Atli Harðarson
Af vefnum - apríl og maí 2006

31. maí: Kartöflur og nútímaleg stjórnmál
Í nótt dreymdi mig undarlegan draum, ef til vill vegna þess að þegar ég var í þann mund að sofna rifjaðist upp fyrir mér frétt úr Morgunblaðinu fyrir nokkrum misserum (9.1.2002, bls. 14) þar sem sagði frá því að tannlæknir á Akureyri yrði að fá undanþágu frá umhverfisráðuneytinu, vegna ónógrar lofthæðar í tannlæknabíl sínum, áður en heilbrigðisnefnd kjördæmisins gæti veitt honum starfsleyfi til tannlækninga í bílnum.
  
Í draumnum fannst mér ég vera kominn á þing og vera uppfullur af framfarahugsjónum, réttlætiskennd og nútímalegum sjónarmiðum og mér fannst ég halda ræðu sem var á þessa leið:

Í þeim löndum sem við berum okkur saman við gilda strangar reglur um hitastig og hreinlæti í flutningabílum sem flytja matvæli milli landshluta. Þar er stjórnendum flutningatækja líka gert skylt að sækja námskeið um flutning á matvælum og þeir meðal annars fræddir um rétta meðhöndlun á lífrænt ræktuðu grænmeti og hættur sem fylgt geta dreifingu á erfðabreyttum afurðum. Opinberar eftirlitsnefndir skipaðar sérmenntuðu fólki fylgjast með ástandi flutningabíla og taka reglulega sýni af ryki á bílpöllum og í flutningagámum og athuga hvort bílstjórar uppfylli kröfur um hreinlæti, hafi tileinkað sér gæðavitund og kynnt sér reglur Evrópusambandsins og samþykktir alþjóðamatvælastofnunarinnar um vöruflutninga.
  
Við Íslendingar erum langt á eftir öðrum þjóðum í þessum efnum. Hér eru kartöflur til dæmis fluttar milli landshluta á bílum sem ekki eru hannaðir til matvælaflutninga og þess eru jafnvel dæmi að bílstjórar geri sér litla eða enga grein fyrir eiginleikum vörunnar sem þeir flytja. Brýnt er að stjórnvöld grípi strax til aðgerða og móti að minnsta kosti stefnu um flutning á kartöflum svo íbúum allra landshluta sé tryggð jafngóð vara, eins og þeir eiga rétt á. Einnig þarf að skipa eftirlitsnefndir á stöðum þar sem rekin er matvöruverslun svo hægt sé að fylgjast með því að vörubílstjórar setji á sig skóhlífar áður en þeir fara inn í flutningagáma og noti rétt efni við handþvott (sbr. reglugerð númer 17948 frá 2002 og handþvottastaðal ISO497856).
   
Til að allir landshlutar sitji við sama borð verði hið fyrsta smíðuð Grímseyjarferja sem flutt getur matvælagáma af réttri gerð til eyjarinnar. Umhverfisráðherra setji reglugerð um flutninga með ferjunni eftir að fram hefur farið lögformlegt umhverfismat á hafnarmannvirkjum. Landbúnaðarráðherra skipi sérfræðinganefnd sem verður umhverfisráðherra til ráðuneytis og veitir umsögn um framkvæmd umhverfismatsins. Einnig verði skipuð eftirlitsteymi sem fylgjast með að rekstur ferjunnar sé í samræmi við alþjóðlega staðla og reglur alþjóðflutningaverkamanna-sambandsins. Eftirlitsteymið skal vera undir yfirstjórn félagsmálaráðherra en ráðuneyti samgöngumála láti smíða reiknilíkan og verði fjármálaráðherra til ráðuneytis við ákvörðun ríkisstyrkja vegna kaupa og reksturs á ferjunni. Að öðru leyti heyri þessi málaflokkur undir viðskiptaráðuneytið sem ber ábyrgð á að minnihlutahópum, þ.á.m. samkynhneigðum og innflytjendum sé tryggður aðgangur að bestu mögulegum kartöflum á hverjum tíma.

Sem ég hafði sleppt síðasta orðinu vaknaði ég og þakkaði mínum sæla fyrir að það kemur ekki í minn hlut að flytja svona ræður í vöku. Eftir á að hyggja dreymdi mig þetta kannski ekki vegna þess að ég rifjaði upp gamla frétt um tannlækni á Akureyri. Kannski er orsök draumsins sú að á ferð um Amsterdam í síðustu viku sá ég málverk Vincents van Gogh af kartöfluætunum og kannski hafði ég bara tekið einum of vel eftir frétt af fyrirspurn til menntamálaráðherra um íþróttastefnu sem borin var upp á Alþingi af Valdimar L. Friðrikssyni, en hann er 9. þingmaður Suðvesturkjördæmis.


Kartöfluæturnar eftir Vincent van Gogh

28. maí: Tvær greinar
Í vorhefti Skírnis (1. tbl. 180. árg. 2006) er grein eftir mig um auðmýkt. Hún liggur hér frammi í pdf-skrá. Í nýútkomnum Stefni (1. tbl. 56. árg. 2006) er stutt grein eftir mig um frjálshyggju og stjórnmál nútímans. Hún liggur hér frammi.

