagkerfi (og þar með þokkaleg kjör) og gott almannatrygginga- og velferðarkerfi (og þar með sæmilegt afkomuöryggi) skuli ekki leggjast á sveif með þeim sem vilja tryggja eignarrétt og skilgreina hann þannig að verðmæti komi að sem mestu gagni.
  
Hugmyndafræðileg andstaða gegn vatnalögunum virðist upprunnin hjá Vinstri grænum og forystu BSRB. Á síðasta ári dreifði BSRB veggmyndum og áróðri fyrir „þjóðnýtingu“ vatns. (Set orðið í gæsalappir því reynslan af álíka úrræðum á lítið skylt við nýtingu, er eiginlega fremur ríkisvædd eyðilegging.) Á áróðursplöggum BSRB segir meðal annars „Líta ber á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki má fara með eins og hverja aðra verslunarvöru.“
  
Ástæða þess að ekki má versla með vatn kvað vera sú að „vatn er takmörkuð auðlind og almannagæði sem er undirstaða alls lífs og heilbrigðis.“ Um það er tæplega deilt að vatn er nauðsynlegt. Það er matur líka. Menn eru að vísu talsvert lengur að deyja úr matarleysi en vatnsleysi en óumdeilt er þó að sá sem ekki fær neinn mat deyr. Rökin fyrir þjóðnýtingu vatns eru því engu betri en sams konar rök fyrir því að þjóðnýta akra, bústofn, bakarí og mjólkurbúðir. Slík hagstjórn er sem kunnugt er langhelsta orsök hungursneyðar á seinni árum. Þjóðnýting á framleiðslu, dreifingu eða sölu matvæla er öruggasta leiðin til að koma í veg fyrir að fólk fái að borða. En hvað með þjóðnýtingu á vatni.
  
Hér á landi er vatnsskortur fremur ólíklegur. Það er slík ofgnótt af vatni á Íslandi að svolítil sóun og dálítil „þjóðnýting“ gerir trúlega fremur lítinn skaða. Algert bann við að selja drykkjarvatn (t.d. með því að setja mæla á inntak og láta húseigendur greiða fyrir hvern lítra) getur þó sums staðar komið í veg fyrir að allir fái nóg vatn. Tökum sem dæmi stað eins og Akranes þar sem að vísu er miklu meira en nóg vatn til að allir getir svalað þorsta sínum og farið í bað en samt ekki meira en svo að ef skrúfað er frá mjög mörgum krönum verður bunan úr sumum harla mjó. Það er ekkert fjarri lagi að fyrirtæki sem nýtir gilda vatnslögn til að láta renna af fullum krafti geti haft þær afleiðingar að á sumum heimilum verði lítill kraftur á sturtunum og seinlegt að fara í bað.
  
Auðveldasta og skilvirkasta ráðið gegn gegndarlausri sóun sem kemur í veg fyrir að allir fái nóg er líklega að láta þann sem á kranann borga fyrir vatnið sem rennur úr honum. Sé vatn af skornum skammti og sé bannað að selja það þá er eina leiðin til að draga úr sóun að setja bönn, eins og bann við bílaþvotti, vökvun á görðum eða notkun á kraftmiklum vatnsdælum í fyrirtækjum. Framhaldið er þekkt og sporin hræða. Svona hagstjórn fer með allt til niður til heljar og við vitum hvernig þar er búið: „Éljúðnir heitir salur hennar, Hungur diskur hennar, Sultur knífur hennar, Ganglati þrællinn, Ganglöt ambátt, Fallandaforað þreskuldur hennar er inn gengur, Kör sæng.“ (Gylfaginning 34. kafli.)

