Veiðiréttur, viðskipti og gengi

  eftir Birgi Þór Runólfsson

   

  I
  Meginvandi fiskveiðanna er að fiskistofnarnir í hafinu eru takmarkaðir. Fiskistofnarnir eru auðlind, sem er eins og allar aðrar slíkar til í takmörkuðum mæli. Þessi auðlind hafsins er þó öðruvísi en sumar aðrar í því að hún er endurnýjanleg. Þannig má af henni taka, en svo framarleg sem það er gert í réttu magni, sér auðlindin um að endurnýja sig sjálf og að því leytinu til hefur hún ekki takmörk. Olía er dæmi um auðlind sem ekki er endurnýjanleg og því er allt sem af henni er tekið vottur um að minna sé þá afgangs.
   
  Nýting fiskistofnanna þarf að taka mið af þeim takmörkunum sem henni eru settar. Ein takmörkunin er líffræðileg. Væri þetta eina vandamálið þáværi það auðleyst: Fiskifræðingar finna út stofnstærðina og reikna síðan út samkvæmt líffræðilegum lögmálum hversu mikið má af taka svo að ekki valdi breytingu á stofnstærð. Ekkert annað þyrfti til og öll önnur fiskveiðistjórnun, en hin líffræðilega væri óþörf. En hér kemur einmitt að annari takmörkun og þeirri er öllu máli skiptir: Hagkvæmri nýtingu fiskistofnanna.

  Líffræðilegu takmörkin skipta litlu eða engu máli fyrir mannfólkið. Það sem skiptir máli er ekki hversu margir fiskar veiðast eða hversu margir eru eftir í sjónum, heldur það hversu mikið nýting fiskistofnanna gefur í aðra hönd. Leitin er því að hinu hagfræðilega hámarki á nýtingu auðlindarinnar, en auðvitað er líffræðilega hliðin einn lykill af mörgum í þeirri leit. Fiskveiðistjórnun er því heiti yfir skynsamlegustu leiðir að hagkvæmri nýtingu fiskistofnanna. Stjórnunin felst í því að hið hagfræðilega hámark finnist; að arður af fiskveiðunum sé hámarkaður.

  Vandamál fiskveiðanna hér við land hefur verið að arðhámörkun af fiskveiðunum í heild hefur ekki átt sér stað. Óheftur aðgangur var að fiskimiðunum og þannig gátu allir hafið veiðar að því einu tilskildu að þeir hefðu til þess skip. Þegar fiskimönnunum fjölgaði um of, voru nýliðarnir íraun farnir að leggja kostnað á þá fiskimenn sem fyrir voru. Of margir hófu veiðar og skemmdu þannig fyrir þeim sem voru við veiðar. Fjölgunin varð til þess að hver og einn veiddi nú minna, kappið við veiðarnar jókst og kostnaður og fjárfesting samhliða því. Skipin urðu of mörg, tekjur þeirra því of litlar og kostnaðurinn of hár. Fiskimennirnir voru þannig í raun farnir að rekast á þau takmörk auðlindarinnar, að skortur var á fiski í sjónum. Afleiðingin hefur verið sú að arðsköpun fór sífellt minnkandi; arðurinn fór ísúginn vegna ofurkapps við veiðarnar.

   

  II
  Til lausnar þessu vandamáli er því nauðsynlegt að hefta aðgang að miðunum. Höftin felast í því að verðleggja aðgang að miðunum; að verðleggja fiskinn í sjónum. Með því að skilgreina veiðirétt þeirra fiskimanna sem við veiðar eru og annarra ekki, er verðlagningin komin á. Með þessu móti geta nýir aðilar ekki hafið veiðar, þó að þeir hafi skip til umráða nema með því að komast fyrst yfir veiðiréttindi. Þannig er komið í veg fyrir að nýir aðilar hefji veiðar og leggi um leið kostnað á þá er fyrir eru. Nýr aðili kemst einungis að ef einhver sem fyrir er hættir um leið eða minnkar sínar veiðar.

  Veiðiréttindin gera kleift að innbyrða þann arð (rentuna), sem fólgin er í nýtingu auðlindarinnar. Hvaða verð verður á réttindunum veltur á nokkrum samtvinnandi þáttum, svo sem tonnafjölda, markaðshorfum og gildistíma, en í heild mun verðið endurspegla núvirði þess arðs sem auðlindin getur gefið af sér.

