Atli Harðarson
Af vefnum - september, október, nóvember og desember 2006

31. desember: Bakkynjur í Þjóðleikhúsinu
Á fimmtudagskvöldið síðasta sá ég Bakkynjurnar eftir Evrípídes í Þjóðleikhúsinu. Ég varð fyrir vonbrigðum með þessa sýningu. Hún var of langdregin, óhemjugangurinn á sviðinu yfirskyggði textann og það var erfitt að sjá að uppfærslan fæli í sér neina túlkun á leikritinu.

Texti Evrípídesar (sem ég hef bara lesið í þýðingu Helga Hálfdanarsonar) er magnaður og býður upp á margvíslegar pælingar um vímu og trylling sem höfuðskepnur eða goð, baráttu mannsins við eigin óhemjuskap og möguleika yfirvalda á að stjórna hegðun fólks.

Söguþráðurinn er á þá leið að nýr guð sem gengur undir nöfnunum Díonýsos, Bakkos, Brómíos og Diþýrambos kemur til Þebu í ríki Penþeifs konungs. Þetta er guð víns og vímu. Í leikritinu eru skoðaðar ýmsar birtingarmyndir hans í mannlífinu sem sumar eru góðar en sumar fela í sér sturlun og eyðileggingu. Í fylgd með honum eru konur, bakkynjur, sem blóta hann með ærslum og óhemjuskap. Penþeifi konungi líkar þetta ekki og neitar að viðurkenna að þessi gestur sé guðlegrar náttúru. Hann fer þannig í stríð við máttarvöldin sem endar með því að bakkynjur rífa hann í tætlur.

Fyrir flokki bakkynja fer Agava, sem er móðir Penþeifs og móðursystir Díonýsosar, en Seifur átti hann með mennskri konu, Semelu. Í æði vímunnar drepur hún son sinn án þess að gera sér neina grein fyrir hvað hún er að gera. Undir lok leikritsins rennur þó af henni og hún stendur harmi slegin yfir sundurtættu líki Penþeifs. Konungshöllin er þá hrunin og Díonýsos hefur spáð fyrir um skelfileg örlög Kaðmosar. Stríðið gegn vímunni hefur skapað meira böl en ærslin í bakkynjunum.

Í upphafi leikritsins ræðast þeir við öldungurinn Tíresías sem hefur spádómsgáfu og Kaðmos sem er faðir þeirra Semelu og Agövu. Kaðmos óttast að dóttursonur sinn sýni ofmetnað með því að ætla að etja kappi við guðinn nýja og gömlu mennirnir telja farsælla að sýna honum hæfilega auðmýkt og virðingu þótt trylltur sé.

Eins og ég skildi leikritið þegar ég las það var Penþeifur vænsti maður sem líkaði illa að trylltar konur létu eins og óhemjur og færu um ríkið með ránum og eyðileggingu. Þetta er jú harmleikur og í slíkum bókmenntum glepjast góðir menn til að fara á einhvern hátt yfirmörkin og það verður þeim að falli. Harmsöguleg misgjörð Penþeifs var að viðurkenna ekki að höfuðskepnurnar mega sín meira en vesæll maður og reyna að bæla niður öll áhrif vínguðsins.

Í sviðsetningu Þjóðleikhússins er Penþeofur gerður að hálfgerðum rudda og bjána sem mígur á spámanninn Tíresías og ber enga virðingu fyrir neinu. Það er ekki neinn harmleikur þegar illa fer fyrir slíkum mönnum. Einu persónurnar sem virka tragískar eru Kaðmos og Agava. Þetta, ásamt allt of langdregnum óhemjugangi í bakkynjunum, skemmir uppfærsluna.

Þegar textinn er lesin blasa við tækifæri til að tengja þetta 2400 ára gamla leikrit við áleitnar spurningar um stríð yfirvalda gegn eiturlyfjum, tengsl vímu og sköpunar og hvernig menn eigi að taka eyðingaröflum sem þeir ráða ekki við. Ég gat ekki séð að nein þessara tækifæra væru notuð. Í staðinn var reynt að krydda sýninguna með því að láta kónginn, sem Ólafur Darri Ólafsson leikur, fara úr öllum fötunum. Uppfærslan vék á margan hátt frá því sem líklegt er að hafi tíðkast í forngrísku leikhúsi en þessi frávik voru ekki nýtt á neinn hátt til að tengja efnið nútímanum. Þau voru til þess eins fallin að gera uppfærsluna gróteskari en hæfir textanum.

30. desember: Eiturlyfjasalinn sem ber synd heimsins
Í forystugrein Morgunblaðsins í dag er fjallað um viðleitni yfirvalda til að stöðva smygl á fíkniefnum til landsins. Þar segir: „Taka þarf með fullum þunga á þeim sem smygla eiturlyfjum inn í landið og hagnast á eymd annarra. Það má hins vegar ekki gleyma því að eiturlyfjasjúklingarnir eru fórnarlömb og það er lykilatriði að kapp verði lagt á að opna þeim dyrnar út úr heimi eiturlyfjanna en ekki bæta harðri refsingu ofan á þá erfiðleika sem fyrir eru.“

Þetta má kannski til sanns vegar færa. En ég held að á bak við þessi orð sé líka góður slatti af lygi og blekkingu. Í okkar allsnægtasamfélagi er mikið um óhóf og taumleysi. Auðvitað bera þeir talsverða sök á þessu sem reka spilavíti, halda úti vanabindandi tölvuleikjum á netinu, selja tóbak, áfengi og önnur fíkniefni og ýta á alla þessa takka í mannshuganum sem gangsetja áráttukennda hegðun, fíkn, ólán og öfgar. En það er ekki stórmannlegt að hlaða allri ábyrgðinni á herðar smyglara, sem trúlega eru upp til hópa fastir í einhverri fíkn eða áráttu sjálfir.

Það er siðferðilegur smásálarskapur að kenna smyglurum einum um fíkn í eiturefni og heimta að þeir séu beittir æ harðari refsingum. Það er líka blekking að halda að neytandinn sé bara saklaust fórnarlamb. Sá sem ákveður að prófa fíkniefni er ekkert alsaklaus. Hann má vel vita að athæfi hans getur haft slæmar afleiðingar fyrir hann sjálfan, vini hans og vandamenn. Ákvörðun um að hætta eigin velferð og heilsu er ekki siðferðilega hlutlaus. Hún er í mörgum tilvikum einfaldlega röng og vítaverð.

Að halda því fram að öll sökin sé hjá sölumönnunum er til þess eins fallið að afsaka kaupandann, hjálpa honum að viðhalda þeirri blekkingu að hann geri ekkert rangt þegar hann stígur sín fyrstu spor á óheillabraut. Sennilega verða eiturlyf til sölu svo lengi sem fólk vill kaupa þau. Harðar refsingar virðast ekki duga. Að minnsta kosti bendir reynslan í Bandaríkjunum og öðrum löndum þar sem gengið er mjög langt í að refsa fíkniefnasölum ekki til þess. Gæti ekki verið betra ráð að minna fólk á að hver og einn ber ábyrgð á sjálfum sér og það er rangt að spilla vísvitandi eigin lífi þannig að maður verði sér og öðrum til ama og tjóns.

Frasar eins og lesa mátti í forystugrein Morgunblaðsins í morgun eru ósköp þægilegir, t.d. fyrir þá sem drekka sjálfir frá sér allt vit á gamlárskvöld og láta eins og fífl að börnum sínum ásjáandi. Það er svo auðvelt fyrir slíka menn að bregðast við fíkniefnavanda unglinga með því að hlaða allri ábyrgð á herðar einhverra sem eru nógu fjarlægir til að hægt sé að líta á þá sem ómenni hrein og klár. Á síðustu árum hafa þeir sem dreifa hassi, amfetamíni og öðrum ólöglegum efnum fengið þetta hlutverk. Þeir eru burðardýr í fleiri en einni merkingu, því þeim er nánast ætlað er bera synd heimsins, og veita um leið öðrum afsökun fyrir að fría sig allri ábyrgð.

Ég ætla ekki að mæla með því að neytendum fíkniefna verði refsað með fangelsisvist. En mér finnst ástæða til að mæla gegn því að sölumenn eiturlyfja fái mun þyngri dóma en menn fá fyrir enn alvarlegri brot. Sjálfur vildi ég t.d. miklu frekar verða fyrir því að einhver byði mér ólyfjan til sölu en að fá bíl á 120 km hraða inn í hliðina á mínum. Við fyrrnefnda glæpamanninn gæti ég sagt „nei takk“ og sloppið þannig frá honum en það væri erfiðara að verjast þeim síðarnefnda.

20. desember: Framboðsvefur Bjarna
Ég vek athygli á því að Bjarni bróðir minn hefur opnað vef (http://www.bjarnihardar.is/) til að kynna framboð sitt í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Ég hef aðeins atkvæðisrétt í Norðvesturkjördæmi og get því ekki stutt hann, en sem Sjálfstæðismanni finnst mér nú illskárra að kjósa Framsókn en Árna Johnsen og mundi því líklega kjósa lista með Guðna og Bjarna frekar en þann sem Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi hafa stillt upp.