11. mars 2006: Rökin með styttingu (Birtist líka í Lesbók Morgunblaðsins)
Undanfarið hafa allmargir mótmælt áformum stjórnvalda um styttingu á námstíma til stúdentsprófs. Tvennt er einkum fundið styttingunni til foráttu. Annað er að hún feli í sér „skerðingu“ á námi. Hitt er ekki beinlínis andmæli gegn því að stytta námið, heldur gegn stefnu sem var tekin með aðalnámskránni frá 1999 og er fram haldið í plöggum frá menntamálaráðuneytinu þar sem lýst er námsskipan á bóknámsbrautum eftir styttingu. Þessi stefna felur í sér að valfrelsi nemenda er miklu meira en var fyrir 1999. Þeir sem andæfa halda því fram að þetta leiði til þess að nemendur læri minna í lykilgreinum eins og stærðfræði og íslensku en þeir gerðu á árum áður.
   Með námskránni frá 1999 fækkaði einingum í stærðfræði og íslensku í brautarkjarna bóknámsbrauta. Stærðfræðin fór t.d. úr 15 í 6 einingar á félagsfræðibraut og úr 21 í 15 á náttúrufræðibraut. Íslenskan er nú 15 einingar á öllum brautum en var áður ýmist 17 eða 20. Á móti minna skyldunámi kom að nemendur gátu valið að taka þessar greinar sem hluta af kjörsviði. Um leið og skyldunámið var minnkað var þannig gefinn kostur á að læra mun meira í þessum greinum en áður var hægt.
   Við skólann þar sem ég starfa hafa verið tekin saman gögn um hvað útskrifaðir stúdentar hafa lokið mörgum einingum í stærðfræði og í ljós kom að á raungreinabrautum var meðaltalið 23 einingar fyrir breytingu á námskrá og er 23 enn þann dag í dag. Nemendur sem búa sig undir háskólanám þar sem þörf er á að nota stærðfræði læra semsagt jafnmikið í henni nú og áður. Einnig nýtir stór hluti nemenda við skólann hluta af kjörsviði til að bæta við áföngum í íslensku. Ég veit ekki hvort þetta er svona við aðra skóla. Meðan ekki liggja fyrir gögn um það þykir mér hæpið að fullyrða að aukið valfrelsi nemenda leiði til lakari menntunar í undirstöðugreinum.
   Hin aðfinnslan, að styttingin feli í sér skerðingu á námi, held ég að sé hreinn og klár misskilningur. Ef stúdentar verða búnir með 1 ár í háskóla á sama aldri og þeir eru nú að ljúka stúdentsprófi verður það sjálfsagt til þess að þeir kunni að meðaltali dálítið minna þegar þeir setja á sig stúdentshúfu. En ekkert bendir til að þetta valdi því að 19 ára námsmenn verði verr að sér og ekki heldur að þeir tvítugu verði minna menntaðir. Ef eitthvað er ætti menntunin að verða meiri ef nemendur eru búnir með 3 ára framhaldsskóla og 1 ár af háskóla um tvítugt heldur en nú þegar þeir eru búnir með 4 ár í framhaldsskóla en ekkert háskólanám á þeim aldri.
   Í umræðum um styttinguna er stundum látið eins og til standi að klippa fjórðung af bóknámsbrautum. En þegar fyrirhuguð lenging skólaársins er tekin með í reikninginn kemur í ljós að tillögur um styttingu námstíma fela í sér að framhaldsskólanám stúdenta minnki um sjöunda hluta, eða því sem næst. Rúman helming af þessum sjöunda hluta á að flytja niður í grunnskóla, enda er rúm fyrir meira efni þar því kennslustundum í grunnskólum hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum. Það er því af og frá að til standi að minnka námsefni til stúdentsprófs um fjórðung. Ætli fjórtándi hluti sé ekki nær lagi.
   Háværustu rökin gegn styttingunni eru ekki mjög burðug. Hins vegar þykja mér rökin sem mæla með henni talsvert veigamikil. Hér ætla ég að segja lítillega frá 3 ástæðum til að fagna framkomnum hugmyndum um 3 ára bóknámsbrautir.
   Fyrst vil ég nefna þau rök að eins og stúdentsbrautir eru nú skilgreindar er duglegri hluti nemenda búinn með talsvert meira en 3/4 af þeim eftir 3 ár og fjórða árið fer að allt of miklu leyti í gauf eða vinnu með skóla. Stíf keyrsla í 3 ár er þessum nemendum trúlega hollari en að mævængja í framhaldsskóla heilt ár í viðbót.
   Í öðru lagi nefni ég að menntastefna fyrir nútímasamfélag ætti að greiða fyrir aukinni menntun á háskólastigi. Ég veit ekki hvað ræður mestu um hvenær nemendur hætta í háskóla en ég þykist vita að því eldri sem þeir eru þegar þeir byrja í framhaldsnámi því meiri líkur séu á að þeir hverfi úr skóla án þess að ljúka því. Sé þessi grunur minn réttur mun það eitt að útskrifa stúdenta ári fyrr valda því að fleiri ljúki masters- og doktorsgráðum.
   Þriðju rökin eru að stytting stúdentsnáms mun að öllum líkindum greiða fyrir því að fleiri gangi menntaveginn. Til að skilja þessi rök þurfum við að átta okkur á hvers vegna skólakerfinu er skipt í skólastig: Grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla.
   Hugsum okkur hóp 6 ára krakka sem hefja nám í sama skóla. Af þeim verður kannski einn læknir, einn rafvirki og einn kennari. Öll þessi börn geta verið saman í bekk nokkur ár. En þar kemur að leiðir skilja. Sá sem ætlar að verða rafvirki fer skóla þar sem er safnað saman úr mörgum grunnskólum, því í hverjum grunnskóla eru verðandi rafvirkjar svo fáir að það yrði dýrt að halda uppi kennslu fyrir þá eina. Skil milli grunn- og framhaldsskóla verða þegar leiðir jafnaldra greinast vegna ólíkrar sérhæfingar. (Ef aðeins væri einn grunnskóli í landinu þá þyrfti ekki að aðgreina grunn- og framhaldsskólastig. Allir verðandi rafvirkjar væru hvort sem er á sama stað allan tímann.)
   Fjögurra ára stúdentsnám mótaðist þegar aðeins 1 eða 2 skólar í landinu brautskráðu stúdenta. Þá voru nemendur sem ætluðu í háskóla saman í örfáum bekkjum og þorri þeirra á leið í akademískt nám. Nú er stór hluti þeirra á leið í háskólanám í greinum sem þá voru kenndar að öllu leyti á framhaldsskólastigi. Hópurinn sem tekur stúdentspróf nú er miklu sundurleitari en hann var þegar sú hefð mótaðist að stúdentsnám tæki 4 ár.
   Á næstu árum verður stúdentahópurinn vonandi enn sundurleitari, því það hlýtur að vera keppikefli að stærri hluti hvers árgangs fari í háskóla. Og rétt eins og háskólar nútímans eru margvíslegri en háskólar voru, þegar 68 kynslóðin var ekki orðin alveg eins íhaldssöm og hún er í dag, verða háskólar framtíðarinnar væntanlega enn sundurleitari en háskólar nú eru.
   Andstaða gegn áformum um styttingu náms til stúdentsprófs er mest í bekkjaskólum sem mótuðust meðan stúdentsnám var enn á svo fáum stöðum að skil milli framhaldsskóla og háskóla skiptu minna máli en nú. Mér sýnist að þeir sem andmæla styttingunni hvað ákafast vilji halda til streitu að sérhæfa stúdentsefni þannig að þau séu sérstaklega búin undir nám í nokkrum háakademískum háskóladeildum. Sá undirbúningur hentar aðeins litlum hluta af þeim sem útskrifast með stúdentspróf og það hlutfall fer lækkandi jafnframt því sem stúdentum fjölgar. Hann á því einfaldlega að flytjast úr framhaldsskólum í umræddar háskóladeildir. Þetta hefur nágrannaþjóðum okkar skilist og þetta ættu íslenskir skólamenn líka að geta skilið.
   Þessi þriðju rök fyrir því að stytta námið má draga saman á þá leið að stúdentsefni mynda margbreytilegri hóp nú en þegar fjögurra ára stúdentsnám mótaðist og því sundurleitari sem nemendur eru því fyrr skilja leiðir þeirra í náminu.
   Sá tími er löngu liðinn að allir verðandi háskólaborgarar séu saman í 1 eða 2 menntaskólum. Þeir sem vilja halda í námsskipan frá þeim tíma og sjá eftir liðinni „gullöld“ eru í raun að biðja um að menntamenn verði, eins og þá, aðeins lítill hluti af hverjum árgangi.