16. maí: Frægð, ríkidæmi og auglýsingar
Í frjálsu hagkerfi er samkeppni um athygli. Allir sem vilja selja eitthvað reyna að vekja athygli, laða viðskiptavini til sín, koma vörumerkjum sínum inn í meðvitund þeirra. Úr þessu verður marglitur, blikkandi og beljandi skarkali og venjulegt fólk lærir að leiða skilaboðin hjá sér, hunsa þau og gleyma. Líf þeirra sem berjast um athygli almúgans er ekki auðvelt, því flestir kæra sig ósköp lítið um að taka eftir enn einu vörumerki, kynna sér enn eitt tilboð, fá vitneskju um hvað þessi uppþvottalögur hefur fram yfir hinn.
   Athygli neytenda er dýrmæt og hvaðeina sem fangar hana, fær fólk til að stoppa og glápa þó ekki sé nema smástund er meira virði en gæs sem verpir gulleggjum. Það er engin tilviljun að sumt af ríkasta fólki í heimi er moldríkt vegna þess að það getur fengið fólk til að horfa á auglýsingar. Við þetta vinna stjörnur eins og David Beckham og Britney Spears. Þau halda kannski að þau fái borgað fyrir að sparka í bolta eða syngja og að vissu leyti er það rétt. En þegar öllu er á botninn hvolft fá þau borgað meira en aðrir vegna þess að þeim tekst betur en öðrum að fá venjulegt fólk til að horfa á sjónvarpsauglýsingar.
   Allir sem reyna að græða á að selja almenningi eitthvað vilja meiri athygli en þeir geta fengið og þetta spennir verðið á athyglinni upp svo dýrasta vinnan sem kapítalistar nútímans kaupa er ekki vinna þeirra sem framleiða vöruna heldur þeirra sem útvega það torfengnasta og dýrmætasta af öllu – augnablik á sjónvarpsskjánum sem milljónir manna geta ekki hugsað sér að missa af – eða öllu heldur mínúturnar á undan og eftir þessu augnabliki.
   Það er skemmtilega hjákátlegt að fólkið sem flestir dýrka og dá og dreymir um að líkjast vinnur við að fá aðdáendur sína til að hanga fyrir framan sjónvarp og góna á auglýsingar í stað þess gera sjálfir eitthvað sem gæti hugsanlega vakið aðdáun þó ekki væri nema eins manns eða tveggja. En nú er ég farinn að predika og best að hætta áður en ég verð of hátíðlegur og alvarlegur.

13. maí: Bækur um bækur
Bókin Margs er að minnast geymir frásagnir Kristjáns Albertssonar sem fæddist hér á Akranesi árið 1897 og lést í Reykjavík árið 1989. Jakob F. Ásgeirsson skráði þær eftir Kristjáni þegar hann var orðinn gamall maður og blindur. Bókin kom fyrst út árið 1986 en hefur nú 20 árum síðar verið endurútgefin af bókaforlaginu Uglu.
   K
ristján kom víða við á langri æfi og kynntist mörgum af helstu listamönnum og menningarvitum síðustu aldar. Í bókinni eru stórskemmtilegar frásagnir hans af ýmsu stórmenni eins og Matthíasi Jochumssyni, Þórbergi Þórðarsyni, Maxim Gorkí, Jóhannesi Kjarval, Guðmundi Kamban og Einari Benediktssyni svo nokkrir af þeim frægustu séu nefndir. Í þessum frásögnum eru mörg gullkorn. Hér er eitt (af bls. 107):

Kjarval lét sér tíðum annt um bæði menn og málleysingja. Einu sinni bar svo til að úti á velli við Öxará stóð hestur og hímdi og leit ekki við grasinu. Kjarval gekk að hestinum og heyrðist segja: „Það liggur eitthvað illa á þér, vinur minn. Smávegis þunglyndisköst geta komið fyrir okkur alla – en heldurðu ekki að þú hefðir gott af að velta þér? Sjáðu hvernig ég fer að.“ Og Kjarval fór úr jakkanum, lagðist á bakið fyrir framan hestinn og velti sér. Eftir fáein augnablik gerði hesturinn slíkt hið sama, stóð svo upp og hristi sig rösklega og fór að bíta. „Já, ég vissi að þetta mundi hjálpa,“ sagði Kjarval.

