Atli Harðarson
Af vefnum - júní, júlí og ágúst 2006

26. ágúst: Mogginn í dag
Vaknaði seint í dag svo þó komið sé hádegi hef ég ekki komið neinu í verk öðru en því að lesa Moggann og drekka kaffi. Reyni kannski að skokka upp í Akrafjall á eftir þegar ég hef sett punkt aftan við þessa færslu.

Það er annars ósköp þægilegt að vakna seint og gefa sér langan tíma til að lesa blöðin. Sumt sem þar er skrifað er skemmtilegt umhugsunarefni. Í Mogganum í dag segir t.d. frá alþjóðlegri könnun IMG Gallup á viðhorfum til lýðræðis. Mér þótti ánægjulegt að sjá að 93% Íslendinga telja lýðræði besta stjórnkerfið. Fylgi við lýðræði virðist því talsvert meira hér en að meðaltali í Evrópulöndum, en samkvæmt frétt Morgunblaðsins telja 82% Vestur-Evrópubúa og aðeins 68% Austur-Evrópubúa það besta stjórnkerfið. Í þessu eins og svo mörgu öðru svipar okkur Íslendingum e.t.v. meira til Norður-Ameríkumanna en Evrópubúa, en 87% íbúa Norður-Ameríku kváðu álíta lýðræði besta kostinn.

Það sem vakti mesta athygli mína í þessari frétt af könnun IMG Gallup voru svör manna við spurningunni um hvort þeir telji landi sínu stjórnað í samræmi við vilja þjóðarinnar. Alls staðar virðist minni hluti fólks telja að svo sé. Ef til vill dettur einhverjum í hug að þetta bendi til að lýðræðið sé ekki svo gott sem menn vilja vera láta. En það getur líka verið að eitthvað sé athugavert við spurninguna. Hún virðist gera ráð fyrir að til sé eitthvert mögulegt ástand eða einhver möguleg stjórnarstefna sem er í samræmi við „vilja“ heillar þjóðar— eins og það sé hægt að taka einhvers konar meðaltal af vilja margra manna og fá út eitthvað sem allur hópurinn vill.

Kannski er ástæða þess að fáum þykir landi sínu stjórnað í samræmi við almannavilja einfaldlega sú að það er enginn almannavilji til. Ef meirihluti heillar þjóðar segði að landi sínu væri stjórnað í samræmi við almannavilja þá væri það trúlega vegna þess að hún byggi við slíka harðstjórn eða múgæsing að fólk þyrði ekki að segja annað. Þar sem ólíkir einstaklingar þora að mynda sér sjálfstæðar skoðanir, gagnrýna og rökræða þar verða til fleiri sjónarmið en svo að neitt eitt eigi fylgi alls þorra fólks. Um þetta hef ég annars skrifað áður og ástæðulaust að endurtaka það.

Með Mogganum í dag fylgdi Lesbók eins og jafnan á laugardögum. Einu sinni fjallaði þessi laugardagskálfur mest um uppbyggilegan lærdóm og menningu sem er einhvers virði að leggja sig eftir. Nú var ein lengsta greinin (sem fyllir alla baksíðuna) um ameríska stráka sem skemmta kvenfólki með því að fækka fötum. Mín vegna má fólk alveg vera nakið uppi á sviði á Broadway. En mér finnst nú dálítið hæpið að fjalla um þetta sem menningarviðburð. Las greinina þó bæði af forvitni og vegna þess að ég les yfirleitt það sem Gerður Kristný skrifar í blöðin því mér þykir oft töluvert vit í því sem hún segir. Hvenær ætli Lesbókin birti leiklistardóma um frammistöðu súludansmeyja hjá Goldfinger og Bohem og hvað þeir nú heita allir þessir staðir þar sem stelpur skemmta karlmönnum með því að sýna sig naktar?

24.ágúst: Skólinn byrjaður — rekabútur af ströndum
Skólinn var settur í gær og eins og oftast í annarbyrjun er fremur mikið að gera hjá mér svo ég nenni ekki að skrifa neitt á þessa vefsíðu. Set í staðinn mynd (eða öllu heldur fjórar myndir límdar saman) hér til gamans. Hún er af rekabút sem ég fann við Steingrímsfjörð í sumar þegar ég fór í skemmtiferð til Hólmavíkur. Eftir að heim kom sat ég stund og stund úti á palli og tálgaði bútinn til með sporjárni og skrapaði með þjöl. Að lokum keypti ég nokkrar litaprufur af viðarvörn í Húsasmiðjunni og málaði skrípið.