  Frá árinu 1984 hefur aflakvótakerfi verið í fiskveiðum til að leysa þennan vanda hérlendis. Þetta kerfi fiskveiðistjórnunar, í daglegu tali nefnt kvótakerfið, felur í sér veigamikil skref í átt að skipulagi hagkvæmnis. Aðalkostir þessa kerfis eru þeir að hverju skipi er ráðstafað ákveðnu hlutfalli af heildarafla, kvóta, sem er framseljanlegur að vissu marki. Útgerðarmenn hafa frá upphafi kerfisins verslað með kvótanna sín í milli og þannig stuðlað að aukinni hagkvæmni í veiðunum. Kvótinn leiðir til þess að kappið við veiðarnar minnkar, því að með honum er skipum tryggt ákveðið aflamagn áhverju tímabili og því geta útgerðir sótt þennan afla með sem minnstum tilkostnaði. Framsal kvótans leiðir líka til hagkvæmni, því með framsali getur flotinn minnkað og hagkvæmari útgerðir veitt þann afla sem veiða má. Reynslan af kvótakerfinu sýnir að sóknarkostnaður skipa hefur minnkað og fjölgun fiskiskipa verið stöðvuð. Kerfið er því byrjað að skila aukinni hagkvæmni við veiðarnar.

  En betur má ef duga skal. Til að ná fram meiri hagkvæmni eru ýmsar breytingar nauðsynlegar á kvótakerfinu. Í fyrsta lagi þarf að afnema þær takmarkanir sem enn eru á framsali kvóta, þar á meðal bindingu kvóta við skip. Með frjálsari framsali á kvóta mun flotinn minnka enn hraðar. Í öðru lagi þarf að afnema allar veiðar utan kvóta, þar á meðal krókaleyfi smábáta og svigrúm til að fara fram úr úthlutuðum kvóta, því að aðeins þannig verður fjárfesting skynsamleg í greininni og komið í veg fyrir ofsókn. Í þriðja lagi þarf að minnka óvissuna um framhald kerfisins, einfaldlega með því að festa það í sessi til framtíðar. Með þessu móti væri kvótahöfum tryggður ákveðinn séreignarréttur eða að minnsta kosti varanlegur afnotaréttur, en sagan hefur einmitt kennt okkur að séreignarskipulag er heppilegast til arðsköpunar og framfara.

   

  III
  Þegar núverandi kerfi fiskveiðistjórnunnar var komið á árið 1984 var veiðiréttindum úthlutað til þeirra skipa er þá voru í rekstri. Kvótaúthlutunin byggðist á því að árin 1981-1983 voru notuð sem viðmiðun, þannig að hlutfallsleg veiði skipa þau ár var notuð til að skipta leyfilegum heildarafla á milli þeirra. Þessi leið úthlutunar sem notuð var hefur verið þyrnir í augum margra. Hefur þá bæði verið deilt á það að þessi ár séu ekki góð viðmiðun og einnig að ekki megi um alla tíð byggja á veiði þessara ára. Hins vegar hefur einnig verið á það deilt að útgerðir skipa sem kvóta fengu árið 1984 hafi fengið kvótann endurgjaldslaust.

  Þessi gagnrýni virðist þó lítt ígrunduð. Með því að taka upp fiskveiðistjórnunarkerfi sem byggir á aflahlutdeildum og hámarksafla verður á einhvern veg að deila út kvótunum. Í raun snýst málið um tvo þætti, sem þó eru nátengdir: Annars vegar það hver eigi að fá kvótana og hins vegar hvernig eða eftir hvaða reglu. Þrír aðilar eru mögulegir viðtakendur kvótanna: Ríkisvaldið, almenningur eða tiltekinn þjóðfélagshópur. Spurningin er, hver þessara aðila er best kominn að veiðiréttindunum? Frá sjónarhorni hagfræðinnar veltur svarið á þeim forsendum sem menn gefa sér um markaðinn.