Frásagnir Kristján Albertssonar eru merkileg heimild um menningarlíf á fyrri helmingi síðustu aldar. Þær eru líka merkileg heimild um menningarvita, mann sem að vísu tók þátt í alls konar veraldarvafstri, stjórnmálum, utanríkisþjónustu og viðskiptum en var alltaf trúr þeirri sannfæringu sinni að hámenning, bækur, listir, hugsun og fræði skiptu meira máli en allt annað. Að þessu leyti á Kristján ef til vill samleið með Árna Bergmann sem nýlega hefur sent frá sér stórskemmtilega bók um bækur og bóklestur. Sú heitir Listin að lesa og er gefin út af Háskólaútgáfunni.
   Þeir eru kannski ólíkir menn. En mér finnst samt sumt líkt í bók Árna og frásögnum Kristjáns. Báðir fjalla um bækur af svipuðu andríki og ást á skáldskapnum og hjá báðum er sú umfjöllun einhvern vegin hafin yfir allar fræðilegar formúlur og klisjur úr ríkjandi skólaspeki og lesandinn (eða að minnst kosti sá eini lesandi sem ég þekki í fyrstu persónu) smitast af persónulegum áhuga þeirra.
   Þótt bók Árna sé afar læsileg og skemmtileg eru sumar pælingarnar í henni ansi djúpar. Hér er eitt dæmi (af bls. 155) þar sem fjallað er um afdrif skáldskapar á tímum athyglissýki þegar allir vilja skrifa og tjá sig og koma sjálfum sér á framfæri en fáir mega vera að því að lesa eða hlusta:

Þegar rússneska skáldið Andrej Voznesenskij var ungur maður ríkti enn gífurlegur áhugi á skáldskap meðal landa hans og hans kynslóð skálda átti því að fagna að geta fyllt heilar íþróttahallir þegar þau lásu upp ljóð. En þegar árið 1974 orti Voznesenskij einkennilegt spádómskvæði sem heitir „Einræða lesandans á degi ljóðsins árið 1999“. Þar hefur allt snúist við, í ljóðinu eru skáld ekki að lesa upp fyrir þúsundir manna heldur gengur síðasti lesandi ljóða í landinu fram á sviðið og mætir trylltum fögnuði þúsunda skálda sem hylla einu manneskjuna sem enn hlustar á þá.

10. maí: Menntastefna frambjóðenda á Akranesi
Á vefnum http://www.xdakranes.is er skýrt frá stefnu Sjálfstæðismanna sem bjóða sig fram í bæjarstjórnarkosningum á Akranesi. Þar sem fjallað er um stefnuna í skólamálum segir m.a.

Akraneskaupstaður hafi forgöngu um stofnun íþróttaakademíu í samvinnu við FVA, íþróttahreyfinguna og menntamálaráðherra.

Á vef Samfylkingarinnar, http://www.samfylking.is, má finna stefnu Samfylkingarmanna í bænum. Þar segir m.a. um uppbyggingu í menntamálum.

Við viljum að reist verði þekkingarþorp á Akranesi þar sem saman koma nemendagarðar, vinnuaðstaða fyrir fræðimenn og nemendur og stórbætt aðstaða til fjarnám.

(Samfylkingarmenn hefðu kannski frekar átt að skrifa „aðstaða til fjarnáms“ en það er þeirra mál.)
   Þetta kunna að vera framfaramál en ég held að það væri rétt að skoða fleiri kosti á uppbyggingu skólastarfs í bænum.
   Á næstu árum mun hluti af því sem nú er iðnmenntun á framhaldsskólastigi mjög trúlega verða skilgreint sem háskólamenntun og það er líklegt að aukning verði á háskólakennslu í tæknigreinum, þótt hún verði e.t.v. ekki eins mikil og aukningin í viðskipta- og rekstarfræðikennslu á undanförnum áratug.
   Það er mikilvægt fyrir Akurnesinga að vera vel vakandi fyrir möguleikum á háskólanámi og rannsóknarstarfi í bænum. Hér er öflugur iðnaður og Akranes á möguleika á að þróast sem tæknisamfélag. Það dugar ekki að hugsa bara um að apa eftir Keflavíkingum og búa til enn einn íþróttaskóla eða setja upp enn einn sal með fjarfundabúnaði. Við þurfum að hugsa lengra en það og vera á undan Keflavíkingum og Hafnfirðingum og öllum hinum og grípa tækifærin áður en þeir hafa hrifsað þau til sín. Mér finnst trúlegt að á næstu árum skapist tækifæri til að byggja upp fleiri gerðir af rannsóknartengdu námi eða háskólanámi í framhaldi af iðnnámi t.d. í bygginga- og málmiðnagreinum.
   Mikið væri gaman að sjá þessa tvo stærstu flokka í bænum setja fram djarfar hugmyndir um fjölbreyttara skólahald á Akranesi. Á næstu árum verða sóknarfærin líklega í uppbyggingu skóla sem menn sækja eftir að þeir hafa lokið þriggja ára námi í framhaldsskóla. Ætlum við að grípa þessi sóknarfæri eða láta öðrum það eftir. (Birtist líka í umræðum á Akranesvefnum http://www.akranes.is)