12. ágúst: Fjármagnstekjuskatturinn
Nú keppist alls konar fólk við að vera vinir litla mannsins og slá sjálft sig til riddara með því að býsnast yfir of lágum skatti á fjármagnstekjur. Sjálfur er ég með þeim ósköpum gerður að þurfa alltaf að efast um orð síðasta ræðumanns og mér sýnist það vera miklum vafa undirorpið hvort hærri skattur á fjármagnstekjur sé nokkrum til góðs.
   Í þessari umræðu er því oft haldið fram að skattur á fjármagnstekjur sé miklu lægri en venjulegur tekjuskattur. Víst er hann nokkru lægri en munurinn er ekki eins mikill og sýnast kann þegar aðeins er litið á álagningarprósentuna. Lagður er 10% skattur á fjármagnstekjur sem þýðir af ef maður á milljón og fær af henni 10% vexti, sem eru 100.000 krónur, þá greiðir hann 10.000 krónur í fjármagnstekjuskatt. Ef verðbólga er um það bil 5% eru ekki nema hálfir vextirnir raunverulegur gróði (helmingur fer í að bæta rýrnun höfuðstólsins vegna verðbólgu). Í þessu dæmi er raunverulegur gróði því aðeins 50.000 krónur og skatturinn því 20% því 10.000 er 20% af 50.000. Til samanburðar má nefna að sá sem hafði 2 milljónir í tekjur á síðasta ári greiddi um 415 þúsund krónur í tekjuskatt og útsvar eða um 20,75% af tekjum sínum.
   Eigi að bera saman álögur á fjármagnstekjur og aðrar tekjur þarf margs að gæta. Hér hef ég nefnt að taka þurfi verðbólgu með í reikninginn. Einnig þarf að skoða hvernig farið er með tap. Hugsum okkur að maður fjárfesti í tveim áhættusömum fyrirtækjum— kaupi t.d. hlutabréf fyrir milljón í hvoru þeirra; Annað fari illa og hlutabréfin falli um helming; Hálfrar milljón króna tap þar; Af hinu verður ofsagróði og rentan af hlutabréfunum er 50% eða hálf milljón. Eftir árið er maðurinn í sömu sporum. Hann byrjaði með tvær milljónir og á enn sömu upphæð. En hann þarf að borga 10% skatt af arðinum en fær tapið ekki dregið frá svo hann endar á að greiða 50.000 króna skatt af engum hagnaði. Áður en fullyrt er að skattur af fjármagnstekjum sé óeðlilega lítill í samanburði við skatt af öðrum tekjum þarf að skoða fleira en álagningarprósentuna.
   Það kann að virðast sanngjarnt að þeir sem hafa jafnmiklar tekjur greiði jafnháa skatta. Mér finnst þó varasamt að einblína á þetta jafnréttissjónarmið (þótt vissulega beri að taka það með í reikninginn). Hér á landi hefur verið viðvarandi tilhneiging til eyðslu. Of margir vilja fá lán og of fáir spara. Afleiðingin er m.a. háir vextir og miklar skuldir heimila (auk þess sem hætt er við að margir bíði tjón á sálu sinni vegna græðgi og óhófs). Kannski er of stutt síðan óðaverðbólga gerði ráðdeild í fjármálum beinlínis hlægilega til að landsmenn hafi lært að græddur er geymdur eyrir. Alltént held ég að enn séu góðar ástæður til að skattalög og hagstjórn hvetji til sparnaðar og almenningur hafi meiri hag af að það takist en af því að allir sem hafa sömu tekjur borgi sama skatt.
   Hærri skattur á fjármagnstekjur er líklegur til að draga úr innlendum sparnaði. Trúlegt er að auðmennirnir sem eiga mest fjármagn komi hluta þess undan til annarra landa og álögurnar lendi að mestu leyti á þeim hluta alþýðunnar sem er nógu fyrirhyggjusamur til að spara og sá skynsami minnihluti landsmanna sem hefur lært að græddur er geymdur eyrir glutri þeim lærdómi niður.

10. ágúst: Austfirðir og árangur skólastarfs
Í bók sinni um auðlegð þjóðanna segir Adam Smith: „kjör meginþorra fólks, eru best þar sem framfarir eru og samfélagið býr við batnandi hag. Hlutskipti alþýðunnar er erfitt þar sem efnahagur stendur í stað og ömurlegt þar sem honum hnignar. Framfarirnar færa öllum stéttum fjör og fögnuð en stöðnun fylgir deyfð og drungi og með hnignun kemur eymd og ami.“ (I. bindi viii. kafli.) Mér komu þessi orð í hug þegar ég ók um Austfirði um verslunarmannahelgina. Mikið var ánægjulegt að sjá alla uppbygginguna þar: Ný fyrirtæki og fjöldi húsa í smíðum þar sem varla hafði verið byggt neitt í aldarfjórðung.
   Hvað sem líður rómatískum hugmyndum um að íslendingar séu of klárir og merkilegir til að vinna í verksmiðjum er ljóst að á Austfjörðum hætti atvinnulífi að hnigna og framfarir tóku við um leið og byrjað var að reisa þar álver. (Þeir sem telja verksmiðjur of ómerkilega vinnustaði fyrir Íslendinga halda e.t.v. að þær séu „dark satanic mills“ eins Blake orti um og reknar af föntum sem hafa stokkið út úr bók eftir Dickens— en það er önnur saga.)
   Undanfarið hefur verið sagt frá því í fréttum að íslenskt menntakerfi skili ekki betri árangri nú en áður þótt það fái meiri peninga. Það ætti svo sem að segja sig sjálft að nemendur verða ekkert endilega neitt duglegri að læra heima þótt kennararnir þeirra fái þokkaleg laun. Hluti (og að ég held nokkuð stór hluti) af auknum kostnaði við rekstur grunn- og framhaldsskóla er vegna bættrar þjónustu við nemendur sem glíma við alls konar vandamál, heilsuleysi, vonda heimanfylgju og erfiðar aðstæður. Sú þjónusta er sjálfsagt til heilmikils gagns en hún dugar ekki til að þessir krakkar fari að brillera í Pisa-könnunum. Þeir sem það gera og helst geta lyft meðaltalinu upp kæmust líklega vel af í ódýrara menntakerfi.
   Mér finnst tal um að hægt sé að gera alla sprenglærða með því að ausa peningum í menntakerfið vera dálítið undarlegt. Það er t.d. talað um að Háskóli íslands geti komist í hóp bestu háskóla í heimi ef hann fær nógu mikla peninga frá ríkinu. Eru bestu háskólar í heimi ekki m.a. góðir vegna þess að þeir velja klárustu nemendurna úr hópi margra umsækjenda? (Varla má Háskóli Íslands taka upp á því.) Auðvitað kostar rekstur góðra háskóla líka heilmikla peninga en peningarnir einir skapa ekki toppakademíu neitt frekar en yfirbyggður fótboltavöllur og billjón króna aðstaða dugar til þess að fótboltalið komist á toppinn.
   Eiríkur Jónsson formaður kennarasambandsins reyndi að gera þessa umræðu ögn gáfulegri með því að benda á að agaleysi á heimilum standi börnum og unglingum fyrir þrifum og dragi úr árangri skólastarfs. Ég hugsa að það sé mikið til í þessu. En ég held að það geti líka verið að það vanti fleira en aga á heimili. Það vantar kannski líka að foreldrar lesi fyrir börn, tali við þau, horfi með þeim á myndbönd, byggi með þeim úr legókubbum og fari með þeim í gönguferðir. Það er fullkomlega óraunhæft að kennari sem hefur 20 eða 25 börn í bekk kenni þeim nema hluta af því sem þau þurfa að kunna. Stór hluti af þeirri fræðslu og þjálfun sem barn þarf á að halda fæst varla nema það hafi af til til einhvern fullorðinn alveg fyrir sig í góða stund.