  Væri markaðurinn fullkominn og viðskipti kostnaðarlaus þá myndi það í engu breyta fyrir hagkvæmni veiðanna hver þessara aðila fengi kvótana upphaflega. Aðilarnir myndu eiga viðskipti sín á milli þar til allir kvótarnir væru komnir í hendur þeirra er best kynnu með þá að fara. Betra svar er hinsvegar reist á þeirri staðreynd að markaðurinn er ekki fullkominn; viðskipti á markaðnum eru ekki kostnaðarlaus. Það kostar peninga, tíma og fyrirhöfn að eiga viðskipti á markaðnum þar sem allar upplýsingar um væntanlega kaupendur og seljendur liggja ekki fyrir, né samstaða um þau verð sem til viðskipta leiða. Upphafleg úthlutun á veiðiréttindunum skiptir því máli, því ekki er víst að kvótarnir komist í hendur þeirra sem best kunna með þá að fara eða það gæti að minnsta kosti verið tímafrekt.

  Af þeim þremur aðilum sem til greina koma við úthlutunina er ljóst að aðeins einn þeirra er líklegastur til að kunna með kvótana að fara: Útgerðarmennirnir. Þessi aðili er sá eini sem myndi nýta veiðiréttindin til þess að skapa arð, þ.e. þeir myndu veiða upp í þann kvóta sem þeim væri úthlutað. Almenningur sem viðtakandi kvótans myndi samstundis snúa sér að því að selja sín réttindi; til útgerðarmanna. Ríkisvaldið myndi sömuleiðis ekki nýta sér réttindin, heldur einnig koma þeim í hendur útgerðarmanna, annað hvort með sölu eða leigu.

  Í hópi almennings kunna að vera einhverjir tilvonandi útgerðarmenn eða einstaklingar sem hæfileika hafa til að standa í slíkum rekstri. Vandamálið við að finna þá einstaklinga er þó mikið. Þeir einu sem sannað hafa að þeir hafi hæfileika til að stunda útgerð eru þeir útgerðarmenn sem til staðar eru á þeirri stundu sem úthlutunin fer fram. Þess vegna er þeim einum úthlutað kvótum, en ekki hinum sem einhvern tíma gætu hugsanlega farið íslíkan rekstur.

  Frá hagkvæmnissjónarmiði veiðanna hníga rökin að því að heppilegast og kostnaðarminnst sé að úthluta útgerðunum veiðiréttindin. Þá stendur eftir sú spurning hvernig eigi að standa að þeirri úthlutun? Ein leið væri að úthluta öllum útgerðum jöfnum kvóta. Vandamálið við þessa úthlutun er sú að allar útgerðir eru ekki eins, menn hafa misgóða hæfileika og mistóran skipakost. Önnur leið væri að hafa happdrætti og þar sem útgerðirnar eru of margar mætti hafa færri vinningsmiða en þátttakendur. Vandamálin hér eru þó þau sömu og að ofan. Hagkvæmasta úthlutunin virðist því vera sú að deila kvótunum á útgerðirnar miðað við einhverja reynslu af útgerðarsögu þeirra. Aðeins þannig er ljóst hversu vel fallnir þeir eru til starfsins og aðeins þannig munu kvótar þeirra vera í einhverju samræmi við breytileika þeirra sjálfra og skipa þeirra.

   

  IV
  Þó að valinu um viðtakendur kvóta hafi hér verið stillt upp þannig að um þrjá mögulega aðila hafi verið að ræða, þá stendur valið í raun aðeins um tvo af þessum aðilum: ríkið og útgerðina. Þegar komið er inn á vettvang stjórnmálanna eru reglurnar þannig að þar bera þeir mest frá borði sem stærstu hagsmunina hafa hver um sig. Almenningur hefur að sjálfsögðu hagsmuni af því hverjum er úthlutað kvótunum, en ef við flokkum almenning niður í sínar minnstu einingar, einstaklingana, er ljóst að hver og einn hefur tiltölulega litla hagsmuni. Stjórnmálamenn og útgerðarmenn hafa hins vegar mikla hagsmuni hver og einn af því að fá kvótana undir sína stjórn.

  Þegar fiskiskipafjöldinn verður kominn í hagkvæmustu stærð mun arðurinn vera talinn í milljörðum króna. Það er öllum ljóst. Hins vegar eru stórar upphæðir aðeins stórar þegar fáir sitja að þeim. Þannig sjá stjórnmálamenn og útgerðarmenn það að fái þeir kvótann í sínar hendur verður úr miklum fjármunum að spila, en almenningur sér hins vegar að eftir að búið er að deila niður á hvern og einn einstakling þá situr lítið eftir handa hverjum. Fámennir hópar með skýra og mikla hagsmuni bera alltaf meira frá borði ávettvangi stjórnmálanna en fjölmennir hópar með óskýrari og minni hagsmuni. Einfaldasta sannprófunin á þessu lögmáli er að líta á umræðuna um kvótamálið og sjá hverjir hafa verið tilnefndir sem viðtakendur fiskveiðiréttindanna? Þar hafa í raun aðeins tveir verið nefndir: Útgerðarmenn og ríkisvaldið.