6. maí: The Seduction of Unreason
Á árinu 2004 kom út hjá Princeton University Press bók eftir Richard Wolin sem heitir The Seduction of Unreason. Þessi bók er merkilegt framlag til hugmyndasögu tuttugustu aldar. Hún segir sögu hugmynda og kenninga sem var stefnt gegn hugsjónum upplýsingarinnar, allt frá andófi Nietzsche gegn jafnrétti, skynsemishyggju og algildum mannréttindum (eða sameiginlegu siðferði fyrir alla menn) til fransks póstmódernisma undir lok síðustu aldar. Wolin segir söguna af miklum lærdómi og hann hefur kafað djúpt í rit Nietzsche, Heidegger, Jung og fleiri frumkvöðla rökleysishyggju á seinni tímum.
   Andófið gegn upplýsingunni er upprunnið í ritum afturhaldsmanna sem horfðu með söknuði til tímans fyrir frönsku byltinguna. Heimspeki Nietzsche og Heidegger var stefnt gegn jafnrétti, lýðræði, tækniframförum og vísindalegri rökvísi. Sá fyrrnefndi dáðist að indverskri stéttaskiptingu og sá síðarnefndi trúði á Adolf Hitler og málstað nazistaflokksins. Báðir reyndu að grafa undan upplýsingunni með því að sýna fram á takmarkanir vísindalegrar yfirvegunar, rökvísi og skynsemi og höfðu skömm á hagfræðilegum útreikningum, tæknilegri skynsemi, lýðræði, réttarríki, jafnrétti og markaðsbúskap– eða í stuttu máli sagt hugsunarhætti upplýsingarstefnunnar og frjálshyggjunnar og jafnaðarstefnunnar, sem fylgdu í kjölfar hennar og sköpuðu aukið jafnrétti, meira frelsi og betri lífskjör.
   Í ritgerð sem heitir Was ist Metaphysik og út kom árið 1929 talar Heidegger um að tilfinningarnar sem koma mönnum í samband við veruleikann bærist í brjósti þeirra hugrökku og gefur í skyn að þeirra verði ekki vart hjá iðjusömum borgurum sem eru uppteknir af hversdagslegu annríki. Í hug þeirra sem hafa samband við veruleikann kváðu reglur rökfræðinnar leysast sundur í hvirflum dýpri spurnar en skynsemin ræður við. Öll er þessi umræða heldur torskilin en mér sýnist að milli línanna búi hugmyndir í þá veru að tilfinningar „hugrakkra“ manna sem marsera fyrir foringja sinn séu réttari vegvísir en skynsamleg rökræða, vísindaleg aðferð eða útreikningar.
   Það er ósköp skiljanlegt að þeir sem trúðu á Adolf Hitler hafi hatast við upplýsingu og skynsamleg rök. En það undarlegasta við söguna sem Richard Wolin segir er að undir lok síðustu aldar átti andófið gegn upplýsingunni helst hljómgrunn hjá „vinstri sinnuðum“ menntamönnum sem töldu sig fylgjandi jafnrétti og mannréttindum. Hvað sem ásetningi þeirra leið varð rökleysishyggjan sem þeir átu upp eftir Heidegger og Nietzsche vatn á myllu trúarlegs ofstækis og alls konar afturhalds. Póstmódernistar, sem segja að lýðræði jafngildi kúgun, rökvísi sé valdbeiting, þekkingin aðeins eitt form ofbeldis og vísindin hluti af vestrænu karlveldi og „lógócentrisma“, enduróma málflutning fasista frá fyrri hluta tuttugustu aldar. Þeir eiga miklu heldur samleið með afturhaldsmönnum fyrir 100 eða 150 árum en frjálshyggjumönnunum sem sköpuðu réttarríkið og komu af stað þróun í átt til lýðræðis eða vinstrimönnunum sem á sínum tíma stofnuðu verkalýðsfélög og jafnaðarmannaflokka.