27. júlí: Um stöðugleika gjaldmiðla
Þessa dagana er mikið rætt um meintan óstöðugleika íslensku krónunnar. Sumir álíta að til að tryggja stöðugleika sé best að taka upp evru. Nú veit ég ekki til að neinn gjaldmiðill sé svo stöðugur að gengi hans rokki ekki upp og niður. Fyrir okkur hefur krónan þann kost að hún sveiflast í samræmi við hvernig árar hjá okkur (sjá pistil frá 24. apríl). Evran rokkar svo upp og niður eftir því hvernig gengur í evrulöndunum og alls óvíst að sveiflann á henni sé í nokkrum takti við íslenskt hagkerfi.
   Það er sjálfsagt nokkuð flókið mál að meta stöðugleika gjaldmiðla. Að gamni mínu bar ég evru og krónu saman við bandaríkjadal og enskt pund á sex mánaða fresti frá árslokum 2002. Myndirnar sýna sveiflurnar miðað við þessa tvo gjaldmiðla og benda ekki til að evran sé neitt mikið stöðugri en krónan miðað við þá. Að vísu hefur krónan tekið dýfu á síðustu mánuðum en allir gjalmiðlar geta tekið upp á því. Ef stórt efnahagssvæði tryggði stöðugt gengi þá hefði bandaríkjadalur vænanlega verið stöðugri á undanförnum árum en raun ber vitni.

  

24. júlí: Ný saga af brauðinu dýra
Þessa dagana er mikið rætt um matvælaverð í fjölmiðlum. Eins og vænta má snýst umræðan öðrum þræði um hefðbundinn landbúnað, framleiðslukvóta, ríkisstyrki og tollvernd sem hann nýtur.

Á þessu ári ráðstafar landbúnaðarráðuneytið um 13 milljörðum samkvæmt fjárlögum og þar af eru greiðslur vegna búvöruframleiðslu um 8 milljarðar eða um það bil hundraðþúsund krónur á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Mest munar þar um beinar greiðslur til kúabænda sem eru um 4 milljarðar.

Nú þykir sjálfsagt mörgum að málefni landbúnaðarins séu afar flókin og erfitt að benda á nothæfar lausnir á vandamálum bænda og sveitafólks. Ég veit ekki hvort þessu fólki er það nokkur huggun að það er fullkomlega vandalaust að flækja málefni annarra atvinnugreina jafnmikið, ef ekki meira. Þeir sem telja skynsamlegt að halda uppi þessu kerfi kvóta, styrkja og stjórnsýslu ættu e.t.v. að huga að svipuðum lausnum fyrir aðra framleiðslu, eins og t.d. brauðgerð.

Ríkið gæti úthlutaði bakaríum brauðkvóta og tryggt þeim lágmarksverð fyrir hvern hleif, sem þyrfti að vera heldur hærra en verðið sem brauðið er selt á, því annars er hætta á að kerfið virkaði ekki nógu vel. Það gæti líka séð til þess að heildsalar mættu aðeins flytja mátulega mikið af bakkelsi til landsins og yrðu látnir greiða af því háa tolla. Heimabakstur yrði takmarkaður með sömu rökum og heimaslátrun og til að raska ekki jafnvægi í byggð landsins mundi ekið með brauð á hverjum morgni úr bakaríunum á Rauðasandi, Óspakseyri, Sænautaseli og fleiri blómlegum byggðum sem fóstra kjarngott sveitafólk. Heilbrigði landsmanna og ferskleika brauðsins mætti svo tryggja með því að stofna embætti héraðsdýrabakara hist og her í kringum landið og þar sem upp kæmi mygla í korni yrði því eytt og bakaríinu lokað næstu misseri sem gerði auðvitað ekkert til því að ríkið tryggði afkomu bakaranna. Brauðgerðaháskóla þyrfti auðvitað að reka af landbúnaðarráðuneytinu, helst á höfuðbólum í tveim helstu kornræktarhéruðum landsins. Einnig mætti renna stoðum undir byggð í mörgum fögrum dal með því að byggja upp stofnanir sem annast kynningu og miðlun þekkingar um íslenska hverabrauðið og íslensku kleinuna. Í þessu sambandi er að minnsta kosti full ástæða til að ræða hvort yfirleitt skuli heimilt að nota útlent korn í íslenskan bakstur.