4. mars: Enn um miðstýringu í menntamálum
Í bókinni Market Education - The Unknown History eftir Andrew J. Coulson (New Brunswick og London: Transaction Publishers) sem út kom árið 1999 er saga skóla og alþýðufræðslu á Vesturlöndum sögð frá öðru sjónarhorni en venjulegast er. Coulson ber saman ríkisrekin skólakerfi og einkaskóla og rekur sögu miðstýringar í menntamálum. Það er mikill fróðleikur í þessari bók og meðal annars er (á bls. 214 o. áf.) sagt frá rannsóknum sem benda til þess að ríkisreknum skólum vegni best þegar einstakir skólar hafa mikið sjálfstæði og eru fremur lítt háðir sérfræðingaveldi og pólitískum afskiptum af kennsluháttum og innra starfi.
   Síðan Coulson ritaði Market Education hafa komið fram fleiri gögn sem renna stoðum undir þetta, m.a. hefur greining á niðurstöðum Pisa-rannsóknanna á hæfni nemenda í ýmsum löndum í lestri, reikningi og raungreinum sýnt að í löndunum þar sem nemendur ná bestum árangri njóta skólar sjálfstæðis og þar er kennurum treyst. Í löndunum þar sem árangur er lakur er skrifræði, ítarlegar námskrár og fyrirmæli að ofan sem segja skólum og kennurum í smáatriðum hvernig á að gera hlutina. (Sjá pistil hér frá 8. október.)
   Mér varð hugsað til þessa þegar ég las Change Forces with a Vengence, sem er nýjasta bók Michaels Fullan, en hann er einn áhrifamesti menntunarfræðingur samtímans og yfirmaður menntarannsóknastofnunar háskólans í Toronto í Kanada. Í þessari bók talar Fullan um nauðsyn róttækra og djúpstæðra breytinga á öllu menntakerfinu. Gamla byltingarþráhyggjan er þarna og kjarni hennar hefur ekkert breyst þótt hún sé komin í nýjan búning. Því er haldið fram að til þessa hafi þróun menntakerfisins ekki verið stjórnað í krafti þekkingar en nú loksins sé hægt að breyta og bylta og skapa fagra nýja veröld í skólakerfum heilla landa. Þetta er sama vonlausa miðstýringaráráttan og ég sagði frá 26. febrúar.
   Framfarir í rekstri fyrirtækja og stofnana (hvort sem um er að ræða skóla eða eitthvað annað) gerast sjaldan þannig að fræðimenn taki ákvarðanir fyrir heil stór kerfi eins og menntakerfi og þeim sé svo hrundið í framkvæmd með pólitísku valdi. Framfarirnar verða miklu oftar þannig að fjöldi ólíkra stofnana og einstaklinga gera tilraunir, prófa sig áfram og einn og einn hittir á góða lausn sem hinir herma svo eftir. Ef skólar fá að móta eigin stefnu og starfsmenn þeirra að leita leiða og prófa eigin hugmyndir og nemendur og foreldrar fá að velja skóla þá verða framfarir í menntakerfinu drifnar áfram á sama hátt og framfarir á öðrum sviðum atvinnulífs.
   Menntmálaráðuneytið hér hefur undanfarin ár keppst við að setja skólum námskrár með fáránlega smásmugulegum fyrirmælum um innihald kennslu og kennsluaðferðir. (Þetta hefur e.t.v. ekki valdið eins miklum skaða og til var stofnað því flestir kennarar fara ekki nema svona mátulega mikið eftir fyrirmælum úr námskrám ráðuneytisins.) Svona reglugerðafargan (námskrár eru reglugerðir) hefur ekkert betri áhrif í skólum en á öðrum sviðum. Ætli yfirvöld hafi einhvern tíma vit á að hverfa frá þessu? Skyldi skólakerfið einhvern tíma verða eins og flest önnur svið atvinnulífsins þar sem samkeppni og frjáls sköpun fá að njóta sína eða enda skólarnir sem þunglamaleg og rándýr bákn álíka steinrunnin, stíf og þver og landbúnaðarapparatið hér og í löndum Evrópusambandsins?