10. desember: Er kominn tími til að stofna sparsama íhaldsflokkinn?
Sérfræðingar hjá vegagerð ríkisins nota eftir því sem ég best veit vel grundaða staðla og vísindalega mælikvarða til að áætla hvað vegir anna mikilli umferð. Fyrir nokkru birtu þeir niðurstöður þess efnis að þríbreiður vegur dygði fyrir umferðina milli Reykjavíkur og Selfoss. Nú keppast stjórnmálamenn við að lofa margfalt dýrari framkvæmdum. Þetta lítur út fyrir að vera álíka galið og ef skólamenn segðu að það vantaði milljarð til að bæta einhverja þjónustu við nemendur og stjórnmálamenn úr öllum flokkum flýttu sér að bjóða betur og kjafta kostnaðinn upp í 10 milljarða eða ef læknar segðu að það vantaði nýjan spítala og stjórnmálamenn krefðust þess hver í kapp við annan að byggðir yrðu tveir.

Undanfarin ár hafa ríkisútgjöld ekki bara hækkað í takt við hagvöxtinn heldur gott betur og orðið sífellt hærra hlutfall af þjóðarframleiðslunni. Ég hélt einu sinni að Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrir hófsemi í umsvifum hins opinbera en annað hvort misskildi ég eitthvað eða flokkurinn hefur villst af réttri leið. Nú beita forystumenn hans sér fyrir byggingu tónlistarhúss í Reykjavík sem þætti dýrt í milljón manna borg og þeir sitja í ríkisstjórn sem lætur byggja reiðhallir út um hvippinn og hvappinn fyrir opinbert fé. Tónlistarhúsið minnir að því leyti á veginn austur á Selfoss að upphaflegar kostnaðaráætlanir voru ekkert mjög glæfralegar. En við hverja umræðu tvöfaldaðist verðið, mest vegna þess að stjórnmálamenn kepptust við að bjóða betur.

Nú vil ég ekki að þessi skrif verði skilin á þann veg að ég sé á móti öllum ríkisútgjöldum. Ég vinn sjálfur hjá ríkisreknum framhaldsskóla og vil auðvitað ekki að hann sé í fjársvelti og mér finnst stundum ansi naumt skammtað þegar fé er úthlutað til að styðja þroskahefta og aðra sem ekki geta séð sér farborða af eigin rammleik. En þegar ég heyri menn sem teljast í fararbroddi í Sjálfstæðisflokknum kjafta útgjöld milljarða fram yfir það sem dómbærir menn álíta nauðsynlegt veit ég hreint ekki hvort ég á samleið með honum og dettur í hug að það þyrfti að vera til hófsamari og sparsamari hægriflokkur fyrir okkur sem minnumst þess, a.m.k. svona við og við, að skömm er óhófs ævi.

Þótt ríkisfjármálin séu í þokkalegu lagi hér á landi er full ástæða til að fara varlega í að margfalda kostnað við vegagerð og aðrar opinberar framkvæmdir. Eyðslusemi opinberra aðila, hvort sem um er að ræða ríki eða sveitarfélög sem skuldsetja sig langt fram í tímann með framkvæmdum á borð við yfirbyggða knattspyrnuvelli, á sinn þátt í því að ýta undir almennan glannaskap í fjármálum. Hætt er við að slíkur glannaskapur komi mönnum í koll ef dregur úr hagvexti eða harðnar á dalnum.

Þeir sem tala fyrir dýrari vegum en þörf er fyrir telja sig kannski ekki í flokki með þeim sem byggja reiðhallir fyrir peninga sem almenningur borgar í skatta. Þeir halda kannski að hægt sé að koma í veg fyrir umferðarslys með því að hafa vegina nógu dýra. Vel má vera að slys séu eitthvað færri á fjórbreiðum vegi en þríbreiðum. En ég efast um að það muni miklu. Sum verstu slysin hafa orðið vegna þess að menn aka allt of hratt og ég hef enga trú á að margir hægi á sér við að fá breiðari veg. Hitt er miklu sennilegra að sú vitleysa að aka á 120 kílómetra hraða sé afbrigði af sama tryllingi og birtist líka í óhófi og eyðslusemi og því að þykja ekkert nógu fínt eða nógu dýrt.

2. desember: Vistvæn og náttúruleg kjarnorka
Síðasta miðvikudag flutti Þorsteinn Hannesson eðlisfræðingur erindi hjá Rótarýklúbbi Akraness og fjallaði um virkjun sólarljóss til raforkuframleiðslu. Hann útskýrði eðlisfræðina sem notuð er til að smíða sólarsellur, þ.e. hálfleiðaraþynnur sem framleiða straum þegar sólin skín á þær. Í máli hans kom fram að með þessari tækni er mögulegt að umbreyta um 20% af orku sólarljóssins í raforku. Hægt mun að ná eitthvað betri nýtingu með því að láta sólina skína á fleygbogalaga spegla sem varpa ljósinu í brennipunkt þar sem það getur t.d. hitað vatn og skapað þannig gufuþrýsting og knúið rafal.

Bein virkjun sólarorku hentar vel til að framleiða takmarkað magn raforku til staðbundinna nota á sólríkum stöðum. En það má einu gilda hvaða aðferð er notuð, jafnvel á sólríkustu stöðum þarf að leggja mikil landflæmi undir sólvirkjun ef hún á að framleiða raforku sem dugar heilli borg eða orkufrekum iðnaði.

Stærstur hluti af raforkuframleiðslu heimsins fer fram í rafstöðvum sem eru kynntar með jarðefnaeldsneyti, einkum kolum. Lengi hafa menn óttast að þetta eldsneyti gangi til þurrðar og á seinni árum hafa bæst við áhyggjur af hve brennsla þess veldur mikilli aukningu á koltvísýringi í andrúmsloftinu sem getur haft óheillavænleg áhrif á veðurfar. Víða um lönd leita menn því leiða til að framleiða rafmagn með öðrum hætti. Kostirnir eru nokkrir: Það er hægt að nýta sólarorku beint, eins og nefnt hefur verið og Þorsteinn fjallaði um í erindi sínu; Það er hægt að nýta hana óbeint t.d. með því að virkja vinda og fallvötn. Allar þessar aðferðir hafa sína galla. Sólvirkjanir og vindmyllur taka óhemju landflæmi og virkjanir á fallvötnum munu varla duga til að uppfylla nema lítinn hluta af orkuþörf jarðarbúa.

Auk þess sem hægt er að virkja sólarorku beint eða óbeint er mögulegt að nota kjarnorku. Gallin við hana er hættan á mjög alvarlegum slysum og geislavirkur úrgangur sem safnast upp í kjarnorkuverum.

Er þá engin vistvæn leið til að sjá mannkyninu fyrir raforku til frambúðar? Ég veit það ekki. En mér dettur í hug að það mætti virkja hitann í iðrum jarðar. Hann er náttúruleg kjarnorka, því jörðin helst, að mér skilst, heit hið innra vegna niðurbrots geislavirkra efna. Hér á landi er þessi náttúrulega og vistvæna kjarnorka nýtt á jarðhitasvæðum. En þótt farið sé út fyrir jarðhitasvæði er hægt að komast í hita með því að bora nógu djúpa holu. Hljóta menn ekki einhvern tíma að prófa þetta: Að bora nokkra kílómetra niður í jörðina, dæla sjó ofan í holuna og fá upp heita gufu undir þrýstingi. Slík virkjun tekur lítið landrými og veldur líklega óverulegum umhverfisspjöllum.

25. nóvember: The Trouble with Physics eftir Lee Smolin
Ein þeirra bóka sem ég hef lesið síðustu vikur fjallar um sögu eðlisfræðinnar undanfarin 30 ár. Hún heitir The Trouble with Physics og er eftir Lee Smolin (Houghton Mifflin Company, Boston, 2006). Höfundur vinnur að rannsóknum í eðlisfræði við The Perimeter Institute for Theoretical Physics í Kanada. Sagan sem hann segir fjallar um vísindi í vanda.

Fram á áttunda áratug síðustu aldar hafði saga eðlisfræðinnar verið samfelld sigurganga um aldir. Á hverjum áratug höfðu eðlisfræðingar svipt hulunni af nýjum leyndardómum og fundið betri og dýpri skýringar á hegðun öreinda og stjörnukerfa og alls þar á milli. En síðustu 30 árin hefur mest orka farið í að móta kenningar sem kenndar eru við strengi eða strengjafræði. Ef lýsing Smolin er rétt svífa þessar kenningar allar í lausu lofti því engar tilraunir, mælingar eða empirísk gögn geta stutt þær eða hrakið.

Á fyrstu áratugum síðustu aldar urðu tvær byltingar í eðlisfræði. Önnur er kennd við Einstein (þótt hann hafi átt þátt í þeim báðum) og afstæðiskenninguna sem fól í sér nýjan skilning á tíma og rúmi, himingeimnum og þyngdaraflinu. Hin er skammtafræðin sem færði mönnum nýja sýn á heim hins örsmáa, frumeindir og öreindir. Afstæðiskenningin og skammtafræðin hafa síðan undirgengist ótal próf og þær koma heim við veruleikann og eru nýtilegar til að grundvalla tækni (hvort sem það er kjarnorka eða örgjörvi í tölvu). En þessar kenningar eru samt ekki lausar við vandamál. Þær vekja spurningar sem þær geta ekki svarað og passa illa hvor við aðra. Þess vegna hafa eðlisfræðingar leitað að yfirgripsmeiri kenningum sem sameina sannleikann í þeim báðum.