Með þessu móti er auðveldlega hægt að koma eins og 8 milljörðum í lóg vegna brauðgerðar án þess nokkur hætta sé á að bakarar hagnist neitt óeðlilega mikið eða vöruverð fari niður úr öllu valdi. Svipuð úrræði eru þekkt fyrir fleiri atvinnuvegi svo framsóknarmenn í öllum flokkum hafa næg verk að vinna og miklu meira en það.

19. júlí: Trú og stríð
Enn einu inni er allt að fara í bál og brand fyrir botni Miðjarðarhafsins. Að þessu sinni hentu sítar í Hosbollah samtökunum í Líbanon sprengjum í gyðinga sem ráða löndum í Palestínu. Sunnítar sem ráða mestöllum Arabíuskaga sitja hjá og kasta hnútum í síta enda hálfhræddir við kjarnorkubrambolt þeirra í Íran og aukin áhrif í Írak eftir að Saddam Hússein var steypt af stóli. Þessar deilur eru að því leyti eins og deilurnar milli kaþólikka og mótmælenda á Norður Írlandi eða milli hindúa og múslima á Norður Indlandi að menn skiptast í fylkingar eftir trúarbrögðum og kynda undir hatrinu með bænamál og guðsorð á vörum.

Kannski er eitthvað til í því sem Richard Dawkins sagði í viðtali við ríkissjónvarpið um daginn, að það yrði friðvænlegra í heiminum ef trúarbrögð legðust af. Skipuleg trúarbrögð boða reyndar flest ást og frið en þau eru samt ansi víða notuð til að ala á hatri og illindum.

Í ljóðflokknum Söngvar til jarðarinnar eftir Hannes Pétursson (sem birtist árið 1959 í bókinni Í sumardölum) er kveðið um ógnir styrjalda og illskuna í heiminum. Eins og ég nefndi hér þann 30. júní er Hannes eitt þeirra skálda sem hafa lofað efann og vantrúna. Fyrsta erindi ellefta ljóðsins í flokknum er svona:

Illskuna, hatrið ala menn sér við barm
   úlfinn: getnað flagðsins og Loka.
   hvenær að eilífu festist hann fjötri sem heldur
og fimi hans mun ekki þoka?

Svo ræðir skáldið hvað geti helst varið líf og frið og segir (í 3. erindi) að trú á dóm annars heims stoði lítt.

Dýrið sleit sem ull hina orðlögðu smíð
   úr ótta vorum við dóm í himnasölum
   við uppskeru breytninnar: hefnd fyrri hrasanir lesti
hefnd greidda með kvölum.

Í seinni helmingi kvæðisins spyr hann svo hvort illskunni verði ekki betur haldið í skefjum með því að hafna trú á annað líf en það eina sem manni er gefið frá fæðingu til dauða. Sú spurning er borin upp í 5. til 8. erindi og hefst svona:

Hvort mundi þola umbrot úlfsins net
   ofið úr þeirri trú að gjöful jörðin
   sé einn og kjörinn áfangastaður manna
ofan í hrollkaldan svörðinn

Þessi spurning sem Hannes Pétursson bar upp fyrir næstum hálfri öld er jafnvel enn áleitnari nú en þá. Kvæðið í heild birtist ef þú smellir hér.

18. júlí: Kominn heim frá Krít
Hef ekkert skrifað hér í meira en hálfan mánuð því ég hef verið á ferðalagi um Krít með Hörpu og Vífli. Fyrir vini og vandamenn eru hér nokkrar myndir úr ferðinni.

30. júní: Skáld efahyggjunnar
Í bók sinni um Antikrist (grein 54) segir Nietzsche að efahyggja sé til marks um hraustan hug og frjálsan; þeir sem hafi miklar gáfur séu efahyggjumenn enda sé sannfæring fangelsi hugans.

Mannalætin í Nietzsche stinga að vísu svolítið í stúf við þá hógværð sem oftast fylgir heimspekilegri efahyggju. Samt hefur honum e.t.v., hér eins og víðar, ratast satt orð á munn. Það þarf vissa tegund af hugrekki til að sætta sig við óvissu. Þótt efahyggjumenn í hópi heimspekinga séu sundurleitur hópur eru þeir kannski að einhverju leyti eins og ljóðið sem Þorstein frá Hamri yrkir um í nýjustu bók sinni (Dyr að draumi 2005, bls. 43):

Því ljóðið spyr,
leitar, efast – og sér því
heiminn skýrar en skáldið

sem ornar sér stundum
við örugg svör ...

Í síðustu færslum hef ég farið nokkrum orðum um efahyggjuna sem Montaigne og fleiri endurreisnarmenn lærðu af að lesa fornar bækur eftir Sesxtus Empiricus. Þessi efahyggja hefur sett svip á alla heimspeki síðan. Enduróm af rökum Sextusar má finna hjá hugsuðum eins og Bayle, Pascal, Locke, Hume, Kierkegaard, Nietzsche, Russell og Wittgenstein, sem hafa prjónað við þau og mótað hver sína eigin efahyggju, og svo auðvitað líka hjá öllum þeim sem hafa reynt að hrekja efahyggjurök til að geta ornað sér við örugg svör.