26. febrúar: Skólamál og byltingaþráhyggja
Síðan í haust hef ég stundað nám í menntunarfræðum við Háskóla Íslands mér til andlegrar upplyftingar. Það liggur við að sé enn skemmtilegra að mæta í skóla sem nemandi en sem kennari eða stjórnandi, a.m.k. hef ég heilmikið gaman af að læra um skólaþróun og kynnast nýjustu hugmyndum skólamálaspekúlanta.
   Stór hluti af lesefninu í menntunarfræðum er ritaður af Bandaríkjamönnum. (Þar skera þessi fræði sig svo sem ekkert úr. Bandaríkjamenn eru í forystu á flestum sviðum vísinda og fræða og þess vegna er stór hluti alls námsefnis við Háskóla Íslands frá þeim kominn.) Í fræðum af þessu tagi geta erlendar rannsóknir og lærdómur úr útlendu samfélagi, sem er um margt ólíkt okkar, þó aldrei komið í staðinn fyrir þekkingu á eigin skólahefð og skólamenningu. Um það hef ég áður skrifað hér (11. september 2005) og ætla ekki að endurtaka þau orð en bæta því við að mér þykir eins og umræða um skólamál í ritum frá Bandaríkjunum einkennist af hörðum dómum um allt sem kennarar hafa gert og áherslu á að nú eigi allir að kenna einhvern veginn allt öðru vísi. Þessi byltingaþráhyggja hefur plagað grunn- og framhaldsskóla í Bandaríkjunum svo lengi sem elstu menn muna. Hún er svo flutt hingað til lands vegna þess að stór hluti íslenskra uppeldis-, menntunar- og kennslufræðinga hefur lært í Bandaríkjunum (þar sem háskólar eru býsna góðir því þeir ráða sér flestir sjálfir, starfa sem fyrirtæki á markaði í samkeppni um nemendur og þurfa því ekki að ganga gegnum miðstýrðar kollsteypur eins og grunn- og framhaldsskólarnir).
   Saga menntabyltinga í Bandaríkjunum er margsögð, en svo sem allt í lagi að rifja upp nokkur atriði úr henni eftir minni. Á fyrri helmingi 20. aldar var stefna Dewey og fylgismanna hans látin ganga yfir stóran hluta skólakerfisins þar. Samkvæmt þessari stefnu átti aðallega að kenna lífsleikni (eitthvað sem nýttist í daglegu lífi) og í nafni þeirrar hugmyndafræði var dregið úr stærðfræði, málfræði, sögu, landafræði, raungreinum og fleiri hefðbundnum námsgreinum. Svo skutu Rússar upp Sputnik árið 1957 og Bandarísk yfirvöld ruku upp til handa og fóta og ákváðu að skólakerfið ætti að framleiða vísindamenn en ekki bara fólk sem hefur verið búið undir daglegt líf. Nú átti hvert barn að endurskapa heimsmynd vísindanna, helst nokkurn veginn af eigin rammleik, því einhver hafði misskilið constructivisma hollenska stærðfræðingsins Jan Brouwer (1881 - 1966) svo að venjulegt fólk gæti smíðað í hug sér vísindin sem gáfnaljós hafa mótað á nokkrum árþúsundum með erfiðismunum og ótal mistökum og ferðum fram og aftur alls konar blindgötur. Þegar kom fram um 1970 átti þessi endursköpun af einhverjum ástæðum helst að gerast í húsum þar sem ekki voru hurðir fyrir dyrum heldur allt opið og „frjálst“, en „frelsið“ stundum ekki fólgið í öðru en því að krakkar voru þvingaðir til að dandalast um í hálfgerðu reiðuleysi. Í nafni þessara hugmynda voru kennararnir enn einu sinni keyrðir í gegn um þjálfun til að ná markmiðum sem þeir hefðu aldrei sett sjálfir og voru framandleg flestum nemendum og foreldrum Þetta endaði eins og aðrar menntabyltingar í tómri vitleysu og enn var skólum skipað að breyta um starfshætti og snúa sér aftur að undirstöðuatriðum (back to the basics) eins og lestri, skrift og reikningi.
   Mikið held ég ríkisrekið skólastarf í Bandaríkjunum hefði orðið betra lengst af 20. öldinni ef öllum þessum byltingum hefði verið sleppt, skólunum leyft að þróast og kennurum að finna smám saman ný og betri markmið með þróun án fyrirframgefinna stefnumiða þar sem skólamenn prófa sig áfram eftir eigin höfði– leita betri lausna fyrir nemendur sína og uppgötva í gegnum samskipti við krakka og foreldra á hverjum stað hverjar þarfirnar eru og hvaða markmið skipta máli.
   Fartölvubyltingin sem var reynt að gera hér á landi í kringum síðustu aldamót var svona bandarískt-ættuð menntabylting í bland við íslenskt raftækjakaupæði. Upplýsingatæknin átti að vera Trójuhestur sem flytja skyldi aðferðir í anda hugsmíðahyggju inn í skólakerfið, binda enda á „ítroðslu“ og auka „ábyrgð“ nemenda á eigin námi og ýta undir „sjálfstæð“ -vinnubrögð. Ekkert bendir í raun og veru til að þessar aðferðir, sem átti að lauma inn með fartölvunum, hafi gefist betur en þær sem kennarar hafa lengst af notað. Sennilega var framtíðarsýn fartölvubyltingarmanna tómir loftkastalar eins og flestir byltingarórar. En þeir sem eru haldnir svona þráhyggju verða að umbylta því sem fyrir er og þvinga allan heiminn til að haga sér eftir einni forskrift, hvort sem hún er líkleg til að verða til einhvers góðs eða ekki. Þeim er fyrirmunað að skilja að ef fólk fær að starfa frjálst og prófa eigin leiðir þá opnast því á hverjum degi ný sýn og ný markmið koma í ljós sem ekki passa við neina fyrirframgefna forskrift. Það sem drífur raunverulegar framfarir áfram er ekki skipulag sem fáeinir gáfumenn troða upp á allt samfélagið heldur sköpunarmáttur stjórnleysisins– að fjöldi manna sé tilbúinn að grípa óvænt tækifæri og prófa eitthvað nýtt.
   Miðstýring og byltingar ofan frá virka trúlega engu betur í menntamálum en öðrum fyrirtækjarekstri. Samt eru yfirvöld menntamála víða föst í þessum hugsunarhætti löngu eftir að allir nema Kastró og Kim Jong-il eru búnir að átta sig á að hugsunarháttur fimm ára áætlana setur allt á hausinn í venjulegum fyrirtækjarekstri. Svolítið merkilegt að þetta skuli koma frá Bandaríkjunum þar sem menn hafa verið taldir heldur meiri frjálshyggjumenn en Evrópubúar. En það kann að vera nokkuð til í því að summa lastanna sé víðast hvar nokkurn vegin sú sama, svo þeir sem gera betur á einu sviði ganga lengra í vitleysu á einhverju öðru.