Síðasti stóráfanginn í sögu eðlisfræðinnar var fyrir um þrjátíu árum þegar tókst að gera með samræmdum hætti grein fyrir þrem af þeim fjórum gerðum krafta sem eru að verki í veröldinni. Þessir kraftar eru: Sterki kjarnakraftur og veiki kjarnakraftur, sem eru að verki innan frumeindakjarna; rafsegulkraftur, sem veldur mestu um hvernig frumeindir verka hver á aðra; og þyngdarkraftur, sem mest áhrif hefur á gang himintungla. Þeir þrenns konar kraftar sem tókst að sameina eru þeir fyrsttöldu. Þeir eru á sviði skammtafræðinnar. Þyngdarkrafturinn er öðru vísi og fellur ekki undir kenninguna.

Strengjafræðin, sem hefur verið aðalvettvangur þeirra sem reynt hafa að nema ný lönd í eðlisfræði undanfarna áratugi, var upphaflega tilgáta um hvernig hægt væri að gera samræmda grein fyrir öllum kröftum sem að verki eru í náttúrunni, þyngdarkraftinum líka. Hún notar býsna flókin hugtök og er torskilin. Til að hugmyndirnar gangi upp þarf að gera ráð fyrir að rúmið hafi miklu fleiri víddir en þær þrjár sem við skynjum og til að skýra hvernig á því stendur að þær eru flestar ósýnilegar er gert ráð fyrir að þær séu næfurþunnar (svo þrívídd sé sæmileg nálgun rétt eins og það er sæmileg nálgun að kalla þunnt blað tvívítt þótt það sé í raun þrívítt því það hefur jú einhverja þykkt þótt lítil sé).

Smolin rekur sögu strengjafræðinnar í talsverðum smáatriðum á nokkur hundruð blaðsíðum og fullyrðir að hún sé mest stærðfræðilegir loftfimleikar sem engin leið sé að skera úr um hvort samsvari neinum veruleika. Hann útilokar ekki að einhver kenning í þessa veru kunni að vera sönn en gagnrýnir vísindasamfélagið fyrir að beina mestallri orku eðlisfræðinga að kenningasmíð á einu sviði og slá af kröfum um empirískar prófanir.

Eftir að hafa sagt þessa miklu sögu (sem er ótrúlega spennandi og skemmtileg þótt hún fjalli um efni sem er ekki beint aðgengilegt) snýr höfundur sér að félagsfræðilegum pælingum um vísindasamfélagið og þær eru ansi athyglisverðar. Það er engin leið að gera þeim nein skil í stuttu máli en meðal tilgáta sem hann setur fram er að með mikilli fjölgun langskólagenginna manna á seinni hluta tuttugustu aldar hafi samkeppni um styrki og stöður við háskóla og rannsóknarstofnanir harðnað og vísindasamfélagið breyst á þann hátt að þeir sem ætla sér frama, t.d. í eðlisfræði, taki of mikla áhættu ef þeir víkja frá ríkjandi tísku í faginu eða fara sínar eigin leiðir og rekast illa í hópi. Við þetta hafi rannsóknarstarf orðið einsleitara þrátt fyrir að þeim sem sinna því hafi fjölgað. Þetta valdi stöðnun því framfarir verði helst þegar margar ólíkar hugmyndir komast á kreik og fá að takast á.

18. nóvember: Þrjár bækur
Góðar bækur þarf stundum að lesa hægt og lesa oftar en einu sinni. Það er gott að blaða í a.m.k. einni svoleiðis bók á hverjum degi. Undanfarnar vikur hefur Úrval kvæða og ritgerða eftir Jóhannes úr Kötlum (Mál og menning 1992) legið á náttborðinu hjá mér og ég hef lesið nokkur ljóð úr þeirri bók fyrir svefninn.

Jóhannes sá heiminn í ljósi sem nú lýsir fáum og kannski engum á rétta leið. En hann orti vel og af einverri sérstakri einlægni og góðvild. Hann var laus við kaldhæðnina og allt það upplýsta úrræðaleysi og tómahljóð sem heyrist svo víða.

Mörg hans bestu ljóð eru ort án þess að hirða um stuðla og rím sem hann líkti við fjötra og helsi í ljóðinu Rímþjóð. Það birtist í Sjödægru árið 1955. Þar segir hann frá skáldskap þjóðarinnar:

Í sléttubönd vatnsfelld og stöguð
hún þrautpíndan metnað sinn lagði
í stuðla hún klauf sína þrá
við höfuðstaf gekk hún til sauða.

Því rýrari verður í aski
því dýrari háttur á tungu:
við neistann frá eddunnar glóð
hún smíðaði lykil úr hlekknum.

Loks opnaðist veröldin mikla
og huldan steig frjáls fram úr dalnum
– þá sökk hennar rím eins og steinn
með okinu niður í hafið.

Samt var Jóhannes manna orðhagastur og leikni hans með gamla bragarhætti skipar honum í flokk með Þorsteini Erlingssyni og Páli Ólafssyni. Hér er eitt dæmi úr ljóðabókinni Sól tér sortna frá árinu 1945:

Þegar ég horfi í þessi augu þýð og fögur,
finnst mér eins og láð og lögur
leysist upp í kvæði og sögur.

Þótt Jóhannes væri formbyltingarmaður, menningarviti og róttæklingur voru ljóð hans við alþýðuskap og sumt af því sem hann orti fyrir börn, t.d. um Grýlu, Leppalúða, Jólaköttinn og jólasveinana tollir á vinsældalistum áratug eftir áratug.

*

Samhliða Jóhannesi hef ég verið að lesa um annan listamann, einu ári yngri. Þetta er Louis Armstrong. Allmargir hafa ritað um hann. Ein bók sem ég hef nýlokið við og þótti góð er Satchmo eftir Gary Giddins (Da Capo Press 2001).

Armstrong fæddist í New Orleans árið 1900. Hann ólst upp af einstæðri móður við basl og fátækt innan um hórur, róna og svarta utangarðsmenn og fékk að kenna á ranglætinu sem blökkumenn í Louisiana máttu þola. En einhvern veginn óx hann yfir þessar erfiðu aðstæður og varð áhrifamesti tónlistarmaður síðustu aldar. Eins og hjá Jóhannesi var einlægnin og góðvildin grunntónn í list Armstrongs og eins og Jóhannes var hann í senn formbyltingamaður og alþýðuskáld og samúð hans var alltaf með lágstéttinni og lítilmagnanum. En lengra nær samjöfnuðurinn varla. Þeir voru úr ólíkum heimum.

Það er merkilegt að lesa um Louis, hvað hann hafði mikil áhrif á jazz og alþýðutónlist síðustu aldar, hvað aðrir frumkvöðlar eins og Miles Davis lærðu margt af honum og hvað hann átti drjúgan þátt í að kenna heiminum að meta tónlist amerískra blökkumanna.

Menningarvitar sem töldu sig yfir það hafna að keppa um sæti á vinsældalistum áttu í hálfgerðum vandræðum með að átta sig á Louis Armstrong. Hann var alltaf að spila fyrir alþýðuna en ruddi samt brautina fyrir nýjar stefnur og tilraunir í tónlist.

Sala á hljómplötum hans hafði skilað ríflegum tekjum um áratugaskeið þegar hann eignaðist fyrst þak yfir höfuðið í alþýðlegu borgarhverfi í New York. Fram að því hafði hann lifað á ferðalögum og oft sofið í bíl á leið milli tónleikastaða. Hann var auðugur maður á efri árum, en bjó samt í þessu sama húsi til æviloka og notaði peningana sína til að hjálpa öðrum frekar en að lifa sjálfur íburðarmiklu lífi.

*

Enn ein bók sem ég hef verið að lesa síðustu vikuna er Hversdagsheimspeki eftir Róbert Jack (Háskólaútgáfan 2006). Hún fjallar um hvort og þá hvernig heimspeki geti hjálpað mönnum að lifa vel.

Varla þarf að taka það fram að mestur hluti af skólaheimspeki nútímans snýst um það helst að greina rökflækjur, finna mótsagnir, skilja flókin fræði. Að þessu leyti er hún ólík heimspeki fornaldar sem snerist bæði um að öðlast skilning á tilverunni og átta sig á hvernig best sé að lifa í ljósi þess skilnings. Þetta á við um Stóuspeki, Epíkurisma, Pyrrhonisma og stefnu Hundingja jafnt sem heimspeki brautryðjendanna Sókratesar, Platons og Aristótelesar. Hún var samofin listinni að lifa og átti í senn að veita mönnum fræðilegan skilning og kenna þeim lífsleikni.