1. maí: Hið allrahelgasta og dulmögnun stjórnmálanna
Biblían segir frá því, í níunda kafla Hebreabréfsins, að inn í það allrahelgasta fari æðsti presturinn einn, einu sinni á ári. Venjulegt fólk vissi víst ekki gerla hvað prestinum og guði fór á milli á þessum árlega fundi en hafði líklega einhvern pata af því að þarna inni væri sáttmálsörkin öll gulli búin undir vængjum tveggja varðengla, gullker með manna og stafur Arons sem laufgast hafði. Að hafa helstu tákn um tengsl mannlífsins við himneskan veruleika í sama dularfulla herberginu og láta æðsta prestinn fara einan þar inn var snjöll aðferð til að gæða pólitískar ákvarðanir dulúð og hefja þær yfir gagnrýni. Varla gátu menn sem höfðu aldrei komið nema í forgarð helgidómsins vefengt það sem guð sagði æðsta prestinum á þeirra lokaða leynifundi.
   Ef mál eru rædd fyrir opnum tjöldum þar sem ofurvenjulegt fólk glímir við vandamál og úrlausnarefni án þess að styðjast við neitt merkilegra en mennskan skilning og mannlegt vit, þá hafa niðurstöðurnar engan dularblæ. Í opnu og lýðræðislegu samfélagi á heilagleiki ekkert erindi í pólitík. Þar eru ákvarðanir í besta falli teknar af misvitrum mönnum sem hafa hlustað á margvísleg rök, vegið þau og metið og greitt svo atkvæði eða tekið ákvörðun í samræmi við það sem þeim sýnist í fullri einlægni og að vel yfirlögðu ráði vera réttlátt og heillavænlegt. Þegar verst gegnir er pólitíkin heimskulegt sérhagsmunapot þar sem menn hygla sér eða vinum sínum á kostnað annarra.
   Það getur verið erfitt að sætta sig við að stjórnmál séu bara mannleg og jafnvel allt of mannleg. Þess vegna er stöðug tilhneiging til að gæða ákvarðanir dulúð þannig að þær virðist eitthvað annað og meira en mannlegar ákvarðanir sem teknar eru af takmarkaðri þekkingu og stundum líka takmarkaðri umhyggju fyrir almannahag. Þessi dulmögnun stjórnmálanna tekur á sig ýmsar myndir. Ein er sú að færa völdin í hendur fagmönnum, sérfræðingum og „óháðum“ umsagnaraðilum. Þeir eru fjær sviðsljósi fjölmiðlanna og geta stundum falið áhugamál sín á bak við fræðilegt orðalag sem fáir hafa kunnáttu til að gagnrýna. En í raun og veru eiga þeir oft og iðulega hagsmuna að gæta og eru jafnvel í fagfélögum og samtökum sem reyna markvisst að auka eigin áhrif. En öfugt við stjórnmálamenn þurfa þeir ekki að standa almenningi reikningsskap ráðsmennsku sinnar á fjögurra ára fresti. Hættan á heimskulegu sérhagsmunapoti verður því meiri en ekki minni ef menn sem ekki bera pólitíska ábyrgð fá pólitísk völd.
   Á síðustu árum hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins nálgast svolítið stöðu æðsta prestsins í Jerúsalem forðum tíð. Fólk veit almennt ekki hvernig hún starfar. Rökræður innan hennar fara að mestu fram fyrir luktum dyrum og mennirnir sem ýta á eftir einstökum málum koma ekki fram fyrir almenningssjónir sem mennskir einstaklingar. Það sem framkvæmdastjórnin segir er sagt í nafni framkvæmdastjórnarinnar en ekki misálappalegra tvífætlinga sem allir mundu sjá að eru hvorki hafnir yfir hagsmunapot né fordóma.
   Ætli það sé tóm tilviljun að þeir sem bera mesta lotningu fyrir Evrópusambandinu eru manna líklegastir til að halda að „óháðir“ sérfræðingar taki betri ákvarðanir en kjörnir stjórnmálamenn? Getur verið að þessu fólki gangi verr en okkur hinum að sætta sig við að stjórnmál eru og verða bara mannleg?

24. apríl: Evran og krónan
Í gær hlustaði ég á samræður nokkurra fastráðinna ríkisstarfsmanna sem voru á því máli að okkur væri best kasta krónunni og taka upp evru. Krónan fellur, sögðu þeir, og hún er óstöðugur gjaldmiðill og einstakir fjárglæframenn geta jafnvel ráðskast með gengi hennar. Kannski er nokkuð til í því að auðmenn geti frekar haft áhrif á gjaldmiðill lítils hagkerfis, eins og íslenska krónan er, heldur en á evru eða bandaríkjadal. En hvort evran verður traustur gjaldmiðill til langs tíma veit held ég enginn maður
   Eftir að ég var kominn heim úr vinnu rifjaðist þessi umræða um evruna upp fyrir mér og ég fór að hugsa um að afstaða manna til þess hvort eigi að taka upp evru ráðist ef til vill að einhverju leyti af stöðu þeirra sjálfra á vinnumarkaðnum. Ef við notuðum evru þá hefði sá samdráttur sem nú kemur fram sem gengisfelling fengið aðra birtingarmynd. Hann hefði komið fram sem fjölgun gjaldþrota og fleiri uppsagnir. Allmargir sem standa höllum fæti á vinnumarkaði hefðu misst vinnuna. Fastráðnir ríkisstarfsmenn í öflugum stéttarfélögum hefðu vafalaust haldið sínu, en verkafólk í útflutningsgreinum, eins og t.d. fiskverkun, horft fram á erfiða tíma og hópur erlendra verkamanna verið sendur úr landi.
   Það var ekki innistæða fyrir öllum þeim launum sem fyrirtækin í landinu voru að greiða. Þess vegna féll krónan og fall hennar jafngildir því að laun allra hafi lækkað. Það er kannski ekkert undarlegt að þeir vilji helst kasta krónunni sem líklegast er að mundu halda sínu ef samdrátturinn birtist með þeim eina hætti sem kostur væri á ef við notuðum evru. Kannski kemur þeim ekkert við þótt fólk sem er tveim, þrem eða fjórum tröppum fyrir neðan þá sjálfa á vinnumarkaði verði atvinnulaust.
   Þótt krónan sé kannski hlægilega ómerkilegur gjaldmiðill er sjálfstæður gjaldmiðill samt forsenda þess að hægt sé að dreifa áföllum þokkalega jafnt á alla. Það er einfaldlega ekki raunhæft að lækka laun hjá þorra landsmanna með öðru móti en gengisfellingu og stundum koma þeir tímar að óbreytt laun leiði til gjaldþrota og fjöldauppsagna.

