05.40.06 Setningafræði

Haustmisseri 1995

Kennari: Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor

Tímar: Mánudaga kl. 8:15-10:00 og miðvikudaga kl. 13:15-15:00 í stofu 311 í Árnagarði.

Heimasíða: http://www.rhi.hi.is/~eirikur

Námskeiðið er framhaldsnámskeið í setningafræði, ætlað þeim sem hafa lokið námskeiðinu 05.40.03 Íslenskt nútímamál, eða hafa sambærilegan undirbúning. Gert er ráð fyrir að nemendur hafi lesið Setningafræði eftir Höskuld Þráinsson (5. útg. 1990) og tileinkað sér efni hennar að mestu leyti. Einnig er gert ráð fyrir að nemendur eigi og þekki Íslenzka setningafræði Jakobs Jóh. Smára (1920; endurpr. 1987).

Markmið námskeiðsins er að kynna fyrir nemendum setningafræðilega umræðu síðustu ára, og gera þá læsa á nýlegar bækur og greinar um íslenska og almenna setningafræði. Farið verður yfir nýja inngangsbók um nútímasetningafræði, og reynt að sýna hvernig þær kenningar og aðferðir sem þar eru kynntar koma að gagni þegar fengist er við íslensk viðfangsefni. Verkefni verða lögð fyrir nemendur vikulega til að þjálfa það sem er til umfjöllunar hverju sinni. Nemendur fá síðan ítarleg úrlausnablöð og geta borið sína eigin úrlausn saman við þau, en einnig mun kennari iðulega fara yfir úrlausnir allra nemenda og skila þeim aftur með athugasemdum.

Lesefni verður aðallega bók Liliane Haegeman, Introduction to Government and Binding Theory (2. útgáfa; Basil Blackwell, Oxford, 1994). Þetta er mikill doðrantur, 700 síður, en hugmyndin er að lesa inngang og 8 fyrstu kaflana; hátt á 5. hundrað síður. Gert er ráð fyrir að lesa einn kafla á viku, en gera þó hlé eftir hverja þrjá kafla, og taka þá viku í að fara nánar í erfiðustu atriði þeirra eftir óskum nemenda.

Kennsla byggist á því að kennari fer í valin atriði úr þeim kafla sem er til umræðu, og reynir að tengja umfjöllunina íslensku efni sem mest með því að taka íslensk dæmi og benda á líkindi eða mun íslensku og þeirra mála sem um er fjallað í bókinni (oftast ensku). Á heimasíðu kennarans á Veraldarvefnum (World Wide Web) verður að finna útdrátt úr þeim köflum sem lesa skal, þar sem m.a. koma fram íslenskar þýðingar fræðiorða og hugtaka, eftir því sem hægt er. Í tengslum við einstaka kafla í kennslubókinni má svo búast við að vísað verði á einhverjar greinar eða bókarkafla um íslensku.

Verkefni fá nemendur afhent á miðvikudögum. Úrlausnum skal skilað næsta miðvikudag, og kennari skilar þeim aftur mánudaginn þar á eftir. Úrlausnir verður þá að finna á heimasíðu kennarans á Veraldarvefnum. Með þessu móti er hugmyndin að reyna að tengja yfirferð í tímum, lestur og úrlausn verkefna sem best. Æskilegt er að nemendur séu byrjaðir að lesa texta vikunnar fyrir mánudagstímann, og velti jafnframt fyrir sér verkefninu úr þeim kafla. Í mánudagstímanum reynir kennari að koma nemendum vel af stað í kaflanum, og þeir fá verkefni úr honum, sem þeir leysa fyrir miðvikudaginn jafnhliða því að ljúka lestri kaflans.

Námsmat er háð samkomulagi kennara og nemenda, en kennari leggur eftirfarandi til:
a) 20% felist í verkefnaskilum; skila þarf a.m.k. 8 af 9 verkefnum úr einstökum köflum.
b) 60% felist í þrem verkefnum sem lögð verða fyrir eftir hverja þrjá kafla (20% í hverju).
c) 20% felist í stuttu (tveggja tíma) skriflegu prófi í lok námskeiðs (áður en próftími hefst).
Þetta ræðum við nánar í upphafi námskeiðsins.

Lausleg áætlun:

1. vika (mánudag 4. og miðvikudag 6. september)
Kynning. Yfirlit um nútíma setningafræði og þróun hennar undanfarin 40 ár.
Lesefni: Haegeman, Introduction.

2. vika (mánudag 11. og miðvikudag 13. september)
Orðasafnið og grunngerð setninga.
Lesefni: Haegeman, 1. kafli; The lexicon and sentence structure.

3. vika (mánudag 18. og miðvikudag 20. september)
Setningarliðir og gerð þeirra.
Lesefni: Haegeman, 2. kafli; Phrase structure.

4. vika (mánudag 25. og miðvikudag 27. september)
Yfirlit yfir inngang og 1.-2. kafla; spurningar og athugasemdir.
Lesefni: Haegeman, Introduction, 1.-2. kafli, og ljósritaðar greinar.

5. vika (mánudag 2. og miðvikudag 4. október)
Fallakenningin.
Lesefni: Haegeman, 3. kafli; Case theory.

6. vika (mánudag 9. og miðvikudag 11. október)
Bindivensl og yfirborðsnafnliðir.
Lesefni: Haegeman, 4. kafli; Anaphoric relations and overt NPs.

7. vika (mánudag 16. og miðvikudag 18. október)
"Huldir" liðir; FOR og stýring.
Lesefni: Haegeman, 5. kafli; Non-overt categories: PRO and Control.

8. vika (mánudag 23. og miðvikudag 25. október)
Yfirlit yfir 3.-5. kafla; spurningar og athugasemdir.
Lesefni: Haegeman, 3.-5. kafli, og ljósritaðar greinar.

9. vika (mánudag 30. október og miðvikudag 1. nóvember)
Ummyndanir; nafnliðarfærsla.
Lesefni: Haegeman, 6. kafli; Transformations: NP- movement.

10. vika (mánudag 6. og miðvikudag 8. nóvember)
Spurnarfærsla.
Lesefni: Haegeman, 7. kafli; Wh- movement.

11. vika (mánudag 13. og miðvikudag 16. nóvember)
Tómir liðir.
Lesefni: Haegeman, 8. kafli; An inventory of empty categories.

12. vika (mánudag 20. og miðvikudag 22. nóvember)
Yfirlit yfir 6.-8. kafla; spurningar og athugasemdir.
Lesefni: Haegeman, 6.-8. kafli, og ljósritaðar greinar.

13. vika (mánudag 27. og miðvikudag 29. nóvember)
Yfirlit yfir námskeiðið í mánudagstíma. Próf í miðvikudagstíma.
Lesefni: Haegeman, Introduction og 1.-8. kafli.