Róbert segir frá tilraunum nútímaheimspekinga til að endurvekja þennan forna skilning á hlutverki heimspekinnar og nota hana til að ná tökum á eigin tilveru. Þetta eru merkilegar tilraunir og þarfar og vinna vonandi gegn þeirri tilhneigingu sem er áberandi nú um stundir að gera aðeins strangar vitsmunalegar kröfur til þeirra sem halda fram kenningum um hvernig heimurinn er en láta sem engum rökum verði við komið þegar rætt er um hvernig lífinu verður best lifað, þar séu allar skoðanir jafngóðar og jafnréttar og nánast móðgun við menn að krefja þá svara um lífsstefnu sína, gildismat og skoðanir á mannlífinu.

11. nóvember: Fjölskyldupólitík, íhaldssemi og kirkja Péturs postula
Hef verið að hnoða saman fyrirlestur um hjónabönd samkynhneigðra, eða öllu heldur hvers vegna sumum er illa við að hommar og lesbíur fái að giftast eins og annað fólk. Eftir að ég fór að hugsa um þetta efni hefur smám saman runnið upp fyrir mér að sú íhaldssemi sem helst á hljómgrunn hjá fólki nú til dags snýst að mestu leyti um að halda í mynd af heimilislífi sem mótaðist í akuryrkjusamfélagi, þar sem fjölskyldan var allt í senn fyrirtæki sem annaðist mestalla framleiðslu, velferðarkerfi og uppeldis- og menntastofnun. Í þessu gamla samfélagi voru valdakerfi innan fjölskyldunnar líklega mikilvæg fyrir efnahagslífið á svipaðan hátt og valdakerfi innan fyrirtækja eru nú á tímum.

Andstaða gegn hjónaböndum samkynhneigðra er grein af sama meiði og andóf gegn þéttbýlismyndun, kvenréttindum, skólaskyldu, markaðsvæðingu og vexti velferðarkerfa. Allt þetta hróflar við ímynd manna af heimilislífi sem ættuð er úr gamla fjölskyldusamfélaginu. Þessi mynd virðist eiga sterk ítök í hugum margra. Á sínum tíma voru hugmyndir um ríkið og stjórnmálin mótaðar eftir henni. Kóngurinn var eins konar fjölskyldufaðir, ríkið var óðal hans og þegnarnir hjú.

Í nútímasamfélagi eru fyrirtæki undristaða efnahagslífsins og við líkjum ríkinu í vaxandi mæli við fyrirtæki þar sem þegnarnir eru hluthafar og forsætisráðherrann framkvæmdastjóri. Þessar tvær líkingar eru ekki þær einu sem mótað hafa hugmyndir nútímamanna um ríkið og samfélagið. Mynd Rousseau og annarra lýðveldissinna af ríkinu sem bræðralagi, herflokki eða liðsheild jafningja sem treysta á liðveislu hver annars á líka ítök í hugum margra. Svona ímyndir eru auðvitað meira og minna ósannar. Ríkið er ekki óðal og ekki vinahópur og ekki heldur fyrirtæki. En ósannindi geta verið áhrifamikil ekkert síður en sannindi.

Ég skrifaði lesturinn, sem ég ætla að flytja í næstu viku, að mestu leyti á leið til Rómar og til baka en þangað fór ég á þing ESHA (European School Heads Association) sem haldið var fyrir viku síðan. Fór vel á því að nota suðurgöngu til að skrifa um íhaldsstefnu með trúarlegu ívafi og tilraunir til að halda í fjölskylduskipan úr eldra hagkerfi, því höfuðvígi þessara hugmynda er á vesturbakka Tíber þar sem Vatíkanið er og kirkja Péturs postula. Þangað kom ég fyrir átta dögum og sá nokkuð af þeim dýrlegu listaverkum eftir Michelangelo og Rafael sem varðveitt eru í söfnum páfans.

 

Þótti mér mikil upplifun að sjá fresku Rafales af skólanum í Aþenu (sem er mynd af hér að ofan) og ekki síður merkilegt að ganga um gólf Péturskirkjunnar, þótt ég efist um að hún sé alveg í anda Símonar Jónassonar sem Kristur kallaði pétur eða klett. Hann var fátækur fiskikarl og trúlega einföld sál sem sneri sér að mannaveiðum fyrir meistara sinn og var drepinn fyrir þá iðju vestur í Róm. Ekkert bendir til að hann hafi haft áhuga á gulli og gersemum, skrauti og prjáli af því tagi sem hrúgað hefur verið upp í kirkju hans og ef hann væri uppi nú á dögum er afar ósennilegt að hann ætti mikla samleið með þeim íhaldsöflum sem ráða fyrir páfagarði. En það er önnur saga.

Ítalía er annars undarlegt samfélag. Þar virðist allt í handaskolum, allir að flýta sér og samt allir of seinir. Ef maður biður um kaffibolla á bar byrja 5 konur á háhæluðum skóm að hringsnúast hver í kringum aðra með miklu málæði á gólfi innan við skenkinn sem er svona á stærð við meðalstólsetu. Maður veltir því fyrir sér hvort þær stingi ekki hælunum í gegnum ristarnar hver á annarri en fær svo á endanum sitt kaffi. Og það er betra enn annað kaffi og þrátt fyrir allt ruglið er osturinn hjá Ítölum líka betri en annar ostur og grappað betra en annað brennivín. Fötin í búðunum eru líka fallegri en önnur föt og fiskurinn meira að segja eins góður og á Skipaskaga. Þrátt fyrir ruglið gera þeir marga hluti ótrúlega vel. Hver veit nema íhaldssemi þeirra eigi sinn þátt í þessu. A.m.k. fær maður á tilfinninguna að virðingin fyrir gömlum hefðum valdi nokkru um hvað hægt er að fá góðan mat í Róm.

6. nóvember: Þrjár gátur

Þarna laugast mætti mund.
Mundi ríkis vera pund.
Stundum nefna halir hund.
Harla dáður alla stund.

Æðstu kónga auður var.
Orðatak segir þögn hjá manni.
Grani slíka byrði bar.
Bein af dýrum inni í ranni.

Slíka lind á þorna þorn.
Um þeirra drottin sögukorn.
Auði kenndur heims um horn.
Er höldur talinn æði forn.

21. október: Um fjárveitingar til framhaldsskóla – pólitískt forræði eða rekstrarleg ábyrgð
Þegar frumvarp til fjárlaga var lagt fram nú í haust lágu fyrir vandaðar spár um fjölda framhaldsskólanema á næsta ári. Þær gera ráð fyrir fjölgun. En þeir sem unnu frumvarpið vildu ekki hækka framlög til skólanna og því vantar um 300 milljónir upp á að fjárveitingar hækki í hlutfalli við hækkun verðlags og fjölgun nemenda.

Tilefni þessara skrifa er að mér þykir nokkuð undarlegt hvernig fara skal að því að reka skólakerfið fyrir minni peninga en það mundi kosta ef greitt yrði sama (að teknu tilliti til verðbólgu) fyrir hvern nemanda og nú er gert.

Sé ekki hægt að hækka framlög í samræmi við fjölgun nemenda er ein leið að neita að taka við fleirum og láta einhverja bíða eftir að komast í skóla eða borga fyrir sig sjálfir.

Einnig má hugsa sér að ríkið bjóði kennsluna út og sjái til hvað hægt er að kaupa skólavist handa mörgum fyrir þá upphæð sem er til ráðstöfunar. Sé þessi leið valin getur gerst að féð dugi ekki til að kaupa skólavist handa öllum sem æskja inngöngu.

Enn ein leið sem má hugsa sér til að bregðast við aukinni aðsókn án þess að hækka útgjöld ríkisins er að skerða þjónustu við nemendur eða láta þá borga skólagjöld.

Fjórða mögulega leiðin er að lækka einhver föst útgjöld. Fjármálaráðherra gæti t.d. reynt að ná hagstæðari samningum við kennara eða beitt sér fyrir að Fasteignir ríkisins lækki húsaleigu. Þessi leið er illfær, en stærðfræðilega gengur hún upp. Ef laun eða húsaleiga lækka þá lækkar rekstrarkostnaður.

Leiðirnar eru enn fleiri. Sú fimmta og síðasta sem ég nefni er að loka minnstu skólunum þar sem kennslan er dýrust. Eins og fjórða leiðin er þessi torfær og kannski ekki skynsamleg en samt möguleg í þeim skilningi að ef skóla þar sem kennsla hvers ársnemenda kostar 800.000 er lokað og nemendurnir sendir í skóla þar sem kennslan kostar 550.000 á mann er hægt að kenna fleirum fyrir sama fé.

Hér hafa verið nefndar fimm mismunandi leiðir sem ríkið getur farið ef ekki er hægt að auka útgjöld til skóla í takt við fjölgun umsækjenda um skólavist. Engin þeirra er valin. Það á bara að reka sömu skóla, á sama hátt, með óbreyttan fastan kostnað á nemanda og taka við öllum sem æskja inngöngu. Hvernig er þetta hægt?

Menntamálaráðuneytið notar reiknilíkan til að skipta fé milli framhaldsskóla. Það er safn af formúlum til að slumpa á hvað verknám er mikið dýrara en bóknám og hvað nám í litlum skóla er mikið dýrara en nám í stórum skóla o.s.fr. Þar sem helstu útgjöld skólanna eru í reynd ákveðin utan þeirra (af aðalkjarasamningi kennara við fjármálaráðherra og ýmsum ákvörðunum stjórnvalda) er nokkurn veginn hægt að reikna út hvað skólavist kostar. Skólastjórnendur hafa lítið svigrúm. Samt bera þeir (a.m.k. í orði kveðnu) ábyrgð á að skila hallalausum rekstri.

