Skipulag fiskveiða: Séreign, hagkvæmni og arðsköpun

  Umræður um skipulag fiskveiða halda enn áfram. Í raun er það kannski eðlilegt, þar sem nefnd situr nú að störfum um hugsanlegar breytingar á núverandi kerfi fiskveiðistjórnunar. Margir vilja þar koma sínu að svo betur megi gera á þessu sviði. Í umræðunni hefur ýmislegt verið fullyrt um hvernig tilteknar breytingar verði til bóta, ekki aðeins á sviði fiskveiðanna sjálfra, heldur og jafnvel í ríkisfjármálum og hagkerfinu í heild sinni. En hver er sá vandi fiskveiða sem aðilar gera að umræðuefni og hver er heppilegasta lausn þeirra mála?

  Veiðiréttindi til verðmyndunar
  Vandamál fiskveiðanna hér við land hefur verið að arðsköpun af fiskveiðunum í heild hefur ekki átt sér stað. Óheftur aðgangur var að fiskimiðunum og þannig gátu allir hafið veiðar að því einu tilskildu að þeir hefðu til þess skip. Þegar fiskimönnunum fjölgaði um of, voru nýliðar í raun farnir að leggja kostnað á þá fiskimenn sem fyrir voru. Fjölgunin varð til þess að hver og einn veiddi nú minna, kappið við veiðarnar jókst og kostnaður og fjárfesting samhliða því. Skipin urðu of mörg, tekjur þeirra því of litlar og kostnaðurinn of hár. Veiðimennirnir voru þannig í raun farnir að rekast á þau takmörk auðlindarinnar, að skortur var á fiski í sjónum. Afleiðingin hefur verið sú að arðsköpun fór sífellt minnkandi; arðurinn fór í súginn vegna ofurkapps við veiðarnar.
  Til lausnar þessu vandamáli er nauðsynlegt að takmarka aðgang að fiskimiðunum. Takmörkunin felst í því að verðleggja aðgang að miðunum; að verðleggja fiskinn í sjónum. Með því að skilgreina veiðirétt þeirra fiskimanna sem við veiðar eru og annarra ekki, er verðlagningin komin á. Með þessu móti geta nýir aðilar ekki hafið veiðar, þó að þeir hafi skip til umráða nema með því að komast fyrst yfir veiðiréttindi. Þannig er komið í veg fyrir að nýir aðilar hefji veiðar og leggi um leið kostnað á þá er fyrir eru. Nýr aðili kemst einungis að ef einhver sem fyrir er hættir eða minnkar sínar veiðar.
  Veiðiréttindi gera kleift að innbyrða þann arð, sem fólgin er í nýtingu auðlindarinnar. Hvaða verð verður á réttindunum veltur á nokkrum þáttum, svo sem tonnafjölda, markaðshorfum og gildistíma, en í heild mun verðið endurspegla núvirði þess arðs sem auðlindin getur gefið af sér.
  Árið 1984 var komið á skipulagi til að leysa vanda fiskveiðanna hérlendis. Frá þeim tíma hefur aflakvótakerfi verið, sem þó hefur tekið nokkrum breytingum. Þetta kerfi fiskveiðistjórnunar, í daglegu tali nefnt kvótakerfið, felur í sér veigamikil skref í átt að skipulagi hagkvæmnis. Aðalkostir þessa kerfis eru þeir að hverju skipi er ráðstafað ákveðnu hlutfalli af heildarafla, kvóta, sem er framseljanlegur að vissu marki. Útgerðarmenn hafa frá upphafi kerfisins verslað með kvótanna sín í milli og þannig stuðlað að aukinni hagkvæmni í veiðunum. Kvótinn leiðir til þess að kappið við veiðarnar minnkar, því að með honum er skipum tryggt ákveðin hlutdeild í aflamagni á hverju tímabili og því geta útgerðir sótt þennan afla með sem minnstum tilkostnaði. Framsal kvótans leiðir líka til hagkvæmni, því með framsali getur flotinn minnkað og hagkvæmari útgerðir veitt þann afla sem veiða má. Reynslan af kvótakerfinu sýnir að sóknarkostnaður skipa hefur minnkað og fjölgun fiskiskipa hefur verið stöðvuð. Aflakvótakerfið er því þegar byrjað að auka hagkvæmni veiðanna.
  Til að ná fram meiri hagkvæmni í veiðunum eru ýmsar breytingar nauðsynlegar á kvótakerfinu. Í fyrsta lagi þarf að afnema þær takmarkanir sem enn eru á framsali kvóta, þar á meðal bindingu kvóta við skip. Með frjálsari framsali á kvóta mun flotinn minnka. Í öðru lagi þarf að afnema allar veiðar utan kvóta, þar á meðal krókaleyfi smábáta og svigrúm til að fara fram úr úthlutuðum kvóta, því að aðeins þannig verður fjárfesting skynsamleg í greininni og komið í veg fyrir ofsókn. Í þriðja lagi þarf að minnka óvissuna um framhald kerfisins, einfaldlega með því að festa það í sessi til framtíðar. Með þessu móti væri kvótahöfum tryggður ákveðinn séreignarréttur, en sagan hefur einmitt kennt okkur að séreignarskipulag er heppilegast til arðsköpunar og framfara.