20. apríl: Vinstri fasistar og hægri jafnaðarmenn
Einu sinni var vinstri stefna í stjórnmálum nátengd hugsjónum upplýsingarinnar. Merkisberar vinstri sinnaðra skoðana hér á landi í byrjun tuttugust aldar, eins og til dæmis skáldin Stephan G. Stephansson og Þorsteinn Erlingsson, voru upplýsingarmenn. Þeir trúðu á jafnrétti, lýðræði, skynsemi, almenna menntun og vísindalega hugsun og voru á móti forréttindum, hindurvitnum og klerkaveldi.
   Heimspekingar sem andæfðu upplýsingunni á seinni hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu höfðu tengsl við fasistaflokka og voru álitnir lengst til hægri í stjórnmálum. Frægasta dæmið er líklega Martin Heidegger (1889 - 1976) sem var á tímabili meðlimur þýska Nazistaflokksins. Einnig mætti nefna Friedrich Nietzsche (1844-1900) sem var átrúnaðargoð margra fasista þótt tengsl hans við upplýsinguna væru miklu flóknari en svo að hægt sé án fyrirvara að flokka hann með andstæðingum hennar. Nietzsche átti samleið með upplýsingarmönnum í því að andæfa klerkaveldi og dásama sjálfstæða hugsun og einstaklingshyggja hans er um sumt svipuð þeirri sem finna má í kvæðum Stephans G. En það var ekki þetta sem gerði Nietzsche vinsælan meðal pólitískra ólánsmanna heldur hamagangur hans gegn skynsemishyggju, jafnrétti kynjanna, mannréttindum og lýðræði.
   Nú er eins og allt hafi snúist við. Aðdáendur Nietzsche og Heidegger sem hamast gegn vestrænu lýðræði og vísindalegri rökvísi teljast vera til vinstri og það furðulega er að sumir sem nú teljast lengst við vinstri segja nokkurn vegin það sama og þeir sem álitnir voru lengst til hægri fyrir 70 árum. Hatursáróður „vinstri“ manna gegn Bandaríkjunum er til dæmis nokkurn veginn á sömu nótum og æsingur „hægri“ manna gegn þeim eitt sinn var og samúðin með klerkaveldi og afturhaldsöflum hjá „vinstri“ mönnum nútímans minnir á „hægri“ öfgar frá fyrri hluta 20. aldar. Frönsku heimspekingarnir Foucault og Baudrillard eru til dæmis báðir taldir „vinstri“ menn og hafa nánast verið teknir í dýrlingatölu hjá „vinstri“ intelligensíu sumra háskóla. Þeir eru líka báðir arftakar Nietzsche og Heidegger sem voru á sínum tíma allt annað en vinstri sinnaðir.
   Foucault fagnaði valdatöku klerkastjórnarinnar í Íran fyrir rúmum aldarfjórðungi og Baudrillard taldi það gleðitíðindi þegar íslamskir öfgamenn réðust á Bandaríkin 11. september 2001. Ætli þetta endi ekki með því að kóngurinn í Saudi Arabíu verði talinn vinstri maður. Þá er ég hræddur um að Stephan G. Stephansson og Þorsteinn Erlingsson snúi sér báðir við í gröfinni.

15. apríl: Laun og menntun
Klisjan um að tilveran sé flóknari nú en áður (sjá pistil frá 10. apríl) er ekki eina dæmið um vitleysu eða vanhugsuð orð sem hver étur upp eftir öðrum. Slík dæmi eru mörg enda þarf fólk að spjalla saman um daginn og veginn til að mynda tengsl og gera lífið skemmtilegt og svoleiðis spjall getur auðvitað ekki allt verið þaulhugsað. Það hlýtur að vera að nokkru leyti innantóm orð sem menn hafa yfir til að skapa rétt andrúmsloft eða treysta vináttubönd. Kannski er ekkert nema gott um það að segja.
   Eitt af því sem oft heyrist og mér finnst ástæða til að vefengja er að það sé á einhvern hátt réttlátt eða sanngjarnt að menn fái því hærri laun því lengur sem þeir hafa verið í skóla. Ég veit ekki hvernig þetta er hugsað. Vonandi álíta menn það ekki slíka kvöl og pínu að vera lengi í skóla að þeir sem það gera eigi rétt á einhvers konar bótum. Er ekki sönnu nær að menntun sé lífsgæði og nær væri að greiða þeim bætur sem ekki fá notið hennar?
   Auðvitað er samband milli menntunar og tekna og á því eru að ég held aðallega tvær skýringar. Önnur er sú að laun ráðast af framboði og eftirspurn og ef einhver hefur fágæta kunnáttu sem mikil eftirspurn er eftir þá getur hann selt vinnu sína á háu verði. Löng skólaganga verður oft til þess að menn afli sér kunnáttu af þessu tagi, þ.e. kunnáttu sem fáir búa yfir en margir hafa not fyrir. Þetta er önnur skýringin á því að þeir sem hafa lokið langri skólagöngu eru oft með laun talsvert yfir meðallagi. Hin skýringin er sú að ýmsar reglur og lög (t.d. lög sem takmarka aðgengi að vissum störfum) eru hagstæð þeim sem hafa mikla formlega menntun.
   Þessar tvær ástæður skýra að miklu leyti hvers vegna er fylgni milli menntunar og launa. En af þeim verður ekkert ályktað um hvort það er réttlátt eða óréttlátt að menntamenn hafi hærri laun en aðrir. Raunar efast ég um að til sé neitt réttlæti um þetta efni. A.m.k. er vandséð hvers vegna sá sem hefur notið mikillar skólagöngu á kostnað meðborgara sinna ætti að eiga tilkall til hárra launa til viðbótar við þau hlunnindi sem menntunin er.
  