Í kringum fjárlagagerðina að þessu sinni var nokkrum stuðlum í reiknilíkaninu breytt til að fá út lægri upphæð á hvern nemanda en ekkert gert til að lækka kostnað í raun. Þetta er eins og ef ríkið færi eitt árið út í bakarí og keypti 10 snúða; uppgötvaði svo að það þyrfti 11 stykki á næsta ári en ætti ekki pening til að borga fyrir nema 10 og bjargaði málunum með því að skrifa neðanmálsgrein þar sem fullyrt væri að á næsta ári gæti bakarinn fengið ódýrara hveiti. Það er mikil bjartsýni að halda að aðferðir af þessu tagi dugi og mér finnst ótrúlegt að annað komi út úr þeim en rekstrarhalli hjá framhaldsskólunum á næsta ári.

Það er hægt að reka kapítalískt skólakerfi þar sem nemendur (eða yfirvöld) kaupa menntun af einkafyrirtækjum sem hafa frjálsar hendur um verðlagningu. Undir slíkum kringumstæðum getur gerst að peningar nemendanna (eða ríkisins) dugi ekki til að kaupa alla menntun sem hugurinn girnist. Ef ríkið kaupir menntun handa nemanda af sjálfstæðum skóla þá gerir það væntanlega tilteknar kröfur til skólans. Geti skólinn ekki orðið við kröfunum fyrir það verð sem býðst neitar hann væntanlega að taka við nemandanum. Alltént er rekstrarhallinn á ábyrgð skólastjórans og hann stendur eigendum reikningsskap ráðsmennsku sinnar ef féð sem fæst fyrir kennsluna dugar ekki til að standa við skuldbindingar skólans.

Það er líka hægt að reka sósíalískt skólakerfi þar sem pólitísk yfirvöld skipta takmörkuðum gæðum milli nemenda og setja reglur um hvað hver á að fá. Ef ekki eru til nógu miklir peningar þá gerist annað tveggja að nemendur fá minni þjónustu eða eytt er um efni fram og stjórnvöld reka ríkissjóð með halla. Í báðum tilvikum standa þau kjósendum reikningsskap ráðsmennsku sinnar.

Við ríkisrekna framhaldsskóla er gert ráð fyrir að skólameistari beri rekstrarlega ábyrgð og eigi að gæta þess að stofnun sé rekin án halla. Það er líka ætlast til að skólarnir þjóni pólitískum eða félagslegum markmiðum (eins og að allir geti fengið þá menntun sem þeir vilja óháð efnahag) og þjónusta þeirra sé verðlögð og þeim skammtað fé af pólitískum yfirvöldum. Í stuttu máli má segja að í framhaldsskólunum reyni ríkið að sameina alla kosti sósíalísks og kapítalísks rekstrar. En þetta er trúlega ekki hægt og útkoman verður að líkindum aldrei annað en blekkingar og plat eins og að setja færri krónur í fjárlög en skólarnir eru í reynd skikkaðir til að nota og skamma svo stjórnendur þeirra fyrir að eyða um efni fram. Það sem í raun réttri er falinn halli á fjárlögum er kallað halli á rekstri einstakra skóla og skólastjórum kennt um þótt pólitísk yfirvöld ættu að bera ábyrgðina.

Ég veit ekki hvort eða hvernig er hægt að láta pólitískt forræði samrýmast rekstrarlegri ábyrgð en þykist nokkuð viss um að fikt við reiknilíkan sé ekki rétta leiðin til þess.

15. október: Kaldastríðsdraugagangur
Grein Þórs Whitehead prófessors í sagnfræði við HÍ, sem birtist í nýjasta tölublaði Þjóðmála, hefur vakið upp nokkra gamla drauga úr kalda stríðinu. Í greininni rifjar Þór upp sögur um vopnaburð íslenskra kommúnista og tilraunir lögreglu til að fylgjast með þeim. Þessar afturgöngur hafa svo hvíslað sögum um njósnir og hlerun á talsíma. Magnaðasta sagan er e.t.v. sú sem Jón Baldvin Hannibalsson hefur sagt, en hann virðist álíta að sími sinn hafi verið hleraður þegar hann var utanríkisráðherra í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddsonar í byrjun tíunda áratugarins. Margt er harla óljóst í þeirri frásögn en skýrist vonandi á næstu dögum.

Nú veit ég ósköp lítið um vopnaburð róttæklinga fyrir 70 árum og enn minna um símalínur úr utanríkisráðuneytinu. En ég þykist vita ýmislegt um bókmenntir og mér sýnist að í umfjöllun um lögreglunjósnir og róttæklinga sem ógnuðu öryggi ríkisins blandist annars vegar saman staðreyndir og minningabrot og hins vegar tilraunir til að skipa þeim niður þannig að úr verði krassandi saga þar sem skúrkarnir eru virkilega útsmognir— aðeins hársbreidd frá því að fremja landráð og morð— og með einhverjum hætti tengdir valdatafli þar sem ekkert minna er í húfi en heill alls mannkyns.

Staðreyndir sem hægt er að fest hönd á eru ósköp fátæklegar. Fámennt og vanbúið lögreglulið að reyna að fylgjast með fremur lítilsigldum aðdáendum rússnesku byltingarinnar. Allt þetta fólk líklega að reyna að vinna landi sínu gagn en með dálítið ólíka sýn á hvað helst gagnist komandi kynslóðum. Þegar rýnt er í ævisögur einstaklinga sem koma við sögu verða tilraunir til að útmála þá sem illmenni, nánast ómennska djöfla, ekki mjög trúverðugar.

Á fyrri hluta síðustu aldar voru miklar öfgar í stjórnmálum Evrópu og kommúnistar og fasistar myrtu og kúguðu fólk af grimmd sem á vonandi fáa sína líka í mannkynssögunni. En það þarf að skrumskæla veruleikann hér á landi (og á hinum Norðurlöndunum) ansi mikið til að fella hann að vinstri og hægri öfgum í stjórnmálum Mið-, Suður- og Austur-Evrópu.

Hér voru Ólafur Thors (formaður Sjálfstæðisflokksins 1934-1961) og Brynjólfur Bjarnason (formaður Kommúnistaflokks Íslands 1930-1938) kunningjar og sátu saman sem ráðherrar í Nýsköpunarstjórninni 1944-1947. Þeir sem láta greinaskrif Þórs Whitehead ginna sig til að vekja upp kaldastríðsdrauga og tala digurbarkalega um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins (ef þeir eru í vinstra-liðinu) og landráð kommúnista (ef þeir eru í hægri-fylkingunni) ættu kannski að átta sig á því að „öfgarnar“ til hægri og vinstri hér á landi spönnuðu ekkert mikið stærra bil en frá Ólafi Thors til Brynjólfs Bjarnasonar.

Mönnum var vissulega oft heitt í hamsi og menn sögðu vissulega alls konar vitleysu og allmargir lýstu aðdáun á útlendum þjóðarleiðtogum sem voru í reynd morðingjar og illræðismenn. En þrátt fyrir allt þetta voru stjórnmálin hér að mestu innan þeirrar frjálslyndu og lýðræðislegu hefðar sem mótaðist í Danmörku og Noregi á 19. öld og við tókum í arf. Þessi hefð, sem rekja má aftur til fundar Norðmanna á Eiðsvelli 1814 og dönsku Júnístjórnarskrárinnar frá 1849, hefur verið, og er enn, helsta gæfa Norðurlandanna. Í öllu umrótinu á fyrri hluta 20. aldar reyndist þessi hefð sterkari, bæði hér á landi og á hinum Norðurlöndunum, heldur en allar öfgarnar og vitleysurnar sem óðu uppi sunnar í Evrópu. Hér tel ég ekki með hernámsárin í Noregi og Danmörku, því stjórn Þjóðverja í þessum löndum er ekki hluti af norrænni stjórnmálahefð. (Stutt grein um þessa hefð liggur hér frammi. Hún birtist upphaflega í Lesbók Morgunblaðsins 21. júní 2003.)

Þótt margt af því sem aðdáendur Hitlers og Stalíns hér á landi tóku sér í munn hafi verið heldur ógæfulegt var hegðun þeirra, þegar þeir tóku þátt í raunverulegum stjórnmálum, að mestu í anda danskrar frjálshyggju og mannúðarstefnu og ég held að það sé betra að skilja íslensk stjórnmál í ljósi þeirrar sögu heldur en út frá hugsunarhætti kalda stríðsins sem reynir að skipa öllum undir fána stórveldanna og gera þá samábyrga fyrir verstu hervirkjum þeirra.

8. október: Hrafntinna, silfurberg og valdalausir vinstrimenn
Nú á að hakka hrafntinnu úr Hrafntinnuskeri og silfurberg frá Austfjörðum til að gera við Þjóðminjasafnið. Væri ekki hægt að nota gler og leyfa þessum fallegu steintegundum að vera í friði. Ég get ekki ímyndað mér að það sé neinn verulegur útlitsmunur á svörtu gleri og hrafntinnu þegar búið er að mylja hvort tveggja og múra í vegg. Hins vegar er hrafntinna sérstakt augnayndi þar sem hún er á sínum stað í náttúrunni.