Efahyggju bregður víða fyrir í skáldskap, líka hjá íslenskum skáldum. Ég vitnaði hér að ofan í nýjustu ljóðabók Þorsteins frá Hamri. Hér er annað brot úr sömu bók (bls. 23):

Með stroknu fasi
ilma í dag af dásemd
hin sjálfbirgu svör.

Á morgun dreifa þau
hatri, sprengjum og heimsku.

Fleiri íslensk skáld hafa lagt efanum lið, enda ekki vanþörf á, meira en nóg er af kokhraustri vissu, trú og sannfæringu um allt sem er og meira til. Eitt af skáldum efahyggjunnar er Sigurður Pálsson. Í bók hans Ljóð vega gerð (sem út kom árið 1982) eru þessar línur (bls. 8):

Víst er að villugjarnara reynist
að vera á hreyfingu
heldur en að grafa sig hér og nú
í fönn vissunnar
Kviksetja sig með alvæpni
(hesti reiðtygjum
og fjársjóði sínum öllum)
í haugi óskhyggjunnar.

Í mörgum ljóða sinna veltir Hannes Pétursson upp merkilegum spurningum um kosti þess að efast. Hér er eitt úr bókinni Innlönd (sem kom út árið 1968):

Ef ég vissi til hlítar að vegurinn sem ég geng
væri sú braut er sannleikurinn ruddi
og vörðurnar sem ég eygi og vísa mér fram á leið
væru þau merki sem réttsýnin ein hefur hlaðið
þá þyrfti ég engum útúrkrókum að trúa
og áfellast mundi, á blygðunar, tíma og siði
– læsti þeim dyrum augans sem inn á við snúa.

22. júní: Efahyggja og rökfælni
Efahyggjan, sem ég fjallaði um í pistli 15. júní, undirbjó ekki aðeins jarðveginn fyrir trúfrelsi og lýðræði. Þræðir úr henni urðu líka samofnir vísindunum sem Galíleó og samtímamenn hans sköpuðu á sautjándu öldinni og enn þann dag í dag er efagirni óaðskiljanleg frá vísindalegri hugsun. Ætli þær systurnar einblind og tvíblind sem margir kannast við úr umfjöllun um rannsóknir í læknisfræði séu ekki dætur hennar.

Stór hluti af heimspeki síðustu alda er einhvers konar glíma við efahyggjuna og margar verstu firrur heimspekinnar eru tilkomnar sem tilraunir til að sigrast á henni. Þótt Kant hafi kallað hana skandal heimspekinnar en hinn raunverulegi skandall allt ruglið sem menn hafa sett saman til að komast hjá henni og telja sjálfum sér trú um að eitthvað sé öruggt sem er það í raun og veru ekki.

Margt hefur verið reynt til að svara efahyggjumönnum. Menn hafa t.d. sagt sem svo að rök efahyggjumanna sanni vissulega að skynsemi, rökhyggja og vísindalegar aðferðir geti ekki fært okkur fullvissu eða örugga þekkingu á því hvernig veruleikinn er og þess vegna þurfi að nota eitthvað annað. Það er svo afar misjafnt hvað þetta annað er talið vera. Sumir hafa talað um dulvitund kynstofnsins, aðrir nefnt trúarlega uppljómun eða kvenlegt innsæi. Ekki veit ég hvort eitthvað af þessu hefur fært mönnum sanna sýn á veruleikann, en alltént virðast mér vísindi, rökhyggja og skynsemi gagnast betur við hagnýt úrlausnarefni.

Þessi rökfælni þeirra sem sætta sig ekki við takmarkaða skynsemi og ótrygga þekkingu og vilja heldur eitthvað æðislegt og undursamlegt tekur á sig ansi margar myndir. Ein er dregin upp í nýlegri grein eftir Pál Skúlason um heimspeki Derrida. Greinin heitir Ritgerðin endalausa – eða vandinn að komast inn í Derrida og birtist í nýjasta hefti Hugar (17, bls 118–128.) Í þessari grein virðist Páll reyna að réttlæta rökleysur Derrida með því að daðra við hugmyndir í þá veru að fyrst heimspeki geti ekki verið algerlega skynsamleg– fyrst hrein og tær skynsemi sé ekki möguleg– þá séu rökleysur í góðu lagi. Hann segir:

… verk Aristótelesar, Plótínusar, heilags Ágústínusar, Tómasar frá Akvínó, Descartes, Spinoza, Hume og Kants, verk Hegels, Marx, Nietzsches, Wittgensteins og Quines eru uppfull af málfari af toga mælskulistar og skáldskapar. Höfundar þeirra voru ekki hreinar skynsemisverur heldur lifandi verur með höfuðið fullt af órum – og oft á tíðum voru þeir viti sínu fjær, í það minnsta í skrifum sínum.

og heldur svo áfram í neðanmálsgrein:

Sláandi dæmi um þetta má finna í skrifum franska heimspekingsins René Descartes. Þessi mikli rökhyggjumaður gerði sér hugmyndir um að dýr finndu ekki til sársauka, úr því að þau hefðu enga sál, og að þess vegna væri ekkert bogið við að gera tilraunir á þeim meðan þau væru enn á lífi. Þau voru vélar. – Felist ekki í þessu gild rök til að efast um skynsemina í skrifum Descartes, þá veit ég ekki hvað rök eru. (Bls. 121)