  Úthlutun veiðiréttinda
  Þegar núverandi kerfi fiskveiðistjórnunnar var komið á var veiðiréttindum úthlutað til þeirra skipa er þá voru í rekstri. Kvótaúthlutunin byggðist á því að árin 1981-1983 voru notuð sem viðmiðun, þannig að hlutfallsleg veiði skipa þau ár var notuð til að skipta leyfilegum heildarafla á milli þeirra. Þessi leið úthlutunar sem notuð var hefur verið þyrnir í augum margra. Hefur þá bæði verið deilt á það að þessi ár séu ekki góð viðmiðun og einnig að ekki megi um alla tíð byggja á veiði þessara ára. Hins vegar hefur einnig verið á það deilt að útgerðir skipa sem kvóta fengu árið 1984 hafi fengið kvótann endurgjaldslaust.
  Þessi gagnrýni er þó hæpin. Með því að taka upp fiskveiðistjórnunarkerfi sem byggir á aflahlutdeildum og hámarksafla verður á einhvern veg að deila út kvótunum. Í raun eru þó fáar úthlutunarreglur mögulegar og málið snýst um tvo þætti, sem þó eru nátengdir: Annars vegar það hver eigi að fá kvótana og hins vegar hvernig eða eftir hvaða reglu. Þrír aðilar eru mögulegir viðtakendur kvótanna: Ríkisvaldið, almenningur eða tiltekinn þjóðfélagshópur. Spurningin er, hver þessara aðila er best kominn að veiðiréttindunum? Frá sjónarhorni hagfræðinnar veltur svarið á þeim forsendum sem menn gefa sér um markaðinn.
  Ef markaðurinn væri fullkominn og viðskipti þar kostnaðarlaus þá myndi það í engu breyta hver þessara aðila fengi kvótana upphaflega. Aðilarnir myndu eiga viðskipti sín á milli þar til allir kvótarnir væru komnir í hendur þeirra er best kynnu með þá að fara. Betra svar er hinsvegar reist á þeirri staðreynd að markaðurinn er ekki fullkominn; viðskipti á markaðnum eru ekki kostnaðarlaus. Það kostar peninga, tíma og fyrirhöfn að eiga viðskipti á markaðnum þar sem allar upplýsingar um væntanlega kaupendur og seljendur liggja ekki fyrir, né samstaða um þau verð sem til viðskipta leiða. Upphafleg úthlutun á veiðiréttindunum skiptir því máli, því ekki er víst að kvótarnir komist í hendur þeirra sem best kunna með þá að fara eða það gæti að minnsta kosti verið tímafrekt.
  Hér er einnig rétt að benda á að ólíklegt er að fullkomin hagkvæmni, eins og lesa má hana í líkani hagfræðinnar, komist nokkurn tíma á í fiskveiðunum, hvorki hér né annars staðar. Hinn raunverulegi markaður er ekki fullkominn, upplýsingastreymi, þekking og óvissa verða þess valdandi að endanleg hagkvæmnisniðurstaða í fiskveiðunum verður ólík þeirri sem kæmi til á fullkomnum markaði.1 Hvort um mikinn tölulegan mun verður að ræða á þessum hagkvæmnisniðurstöðum er erfitt að fullyrða um, en líklegt er þó að arðsköpun veiðanna verði töluvert lægri en þær tugir milljarða króna sem nefndar hafa verið í umræðunni. Sú hagkvæmni í veiðum sem líklegust er að verði niðurstaðan mun t.d. eflaust byggja á stærri veiðiflota en væri nauðsynlegur ef markaðurinn væri fullkominn.

  Úthlutun byggð á reynslu
  Af þeim þremur aðilum sem til greina koma við úthlutunina er ljóst að aðeins einn þeirra er líklegastur til að kunna með kvótana að fara á bestan hátt: Útgerðarmennirnir. Þessi aðili er sá eini sem myndi nýta veiðiréttindin til þess að skapa arð, þ.e. þeir myndu veiða upp í þann kvóta sem þeim væri úthlutað. Almenningur sem viðtakandi kvótans myndi samstundis snúa sér að því að selja sín réttindi; til útgerðarmanna. Ríkisvaldið mundi sömuleiðis ekki nýta sér réttindin, heldur einnig koma þeim í hendur útgerðarmanna, annað hvort með sölu eða leigu.
  Á meðal almennings kunna að vera einhverjir tilvonandi útgerðarmenn eða einstaklingar sem hæfileika hafa til að standa í slíkum rekstri. Vandamálið við að finna þá einstaklinga er þó mikið ef ekki útilokað. Þeir einu sem sannað hafa að þeir hafi hæfileika til að stunda útgerð eru þeir útgerðarmenn sem til staðar eru á þeirri stundu sem úthlutunin fer fram. Þess vegna er þeim einum úthlutað kvótum, en ekki hinum sem einhvern tíma gætu hugsanlega farið í slíkan rekstur.
  Rökin hníga þess vegna að því að heppilegast og kostnaðarminnst sé að úthluta útgerðunum veiðiréttindin. Þá stendur eftir sú spurning hvernig eigi að standa að þeirri úthlutun? Ein leið væri að úthluta öllum útgerðum jöfnum kvóta. Vandamálið við slíka úthlutun er sú að allar útgerðir eru ekki eins, menn hafa misjafna hæfileika og mistóran skipakost. Önnur leið væri að hafa happdrætti og þar sem útgerðirnar eru of margar mætti hafa færri vinningsmiða en þátttakendur. Vandamálin hér eru þó þau sömu og að ofan. Skynsamlegasta úthlutunin virðist því vera sú að deila kvótunum á útgerðirnar miðað við einhverja reynslu af útgerðarsögu þeirra. Aðeins þannig er ljóst hversu vel fallnir þeir eru til starfsins og aðeins þannig munu kvótar þeirra vera í einhverju samræmi við breytileika þeirra sjálfra og skipa þeirra.

  Ráðstöfun fiskveiðiarðsins
  Þó að valinu um viðtakendur kvóta hafi hér verið stillt upp þannig að um þrjá mögulega aðila sé að ræða, þá stendur valið í raun aðeins um tvo af þessum aðilum: ríkið og útgerðina. Þegar komið er inn á vettvang stjórnmálanna eru reglurnar þannig að þar bera þeir mest frá borði sem stærstu hagsmunina hafa hver um sig. Almenningur hefur að sjálfsögðu hagsmuni af því hverjum er úthlutað kvótunum, en ef við flokkum almenning niður í sínar minnstu einingar, einstaklingana, er ljóst að hver og einn hefur tiltölulega litla hagsmuni. Stjórnmálamenn og útgerðarmenn hafa hins vegar mikla hagsmuni hver og einn af því að fá kvótana undir sína stjórn.
  Ef fiskiskipafjöldinn kæmist í hagkvæmustu stærð gæti arðsköpun í veiðunum verið talinn í milljörðum króna á ári hverju. Það er öllum ljóst. Hins vegar eru stórar upphæðir aðeins stórar þegar fáir sitja að þeim. Þannig sjá stjórnmálamenn og útgerðarmenn það að fái þeir kvótann í sínar hendur verður úr miklum fjármunum að spila, en almenningur sér hins vegar að eftir að búið er að deila niður á hvern og einn einstakling þá situr lítið eftir handa hverjum. Fámennir hópar með skýra og mikla hagsmuni bera alltaf meira frá borði á vettvangi stjórnmálanna en fjölmennir hópar með minni og óskýrari hagsmuni. Einfaldasta sannprófunin á þessu lögmáli er að líta á umræðuna á æðstu stöðum þjóðfélagsins um kvótamálið og sjá hverjir hafa þar verið tilnefndir sem viðtakendur fiskveiðiréttindanna? Þar hafa í raun aðeins tveir verið nefndir: Útgerðarmenn og ríkisvaldið.2
  Margir hafa gert þá arðmyndun sem verða mun við aukna hagkvæmni fiskveiðanna að umræðuefni. Í þeim umræðum hafa ýmsar hugmyndir verið settar fram um það hvernig skipta mætti arðinum af veiðunum á annan veg en reglur gera ráð fyrir nú. Rétt er því að skoða það hvernig arðinum yrði ráðstafað með ólíka aðila sem viðtakendur. Hvernig myndu t.d. þeir þrír aðilar, ríkið, almenningur og útgerðin, sem nefndir hafa verið sem mögulegir viðtakendur arðsins, ráðstafa þeim tekjum sem fást af hagkvæmari veiðum?