Ætli Ómar hafi snúið umræðunni um Karahnjúka við? Einhvern veginn virðist mér að fylgismenn Karahnjúkavirkjunar láti talsvert meira í sér heyra núna en áður, a.m.k. eru skrif þeirra nokkuð áberandi á síðum Morgunblaðsins þessa dagana. Hefur þorri fólks fengið sig fullsaddan af öfgunum og fimbulfambinu í virkjunarandstæðingum eftir að hafa heyrt bullið í Ómari Ragnarssyni og frétt um kröfugöngu þar sem heimtað var að byggð yrði í snatri ný virkjun á Þeystareykjum (og það væntanlega án margra ára rannsókna og umhverfismats) og rafmagn flutt þaðan til Reyðarfjarðar (með öllum þeim möstrum, staurum og vírum sem þarf)?

Hvernig á að skilja þessa kröfugöngu fyrir rúmri viku síðan þegar nokkur þúsund manns fylktu sér undir slagorð sem eru fullkomlega fráleit? Ég trúi því varla að allt þetta fólk vilji í alvöru láta Kárahnjúkavirkjun standa ónotaða og byggja í snatri aðra jafnöfluga virkjun. Kannski var fólkið að láta í ljós reiði og ergelsi án þess að það væri beinlínis og bókstaflega að taka undir hugmyndir Ómars. Kannski er skýringin að nokkru leyti langavarandi valdaleysi vinstrimanna og róttæklinga. Það er nokkuð til í því sem ég las einu sinni í pistli eftir Árna Bergmann að þótt vald spilli mönnum þá spillir valdaleysið þeim enn meir. Fyrir þá sem fylgja flokki eins og Alþýðubandalagið var og Vinstri Grænir eru núna hlýtur að vera ergilegt að hafa ekki komist í ríkisstjórn svona lengi og vera nú líka úti í kuldanum í flestum sveitarstjórnum. Kannski er æsingurinn yfir Kárahnjúkavirkjun ekki að öllu leyti út af þessari virkjun heldur öðrum þræði pirringur yfir að vera til hliðar í pólitíkinni og hafa lítil áhrif. Á árum Viðreisnarstjórnarinnar var svipaður æsingur yfir Álverinu í Straumsvík og hann var kannski af svipuðum rótum runninn.     

30. september: Heimsmet miðað við höfðatölu
Um daginn fóru nokkur þúsund manns í mótmælagöngu með Ómari Ragnarssyni. Þetta var allmikill viðburður. Næstu daga var imprað á því í blöðum að tíuþúsund manna mótmælasamkoma hér jafngilti tíumilljón manna mótmælasamkomu í Bandaríkjunum. Álíka fullyrðingar eru oft uppi þegar Íslendingar eigna sér heimsmet í þessu og hinu miðað við fólksfjölda.

Tal um heimsmet miðað við höfðatölu er óttalegt bull eins reyndar margur annar tölfræðilegur samanburður á fámennum þjóðum og fjölmennum. Íslendingar eru fámennir og eiga þess vegna mörg tölfræðileg heimsmet. En ef íbúum jarðar er ekki skipt eftir ríkjum heldur dreginn hringur á landakorti um hverja byggð sem telur þrjúhundruð þúsund manns þá eru flest þessi met líklega fokin. Það þarf ekki að kunna mikla tölfræði til að gera sér grein fyrir að fámennir hópar víkja fremur frá meðaltali en fjölmennir.

Meðalævilengd Íslendinga er meiri og ungbarnadauði minni en í flestum fjölmennum Evrópulöndum. Innan þeirra eru samt vafalítið til þrjúhundruð þúsund manna samfélög sem slá okkur við. Mér hefur verið sagt að Krítverjar verði t.d. eldri, en þeir teljast ekki sérstök þjóð heldur partur af Grikklandi og því höfum við betur í samanburðinum.

Tíuþusund manna mótmæli hér eru sambærileg við jafnfjölmenn mótmæli í þrjúhundruð þúsund manna borg í Bandaríkjunum og ef til vill sambærileg við tuttuguþúsund manna samkomu í sýslu með sexhundruð þúsund íbúa. En þegar þau eru borin saman við ímyndaða tíumilljón manna samkomu í þrjúhundruð milljón manna ríki er komið út í hreina vitleysu. Það er svona eins og ef fíflagangurinn í Ágústu Evu á Eurovision væri sagður jafngilda því að eittþúsund bandarískar leikkonur mættu allar á svið í einu og höguðu sér samtímis eins og skoffín.

23. september: Tímaritið Þjóðmál - fjölmenning og aðlögun
Í fyrra hóf göngu sína tímarit sem heitir Þjóðmál. Ritstjóri þess og ábyrgðarmaður er Jakob F. Ásgeirsson. Í nýjasta hefti (3. hefti, 2. árg.) sem kom út nú í vikunni er grein eftir mig um samkeppni framhaldsskóla. Hún liggur hér frammi.

Í athyglisverðri grein í þessu sama hefti fjallar Hjörtur J. Guðmundsson um innflytjendur og fjölmenningu. Greinin heitir Fjölmenning, aðlögun og deyjandi Evrópuþjóðir. Hjörtur bendir þar á að öfgafullri fjölmenningarhyggju fylgi sú hætta að innflytjendur einangrist: myndi lokað samfélag sem aldrei nær að aðlagast þjóðinni sem fyrir var í landinu. Vafalaust er mikið til í þessu. Mér finnst þó svolítið hæpið hvernig hann stillir fjölmenningu og aðlögun upp sem andstæðum, því þótt öfgafull áhersla á að innflytjendur haldi í menningu sína samrýmist illa aðlögun að nýju samfélagi er að mínu viti líklegt að hófsöm fjölmenningarhyggja greiði fyrir slíkri aðlögun.

Fyrir öld síðan fluttu allmargir Íslendingar til Bandaríkjanna og Kanada. Börn þessara vesturfara urðu flestir nýtir borgarar í nýja heiminum og aðlöguðust samfélaginu þar býsna vel. Samt lögðu Vestur-Íslendingar mikla rækt við mál og menningu sem þeir tóku með sér frá gamla landinu. Sama má segja um fólk af öðru þjóðerni sem hefur flutt vestur um haf. Það hefur í senn aðlagast og haldið í menningarleg sérkenni.

Þegar ég var í námi í Bandaríkjunum fyrir rúmlega 20 árum síðan bjó ég í borg sem heitir Providence og er rétt fyrir sunnan Boston. Stærstur hluti borgarbúa var af ítölskum ættum, afkomendur Ítala sem fluttu vestur um haf á fyrri hluta 20. aldar. Nokkuð stór hluti var líka frá Portúgal, en þeir höfðu komið seinna og voru margir nýfluttir. Ég kynntist því að margt roskið fólk frá Ítalíu talaði mest ítölsku sín á milli og kunni litla ensku. Í Portúgalahverfi rétt hjá götunni þar sem ég bjó voru bakarí og verslanir þar sem fólk talaði portúgölsku. Ég fór þangað alloft ásamt öðrum nemendum til að kaupa brauð og kökur því portúgölsku bakararnir framleiddu gott bakkelsi.

Þarna var auðvitað tortryggni milli þjóðarbrota og ég heyrði stundum talað illa um ítalska meirihlutann sem réð mestu í stjórnmálum borgarinnar. Sambúð „nýbúanna” frá Suður Evrópu og fólks af engilsaxneskum uppruna sem fyrir var í ríkinu var ekki alveg áfallalaus, en eftir því sem ég best veit var hún stóráfallalaus. Sama má segja um samskipti annarra þjóðarbrota þarna: frumbyggja af Narrangansett þjóðinni, Vestur-Svía, Gyðinga og blökkumanna sem ég hygg að hafi flestir verið aðfluttir frá Suðurríkjum Bandaríkjanna. Fyrst þetta fólk myndar í senn eina þjóð og margar þá er það hægt. Sé mögulegt að vera hvorttveggja í senn Portúgali og Bandaríkjamaður þá getur varla verið neitt ómögulegt vera bæði Pólverji og Íslendingur.

Þeim sem hugsa um málefni innflytjenda á Íslandi væri e.t.v. nær að skoða hvernig Ameríkanar fara að þessu en að elta einhverja evrópska umræðu sem sveiflast milli öfgafullrar fjölmenningarhyggju og einstrengingslegrar kröfu um algera aðlögun. Það er auðvitað fjarstæða (fjölmenningaröfgar) að hópur múslima sem flytur til Evrópu geti látið saría-lög gilda í sínum nýju heimkynnum. Það er líka fjarstæða að heimta að fullorðið fólk sem flytur til Íslands nái fullu valdi á íslensku máli áður en það fær full borgarréttindi. Fólk hefur einfaldlega mismikla hæfileika til að læra tungumál og sumir sem koma hingað í leit að vinnu eru hinir nýtustu borgarar þótt þeim takist ekki að læra málið.