Þetta er skemmtilega tvírætt hjá Páli. Það er hægt að skilja þetta svo að fullyrðingar Descartes um að dýr hafi engar tilfinningar bendi til að kenningar hans séu ekki að öllu leyti skynsamlegar og svo sem ekkert athugavert við að segja það. En til að réttlæta rökleysishyggjuna sem Páll er að daðra við í greininni þarf að skilja þetta svo að lygilegar fullyrðingar hjá Descartes gefi okkur ástæðu til að efast um að það sé rétt að byggja dóma okkar og skoðanir á skynsamlegum rökum. Sú ályktun er ekki gild nema bætt sé við þeirri forsendu að Descartes hafi verið fullkomlega skynsamur og að vitlausar hugmyndir hjá honum grundvallist á skynsamlegum rökum og engu öðru. Þessi forsenda er ekki einu sinni sennileg.

Hér virðist ég kannski kominn langt frá fornri efahyggju, en leiðin er styttri en virðast kann. Heimspeki Derrida er að nokkru leyti framhald af fyrirbærafræði og fleiri stefnum sem mótuðust a.m.k. að nokkru leyti sem tilraunir til að sigrast á vofu pyrrhonismans og þessi vofa virðist hafa strítt Derrida svolítið, a.m.k. ef skilningur Páls er réttur. En hann segir í sömu grein:

Og úr því málum er þannig háttað að í hvert skipti sem við tökum til við að ræða á kerfisbundinn hátt um veruleikann þá verða óumflýjanlega á vegi okkar hinir ýmsu frumspekilegu smíðisgripir sem mótað hafa hinn vestræna skilning okkar á veruleikanum, þá þurfum við að vinna okkur í gegnum þessa smíðisgripi með það fyrir augum að geta síðan borið vitni hinum ónefnda, ótilgreinda veruleika sem engin kenning er þess umkomin að brjóta undir sig. Í þessu felst að afbyggja viðjar hugsunar okkar, snúa baki við öllum tilraunum til að ná algjörri stjórn á hugmyndum okkar að hætti reglna hinnar svokölluðu rökhugsunar, og gefa nafnlausum veruleikanum kost á að stíga fram og taka völdin í hugsun okkar. (Bls. 126)

Þetta hefur víst verið kallað dulspeki og hún er eitt af því sem menn hafa leitað til á flótta undan því hlutskipti að skilja fátt til hlítar og vita lítið með vissu. En ætli það sé ekki með pyrrhonismann eins og aðrar vofur— því hraðar sem menn hlaupa undan þeim því hræddari verða þeir.

15. júní: Efahyggja fornaldar, Montaigne og heimspeki nútímans
Ein af merkustu heimspekistefnum fornaldar er ýmist kölluð efahyggja eða Pyrrhonismi. Pyrrhon sem stefna þessi er við kennd bjó í borginni Elís í Grikklandi og var uppi um 360 til 270 f. Kr. Líkt og Sókrates, sem uppi var einni öld fyrr, eignaðist Pyrrón lærisveina og fylgismenn. Sagan segir að hann hafi ferðast alla leið til Indlands með herjum Alexanders mikla og kynnst „nöktu heimspekingunum“ þar.

Engin rit eru varðveitt eftir Pyrrhon og kenningar hans eru einkum kunnar af skrifum læknis og heimspekings sem hét Sextus Empiricus og var upp í ríki Rómverja hálfu árþúsundi eftir daga Pyrrhons, þ.e.a.s. á þriðju öld.

Ólíkt öðrum heimspekingum héldu efahyggjumenn ekki fram neinum kenningum um hinstu rök tilverunnar. Speki þeirra snerist um að vefengja alla hátimbraða kenningasmíð og rengja þá sem töldu sig vita hvers vegna heimurinn varð til, hvað guðirnir vilja eða annað í þeim dúr. Í bókum Sextusar eru ýmis hugvitssamleg rök sem nýta má til að andmæla þeim sem eru uppfullir af kokhraustri vissu.

Meðan kaþólska kirkjan var einráð í mennta- og menningarmálum átti efahyggja ekki upp á pallborðið og rit Sextusar voru nær óþekkt á miðöldum, enda er hugsunarháttur efahyggjumannsins heldur andsnúinn þeim sem telja sig handhafa endanlegs sannleika og þykjast jafnvel óskeikulir.

Með siðaskiptunum á sextándu öld og vísindabyltingunni á þeirri sautjándu gerbreyttist hugarheimur evrópskra menntamanna. Það er nokkuð misjafnt hvernig sagan af þessum umskiptum er sögð og hvað er einkum talið greina milli heimspeki miðalda og nýaldar. Undanfarið hef ég verið að blaða í Sextusi og ritum um efahyggju í fornöld og á endurreisnartímanum. Eftir því sem ég les meira verður sá grunur áleitnari að mikilvægustu þáttaskilin í hugmyndasögunni við upphaf nýaldar hafi orðið þegar lærdómsmenn endurreisnartíamns kynntust pyrrhonisma af ritum Sextusar Empiricusar. Þau rit voru fyrst prentuð árið 1562.

Sá sem gerði mest til að vekja athygli á fornri efahyggju og telja menn á að tileinka sér hugsunarhátt í anda Sextusar var franskur maður sem hét Michel de Montaigne og var uppi frá 1533 til 1592. Hann ólst upp á dögum þrjátíu ára stríðsins þegar mótmælendur og kaþólikkar börðust um yfirráð í Evrópu með manndrápum og grimmdarverkum sem hljóta að teljast með verstu hörmungum sem gengið hafa yfir álfuna– er þó af nógu að taka.