  Arðsóun stjórnmálanna
  Ef ríkisvaldið fengi arðinn í sínar hendur eru allar líkur á því að arðinum yrði hreint og beint sóað, að arðsóunin færðist á land upp. Í stað þess að of margir fiskimenn keppi á miðunum, og valdi hver öðrum kostnaði og sói þannig arðmöguleikum auðlindarinnar, munu hinir ýmsu hagsmunahópar á landi uppi setjast að kjötkötlum stjórnmálamanna og etja ofurkappi við að verða sér úti um hluta arðsins.
  Stærsti gallinn á þeirri hugmynd að arðurinn renni til ríkisvaldsins er nefnilega sá að þeir sem leggja slíkt til virðast falla í sömu gryfju og John Maynard Keynes. Roy Harrod, ævisöguritari Keynes, kallaði þessa gryfju "the presuppositions of Harvey Road" og átti þá við að Keynes gerði ráð fyrir því að "réttu mennirnir" stjórnuðu. Það versta við áhrif Keynes var nefnilega ekki það að hagfræðikenningar hans um hallarekstur ríkisins væru endilega rangar, heldur það að hann virðist ekki hafa hugsað út í það hvernig reglur stjórnmálanna verka á hegðun stjórnmálamanna. Þrátt fyrir góð áform, virðast þeir sem ætla arðinn í hendur stjórnmálamanna eigi betur á vegi staddir hvað hegðun ríkisvaldsins varðar.
  Á undanförnum áratugum hefur komið fram skóli innan hagfræðinnar sem rannsakað hefur leikreglur stjórnmálanna og hvaða áhrif þær hafa á hegðun ríkisvaldsins. Almannavalsfræðin, eins og þessi fræði eru kölluð, kennir okkur það m.a. að stjórnmálamenn eru ekkert öðruvísi en aðrir menn og þess vegna verðum við að skoða hegðun þeirra á sama hátt og hegðun annara. Hinn hagsýni maður starfar jafnt á markaði stjórnmálanna sem hefðbundnum markaði, hann hámarkar eigin hag hvar sem hann er. Á markaði stjórnmálanna keppir hann við aðra stjórnmálamenn um hylli kjósenda og afleiðingin getur orðið sú að sérhagsmunirnir vaða uppi og ríkisútgjöldin fara úr böndunum. Leikreglur stjórnmálanna skipta því máli, alveg eins og reglur á hefðbundnum markaði skipta máli.
  Hagsaga Vesturlanda undanfarna hálfa öld sýnir okkur það að reglurnar á markaði stjórnmálanna eru langt frá því að vera gallalausar. Þrálátur halli á ríkisbúskapnum hefur viðgengist í flestum löndunum, sérhagsmunahóparnir hafa verið iðnir við kjötkatlana og afleiðingarnar hafa verið síaukin ríkisumsvif hvarvetna. Með þessa reynslu til hliðsjónar er bágt að binda vonir við þann boðskap að í stað skatts á arð fiskveiðanna muni stjórnmálamenn minnka eða leggja af aðra skatta.3 Víst hefur það gerst að ríkissjóður hafi lækkað eða afnumið tiltekinn gjaldastofn, en slíkt telst þó til undantekninga. Þróunin hefur nær eingöngu verið sú að fleiri og fleiri gjaldstofnar hafa verið fundnir til og gjöldin síhækkað að auki. Það læðist því að manni sá ljóti grunur að álagning sérstaks skatts á arðinn yrði einungis til þess að auka umsvif ríkisins enn frekar og kapp hagsmunahópanna yrði þá slíkt að þessar auknu tekjur ríkisins hyrfu að mestu í sóun. Þessi rentusókn, eins og slík hegðun er kölluð innan hagfræðinnar, mun á endanum sóa þeim arði sem skapast við skynsamari veiðar. Hluti arðsins færi þó eflaust í samneyslu, en afgangurinn að mestu í óskynsamlegar fjárfestingar og má þar vitna til þeirra fjárfestinga sem gerðar hafa verið í nafni byggðastefnu undanfarna áratugi.

  Aukin hagkvæmni í skattheimtu?
  Að auki hefur verið bent á að með álagningu sérstaks skatts á arðinn og með þeim tekjuauka sem ríkisvaldið fengi þannig í hendur, gæti ríkisvaldið á móti að afnumið almennan tekjuskatt eða lækkað virðisaukaskattinn. Ef slíkt gengi eftir ætti hagkvæmni í hagkerfinu aukast, því skattur á arð er fræðilega séð talin valda minni óhagkvæmni en aðrir skattar.4 Þjóðarframleiðsla ykist, því lækkun hinna skattanna hefur áhrif til hvatningar á vinnuvilja fólks. Ýmislegt er þó athugavert við röksemdafærslu þessa.
  Eitt er það að setja fram líkan um hagkerfið og lesa út úr því hvernig heppilegast sé að leggja á skatta, annað er síðan að framkvæma slíka skattheimtu, því raunveruleikinn er oftast eilítið flóknari en líkönin gefa til kynna. Þannig er hætt við því að álagning skatts á arð fiskveiðanna yrði ekki gallalaus í framkvæmd, þó auðvelt sé að finna slíkan skatt hárnákvæmlega í líkani. Það er því lítið annað en fullyrðing að hagkvæmni í hagkerfinu aukist eitthvað við það að skipta á rentuskatti og öðrum sköttum.
  Ef, aftur á móti, menn vilja enn halda því fram að auðvelt sé í framkvæmd að leggja á rentuskatta, því ekki þá að afnema alla aðra skatta og leggja allsstaðar á rentuskatta? Því skildum við hafa hagkerfið óhagkvæmara en þörf er á? Væri ekki hagkvæmast að afnema alla tekju- og veltuskatta á einstaklinga og fyrirtæki, en leggja þess í stað skatt á arðmyndun hvarvetna í hagkerfinu? Það getur varla verið eitthvað meira tiltökumál að finna rentujaðar í einni grein hagkerfisins en annari!