Það gerir okkur sem fyrir erum lítið til þótt innflytjendur babli saman á útlensku svona eins og Portúgalarnir í Providence. Hins vegar ætti að gera allt sem hægt er til að börn þeirra læri íslensku og þá komum við að kjarna málsins sem er að hófsöm fjölmenningarhyggja kann að vera forsenda fyrir aðlögun. Það eru miklu meiri líkur á að börn innflytjenda læri íslensku ef fjölskyldur þeirra finna að þeim er sýnd virðing og þær upplifa íslenskt skólakerfi sem vinveitt og aðlaðandi og það gera þær ekki ef þær mæta of einstrengingslegum kröfum um algera aðlögun strax.

17. september: Hlýnun af mannavöldum - hvað á leikmaður að halda?
Þessi misseri snúast umræður um umhverfismál einkum um aukningu koldíoxíðs í andrúmsloftinu og hlýnun vegna þess. Áhyggjur af öðru sem menn gera og ógnar umhverfinu virðast hverfa í skuggann af áhyggjum af hækkandi hitastigi vegna vaxandi notkunar á kolum, olíu og jarðgasi (en við bruna þessara efna breytast kolefnissambönd sem bundin voru í jörðu að mestu í koldíoxíð og vatnsgufu). Koldíoxíð er kallað gróðurhúsalofttegund því það virkar svipað og glerið í gróðurhúsum sem hleypir sólarljósi inn en varmageislun (þ.e. geislun með mun lengri bylgjulengd) frá jarðveginum kemst ekki eins auðveldlega út í gegnum það svo hitinn safnast upp inni í gróðurhúsinu.

Hvað á leikmaður að halda um þessar áhyggjur allar saman? Á hann að hrista höfuðið og hugsa sem svo að fólk hafi alltaf haft þörf fyrir að flytja váleg tíðindi og trúa goðsögnum um yfirvofandi hörmungar, dómsdag og hrun? Harðir dómar yfir syndugum lýð og áminningar um að fólki hefnist fyrir gjálífi og munað eiga alltaf hljómgrunn. Umræða um gróðurhúsaáhrif af mannavöldum fullnægir þörf manna fyrir svona tal sérlega vel því ósköpin eru okkur öllum að kenna: Þau stafa af einhverju sem venjulegt fólk gerir oft eins og að aka bíl eða elda mat. Það er svolítið freistandi að hrista bara höfuðið, enda næsta ljóst að ein af ástæðum þess að gróðurhúsaáhrif eru vinsælla umræðuefni heldur en t.d. kjarnorkuvá (sem er þó talsvert skelfilegri en óblíðara veðurfar) er að þau koma til móts við þörf manna fyrir samviskubit og sjálfsásökun. En skýring á vinsældum sögu sker ekki úr um sannleiksgildi hennar og ekkert sem hér hefur verið sagt útilokar að um raunverulega hættu sé að ræða.

Síðan iðnbyltingin hófst hefur koldíoxíð í andrúmsloftinu aukist úr um það bil 0,28 prómill í 0,38 prómill og það eykst nokkuð hratt um þessar mundir svo með sama áframhaldi tvöfaldast það fyrir næstu aldamót. Gögn um sögu veðurfars á jörðinni sýna að samband er milli koldíoxíðmagns í loftinu og hita á jörðinni, þótt hitasveiflur verði einnig af öðrum ástæðum, einkum vegna mismikillar útgeislunar frá sólinni og reglubundinna breytinga á braut jarðar.

Frá lokum síðustu ísaldar hefur veðurfar á jörðinni verið fremur stöðugt og öfgalítið miðað við það sem oft hefur gerst á forsögulegum tímum. Jarðsagan kennir okkur að þessi stöðugleiki er ekki sjálfsagt mál og það eru möguleikar á veðurfari sem er mun óhagstæðara okkur mönnunum en það sem ríkt hefur undanfarin árþúsund. Þessi sama jarðsaga kennir okkur líka að síðustu 60 milljónir ára eða þar um bil hafa hlýskeið eins og við lifum á jafnan staðið fremur stutt (í svona 10 til 20 þúsund ár) og milli þeirra verið löng jökulskeið.

Þótt margt sé á huldu um hvað aukið koldíoxíð hefur mikil áhrif á lofthita virðist næsta ljóst að brennsla kola, olíu og jarðgass stuðlar að að öðru jöfnu að hækkun hitastigs. Spár IPCC (http://www.ipcc.ch/index.html) benda til að hækkun hita á þessari öld geti verið á bilinu 1,4 til 5,8 gráður ef ekki verður dregið úr brennslunni. Óvissan um hvað hækkun hitastigs verður mikil stafar mest af því að hitaaukning setur af stað ferli sem sum magna áhrifin og sum tempra þau og ekki er auðvelt að reikna hvað þetta gerist í miklum mæli.

Það sem helst er talið magna áhrifin er að: Þegar ísa leysir vegna hlýnunar minnkar endurvarp sólarljóss (jörðin verður einfaldlega dekkri þegar minni hluti hennar er hulinn ís og snjó og dökkur hlutur hitnar meira í sól en hvítur); Þegar sjórinn hitnar drekkur hann minna koldíoxíð í sig og þegar jarðvegur hitnar losnar meira koldíoxíð úr honum. Ef þessi áhrif verða eins mikil og svartsýnustu spár gera ráð fyrir og ekkert vegur á móti þeim mun hiti hækka ansi mikið. Það sem gæti helst vegið á móti er ef hlýnun veldur aukinni skýjahulu og skýin endurvarpa sólarljósi í þeim mæli að það geri meira en að vega móti gróðurhúsaáhrifum vatnsgufunnar (en vatnsgufa í loftinu lokar hita inni ekkert síður en koldíoxíð).

Þótt mikil óvissa sé um hvað hitnun af mannavöldum verður mikil og hvaða langtímaáhrif hún hefur benda rök til að það sé a.m.k. mögulegt að vaxandi notkun jarðefnaeldsneytis hafi slæm áhrif á veðurfar. Þetta er hætta sem er ástæða til að taka alvarlega.

Umhverfisverndarsinnar vilja að brugðist sé við þessu með því að minnka notkun á eldsneyti. Það er þó langt frá því að vera neitt einfalt mál, því jarðefnaeldsneyti gegnir lykilhlutverki í efnahag heimsins, enda er stærstur hluti af roforku sem fólk notar framleiddur með því. Þar sem hagvöxtur er ör, eins og í Kína, eykst notkun þess hratt og talið er að Kínverjar muni tvöfalda losun koldíoxíðs á fyrsta fjórðungi þessarar aldar og komast fram úr Bandaríkjamönnum. Fleiri þróunarlönd munu að líkindum stórauka orkunotkun á næstu árum enda erfitt að sjá hvernig þau geta bætt kjör þegna sinna með öðru móti.

Það er snúið mál að fá fólk til að draga úr losun koldíoxíðs. Flestir þjóna eigin skammtímahagsmunum með því að auka hana og líklega eru það langtímahagsmunir flestra að halda sínu striki en fá alla hina til að minnka eldsneytisnotkun. Það er ólíklegt að takist að fá þorra jarðarbúa til að taka langtímahagsmuni heildarinnar fram fyrir sína eigin skammtímahagsmuni. Það er líka ólíklegt að takist að draga úr losun koldíoxíðs með mótmælagöngum og pólitískum yfirlýsingum einum saman. Hér er líklega þörf á raunverulegri stjórnvisku. Ef aukning gróðurhúsalofttegunda ógnar langtímahagsmunum mannkyns eins mikið og talið er þarf að finna leiðir til að minni eldsneytisnotkun verði keppikefli sem flestra, eitthvað sem þeir hagnast sjálfir á til skammt tíma litið. Menn hljóta til dæmis að skoða hvaða kostir eru á að láta skatt af koldíoxíðlosun koma í stað annarra skatta og hvernig hægt er að umbuna þeim sem binda meira koldíoxíð í jörð eða sjó en þeir losa út í loftið.

Hæfilega efagjarn leikmaður sem fylgist með umræðunni um gróðurhúsaáhrif hlýtur að setja spurningamerki við margt sem er fullyrt, enda enginn skortur á stóryrðum um efnið. Hann hlýtur líka að gera sér grein fyrir að vísindamenn eru engan veginn sammála um langtímaáhrif af aukinni brennslu á kolum, olíu og jarðgasi þótt flestir hallist að því að hún ýti undir hlýnun. En hann hlýtur samt að taka hætturnar nógu alvarlega til þess að styðja stjórnmálamenn sem leita leiða til að draga úr líkunum á að illa fari.

10. september: Er hægt að vera vinstri grænn?
Í Lesbók Morgunblaðsins í gær fjallar Gunnar Hrafn Jónsson um spurninguna hvort hægt sé að vera hægri grænn eða með öðrum orðum hvort umhverfisvernd og hægristefna í stjórnmálum geti farið saman. Viðmælendur hans hafa ólíkar skoðanir á efninu en fleiri virðast hallast að neikvæðum svörum en jákvæðum. Jón Ólafsson heimspekingur segir t.d. eitthvað á þá leið að umhverfispólitík feli alltaf í sér ríkisafskipti af athöfnum einstaklinga sem komi illa heim við áherslur frjálshyggjumanna. Vissulega er nokkuð til í þessu hjá Jóni. En þetta er samt ekki nema hálf sagan.