Efahyggjan sem Montaigne lærði af Sextusi og boðaði samtímamönnum sínum fékk hljómgrunn meðal annars vegna þess að kaþólikkar nýttu efahyggjurök gegn mótmælendum og öfugt. Þau urðu hluti af vopnabúri beggja og þar með um leið hluti af þeirri rökræðulist sem menntamenn höfðu á hraðbergi.

Montaigne átti vini bæði í hópi mótmælenda og kaþólikka og hann notaði efahyggjurök sín í þágu umburðalyndis– spurði til dæmis hvort menn „hafi ekki fullmikla trú á tilgátum sínum ef þeir telja þær gefa sér rétt til að grilla náunga sinn“ (en um hans daga voru „trúvillingar“ brenndir á báli). Hann beitti sér fyrir því að ólíkir trúflokkar lifðu saman í friði og hafði meðal annars áhrif á Nantestilskipun Hinriks 4. Frakkakonungs sem gefin var út árið 1598, en hún veitti húgenottum (kalvínistum) þegnrétt í Frakklandi og leyfi til að iðka trú sína.

Alla tíð síðan Montaigne var og hét hefur hugsunarháttur efahyggjunnar orkað í þágu umburðalyndis, samviskufrelsis og hófstillingar. Sennilega undirbjó þessi hugsunarháttur líka jarðveginn fyrir þróun lýðræðis, því lýðræði getur varla þrifist nema ólíkar skoðanir fái að keppa um hylli almennings og þeir sem álíta að sinn páfi, sitt helgirit eða sinn kóngur hafi aðgang að sannleikanum, öllum sannleikanum og eina sannleikanum eru tæplega tilbúnir að taka því sem sjálfsögðum hlut að almenningur velji milli ólíkra stjórnmálaskoðana með þeim hætti sem gert er í lýðræðisríkjum.

10. júní: Gáta

Þar uppi bragi kíminn kvað
kraftur náttúrunnar
hvar ævintýrin eiga stað
átu svangir munnar.

4. júní: Vantrú á lýðræði
Endrum og eins kemur það fyrir að ég ríf eða klippi greinar úr dagblöðum því ég tími ekki að henda þeim strax. Í mánaðartíma hefur slík úrklippa legið innan um bækur og blöð við hliðina á tölvunni minni. Þetta eru bakþankar úr Fréttablaðinu eftir Jón Gnarr frá 4. maí 2006. Jón Gnarr skrifar heiðarlega pistla þar sem hann greinir með skýrum hætti frá hugsunum sínum án þess að fela þær bak við hálfkveðnar vísur eða aulalega hnyttni og sniðugheit (eins og sumir aðrir sem birta skrif sín á baksíðu Fréttablaðsins).

Í þessari grein frá 4. maí fjallar Jón Gnarr um lýðræði og segir að þótt lýðræðið lykti af jafnrétti og bræðralagi með dassi af mannréttindum og samvinnu sé það bara ein hlið málsins og svo bætir hann við: „Ég held að einræðisríki hafi jafnmikla möguleika á að vera farsæl ríki og þau sem byggja á lýðræði“

Margir fleiri en Jón Gnarr virðast hugsa á svipuðum nótum, að það lýðræði sem við búum við sé ekkert til að hrópa húrra fyrir. En fæstir orða þessar hugsanir svona umbúðalaust. Sumir segja frekar eitthvað á þá leið að lýðræðið sé hvort sem er bara plat eins og t.d. Haukur Már Helgason sem skrifaði pistil á www.nyhil.org í kringum síðustu alþingiskosningar og sagði að hann hefði þá tilfinningu fyrir stjórnmálum að þau „séu innantóm akkúrat þar sem þau ættu að vera þrútin, að þar keyri engar ástríður, öfl, stórar lifandi hugmyndir, heldur fyrst og fremst löngun til – eða jafnvel bara nokkur sátt um – að gera ,eins og‘. Láta sem hér séu stjórnmál. Láta eins og hér sé lýðræði, láta eins og við tölum saman.“

Það er eins og sumir séu þreyttir á lýðræðinu sem við búum við, finnist það ekki í samræmi við væntingar og séu jafnvel til í að láta það sigla sinn sjó. Fyrir þessu eru sjálfsagt margar ástæður. Ein er kannski sú að annars konar skipan en frjálslynt borgaralegt lýðræði er orðin fjarlæg okkur. Mönnum er ekki svo ofarlega í huga hvernig einræðisstjórnir, hvort sem þær kenndu sig við kommúnisma eða þjóðernisstefnu, fóru með fólk. Í fréttum og fjölmiðlum fáum við meira að vita um minniháttar hnökra á mannlífinu í lýðræðisríkjum heldur en ríkisrekin grimmdarverk, eymd, ofsóknir, kúgun og óréttlæti í einræðisríkjum.