  Ávöxtun arðsins og gengi
  Færi arðurinn beint í hendur almennings er líklegast að honum yrði að mestu varið í neyslu. Hlutur hvers einstaklings yrði fremur lítill, þótt heildararðurinn væri mikill. Við fullkomna hagkvæmni í veiðunum gæti verið um einhverja tugi þúsunda króna að ræða á hvern Íslending á ári hverju, eða of lítið til þess að um einhverjar veigamiklar og varanlegar fjárfestingar yrði að ræða af þeirra hálfu. Ennfremur færi hluti af þessum arði til ríkisvaldsins í mynd tekjuskatta.
  Heppilegra virðist því að arðurinn lendi hjá útgerðunum, sérstaklega ef menn telja að skynsamlegasta ráðstöfun arðsins væri að hann færi í fjárfestingar. Á þann veg færi nægilega mikið af arðinum í hlut hvers aðila til þess að um arðbærar og atvinnuskapandi fjárfestingar yrði að ræða. Á þennan veg er einnig líklegast að allur almenningur nyti arðsins mest. Útgerðaraðilar myndu þó að sjálfsögðu eyða hluta af arðinum í neyslu, jafnvel dágóðum hluta, en að mestu leyti færi arðurinn í arðbærar fjárfestingar utan útvegsins. Hitt er einnig ljóst að hluti þessa arðs mun skila sér í ríkiskassann í gegnum hið almenna skattakerfi. Jafnframt mun hluti arðsins falla sjómönnum í skaut í krafti hlutaskiptalaga og sterkari samningsstöðu.
  Því hefur stundum verið haldið fram að núverandi kerfi fiskveiðistjórnunar leiði óhjákvæmilega af sér að raungengi íslensku krónunnar lækki. Þrálátur viðskiptahalli, að hluta vegna óþarfra fjárfestinga í sjávarútvegi, sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf undanfarna áratugi muni áfram verða til staðar. Í stað óþarfra fjárfestinga útvegsins munu útvegsmenn og fyrrum kvótahafar eyða arðinum, sem hlýst af hagkvæmari veiðum, í eyðslu og fjárfestingar erlendis. Þannig mun hinn þráláti viðskiptahalli halda áfram og gengisfellingar verða nauðsynlegar með reglulegu millibili til að slá á hallann. Afleiðing þessa er að kaupmáttur alls almennings lækkar gífurlega.
  Það er þó engan veginn augljóst að útvegsmenn og fyrrum kvótahafar muni eyða eða fjárfesta allan sinn arð á erlendri grundu. Líklegra er að stærsti hlutinn færi í fjárfestingar hérlendis vegna þeirrar staðbundnu þekkingar sem aðilarnir hafa. Þannig myndu þeir ráðstafa arðinum að mestu í fjárfestingar hérlendis sem auka atvinnu og hagvöxt. Afleiðingin yrði hærra gengi krónunnar og hærri kaupmáttur launa! Hluta arðsins gæti verið ráðstafað erlendis bæði í neyslu og fjárfestingar. Þótt svo færi að stærsti hluti arðsins af hagkvæmari veiðum yrði notaður á erlendri grundu er líklegast að hann færi minnst í neyslu en mest í fjárfestingar; fjárfestingar sem skila arði af sér til baka. Í versta falli færi líklega svo að arðurinn, sem hingað til hefur verið sóað í óþarfa fjárfestingu og kostnað innfluttra skipa, myndi áfram verða sóað í "óþarfa" innflutning. Í því værum við þó ekki verr settir en ef almenningur fengi arðinn þar sem líklegasta ráðstöfun almennings á arðinum væri að nota hann í neyslukaup erlendis frá. Reyndar er þó hæpið hagfræðilega séð að segja að neysla, hvort heldur almennings eða útgerðarmanna, sé sóun, því að með slíkri yfirlýsingu er verið að leggja siðferðilegt mat á hegðun manna. En ef menn vilja ganga út frá því að fjárfesting sé heppilegri ráðstöfun á arðinum en neysla, þá virðist það heppilegast að útgerðin og fyrrum kvótahafar fái arðinn til ráðstöfunar.

  Varanleg réttindi leiða til mestu hagkvæmni
  Væru þær breytingar á núverandi kvótakerfi, sem nefndar voru hér að ofan, gerðar er næsta víst að aukin hagkvæmni myndi nást í fiskveiðumum og það nokkuð fljótt. Með því að festa skipulagið í sessi, gera veiðiréttindin varanleg og heimila fullt og frjálst framsal myndu útgerðarmenn ekki láta á sér standa, heldur ráðast í þau viðskipti og aðrar ráðstafanir sem arðvænlegastar væru.
  Ef núverandi kvótakerfi, með smávægilegum en þó mikilvægum breytingum, getur náð fram slíkri hagkvæmni hvers eru þá formælendur sérstaks skatts á arðinn að krefjast? Satt best að segja liggur svarið við þeirri spurningu ekki á lausu. Svo kann að vera að einhverjir séu ósáttir við það hversu lengi það tekur að minnka flotann, því að sumir virðast vilja minnka flotann um allt að helming strax. Þetta á að gerast með því að ríkið slái eign sinni á kvótana, kalli síðan til uppboðs þar sem öllum verður frjálst að bjóða í veiðiréttindi. Kaupandi veiðileyfis má síðan stunda veiðar í tiltekinn árafjölda, en þá fellur það úr gildi og kaupa verður nýtt svo að áfram megi stunda veiðar.
  Helsti munur á þessu veiðileyfakerfi og breyttu kvótakerfi, sem mælt var fyrir hér að ofan, er sá að minni óvissa ríkir í því síðarnefnda. Óvissan er minni við séreignarkvóta, því þar eru veiðiréttindin varanleg, en við veiðileyfi eru réttindin aðeins til skamms tíma. Við varanleg réttindi taka menn skynsamlegri ákvarðanir um fjárfestingu en við skammtíma réttindi, og því er veiðileyfakerfið í raun óhagkvæmara. Þar að auki má benda á að undir kvótakerfi síðustu ára hefur markviss þróun átt sér stað til aukinnar hagræðingar, en sú þróun færi forgörðum ætti nú að bjóða alla kvótana upp.
  Sú fullyrðing, sem heyrst hefur, að of mörgum skipum sé haldið til veiða er rétt, en ástæðan er ekki sú að ekkert gjald sé innheimt. Með því að halda óhagkvæmu skipi til veiða á meðan annar útgerðamaður gæti nýtt veiðiréttindin til arðmyndunar, fer útgerð þess fyrrnefnda á mis við mögulegar tekjur af sölu veiðiréttindanna. Þannig greiðir útgerðarmaður óhagkvæma skipsins í raun gjald fyrir veiðiréttindin, því að mögulegar sölutekjur eru hluti af fórnarkostnaði hans.
  Þá er einnig rétt að ræða þá fullyrðingu sem heyrst hefur um að útgerðir hafi ekki ráðist í hagkvæmustu ráðstafanir varðandi fjárfestingar sínar vegna þess að þeir telji óvíst að framhald verði á núverandi kvótakerfi. Aðal rökin á bak við þá fullyrðingu eru að þar sem verð á varanlegum kvóta í dag sé aðeins þrisvar til fjórum sinnum hærra en verð á leigukvóta til eins árs, þá séu útgerðir í raun á þeirri skoðun að kvótar sem þeir kaupa séu tímabundnir, kannski til fimm ára hið lengsta, en ekki varanlegir. Þessi fullyrðing er þó hæpin, því ógerlegt er að ákvarða ávöxtunarkröfu sem notuð er við núvirðisreikning útgerða og þar að auki er gífurlegur óvissuþáttur sem reikna verður með. Líklegt er að eðlileg ávöxtunarkrafa í veiðunum sé fremur há og að óvissa varðandi heildarafla og markaðsaðstæður í framtíðinni geri hana enn hærri. Ef hin rétta ávöxtunarkrafa væri ljós þá sæist eflaust að flestar útgerðir líta á kvótakerfið sem framtíðarskipulag hérlendis, þó svo ekki sé full vissa fyrir því. Þá ber einnig á það að líta að verð á leigukvótum er eflaust í hærri kantinum nú, þar sem umfang kvótaleigu er í raun fremur lítið og því eflaust aðeins bjartsýnustu útgerðir sem þar versla. Þar sem lítið í raun vitað um ákvörðunarvalda á kvótamarkaðnum ber þó að varast allar fullyrðingar.