  Við getum að auki skoðað það hvernig arðinum yrði ráðstafað með ólíka aðila sem viðtakendur. Hvernig myndu þessir þrír aðilar, þ.e. ríkið, almenningur og útgerðin, ráðstafa þeim tekjum sem þeir myndu fá af hagkvæmari veiðum?

  Fái almenningur þennan arð í hendur myndi honum að mestu verða varið í ýmsar neysluvörur. Eins og að ofan greinir yrði hlutur hvers og eins einstaklings fremur lítill, þótt heildararðurinn sé mikill. Við fullkomna hagkvæmni í veiðunum gæti verið um einhverja tugi þúsunda króna að ræða á hvern Íslending á ári hverju, eða of lítið til þess að um einhverjar veigamiklar og varanlegar fjárfestingar yrði að ræða af þeirra hálfu. Ennfremur færi hluti af þessum arðgreiðslum til ríkisvaldsins í mynd skatta.

  Ef ríkisvaldið fengi arðinn í sínar hendur eru líkur á því að stórum hluta arðsins yrði hreint og beint sóað, að rentusóunin færðist á land upp. Í stað þess að of margir fiskimenn keppi á miðunum, og valdi hver öðrum kostnaði og sói þannig rentumöguleikum auðlindarinnar, munu hinir ýmsu hagsmunahópar á landi uppi setjast að kjötkötlum stjórnmálamannana og etja ofurkappi við að verða sér úti um hluta rentunnar. Þessi rentusókn, eins og slík hegðun er kölluð innan hagfræðinnar, mun á endanum sóa stórum hluta þeirrar rentu sem skapast við skynsamari veiðar. Einhver hluti arðsins færi þó eflaust í samneyslu, en afgangurinn að mestu í óskynsamlegar eða rangar fjárfestingar og má þar vitna til þeirra fjárfestinga sem gerðar hafa verið ínafni byggðastefnu undanfarna áratugi.

  Heppilegra virðist því að arðurinn lendi hjá útgerðunum, sérstaklega ef menn telja að skynsamlegasta ráðstöfun arðsins væri að hann færi ífjárfestingar. Á þann veg færi nægilega mikið af arðinum í hlut hvers aðila til þess að um arðbærar og atvinnuskapandi fjárfestingar yrði að ræða. Útgerðaraðilarnir myndu þó að sjálfsögðu eyða hluta af arðinum í neyslu, jafnvel dágóðum hluta, en að mestu leyti færi arðurinn í arðbærar fjárfestingar utan útvegsins. Hitt er einnig ljóst að hluti þessa arðs mun skila sér íríkiskassann í gegnum hið almenna skattakerfi. Jafnframt mun hluti arðsins falla sjómönnum í skaut í krafti hlutaskiptalaga og sterkari samningsstöðu.

   

  V
  Fiskihagfræðingar telja að í byrjun næstu aldar, eftir 10-20 ár, gæti svo farið að aðeins væru starfrækt í kringum 100-200 skip hér á landi. Ef bæði markmið fiskveiðistjórnunarinnar hefðu náðst, þ.e. að skipastóllinn hefði minnkað niður í hagkvæmustu stærð og að fiskistofnarnir hefðu vaxið, gæti arðsköpun útvegsins numið 10-25 milljörðum króna árlega. Hér er um mikla fjármuni að ræða og því mikilsvert að það kerfi fiskveiðistjórnunnar sem er hérlendis njóti áfram stuðnings og skilnings stjórnvalda og almennings. Forvitnileg spurning er þó hvort þessi nýtilkomni arður muni í einhverju hafa áhrif á gengi íslensku krónunnar og þá hver.