19. febrúar: Ævareiðir kennarar
Það var góð grein eftir Má Vilhjálmsson í Morgunblaðinu í dag. Þar lýsir Már undrun sinni á því að kennarar skuli mótmæla hástöfum plaggi sem kallað er Samkomulag menntamálaráðherra og KÍ um betra skólakerfi. (Plaggið liggur frammi í pdf-skrá á vef Kennarasambandsins.) Ég er á sama máli og Már og mér þykir írafárið út af þessu plaggi og hnútukastið afar ómálefnalegt og ósanngjarnt gagnvart forystu Kennarasambandsins. Mér sýnist að þarna sé um að ræða yfirlýsingu um stamstarf að ýmsum málum sem Kennarasambandið hefur beitt sér fyrir árum saman. Mest eru þetta mál sem til framfara horfa þótt ég hafi nú vissar efasemdir um fimmta liðinn þar sem segir „Starfsheiti leikskólakennara verður löggilt.“ Að mínu viti er löggilding á einstökum orðum í orðabókinni tímaskekkja og vitleysa. Það er líka fyrirkvíðanlegur fjandi ef löggilding á starfsréttindum fylgir í kjölfarið og mörg þúsund starfsmenn á leikskólum sem ekki hafa lokið kennaranámi verða skilgreindir sem annars flokks og atvinnuöryggi þeirra sett í uppnám eins og óhjákvæmilega gerist ef þeim verða settir sömu kostir og leiðbeinendum í grunn- og framhaldsskólum þar sem árlega þarf að endurnýja umsókn um undanþágu til að skólarnir megi hafa þá í vinnu. Væri nú ekki nær að afnema þetta lögverndunarrugl í grunn- og framhaldsskólum en að bæta við þá vitleysu alla saman? En allt um það. Lögverndun starfa og starfsheita hefur verið á stefnuskrá Kennarasambandsins í mörg ár og hrein fjarstæða að halda því fram (eins og allmargir kennarar hafa gert í greinum sem birst hafa í dagblöðum undanfarna daga) að forysta sambandsins hafi ekki umboð til að semja við menntamálaráðherra um framkvæmd þessarar stefnu.
   Æsingurinn út af samkomulagi menntamálaráðherra og KÍ virðist vera hluti af andófi kennara við nokkra bekkjarskóla gegn áformum ráðherra um styttingu námstíma til stúdentsprófs. Þótt þetta andóf sé ekki skynsamlegt er það að minnsta kosti skiljanlegt. Kennarar við gömlu bekkjarskólana (einkum MR) átta sig hugsanlega á því sem ég skrifaði um í pistli hér þann 29. janúar að styttingin mun draga úr möguleikum skóla sem hafa fremur einsleitan nemendahóp á fáum brautum til að sérhæfa þá þannig að þeir hafi forskot þegar þeir hefja háskólanám. Hún mun hafa þau áhrif að hluti þeirrar sérhæfingar sem nú fer fram á bóknámsbrautum framhaldsskóla flyst upp í háskóla og afleiðing þessa verður að nemendur úr framhaldsskólum sem ekki ráða við eins mikla sérhæfingu eiga greiðari leið í háskólanám. Þessi æsingur er líklega bara ósköp dæmigert sérhagsmunapot þar sem menn vilja hanga á sínu eins og hundar á roði hvað sem líður almannahag.
   Atlaga bekkjarskólamanna að áformum um styttingu náms til stúdentsprófs tekur annars á sig ýmsar myndir og fúkyrðin sem beint er gegn stjórn Kennarasambandsins er aðeins ein af mörgum. Önnur er glannalegar fullyrðingar um að menntun í stærðfræði sé stefnt í sérstakan voða. (Sjá pistil hér frá 8. janúar.) Í þessu sambandi hefur því verið haldið fram að eftir að námskrá framhaldsskóla var breytt árið 1999 hafi stórlega dregið úr kunnáttu stúdenta í stærðfræði og hún muni svo enn minnka við styttinguna.
   Með námskrá frá 1999 fækkaði einingum í stærðfræði á brautarkjarna bóknámsbrauta nokkuð (t.d. úr 15 í 6 á félagsfræðibraut og úr 21 í 15 á náttúrufræðibraut). Á móti kom að nemendur á bóknámsbrautum gátu valið að taka stærðfræði sem hluta af kjörsviði. Um leið og skyldunám í stærðfræði var minnkað var nemendum þannig gefinn kostur á að taka enn meiri stærðfræði en áður. Ég veit ekki hvernig þetta er við aðra skóla en við Fjölbrautaskóla Vesturlands hafa verið tekin saman gögn um hvað útskrifaðir stúdentar hafa lokið mörgum einingum í stærðfræði og í ljós kom að á raungreinabrautum var meðaleiningafjöldinn 23 fyrir breytingu á námskrá og er 23 enn þann dag í dag. Nemendur sem búa sig undir nám á háskólastigi þar sem þörf er á að nota stærðfræði eitthvað að ráði læra semsagt jafnmikla stærðfræði nú og áður. Nemendur á öðrum stúdentsbrautum læra hins vega minni stærðfræði nú en áður með þeim afleiðingum að meðaltalið fyrir alla stúdenta hefur þokast úr 18 einingum í 13 einingar á undanförnum 6 árum.
   Þeir nemendur Fjölbrautaskóla Vesturlands sem velja raungreinabrautir og vilja stunda nám í stærðfræðilegum greinum læra jafnmikla stærðfræði nú og fyrir námskrárbreytingu. Hinir sem vilja heldur læra eitthvað annað gera það og nota frelsið sem kjörsviðin veita þeim til að velja aðrar greinar. Hluti þeirra nemenda t.d. á félagsfræðabraut sem nú læra minni stærðfræði en var í kjarna samkvæmt eldri námskrá mundu líklega ekki klára stúdentspróf ef þeir þyrftu að ljúka 15 einingum í stærðfræði. Þeir sem halda að allt sé að fara til andskotans út af þessu hljóta að hafa sérstakan áhuga á að mála skrattann á veginn og fyrir fólk með svoleiðis áhugamál verður útlitið alltaf svart, sama á hverju gengur.