  Má flýta fyrir hagkvæmninni?
  Eitt af því sem bent hefur verið á til stuðnings sérstökum skatti á arðinn er, að þó hann auki kannski ekki á hagkvæmnina í veiðunum,5 þá geti álagning skattsins skilað okkur hagkvæmari veiðum fyrr. Þannig hefur því verið haldið fram að álagning gjalds á veiðarnar strax myndi leiða til þess að flotinn minnkaði snögglega og út af fyrir sig gæti það orðið raunin. En hætt er við að álagning slíks gjalds muni valda því að aðeins þeir fjársterkustu héldust áfram við veiðarnar, en ekki endilega þeir sem best væru fallnir til þeirra. Þannig gæti raunin orðið sú að veiðigjaldið fækkaði veiðimönnunum, eins og að er stefnt, en hægkvæmnin yrði minni fyrir vikið. Álagning skattsins myndi þá í reynd tefja fyrir eðlilegri og sjálfsprottinni hagkvæmni í veiðunum.
  Eins og bent hefur verið á, þá greiða útgerðirnar í raun gjald nú þegar því aflakvóti þeirra hefur virði og því fórna þeir mögulegum sölutekjum með því að halda enn til veiða. Skattur sem flýtti fækkun fiskiskipa byggir að því er virðist á einu af tvennu; að skatturinn sé hærri en arðinum nemur eða þeirri forsendu að skynsemi veiðimanna sé meiri við veiðigjald en án. Það fyrra er óskynsamlegt og það síðara villandi.
  Ef verið er að ræða um samskonar aflakvótakerfi, með samskonar réttindum, jafn varanlegum og að öllu leyti eins, nema því að ríkið leggur gjald eða skatt á arðinn í öðru tilfellinu en í hinu eru réttindin skilgreind endurgjaldslaust af ríkisins hálfu, þá ætti hagkvæmnin að skila sér á jafnlöngum, eða jafnskömmum, tíma og kerfin í heild að vera jafn hagkvæm. Að sjálfsögðu er þetta þó háð því að bæði kerfin séu ætluð fyrir sömu aðila, að gert sé ráð fyrir því að mennirnir séu jafn skynsamir við bæði kerfin. Ef svo væri ekki, væri að sjálfsögðu tvennu ólíku saman að jafna. Ástæða er því til að undirstrika það, að skynsamur útgerðarmaður tekur nákvæmlega sömu ákvörðun til að bæta sinn hag hvort heldur hann verslar veiðiréttindi sín af hinu opinbera eða af öðrum útgerðarmanni.

  Fordæmi Ný-Sjálendinga?
  Bent hefur verið á að Ný-Sjálendingar, sem komið hafi á kvótakerfi ekki ósvipuðu hérlendu kerfi, leggi auðlindagjald á fiskveiðar í landhelgi sinni. Fyrst Ný-Sjálendingar leggja slíkt gjald á sinn útveg því skyldum við þá ekki fara eins að?
  Sannleikurinn er nú reyndar sá, að við gerum slíkt nú þegar. Hverju veiðiskipi er skylt að greiða bæði veiðieftirlitsgjald og gjald í hagræðingasjóð. Þar að auki hefur núverandi ríkisstjórn ákveðið að kvótar í eigu Hagræðingasjóðs verði leigðir (og jafnvel seldir) til fiskiskipa. Tekjur af þessum gjöldum og kvótaleigu eiga síðan að standa að mestu eða öllu leyti undir kostnaði sem ríkissjóður ber vegna útvegsins, þ.m.t. veiðieftirliti, hafrannsóknum og úreldingu skipa.
  Að vísu eru þessi gjöld útvegsins ekki opinberlega kölluð auðlindagjald eins og það er kallað á Nýja-Sjálandi. Nafngiftin ætti reyndar ekki að skipta neinu máli heldur tilgangurinn! Hér á landi hefur tilgangurinn með þessum gjöldum verið sá að útgerðin standi beint undir þeim kostnaði sem þjónusta hins opinbera til hennar veldur. Á Nýja-Sjálandi var tilgangurinn annar með álagningu auðlindgjalds, en í heild sinni er hann langt frá því að standa undir kostnaði hins opinberri þjónustu fyrir sjávarútveg þar. Upprunalega höfðu verið áform þar í landi um að auka þessi gjöld á kvótanna, en frá þeim var horfið 1990 með því binda gjaldið við verðvísitölu næstu fimm árin. Af reynslu Ný-Sjálendinga verður því varla fundið fordæmi sem eykur veg auðlindagjaldsins.6