Hægri sinnaðir stjórnmálaflokkar eru margir og ólíkir. Hjá þeim flestum blandast saman áhersla á einstaklingshyggju, borgaraleg réttindi, markaðsbúskap, takmörkuð ríkisumsvif, friðhelgi eignarréttar og að betra sé að setja almennar leikreglur en láta stjórnvöld hlutast til um einstök mál. Margir hægriflokkar leggja líka áherslu á landvarnir og öfluga löggæslu og sumir þeirra vilja standa vörð um hefðbundin trúarbrögð eða þjóðlega menningu. Hér á landi má finna allar þessar áherslur innan eins og sama hægriflokksins.

Vinstristefna er líka af ýmsu tagi. Hjá mörgum vinstriflokkum snýst stefnan um félagsleg réttindi, stuðning við verkalýðsfélög, öflug opinber velferðarkerfi, jöfnuð og góð lífskjör. Sumir leggja líka áherslu á að ýmis fyrirtæki, eins og skólar og spítalar, séu rekin af ríki eða sveitarfélögum fremur en einkaaðilum.

Það er mikil einföldun að tala um hægri og vinstri eins og tvær stjórnmálastefnur sem mynda hvor um sig rökrétt kerfi eða heilsteypta hugmyndafræði. Augljóslega er ýmisleg togstreita innan raða vinstrimanna og líka innan raða hægrimanna. Síðustu árin hefur áhersla hægrimanna, einkum í Bandaríkjunum, á þjóðaröryggi og varnir gegn hryðjuverkum til dæmis togast á við áherslur þessara sömu manna á einstaklingsfrelsi og einstaklingsréttindi. Í veruleikanum þola stjórnmálaflokkar talsverða innri spennu og geta starfað þótt einhver prinsipp sem þeir halda á lofti rekist við og við hvert á annars horn. Mér er til efs að áhersla á umhverfisvernd sé neitt andsnúnari einstaklingshyggju og einstaklingsfrelsi heldur en áhersla á þjóðaröryggi og öfluga löggæslu. Ef stjórnmálamenn eru ekki alger fífl finna þeir leiðir til að samrýma ólík gildi með því að slá við og við af ýtrustu kröfum. Skynsamur hægrimaður hafnar ekki allri umhverfisvernd vegna þess að hún rekist stundum á kröfur um einstaklingsfrelsi heldur spyr hvernig hægt sé að vernda umhverfi með sem minnstri frelsisskerðingu.

Í Lesbókinni var aðeins spurt hvort hægt sé að vera hægri grænn. Það var ekki spurt hvort hægt sé að vera vinstri grænn. En eins og Birgir Dýrfjörð bendir á í ágætri grein í Morgunblaðinu í dag er engan vegin augljóst að kröfur umhverfisverndarsinna sem andæfa Kárahnjúkavirkjun samrýmist áherslu vinstrimanna á góð efnaleg kjör og aukna velferð öllum til handa. Hann kallar sig jafnaðarmann og segir:

Við viljum gjaldfrjálsa leikskóla og heilsugæslu. Við viljum að aldraðir og öryrkjar hafi sæmandi laun. Við viljum auka fjölskyldu og vaxtabætur. ... Jafnaðarmenn eru raunsæir og vita að þessir draumar ... rætast ekki nema þjóðin sé rík ... Því studdum við jafnaðarmenn stóriðju á Austurlandi.

Ég held að sannleikurinn sé sá að áhersla á umhverfisvernd getur stundum stangast á við ýmis atriði í stefnu vinstriflokka ekkert síður en hægriflokka. Það er ekkert að marka þótt Vinstri grænir telji sig geta gert hvort tveggja í senn að tryggja velferð fyrir alla og komast hjá því að hrófla neitt við náttúrunni. Þeir vita nefnilega að þeir þurfa aldrei að standa við stóru orðin því þeir eru og ætla að vera í stjórnarandstöðu– a.m.k. virtust þeir ekki kæra sig mikið um að komast í meirihlutasamstarf í sveitarstjórnum eftir kosningarnar í vor. Það skyldi þó ekki vera vegna þess að innst inni vita þeir að velferðarmálin stangast stundum á við áherslur þeirra á umhverfisvernd.

Náttúruvernd er hægt að framkvæma á marga ólíka vegu. Sumt er bæði hægt að gera með almennum leikreglum og skilgreiningu á eignarrétti í anda hægri manna og með ríkisafskiptum í anda vinstri manna. Það þarf að kafa miklu dýpra en gert er í Lesbókinni í gær til að átta sig á hvor leiðin er árangursríkari, eða hvort það er e.t.v. misjafnt eftir aðstæðum. Ekkert sem þar kemur fram sannar á neinn hátt að umhverfisvernd samrýmist vinstristefnu neitt betur en hægristefnu. Það má því allt eins spyrja hvort hægt sé að vera vinstri grænn án þess að vera alltaf í stjórnarandstöðu og þurfa aldrei að bera ábyrgð á að hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd? Mig grunar að það sé ekki hægt án þess að setja ýmsa fyrirvara, slá af, miðla málum.

4. september: Bjólfskviða (Beowulf)
Sá Bjólfskviðu í Háskóalbíói í gærkvöldi. Bjóst ekki við miklu því dómar sem ég hafði séð um myndina voru heldur neikvæðir. En myndin kom skemmtilega á óvart og mér fannst hún fín og held raunar að gagnrýnendur sem gefa henni lélega dóma (eins og sá sem skrifaði í Mbl. og talaði um slakt handrit) misskilji myndina. Hún er ekki hetjusaga og hún fylgir heldur ekki alveg söguþræðinum í gamla enska söguljóðinu (Beowulf). Ætli hún sé ekki helst einhvers konar sambland af íslenskum tröllasögum, harmleik og þessu forenska hetjukvæði. Það er einkum tröllasöguþátturinn sem gefur myndinni dýpt og gerir hana býsna áhugaverða.

Í íslenskum þjóðsögum eru mennirnir milli óheflaðra og hömlulausra trölla og siðfágaðs og fíngerðs huldufólks. Þjóðsögurnar sýna okkur ystu mörk mannlífsins og spottakorn út fyrir þau í allar áttir. Kvikmyndin um Bjólf og baráttu hans við tröllið Grendel snýst á svipaðan hátt um mörk þess mennska. Þessi pæling birtist í ýmsum myndum, m.a. í heldur groddalegu spaugi um þjóðhöfðingja sem hefur mök við alls kyns skepnur frá rostungum til nagdýra og samræðum drykkfelda kóngsins við Bjólf um hvort Grendel drepi menn af sömu ástæðum og þeir drepa hver annan.

Galdrakindin Selma er á jaðri mannlífsins. Hún á í senn vingott við drottningu Dana og Grendel sem er óvinur þeirra og ógnvaldur. Frá sjónarhóli kristniboðans er hún litlu betri en tröll og hún lifir í bland við tröllin. Það tekst vel að gera hana að tengilið mannlífsins við náttúruöflin án þess að leikstjórinn missi sig í væmnislegan græningjahátt eða nýaldarpredikanir.

Myndatakan er flott, leikararnir standa sig vel og hljóðin í myndinni eru mögnuð. Væri e.t.v. alveg þess virði að fara á hana aftur og horfa með lokuð augun.

2. september: Hrunið mikla
Margþvældasta ekki-frétt undanfarinna daga er að það sé ekki öruggt að Kárahnjúkastíflan leki ekki, springi ekki, hrynji ekki og detti ekki á hliðina. Auk þess mun Valgerður sem er ekki lengur iðnaðarráðherra ekki hafa talað nógu mikið um skýrslu sem var skrifuð fyrir nokkrum árum og ekki svarar neinum spurningum um þetta efni heldur lætur aðeins í veðri vaka að það sé ekki alveg örugglega og fullkomlega víst að stífluskömmin leki ekki, springi ekki, hrynji ekki og detti ekki á hliðina.

Er ekki svona og svona að eyða mörgum tonnum af dagblaðapappír í aðra eins ekkisens vitleysu? Getur þetta blessað fólk sem langar að spá hruni og hörmungum ekki bara bloggað?

Mig rámar í að ámóta hrakspár hafi verið uppi um Búrfellsvirkjun á sínum tíma. Og vissulega er það rétt að náttúruhamfarir gætu valdið skakkaföllum þar eins og víða um land. Jarðskjálftar og eldgos gætu lagt fjölmörg mannvirki í rúst. Stórgos eins og kom upp í Laka 1783 gæti meira að segja ógnað allri byggð í landinu. Væri ekki ráð að einhver skrifaði skýrslu um öll þessi efni. Þá verður aftur hægt að gera hróp að Valgerði eða vinum hennar eftir þrjú ár þegar verður búið að þegja um málið meira en talist getur forsvaranlegt. Og ef ekki er alveg öruggt að Valgerður tali ekki um skýrsluna er hreint ekki úr vegi að skrifa þær fleiri og helst svo margar að sá einn sem ekki samkjaftar árum saman nái að tala um þær allar áður en þögnin er orðin stórlega vítaverð.