16. febrúar: Samræmd stúdentspróf
Síðasta mánudag (13. febrúar) sat ég fund Félags íslenskra framhaldsskóla þar sem rætt var um samræmd stúdentspróf. Fyrir fundinn hafði ég séð hugmyndir sem unnar voru í samráði við Námsmatsstofnum og gengu út á að hætta við samræmd stúdentspróf í núverandi mynd og taka í staðinn upp öðru vísi próf sem yrðu hreint yfirmáta nútímaleg og vísindaleg og próffræðilega gáfuleg, einstaklingsmiðuð og lögð fyrir með gagnvirkum hugbúnaði og ég veit ekki hvað og hvað. Það sem mér datt fyrst í hug þegar ég sá þessar hugmyndir var að nú hefðu menn áttað sig á að samræmdu stúdentsprófin væru mislukkuð og væru að reyna að finna eitthvað annað verkefni handa sérfræðingum Námsmatsstofnunar svo þeir misstu nú ekki vinnuna.
   Samræmdu stúdentsprófin eru klúður. En það er ekki vegna þess að þau séu illa gerð eða gölluð í sjálfum sér, heldur vegna þess að nemendur sjá engan tilgang með þeim og enga ástæðu til að leggja sig fram á þeim. Þau ráða engu um hvort þeir fá stúdentspróf og hafa engin áhrif á hvaða háskóladeildir taka við þeim.
   Samræmd próf í lok 10. bekkjar grunnskóla hafa augljósan tilgang fyrir nemendur. Þau ráða því hvaða námsbrautir framhaldsskóla þeir komast á næsta haust og hvort þeir fara í hraðferð, hægferð eða fornám í einstökum greinum. Sveinspróf (þ.e. samræmd próf í löggiltum iðngreinum sem eiga sér langa sögu) hafa líka tilgang fyrir nemendur. Þeir þurfa að standast þau til að fá réttindi sem iðnaðarmenn.
   Nemendur kvarta ekki ákaflega mikið yfir samræmdum prófum í 10. bekk grunnskóla eða sveinsprófum. Þeir sjá tilganginn með þeim. Stúdentsefni upplifa samræmd stúdentspróf hins vegar sem óþarfa tímasóun og vildu frekar nota tímann til að læra fyrir þau próf sem raunverulega gilda og skipta einhverju máli.
   Í umræðum um samræmd stúdentspróf hefur verið fimbulfambað einhver býsn um að þau eigi að veita upplýsingar um starfið í skólunum. Þetta styðst við reglugerð, sem menntamálaráðherra setti 18. mars 2003 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra stúdentsprófa í framhaldsskólum. Þar segir að þau eigi að „veita fræðsluyfirvöldum upplýsingar um námsárangur, m.a. eftir framhaldsskólum og hvort markmiðum aðalnámskrár hafi verið náð.“ En ef nemendur hafa enga ástæðu til að leggja sig fram og reyna að ná sem bestum árangri á þessum prófum þá gefa þau varla upplýsingar sem mark er á takandi.
   Ef háskólar auglýstu að til að komast í vissar deildir þyrfti tilteknar lágmarkseinkunnir á samræmdum stúdentsprófum og þeir sem ekki næðu þeim þyrftu t.d. að fara í undirbúningsnám, þá legðu nemendur sig sjálfsagt fram um að leysa þessi próf eins vel og þeir geta. Sömuleiðis reyndu þeir að standa sig ef einhver lágmarkseinkunn væri skilyrði þess að fá stúdentsprófsskírteini. En ef það skiptir engu máli fyrir nemendur hvaða einkunnir þeir fá á samræmdum stúdentsprófum þá eru þau tilgangslaus vitleysa og best að sleppa þeim.
   Það er hægt að afla almennra upplýsinga um starf framhaldsskóla án þess að ónáða mörg þúsund nemendur á tíma sem þeir vilja nota til þarfari verka. Hins vegar efast ég stórlega um að það sé hægt að afla marktækra upplýsinga með prófum sem nemendur hafa enga ástæðu til að taka alvarlega.