  Í rétta átt, en...
  Fiskihagfræðingar hafa bent á að tilkoma kvótakerfisins sé spor í rétta átt, því kerfið (með nokkrum breytingum þó, sem bent var á hér að ofan) tryggi að leyfður heildarafli sé tekinn með hagkvæmasta hætti.7 Með aflahlutdeildarkvóta á hvert skip, breyti veiðimennirnir úr því að veiða sem flesta fiska í það að afla sem flestra króna og það á sem ódýrastan máta. Úr verður skynsamlegra kapp, skipunum fækkar og arðsköpun kemur í stað arðsóunar. Veiðarnar verða því eins hagkvæmar og mögulegt er.
  Þeir benda hins vegar á að kvótakerfið, sem slíkt, tryggi ekki að heildaraflinn sé rétt ákvarðaður. Hagfræðileg hámörkun heildaraflans, burtséð frá því hvernig sá afli er tekinn, er annars konar vandamál og er jafn mikilvægt að heppileg lausn finnist á því. Ákvörðunin um heildarafla er ekki nema að hluta líffræðileg spurning. Það er í raun ekki verið að spyrja um líffræðilega hámörkun fiskistofnanna. Ákvörðunin er um hagfærðilega hámörkun heildaraflans, en hún snýst um það að hámarka peningalegt virði auðlindarinnar! Þetta er ekki bara spurning um hámörkun tekna af veiðunum í ár, heldur hámörkun arðs af fiskistofnunum um alla framtíð. Til að ná sem mestri hagkvæmni fiskveiðanna, bæði hagkvæmni í veiðum og hagkvæmasta heildarveiðimagn á hverjum tíma, þarf að finna þann feril sem gefur mestar tekjur til framtíðar. Þennan feril þarf að finna vilji menn að arðsköpun verði talin í milljörðum króna til framtíðar!

  Aflakvótakerfi til einföldunar
  Við annað skipulag fiskveiða en aflahlutdeildarkerfi væri þessi ákvörðun miklum takmörkunum háð. Stjórnandi veiðanna yrði að ráða yfir slíkri þekkingu, gagnaöflun og reiknigetu að yfirmannlegur væri. Aflahlutdeildakerfi auðveldar þetta þó til mikilla muna. Með slíku kerfi, þar sem kvótarnir ganga kaupum og sölu á markaði eins og aðrar eignir, verður ákvörðunartakan mun einfaldari. Kvótanir öðlast verð á markaði, verð sem byggir á núvirði þess arðs sem þátttakendur á markaðnum telja að kvótanýtingin gefi af sér. Því fullkomnari og virkari sem markaðurinn er, því meiri eru líkurnar á að um rétta ákvörðun geti verið að ræða um heildaraflaferilinn.8
  Verð aflakvóta á markaðnum á að ráða því hversu mikið er veitt á hverjum tíma, því að á kvótamarkaðnum er samankomin sú besta þekking sem fyrir hendi er á fiskveiðunum. Þátttakendur á þessum kvótamarkaði eru allar útgerðir fiskiskipa, en þær búa yfir bestu fáanlegu þekkingu um eigin aðstæður. Auk þess hafa sem þær alla hvatningu að afla sér bestu mögulegu þekkingar á veiðihorfum, fiskistofnum og mörkuðum. Þessi þekking skapar verðið á aflakvótanna.9
  Rétt er að víkja hér aftur að þeirri hugmynd að leggja beri sérstakan skatt á arð fiskveiðanna. Ef menn, þrátt fyrir það sem áður segir, vilja enn leggja slíkan skatt á veiðarnar, þá er hér komin enn ein röksemd gegn hagkvæmni hans. Leiðin til að hámarka arð af veiðunum byggir á því að nota verðupplýsingar kvótamarkaðarins til að ákvarða heildaraflaferilinn og því getur allt inngrip, eins og sérstök skattlagning á arðinn, orðið þess valdandi að rangur ferill veljist. Eina leiðin til þess að setja slíkan skatt á arðmyndun veiðanna væri sú að finna fyrirfram fræðilega rétt skatthlutfall, þ.e. rentujaðarinn, og halda síðan þeim skatti óbreyttum til eilífðarnóns. Skatturinn yrði að vera rétt ákvarðaður í upphafi, því annars yrði rangur aflaferill valinn. Hagkvæmni veiðanna krefst þess einnig að breytingar verði ekki gerðar á skattinum, því hækkun eða lækkun skattsins myndi breyta hagkvæmasta heildaraflaferli veiðanna. Þetta útilokar því álgningu sérstaks skatts á arðmyndunina frá hagkvæmnissjónarmiði.

  Frá afnotarétti til eignaréttar
  Með hliðsjón af því sem að ofan er sagt, er þá ekki eðlilegast að þátttakendurnir á kvótamarkaðnum ákveði sjálfir heildaraflamagnsferilinn? Er ekki heppilegast að þeir eigi fiskistofnana og beri ábyrgð á þeim? Einn frumkvöðull fiskihagfræðinnar, Anthony Scott, leggur til eitt svar við þessum spurningum.10 Kenningar hagfræðinnar sýna það að ef séreignarréttur er til staðar á framleiðslutækjunum þá sé markaðsskipulagið hentugra en ríkisvald til að koma reglu á framleiðslu. Spurningin sem Scott spyr er því hvort þessi alhæfing hagfræðinnar nái til fiskveiða sem byggja á aflakvótakerfi?
  Veiðiheimildir þær sem úthlutað er undir núverandi kvótakerfi eru ekki sannar eignir, þó kvótarnir hafi reyndar marga þá þætti sem sönn eign þarf að hafa. Eins og eign, eru kvótarnir framseljanlegir (transferable), þeir eru skiptanlegir (divisible) og sérnýttir (exclusive). Til þess að geta talist full eign þurfa kvótarnir, til viðbótar, að vera varanlegir (durable), sveigjanlegir (flexible) og óumdeildir (quality of title).
  Flestir þeirra sem aðhyllast einhverskonar aflakvótakerfi telja að heppilegasta þróunin í málefnum fiskveiðanna sé sú að kvótarnir verði í framtíðinni fullar eignir einstaklinga. Þeir telja að aflahlutdeildir framtíðarinnar verði að hafa alla þá þætti sem aðrar sannar eignir hafa, fullkominn eignarrétt. Um það eru flestir formælendur aflakvótakerfis sammála. Menn greinir reyndar síðan á um hvort skattleggja þurfi þessi eignarréttindi sérstaklega, t.d. með auðlindagjaldi, eða hvort hið almenna skattakerfi sé þar nægilegt. Hitt greinir aðila ekki á um, að fullur eignarréttur verður að myndast.
  Ástæður þess að eignarréttur, í stað afnota- eða leiguréttar, verður að myndast eru að finna í hvatninga-og umboðsvandanum (incentive-and agency problems). Svo framarlega sem aðeins er um takmörkuð réttindi að ræða er hætt við að skynsamir veiðimenn líti ekki á fiskistofnanna eða veiðarnar sem framtíðarhagsmuni sína. Þeim hættir þá til að taka ákvarðanir eða haga sér eins og um skammtíma ávinning sé að ræða. Fiskmenn myndu t.d. halda áfram að svindla á kvótum, þ.e. svindla á tegundum og fara fram úr kvóta, og einnig henda fiski í sjóinn, þrátt fyrir að hagkvæmara væri að landa þeim afla (stundum getur reyndar verið hagkvæmara að henda fiski, en það er annað mál). Ef veiðiréttindin eru aðeins skammtímaréttindi eða ófullkomin réttindi er hættan sú að þegjandi samkomulag myndist um það á meðal veiðimanna að misnota auðlindina.
  Til þess að lágmarka eftirlitskostnað með auðlindinni og hámarka arð hennar, er því ekki nóg að hefta aðgang að auðlindinni heldur verður líka fjarlægja þætti sem gera hana að sameign allra. Í stað sameignar verður að gera auðlinina að séreign þeirra sem veiðiréttindin hafa undir höndum. Til að ná mestri hagkvæmni í veiðunum sjálfum er því best að gera veiðiréttinn að séreignarétti.