Þótt menn vilji eitthvað blárra, eitthvað skýrra og þyki mikið vanta á að allir séu með og beri sameiginlega ábyrgð á landsstjórninni ætti að vera óþarfi að minna sífellt á Auswitch og Gúlagið til að fá þá til að átta sig á að einræði er miklu verra. Auðvitað eru öll lýðræðisríki meira og minna ófullkomin. Lýðræðið er þó ekki meira plat en svo að þar sem ólíkum flokkum er frjálst að afla stjórnmálaskoðunum sínum fylgis og almennir borgarar geta (með ekki allt of löngu millibili) haft áhrif á hverjir fá pólitísk völd og æðstu menn eiga á hættu að vera settir af ef þeir afla sér mikilla óvinsælda þar er miklu minna um fátækt, hungur, styrjaldir, kúgun og ofsóknir heldur en í ríkjum sem hafa annars konar stjórnskipan.

Ef til vill veldur fleira en fáviska um kjör þeirra sem búa við aðra skipan en lýðræði nokkru um að íbúar landa sem búa við langa og trausta lýðræðishefð hafa margir hverjir vantrú á lýðræðislegum stjórnmálum og tala jafnvel af lítilsvirðingu um fólkið sem tekur þátt í þeim, vinnur í stjórnmálaflokkum og býður sig fram í kosningum. Kannski veldur nokkru að menn hafa tekið í arf heimspekilegar hugmyndir frá Rousseau og fleirum um lýðveldi, almannavilja og stjórnmál þar sem alþýðan hefur frumkvæði og öll þjóðin ræður ráðum sínum sem hópur jafningja og kemst að sameiginlegum niðurstöðum. Veruleikinn í lýðræðisríkjum er auðvitað langt frá þessum draumórum. Þar er frumkvæðið oftast hjá stjórnmálaflokkum og leiðtogum þeirra og flestir taka engan annan þátt í stjórnmálum en þann að velja milli flokkanna á fjögurra ára fresti.

Það kitlar einhverja rómantíska stórmennskutaug að segja „heldur þann versta en þann næstbesta“ og mig grunar að sumir sem hallmæla lýðræðinu geri það vegna þess að það uppfyllir ekki drauminn um völd almannaviljans og getur því ekki verið nema næstbest. En rómantískt stórmennskubrjálæði er ekki það sem mannfólkið þarf mest á að halda og lítið vit að hafna því skásta sem við eigum völ á í raunveruleikanum þótt það sé ef til vill ekki nema næstbest ef stillt er upp öllu sem menn geta látið sig dreyma um. Með þessu er ég alls ekki að gera lítið úr mikilvægi þess að sem flestir taki þátt í stjórnmálum og almennir borgarar beri sameiginlega ábyrgð á samfélaginu. Lýðræði getur tæpast orðið mjög vel heppnað nema talsverður hluti almennings temji sér að hugsa pólitískt (þ.e. hugsa um hagsmuni heildarinnar) og láti sér annt um lýðræðið. Þess vegna er það áhyggjuefni ef mjög margir hafa vantrú á stjórnmálum og álíta það jafnvel fyrir neðan sína virðingu að taka þátt í þeim.

Enn eitt sem ég held að veiki tiltrú manna á lýðræðið er oftrú þeirra á ríkið. Æ fleiri tala eins og ríkið eigi að uppfylla allar mögulegar þarfir og bjarga fólki úr öllum hugsanlegum vandræðum. Í pistli frá 31. maí gerði ég dálítið grín að fyrirspurn eins þingmanns sem hann beindi til menntamálaráðherra. Hann spurði: „Hyggst ráðherra tryggja minnihlutahópum, þ.e. samkynhneigðum og innflytjendum, greiðari aðgang að íþróttaiðkun.“ Á bak við þetta virðist búa sú hugmynd að ríkið eigi að passa að allir geti stundað íþróttir eins og menn geti ekki iðkað þær sjálfir án þess að vera passaðir af ríkinu. Þegar menn gera ríkið að svona allsherjarbjargvætti er stutt í að þeir fari að líta á sig sem þiggjendur og neytendur þjónustu sem ríkið á að veita og fórnarlömb ef þeir fá ekki allt sem þeim finnst þeir þurfa. Það má orða þetta svo að trúin á allsherjarbjargvætt ali á ábyrgðarleysi sem grefur undan lýðræðinu. Ef manni finnst að ríkið eigi að sjá um allt og alla þá þykir honum varla ástæða til að hann sjálfur leggi á sig mikið erfiði í annarra þágu.

3. júní: Raunir Framsóknarflokksins
Í dagblöðunum í dag eru vangaveltur um að Halldór Ásgrímsson ætli að segja af sér sem formaður Framsóknarflokksins. Ég veit auðvitað ekkert hvað er til í þessu en hitt þykist ég vita að flokkurinn eigi varla mikla framtíð fyrir sér með formann sem hefur aðallega áhuga á að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Það er ekki líklegt að kjósendur sem álíta sig miðjumenn í stjórnmálum og vilja komast inn í Evrópusambandið fari að kjósa Framsóknarflokkinn þótt formaðurinn tali eins og Samfylkingarmaður (þeir kjósendur halda sjálfsagt bara áfram að kjósa Samfylkinguna). Hins vegar er fremur sennilegt að þeir sem fylgja byggðastefnu og bændapólitík af því tagi sem Framsóknarflokkurinn hefur lengst af stutt snúi baki við flokknum þegar forystan er augljóslega klofin í jafnmikilvægu máli og því hvort sækja beri um aðild að Sambandinu. Ætli raunir Framsóknarflokksins stafi ekki meira af því að formaður heldur fram stefnu sem varaformaður og þorri flokksmanna er á móti en af því að flokkurinn hefur verið í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í landsmálum (eða vinstri flokkana í Reykjavík ef út í það er farið)?