  Því hefur verið haldið fram og finna má rök því til stuðnings að gengi krónunnar hafi verið haldið of háu um árabil. Gengisskráning krónunnar er sögð hafa verið miðuð við það að halda sjávarútveginum í járnum, þ.e. að gengið hafi verið miðað við að halda kostnaði sjávarútvegs háum svo að halda mætti fjárfestingu í greininni í skefjum. Í raun hafi þannig verið lagður skattur á sjávarútveginn og aðrar útflutningsgreinar í leiðinni, en allur almenningur hafi í staðinn notið hærri kaupmáttar launa. Þó að þetta hafi kannski verið stefna stjórnvalda í orði er ljóst að á borði var stefnan önnur. Opinberir aðilar hafa ekki reynt að halda fjárfestingu í sjávarútvegi í skefjum undanfarna áratugi. Öðru nær. Hið opinbera hefur reist stórbrotið fjárfestinga- og fyrirgreiðslukerfi fyrir sjávarútveginn. Þessa vegna hefur fjárfesting útvegsins verið langt úr hófi fram og er ekki að ástæðulausu talað um "fjárfestingafyllerí" í greininni.

  Því hefur einnig verið haldið fram að núverandi kerfi fiskveiðistjórnunar leiði óhjákvæmilega af sér að raungengi íslensku krónunnar lækki. Þrálátur viðskiptahalli, að hluta vegna óþarfra fjárfestinga í sjávarútvegi, sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf undanfarna áratugi muni áfram verða til staðar. Í stað óþarfra fjárfestinga útvegsins munu útvegsmenn og fyrrum kvótahafar eyða arðinum, sem hlýst af hagkvæmari veiðum, í eyðslu og fjárfestingar erlendis. Þannig mun hinn þráláti viðskiptahalli halda áfram og gengisfellingar verða nauðsynlegar með reglulegu millibili til að slá á hallann. Afleiðing þessa er að kaupmáttur alls almennings lækkar gífurlega.

  Það er þó engan veginn augljóst að útvegsmenn og fyrrum kvótahafar muni eyða eða fjárfesta allan sinn arð á erlendri grundu. Líklegra er að stærsti hlutinn færi í fjárfestingar hérlendis vegna þeirrar staðbundnu þekkingar sem aðilarnir hafa. Þannig myndu þeir ráðstafa arðinum að mestu ífjárfestingar hérlendis sem auka atvinnu og hagvöxt. Afleiðingin yrði hærra gengi krónunnar og hærri kaupmáttur launa! Hluta arðsins gæti verið ráðstafað erlendis bæði í neyslu og fjárfestingar. Þótt svo færi að stærsti hluti arðsins af hagkvæmari veiðum yrði notaður á erlendri grundu er líklegast að hann færi minnst í neyslu en mest í fjárfestingar; fjárfestingar sem skila arði af sér til baka. Í versta falli færi líklega svo að arðurinn, sem hingað til hefur verið sóað í óþarfa fjárfestingu og kostnað innfluttra skipa, myndi áfram verða sóað í "óþarfa" innflutning. Í því værum við þó ekki verr settir en ef almenningur fengi arðinn þar sem líklegasta ráðstöfun almennings á arðinum væri að nota hann í neyslukaup erlendis frá. Reyndar er þó hæpið hagfræðilega séð að segja að neysla, hvort heldur almennings eða útgerðarmanna, sé sóun, því að með slíkri yfirlýsingu er verið að leggja siðferðilegt mat á hegðun manna. En ef menn vilja ganga út frá því að fjárfesting sé heppilegri ráðstöfun á arðinum en neysla, þá virðist það heppilegast að útgerðin og fyrrum kvótahafar fái arðinn til ráðstöfunar.

  Sumir sjá ekki þessa þróun fyrir sér og hafa því lagt til þá lausn að ríkisvaldið hirði jafnóðum arðinn af útgerðaraðilum og fyrrum kvótahöfum til að mæta þeim ógöngum sem þeir telja arðsköpun í útveginum leiða til. Útfærslan yrði nokkurn veginn sú að kvótahafar greiddu á einn eða annan veg til ríkisvaldsins gjald, sem næmi stórum hluta arðsins. Ríkisvaldið myndi ístaðinn fella gengi krónunnar, létta á greiðslubyrði útvegsins og slá þannig áviðskiptahallann að auki. Þá myndi ríkisvaldið leggja af tekjuskattinn til að bæta almenning upp kaupmáttartapið af gengisfellingunni. Um leið hefði aðstöðumunur annarra samkeppnisgreina verið bættur, þ.e. hann væri nú samkeppnishæfari við innflutning og fengi fleiri krónur fyrir sölu erlendis. Þessi "lausn" virðist þó efnislega í engu öðruvísi en sú "lausn" að halda genginu óbreyttu, en leggja þess í stað gjald á sjávarútveginn og nota það til þess að niðurgreiða framleiðslu og þjónustu annarra samkeppnisgreina!