Ég býst við að sanntrúaður jafnaðarmaður, sem álítur réttlætismál að kjör manna séu sem líkust, hljóti að álíta rétt að menntamenn hafi sem næst sama kaup og allir aðrir. Þeir sem aðhyllast frjálshyggju og markaðsbúskap ættu, til að vera sjálfum sér samkvæmir, að segja að hver og einn megi setja hvaða verðmiða sem er á vinnu sína og öllum öðrum sé frjálst að ráða hvort þeir kaupa við því verði eða velja að skipta við annan sem býðst til að vinna verkið fyrir minni peninga.
   Á bak við klisjurnar um laun í samræmi við menntun býr ef til vill sú auma speki að menntun sé til þess eins að bæta efnahaginn. Margir virðast trúa þessu a.m.k. í aðra röndina. Þó held ég að það rynnu tvær grímur á flesta ef þeir þyrftu að svara því hvort þeir vildu glata menntun sinni og kunnáttu ef þeir fengju í staðinn jafnmikla peninga og þeir geta unnið sér inn með því að nýta allt sem þeir hafa lært. Ætli flestir sæmilega skynsamir menn áttuðu sig þá ekki á að hæfni og skilningur eru gæði sem eru eftirsóknarverð hvort sem hægt er að æxla sér fé af þeim eða ekki.
   Væri ekki gæfulegra að hugsa sem svo að peningar séu eftirsóknarverðir vegna þess að hægt er að nýta þá til að menntast en að láta sem menntun sé eftirsóknarverð vegna peninganna?

10. apríl: Finnskir skólar og flókið líf
Seinni hluta síðustu viku var á ég fundi NSF (Nordiskt Skolledar Forum) í Åbo (Turku) í Finnlandi. Þarna var saman kominn hópur sem í voru fulltrúar úr félögum skólastjórnenda á Norðurlöndunum fimm. Hluti tímans fór í að ræða um málefni félaganna og samstarf þeirra en við fengum líka talsverða fræðslu um finnskt skólakerfi og heimsóttum bæði framhaldsskóla og grunnskóla. Það var glaðlegt yfirbragð á þessum skólum, umgengni virtist góð, aðbúnaður til fyrirmyndar og ég fékk á tilfinninguna að þarna væri gott að starfa.
   Sá sem mest fræddi okkur um skólakerfi Finna var Bertel Wahlström rektor við Katedralskolan sem er menntaskóli í Åbo. Wahström lýsti finnska skólakerfinu sem íhaldssömu kerfi sem hefur haldið í hefðbundna kennslu bóklegra greina, aga og mótaðar kennsluaðferðir þar sem meginhlutverk kennaranna er að miðla námsgreinunum til nemenda og flytja menningararfinn milli kynslóða. Það er eins og byltingarnar sem hafa gengið yfir skólakerfi margra annarra landa (sjá pistil frá 26. febrúar) hafi farið fram hjá Finnum. Þeirra skóli er gamli skólinn og íhaldssemi þeirra virðist bera árangur því alþjóðlegar kannanir sýna að finnsk börn standa sig að jafnaði betur í lestri, reikningi og fleiri greinum heldur en börn á öðrum Norðurlöndum.

Stundum er því haldið fram að líf nú á 21. öldinni sé svo miklu flóknara en lífið var hérna áður fyrr. Ég veit ekki hvað ég hef heyrt marga fyrirlestra um skólastjórnun þar sem því að haldið fram að gömul ráð dugi lítt eða ekki í þeim flókna heimi sem við blasir nú um stundir og verkefni skólanna séu af þessum sökum erfiðari og meiri en nokkru sinni fyrr. Þetta er svona klisja sem hver étur eftir öðrum en fáir spyrja hvort sé sönn eða login og ég held að þeir sem segja þetta viti flestir jafnlítið og ég um hversu erfitt var að stjórna skólum t.d. á fyrri hluta 20. aldar þegar tvær heimstyrjaldir og kreppa þar á milli settu mark sitt á líf skólabarna ekki síður en fullorðinna.
   Sumt er flóknara nú en áður. Farsími er t.d. flóknari vél og byggir á flóknari tækni en fjarskiptabúnaður frá 1930, 1950 eða 1970 og nýr bíll er flóknari smíð en bílar voru fyrir hálfri öld. En flóknari tækni gerir lífið ekki flóknara heldur einfaldara. Það er auðveldara að ná sambandi við fólk með farsíma en með eldri tækni og það er auðveldara að komast leiðar sinnar á bíl nú til dags en þegar bílar voru einfaldari smíð. Sannleikurinn er líklega sá að þótt það sé ef til vill erfiðara að skilja hvernig tækni nútímans virkar heldur en tækni fyrri ára er auðveldara að nota hana. Það er auðveldara að þvo þvott, þrífa hús, kaupa inn, elda mat, ná sambandi við fólk og halda heilsu nú en nokkru sinni fyrr. Við komumst af með minni þekkingu og minni kunnáttu en langafi og langamma sem þurftu sjálf að breyta ull í fat og mjólk í mat og áttu líf sitt stundum undir því að geta af eigin hyggjuviti spáð í gæftir og veður: Var óhætt að róa eða leggja á heiðina?
   Lífið er ekki flóknara nú en áður, heldur einfaldara. Það er jafnvel ástæða til að hafa áhyggjur af að það sé helst til auðvelt að vera fávís og illa að sér, fyrirhyggjulaus og blindur á umhverfið. Fólk þroskaðist kannski betur ef líf þess væri ofurlítið flóknara og líklega er klisjan um sífellt flóknari tilveru hrein og klár öfugmæli, a.m.k. ef „flóknari tilvera“ merkir að maður þurfi að hafa meira vit til að komast af.