  Séreign á fiskistofnum
  Eins og bent var á hér að ofan, þá yrði hgkvæmni í veiðunum sjálfum tryggð með eignarrétti á veiðiheimildum. Til að ná sem fullkomnustu hagkvæmni í nýtingu fiskistofnanna þarf þó meira til, því finna þarf þann framtíðarferil sem gefur mestan arð af auðlindinni. Markaður fyrir veiðiréttindi auðveldar mjög alla upplýsingagjöf hvað þetta varðar, því núvirði kvótanna segir til um þennan heildaraflaferil. En hverjum er best treystandi til þess að nýta þessar upplýsingar til að hámarka arðinn af auðlindinni?
  Í raun stendur valið um tvo aðila sem gætu tekið þessa fiskveiðistjórnun að sér: Annars vegar ríkisvaldið, eða stofnun á vegum þess. Hins vegar eigendur sjálfra veiðiréttindanna, með því að gera þá um leið að eigendum fiskistofnanna. Með því að mynda eignarrétt á kvótunum er stórt skref stigið í þá átt að kvótahafar líti á auðlindina sem sína eign, að þeir líti á eflingu fiskistofnanna sem framtíðarhagsmuni sína. Eignarrétturinn leiðir til þess að ákvarðanir kvótahafa verða skynsamlegri upp á framtíðarnýtingu auðlindarinnar. Í raun fara kvótahafar að líta á réttindi sín sem hlut í vaxandi eign.
  Ef eigendum veiðiréttindanna væri falið að sjá um stjórnun fiskveiðanna er líklegt að fjárfesting þeirra í þeirri stjórnun yrði umtalsverð. Líklegt er að eitt það fyrsta sem þeir gerðu væri að koma á fullkomnum tövluvæddum kvótamarkaði, svo upplýsingastreymi um virði fiskistofnanna yrði meira og betra. Þetta yrði ekki aðeins til þess að heildaraflaferillinn yrði ljósari, heldur kæmi einnig meiri sveigjanleiki til fyrir fjölveiðafiskiskip að aðlaga kvóta sinn að raunverulegum afla. Kvótahafar sæu sér einnig hag í því að vernda betur fiskistofnanna og fiskimiðin, að fjárfesta í fiskeldi til að auka við fiskistofnanna, að kaupa aðila til að veiða ránfiska, svo eitthvað sé nefnt. Þá er líklegt að eftirlit með veiðunum og veiðiskipunum sjálfum yrði betra og ódýrara.
  Fiskveiðistjórnun sem hvíldi á eign kvótahafa á veiðiréttindum og eign þeirra á fiskistofnunum hefði þess vegna ýmsa kosti fram að færa. Aðalkosturinn við slíkt skipulag yrði þó það að nýting fiskistofnanna tæki mið af því að hámarka þann arð sem auðlindin getur mögulega gefið af sér. Ekki er ólíklegt að fyrstu ákvarðanir yrðu á þann veg að byggja upp fiskistofnana og auka þannig virði þeirra til langframa.
  Hinn möguleikinn, að ríkisvaldið sjái um stjórnun fiskveiðanna og ákvarði heildarafla, er í raun það kerfi sem við búum við í dag. Reynslan af því er ekki nægilega góð. Heildarafli hefur verið ákveðinn þannig að fiskistofnarnir hafa minnkað ár frá ári og leyfilegur heildarafli þar af leiðandi. Ríkisvaldið hefur ekki farið að tillögum Hafrannsóknarstofnunnar, nema að litlu leyti, heldur hugað fremur að öðrum þáttum við ákvörðun heildarafla. Ríkisvaldið hefur þannig hvorki tekið tillit til líffræðilegra þátta né hagfræðilegra þátta við ákvörðun heildarafla, heldur nær eingöngu byggt ákvörðunina á þáttum eins og atvinnuástandi og þjóðartekjum. Hámörkun arðs af auðlindinni til framtíðar er alls ekki það sama og hámörkun þjóðartekna til skemmri tíma.
  Almannavalsfræðin kennir okkur að stjórnmálamönnum hætti til að hámarka til skemmri tíma, vegna þess að þeir eru aðeins kosnir til fárra ára í senn. Þeirra hagur er að fá endurkosningu og til þess verða þeir að vinna hylli kjósenda á fjögurra ára fresti. Þeirra heildaraflaferill miðast því í besta falli við að hámarka þjóðartekjur yfir kjörtímabilið, en slíkt getur aldrei orðið til þess að uppbygging fiskistofnanna eigi sér stað.
  Óháð stofnun á vegum hins opinbera myndi eflaust gera betur. Slík stofnun, eins og t.d. Hafrannsóknarstofnun, myndi í það minnsta taka tillit til líffræðilegu þáttanna og jafnvel byggja upp fiskistofnana. En slík stofnun hefur þó engan hag af því að hámarka arð af auðlindinni, því arðurinn rennur ekki til hennar né þeirra einstkalinga sem þar starfa.

  Íslandsmið h.f.
  Af fræðum og rannsóknum Scotts má draga þá ályktun að heppilegast væri að veiðiréttindin og fiskistofnanir sjálfir verði gerðir að séreign. Aðeins með slíku fyrirkomulagi er líklegt að sem næst fullkomin hagkvæmni komist á við nýtingu fiskistofnanna, en það ætti að vera markmið sem allir geta sæst á. Ein möguleg þróun í átt að slíku er að kvótahafar fái eignarrétt á veiðiheimildum sínum og að þeim verði falið að koma á skipulagi til að ákvarða fiskveiðistjórnunina. Hvort þeir einir fái að sitja að þeim arði sem fólgin er í réttri nýtingu auðlindarinnar, er önnur spurning. Vilji menn endilega, af einhverjum siðferðilegum ástæðum, að aðrir eða fleiri fái þar hlut er mögulegt að koma á almenningshlutafélagi um fiskistofnana og væri slíkt í það minnsta heppilegri lausn en að leggja sérstakan skatt á arð af fiskveiðunum. Aðalatriðið er þó að koma séreign á nýtingu auðlindarinnar, aðeins þannig má hámarka þann arð sem mögulegur er.