   

  VI
  Væru þær breytingar á núverandi kvótakerfi, sem nefndar voru hér að ofan, gerðar er næsta víst að aukin hagkvæmni myndi nást og það nokkuð fljótt. Með því að festa skipulagið í sessi, gera veiðiréttindin varanleg og heimila fullt og frjálst framsal myndu útgerðarmenn ekki láta á sér standa, heldur ráðast í þau viðskipti og aðrar ráðstafanir sem arðvænlegastar væru.

  Ef núverandi kvótakerfi, með smávægilegum en þó mikilvægum breytingum, getur náð fram slíkri hagkvæmni hvers eru þá formælendur sérstaks skatts á arðinn að krefjast? Svo kann að vera að einhverjir séu ósáttir við það hversu lengi það hefur tekið að minnka flotann og mætti ætla að þeir vilji minnka flotann um helming strax. Þetta á að gerast með því að ríkið slái eign sinni á kvótana, kalli síðan til uppboðs þar sem öllum verður frjálst að bjóða í veiðiréttindi. Kaupandi veiðileyfis má síðan stunda veiðar í tiltekinn árafjölda, en þá fellur það úr gildi og kaupa verður nýtt svo að áfram megi stunda veiðar.

  Helsti munur á þessu veiðileyfakerfi og breyttu kvótakerfi, sem mælt var fyrir hér að ofan, er sá að minni óvissa ríkir í því síðarnefnda. Óvissan er minni við kvótakerfi, því að þar eru veiðiréttindin varanleg, en við veiðileyfi eru réttindin aðeins til skemmri tíma. Við varanleg réttindi taka menn skynsamlegri ákvarðanir um fjárfestingu en við skammtíma réttindi, og því er veiðileyfakerfið í raun óhagkvæmara. Þar að auki má benda á að undir kvótakerfi síðustu ára hefur markviss þróun átt sér stað til aukinnar hagræðingar, en sú þróun færi forgörðum ætti nú að bjóða alla kvótana upp.

  Sú fullyrðing, sem heyrst hefur, að of mörgum skipum sé haldið til veiða er rétt, en ástæðan er ekki að ekkert gjald sé innheimt. Með því að halda óhagkvæmu skipi til veiða á meðan annar útgerðamaður gæti nýtt veiðiréttindin til arðmyndunar, fer útgerð þess fyrrnefnda á mis við mögulegar tekjur af sölu veiðiréttindanna. Þannig greiðir útgerðarmaður óhagkvæma skipsins í raun "gjald" fyrir veiðiréttindin, því að mögulegar sölutekjur eru hluti af fórnarkostnaði hans.

  Hitt er líklegra, að of mörgum skipum sé enn haldið til veiða vegna óvissu, fordóma, byggðastefnu og viðskiptakostnaðar. Óvissan byggist á því að kerfið er ekki varanlegt og því ráðast menn ekki í allar þær ráðstafanir er bestar eru. Fordómarnir eru vegna þeirrar áráttu fjölmiðla hér á landi að telja eitthvað ósiðlegt við það að versla með veiðiréttindi, þ.e. óveiddan fisk. Byggðastefnan kemur oft í veg fyrir viðskipti með veiðiréttindi, bæði vegna pólitískrar fyrirgreiðslu og takmarkana á framsali veiðiheimilda. Viðskiptakostnaður er eflaust hærri en hann þyrfti að vera, m.a. vegna ofangreindra ástæðna, en einnig vegna þess hve nýr og ófullkominn kvótamarkaðurinn er. Það væri eflaust til bóta í þessu efni að koma á kauphallarviðskiptum með veiðiréttindin.

   

  This file has been created with the evaluation or unregistered copy of
  EasyHelp/Web from Eon Solutions Ltd
  (Tel: +44 (0)973 209667, Email: eon@cix.compulink.co.uk)
  http://www.eon-solutions.com