1. apríl: Enn um skattinn - Ef þú kallar hala fót ...
Frá miðju ári 2002 til miðs árs 2005 hækkaði vísitala neysluverðs um 8,37%. Á sama tíma hækkaði launavísitala um 18,15% samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofunnar. Þeir sem halda því fram að staðgreiðsluskattar hafi hækkað á tímabilinu, þótt staðgreiðsluhlutfall hafi lækkað úr 38,54% í 37,73% og persónuafsláttur fylgt verðlagsþróun, gefa sér að til að tekjur manns haldist jafnar þurfi þær að fylgja launavísitölu. Þessi forsenda þýðir að það sé alveg sama hvort vel eða illa árar, launakjör landsmanna séu alltaf söm og sá sem hefur meðallaun sé alltaf jafn vel eða jafn illa settur. Með öðrum orðum má segja að þeir sem reikna út að skattlækkanir undanfarinna ára séu skattahækkanir líti svo á að kjör manns velti ekki á því hvað hægt er að kaupa mikið fyrir launin hans heldur hvar hann er í röðinni (hversu stór hluti landsmanna hafi hærri laun en hann).
   Þeir sem svona reikna hljóta að álíta að sá sem hefur miðlungstekjur í landi þar sem lífskjör eru góð (eins og t.d. á Norðurlöndunum) sé jafn vel settur og sá sem hefur miðlungstekjur í landi þar sem þorri fólks lepur dauðann úr skel (eins og t.d. í fátækustu löndunum sunnan Sahara). Ef fólk vill reikna svona þá er það svo sem í lagi, a.m.k. svo fremi það reyni ekki að blekkja neinn til að halda að útreikningarnir þýði eitthvað annað en þeir þýða í raun. Það er alveg rétt að ef laun manns hækka um 18,15% á meðan verðlag og persónuafsláttur hækka aðeins um 8,27% þá getur vel farið saman að skatthlutfall lækki og hann greiði hærri hluta tekna sinna í skatt því persónuafslátturinn veldur því að skattur er ekki í réttu hlutfalli við laun, heldur er hann hlutfallslega hærri hjá þeim sem hafa hærri tekjur.
   Hugsum okkur að félagarnir Ömur og Fárán settust saman í ríkisstjórn og tvöfölduðu skatthlutfall svo það færi upp fyrir 75% en settu um leið í gang sína klúðurkvörn svo launavísitala hrapaði niður úr öllu valdi og launatekjur hjá þorra landsmanna færu niður undir skattleysismörk. Við þetta mundi skatthlutfall meðalmannsins ef til vill lækka úr 25% til 30% niður í 5% til 10%. Þeir sem reikna það út að skattbyrði hafi aukist undanfarin ár ættu, ef þeir vilja vera sjálfum sér samkvæmir, að kalla svona tvöföldun skatthlutfalls skattalækkun.
   Ef þú kallar hala fót, hvað hefur kýr þá marga fætur? Svarið er að ef þú heldur fast við að kalla halann fót þá hlýtur þú að segja að kýrin hafi fimm fætur. En limaburður og göngulag nautgripa breytist að sjálfsögðu ekki þótt þú takir upp á að nota orð í annarri merkingu en venja hefur verið. Sama má segja um þessa skattaumræðu. Þeir sem reikna það út að lækkunin sé hækkun nota orðin ekki í venjulegri merkingu. Þeir segja að persónuafsláttur hefði þurft að hækka um rúm 18% á árabilinu 2002 til 2005 til að haldast jafn, en samkvæmt venjulegri málnotkun dugði að henn héldi í við verðbólgu og hækkaði um rúm 8%. Alveg eins og kýrnar halda sínu sköpulagi þótt einhver kalli halann fót eiga menn sem betur fer jafnmikið eftir í buddunni þótt sumir kalli það skattahækkun sem samkvæmt venjulegri málnotkun ætti að kallast skattalækkun.