11. febrúar: Hugleiðing að afloknum blaðalestri
Var að skanna Moggann og Fréttablaðið. Veit ekki hvort það er í tilefni af umræðunum um teikningar af Múhameð sem Fréttablaðið birtir gamalt svar eftir mig af Vísindavefnum þar sem ég fjalla um málfrelsi. (Fyrir þá sem hafa áhuga: Í gær birtist svar eftir mig á sama vef um allt annað efni, nefnilega samfélagssáttmála.)
   Umræðan um Múhameðsteikningarnar er orðin allmikil að vöxtum en ekki finnst mér hún öll jafngáfuleg. Eitt og eitt innleg sker sig samt úr. Una Margrét Jónsdóttir skrifar t.d. feikilega góða grein um efnið í Morgunblaðið í dag (bls. 52). Hún fer beint að kjarna málsins, ekkert froðusnakk, bara hnitmiðuð rök og eftir því sem ég best fæ séð er það sem hún segir allt satt og rétt. Orð hennar um blaðrið í þeim sem halda því fram að menn séu skyldugir til að virða trúarbrögð annarra og megi þess vegna ekki segja þetta eða hitt eru alveg þess virði að skrifa þau upp:

Trúarbrögð eru ekki annað en kenningar og við höfum rétt til að hafa okkar skoðun á þessum kenningum og láta þær skoðanir í ljós.
   Sumir halda því nú fram að víst sé tjáningarfrelsið mikils virði, en við verðum að gera undantekningu í trúmálum því þau séu svo viðkvæm.
   Við eigum einmitt ekki að gera undantekningu í trúmálum. Engin ritskoðun er jafnhættuleg og ritskoðun á því sem varðar trúmál, það kennir mannkynssagan okkur, ...

Þessa dagana er um það rætt hvort afnema eigi þagnarskyldu lækna þegar smyglarar og burðardýr leita til þeirra með fíkniefnabelgi í meltingarveginum. Er þetta stríð gegn fíkniefnum ef til vill farið að hafa jafnslæm áhrif á samfélagið eins og efnin sjálf? Í nafni þess heilaga stríðs eru símar manna hleraðir, fangelsisdómar þyngdir, málfrelsi takmarkað (með því að banna suma umfjöllun um óheilsusamleg efni) og nú tala menn um það í fullri alvöru að læknar rjúfi trúnað við sjúklinga sína. Dettur einhverjum í hug í fullri alvöru að neysla eiturlyfja og heilsutjón af hennar völdum minnki við það að læknar framselji örfá burðardýr? Eina sennilega afleiðingin af þessari vitleysu er að einhver ólánsmáður með ullabjakk í maganum þori ekki til læknis og deyi fyrir vikið.
   Ég er nokkuð sannfærður um að hernaður gegn fíkniefnum, harðar lögregluaðgerðir og bægslagangur sem umturnar gamalgrónum gildum eins og trúnaði læknis við sjúklinga eða friðhelgi einkalífs mun ekki draga úr fíkniefnabölinu. Í löndum þar sem hernaður stjórnvalda gegn eiturlyfjasölum er rekinn af hvað mestri hörku er neyslan ekkert minni en þar sem farið er vægar í sakirnar og af meiri stillingu.

