05.40.00
Aðferðir og vinnubrögð

Haustmisseri 1998

Námskeiðsgögn:

Krækjur; skrár, leiðbeiningar, orðasöfn, vefsíður, stofnanir:


Inntak og skipulag námskeiðsins:

Aðferðir og vinnubrögð er fimm eininga skyldunámskeið í íslensku og hagnýtri fjölmiðlun.

Tímar eru á þriðjudögum kl. 10:15-12 í stofu Á201 og fimmtudögum og föstudögum kl. 8:15-10 í stofu Á301.

Kennarar eru Eiríkur Rögnvaldsson prófessor og Sveinn Yngvi Egilsson M.A. Viðtalstími Eiríks er á fimmtudögum kl. 11-12 í herbergi 411 í Árnagarði, sími 525-4403, netfang eirikur@rhi.hi.is. Viðtalstími Sveins Yngva er á fimmtudögum kl. 15-16 í herbergi 418 í Árnagarði, sími 525-4424, netfang sye@rhi.hi.is.

Heimasíða námskeiðsins á veraldarvefnum er:

http://www.hi.is/~eirikur/av98.htm

Skoðið hana reglulega!

Námskeiðinu er ætlað að kynna nemendum sem eru að hefja íslenskunám ýmsar hagnýtar aðferðir og vinnubrögð í greininni. Því er svo lýst í kennsluskrá:
 

Fjallað verður um stafsetningu, greinarmerkjasetningu, tilvísanir, heimildaskrár o.þ.h. Gefnar verða leiðbeiningar um frásagnartækni í ritgerðum af ýmsu tagi, m.a. útskýrðar mismunandi kröfur til málfræði- og bókmenntaritgerða. Nemendur fá yfirlit yfir helstu heimildir um íslenskt mál á ýmsum tímum og kynnast handbókum og hjálpargögnum sem varða málnotkun og málfræði. Hliðstætt yfirlit verður gefið um heimildir og handbækur um íslenskar bókmenntir. Einnig verða kynnt vinnubrögð við yfirlestur handrita og prófarka og fjallað lítillega um þýðingar, einkum þýðingar nytjatexta. Þá verður íslensk málstefna og málræktarstarf kynnt.
Kunnátta nemenda í stafsetningu er könnuð á námskeiðinu, og þeim sem standa þar illa að vígi bent á leiðir til úrbóta. Á lokaprófi er m.a. tekið tillit til stafsetningar.

Á stundaskrá eru skráðir sex tímar í námskeiðinu, en hver nemandi sækir að jafnaði aðeins fjóra tíma á viku; tvo fyrirlestra á þriðjudögum og tvo æfingatíma, annaðhvort á fimmtudögum eða föstudögum. Í upphafi námskeiðsins verður ákveðið hvaða nemendur sækja æfingatíma á fimmtudögum og hverjir á föstudögum, en ætlunin er að hópurinn skiptist u.þ.b. til helminga. Þessir tímar verða nýttir til að ræða viðfangsefni vikunnar og vinna verkefni þeim tengd, og einnig til að heimsækja nokkrar stofnanir Háskólans. Til að fá einkunn fyrir námskeiðið þurfa nemendur að skila a.m.k. 8 verkefnum (af 10-12).


Helstu markmið námskeiðsins:

  1. Nemendur fræðist um háskólanám og vísindaleg vinnubrögð almennt og geri sér grein fyrir þeim mun sem er á námi í framhaldsskóla og háskóla.
  2. Nemendur fái yfirlit yfir helstu heimildir um íslenskt mál og bókmenntir á ýmsum tímum og kynnist handbókum og hjálpargögnum á þessum sviðum.
  3. Nemendur þjálfist í að semja ritgerðir og átti sig á þeim lögmálum sem gilda um byggingu þeirra, málsnið o.s.frv., svo og á mismunandi tegundum ritgerða.
  4. Nemendur læri að nýta sér heimildir, meta þær og vinna úr þeim, og tileinki sér reglur um tilvísanir í heimildir, frágang heimildaskrár o.s.frv.
  5. Nemendur glöggvi sig á reglum um frágang ritaðs máls og þjálfist í að lesa yfir, endurskoða og lagfæra eigin texta og annarra.
  6. Nemendur kynnist helstu vandamálum sem upp koma við íslenskun ýmiss konar texta, bæði bókmennta og nytjatexta (frétta, sérfræðilegra texta, leiðbeininga o.fl.).
  7. Nemendur átti sig á aðaleinkennum íslenskrar málstefnu, sögulegum bakgrunni hennar og forsendum, og þeim vanda sem við henni blasir í nútíð og framtíð.

Kröfur til nemenda og námsmat:

Námsmat er fjórþætt, og felst í eftirtöldum þáttum:

Þeir skiladagar sem hér eru nefndir eru endanlegir; ekki verður tekið við verkefnum eða ritgerðum sem er skilað of seint.

Athugið að nemendur verða að ná einkunninni 5,0 í öllum þáttum námsmats (stafsetningarprófi, heimaverkefni, ritgerð og skriflegu prófi) til að ljúka námskeiðinu.

Athugið einnig að í heimaverkefni, ritgerð og skriflegu prófi er tekið tillit til málfars, stafsetningar og greinarmerkjasetningar. Sé þessum þáttum ábótavant getur einkunn lækkað verulega, um allt að 3,0.


Skipting misserisins milli einstakra efnisþátta:

1. vika:  Kynning. Um háskólanám og vísindaleg vinnubrögð. 
2.-3. vika:  Handbækur og heimildir um íslenskt mál og bókmenntir. 
4.-5. vika:  Ritgerðasmíð; tegundir ritgerða, bygging, markhópur o.fl. 
6.-7. vika:  Mat og notkun heimilda; heimildatilvísanir. 
8-.9. vika:  Málsnið og málfar; stafsetning; yfirlestur. 
10.-11. vika:  Þýðingar bókmennta og nytjatexta. 
12.-13. vika:  Íslensk málstefna í fortíð, nútíð og framtíð.