  Sátt um aflakvótakerfi
  Samkvæmt gildandi lögum um fiskveiðistjórnun skal endurskoðun á lögunum fara fram fyrir árslok 1992 og er sú vinna þegar hafin. Það sem að ofan hefur verið sagt um hvernig bæta megi núverandi kerfi ætti því að vera til hliðsjónar í þeirri endurskoðun. Með nokkrum breytingum (sem nefndar voru hér að ofan) mætti enn auka og hraða hagkvæmni í veiðunum. Það væru hins vegar afglöp að leggja á þá braut að ríkið eigni sér veiðiréttindin og leigi þau síðan til útgerða. Leiguréttindi yrðu aðeins til þess að skapa óvissu í veiðunum, óvissu sem varanleg réttindi eyða. Skattur á arðinn er óþarfi og hefur engu við hagkvæmni að bæta, eins og bent hefur verið á, því skynsemi manna mun ekkert aukast við skattinn.
  Formælendur sérstaks skatts á fiskveiðarnar og aðrir formælendur kvótakerfis eru að öðru leyti sammála um að aflahlutdeildarkerfi sé heppilegasta skipulag fiskveiðanna. Það að hóparnir eyði kröftum sínum í deilur um skatt á arðinn gæti því miður orðið til þess að andstæðingar kvótakerfis fengju sínu fram og væri slíkt mikið ólán. Það væri væri heppilegra að hóparnir gætu tekið höndum saman um að tryggja að aflahlutdeildarkerfi verði áfram það skipulag sem notast verður við hérlendis. Þegar það er tryggt (sem ætti að geta orðið á næsta ári) þá geta aðilar tekið upp hanskann að nýju og deilt um skiptingu arðs af fiskveiðunum á siðferðilegum forsendum!

  ____________________________________

  1. Armen Alchian, eins og reyndar flestir stofnanahagfræðingar, telur að óvarlegt sé að ætla að hinn raunverulegi markaður nái nokkurn tíma þeirri kjörstöðu sem lesa má úr líkani fullkomins markaðar. Þess vegna eiga hagfræðingar ekki að bera raunveruleikann saman við líkönin, heldur að bera frekar saman mögulegar niðurstöður eins og þær geta orðið á markaðnum. Sjá Alchian "Uncertainty, Evolution and Economic Theory" Journal of Political Economy 58 (No. 3, June) 1950:211-221, og Þráinn Eggertsson, Economic Behavior and Institutions, Cambridge:Cambridge University Press, 1990:55-58.
  2. Einstaka aðilar hafa öðru hvoru nefnt það að réttlátast væri að almenningur fengi veiðiréttindin í sínar hendur og í sjálfu sér má alveg taka undir það sjónarmið (það hefði þá átt að gerast strax í upphafi þegar kvótakerfi var sett á). Hins vegar verður ekki fram hjá því horft fram hjá því að ríkisvaldið og hagsmunaaðilar hafa ekki tekið undir þetta sjónarmið. Á meðal þeirra hefur spurningin verið um það hvort ríkið eða útgerðarmennirnir ættu að eiga veiðiréttinn. Hagsmunir hvers einstaklings úr hópi almennings eru það litlir að það tekur því ekki fyrir hann að eyða kröftum í að berjast fyrir þeim, það svarar ekki kostnaði.
  3. Almannvalsfræðiskólinn hefur lagt til að stjórnarskrárskorður verði reistar við skattheimtu og eyðslu ríkisvaldsins, svo halda megi umsvifum þess innan marka. Ef farið yrði út í sérstaka skattheimtu á fiskveiðiarðinn ætti um leið að setja slíkar stjórnarskrárskorður hér á landi. Sjá nánar í James M. Buchanan, Hagfræði Stjórnmálanna, Reykjavík:Stofnun Jóns Þorlákssonar, 1986. Almennt yfirlitsrit um almannavalsfræðina er Dennis C. Mueller, Public Choice II, Cambridge:Cambridge University Press, 1989.
  4. Ekki eru allir hagfræðingar á því að rentuskattar valdi ekki óhagkvæmni. Sjá t.d. Harold Demsetz, Ownership, Control and the Firm, Cambridge:Basil Blackwell, 1988:40.
  5. Áður hefur verið bent á það að engin hagkvæmnisrök séu fyrir álagningu skatts á veiðarnar. Sjá Ragnar Árnason og Birgir Þór Runólfsson, Er Kvótakerfið Hagkvæmt? Reykjavík:Stofnun Jóns Þorlákssonar, 1991.
  6. Sjá Peter Ackroyd, o.fl. New Zealand's ITQ System: Prospects for the Evolution of Sole Ownership Corporations, Report to MAFFish, Canterbury, Nýja-Sjáland:The Centre for Resourse Management, Lincoln University, 1990, og Peter Ackroyd, o.fl. Depolitizing Fisheries Management: Chatham Island's Paua (Abalone) as a Case Study, Canterbury, Nýja-Sjáland:The Centre for Resource Management, Lincoln University, 1990.
  7. Ragnar Árnason, "Hagkvæm fiskveiðistjórnun" Hagmál, 31. árg. 1991:11-18.
  8. Ragnar Árnason, "Efficient management of ocean fisheries" European Economic Review 35 (1991):408-17, og "Market Based Fisheries Management" erindi flutt á ráðstefnu um fiskveiðistjórnun í Halifax á Nýfundnalandi, 19-22 nóvember 1991.
  9. Finna má ágætis samlíkingu í Donald N. McCloskey, If You're So Smart, Chicago:University of chicago Press, 1990:120, en hann bendir á að bestu upplýsingar um það hvort frysti snemma í Florída sé ekki að finna hjá veðurstofunni, heldur í kauphöllinni í New York. Í kauphöllinni má nefnilega sjá framtíðarverð á appelsínum, sem eru aðal uppskeran í Florída. Þessi verð segja til um það hversu mikil uppskeran verður og innifalið í þeim upplýsingum eru veðurhorfurnar, því uppskerumagnið veltur m.a. á þeim. Appelsínubændur og viðskiptaaðilar með appelsínur hafa allir veðurfræðinga á sínum snærum og veðurspár þeirra eru mun réttari en þær frá bandarísku veðurstofunni.
  10. Anthony Scott "Development of Property in the Fishery" Marine Resource Economics 5 (1988):289-311.

   

  This file has been created with the evaluation or unregistered copy of
  EasyHelp/Web from Eon Solutions Ltd
  (Tel: +44 (0)973 209667, Email: eon@cix.compulink.co.uk)
  http://www.eon-solutions.com