9. febrúar: Ljóðabækur
Það er gott að lesa ljóð, að minnsta kosti eitt á dag. Oft les ég þau sömu aftur og aftur, stundum marga daga í röð því góð ljóð vinna á við aukin kynni. Þótt ljóðabækur séu kannski ekki mjög áberandi í bókaflóðinu og þær séu ekki mikið auglýstar þá eru ljóð samt prentuð og rata til sinna.
   Seint á síðasta ári komu út þrjár ljóðabækur sem ég hef verið að blaða í undanfarið og þótt ansi góðar. Sú sem ég las fyrst er ný þýðing Kristjáns Eiríkssonar á Sígaunaljóðum eftir Federico García Lorca. Í þeim er sami galdur og í öðrum þýðingum á Lorca sem ég hef lesið. Myndirnar búa yfir sérkennilegri dulúð og draumkenndum blæ.

Mitt í þögn úr myrtu og kalki.
Moskusrós í lágu grasi.
Situr nunna og saumar rósir,
sólargull í lín úr stráum.

Kristján á hrós skilið fyrir að þýða alla bókina, ekki svo oft sem ljóðabækur eftir öndvegisskáld eru þýddar í heilu lagi. Þetta er heillandi skáldskapur.
   Önnur bókin sem mig langar að nefna er Dyr að draumi eftir Þorstein frá Hamri. Mér finnst Þorsteinn verða betri og betri með hverri nýrri bók. Í þessari nýjustu yrkir hann talsvert um efann. Sá sem viðurkennir vanþekkingu sína hefur skýrari sýn á veruleikann en hinn sem þykist allt vita. Hjá Þorsteini er ljóðið persónugert sem þessi spaki efahyggjumaður:

Því ljóðið spyr,
leitar, efast – og sér því
heiminn skýrar en skáldið

sem ornar sér stundum
við örugg svör ...

Þriðja bókin er kannski mesta gersemin af þeim öllum. Hún heitir Brjálsemiskækir á fjöllum og er safn ljóða eftir kínverska skáldið Po Chü-i í þýðingu Vésteins Lúðvíkssonar. Po Chü-i var uppi í kringum 800 e. Kr. Ljóð hans eru einfaldleikinn sjálfur. Lýsingar á venjulegu lífi. Í sumum þeirra er ádeila á ranglátt samfélag og fyrir það galt Po Chü-i, því hann var sviptur embætti og rekinn í útlegð úr höfuðborg ríkisins. En embættið sem hann missti virðist ekki hafa verið honum mikils virði. Í ljóði, sem fjallar um hvernig hið opinbera pínir fátækt fólk til að borga það litla sem þá í skatt, segir hann:

Ungur tók ég við embætti, þjónustulundin sjálf
– og nú iðrast ég þess eins að hafa náð prófi!

Í tíu ár fékk ég borgað fyrir að vera lifandi
dauður og þjóna fjórum ráðuneytum.

Innan í sumum ljóðanna leynast spakmæli eins og

... fífl hafa vit á málum annarra;
jafnvel vitringum skjátlast í sínum eigin.

Ætli það sé hægt að segja neitt öllu sannara en þetta?

4. febrúar: Myndirnar af Múhameð
Í lok september birti Jyllandsposten
(www.jp.dk) nokkrar teiknimyndir af Múhameð spámanni (sjá skrif hér frá því í október). Umræðan hefur síðan undið upp á sig og æsingurinn út af þessum teiknimyndum aukist stig af stigi. Sumt er merkilegt í þessari umræðu, sérstaklega kannski hvernig margir Vesturlandabúar sem hafa samúð með málstað trúaðra múslima láta eins og Jyllandsposten hafi bara tekið upp á því af tilefnislausu að ráðast á það sem öðrum er heilagt. Þessar teiknimyndir voru ekki tilefnislaus árás heldur viðbrögð við ástandi sem íslamskir ofsatrúarmenn hafa búið til. Þeir hafa hvað eftir annað hótað að myrða menn sem tjá sig á annan hátt en þeir álíta guði þóknanlegt. Frægasta dæmið um þetta er auðvitað dauðadómurinn yfir Shalman Rushdie. Afleiðing þessara hótana er að fjölmiðlar eru farnir að tipla á tánum í kringum málefni sem varða islam og samfélög múslima í Evrópu. Menn þora ekki að segja hug sinn af ótta við ofbeldisverk. Þegar svo er komið er fullt vit í að gera uppreisn gegn óttanum eins og Jyllandsposten gerði síðasta haust. Evrópskir múslimir geta komið í veg fyrir að þörf sé á slíkri uppreisn. Leiðtogar þeirra geta t.d. minnt á að ef einhver drepur Shalman Rushdie þá sé það eins og hvert annað morð, hvorki göfugt né guði þóknanlegt. Þeir geta líka minnt á að morðið á Theo van Gogh var ódæðisverk og ekkert annað.
   Meðan áhrifamiklir talsmenn trúarbragða gefa því undir fótinn að það eigi að svara gagnrýni með morðum og ofbeldi er fráleitt að þeir sem ekki eru sekir um neitt verra en svolítið „guðlast“ á léttum nótum þurfi að biðjast afsökunar. Umburðalyndið og skilningurinn á málstað innflytjenda í Evrópu er komið út í hreina vitleysu ef menn eru hættir að skilja að morðhótun er alvarlegur glæpur, en teikimyndagerð (jafnvel þótt smekklaus sé, óviðkunnanleg eða kjánaleg) er ekki glæpur.