05.40.06 Setningafræði 

Inngangur: Sjónarhorn Chomskys á málrannsóknir

1. Málvísindi: Fræðin um tungumálið

Í upphafi er bent á að það er ekki ólíklegt að skilningur á því hvernig tungumál hegða sér geti varpað einhverju ljósi á hvað það er sem greinir manninn frá öðrum dýrum. Málvísindin gefa okkur mikilvægan aðgang að mannshuganum.

Hefðbundin málfræði fæst einkum við athugun á einstökum tungumálum. Málvísindamaður sem er t.d. að fást við ensku reynir að gera grein fyrir þeim reglum sem gilda um enskar setningar. Lýsing hans verður að gera grein fyrir því að setningarnar í (1) eru rétt myndaðar (well formed), en setningarnar í (2) eru rangt myndaðar (ill formed). Rétt myndaðar setningar lúta reglum enskrar málfræði; þær eru málfræðilega réttar (grammatical). Setningarnar í (2) lúta hins vegar ekki þessum reglum, og eru því málfræðilega rangar (ungrammatical), eins og stjarnan á að sýna.

En málfræði er ekki skrá um setningar ásamt dómum um þær (grammaticality judgements). Málfræðingar láta ekki nægja að lýsa gögnum sínum, heldur reyna þeir að nýta þau til að setja fram almennar reglur, sem síðan er hægt að beita á frekari gögn. Það mætti t.d. hugsa sér að skýra það að setningarnar í (2) eru ótækar með því að segja að í ensku skuli sagnir (verbs) fara á undan beinum andlögum sínum (direct objects); enskar setningar skuli sem sagt fylgja SVO-mynstrinu (SVO pattern); þ.e., frumlagið (S(ubject)) komi fremst, síðan sögnin (V(erb)), og þá andlagið (O(bject)). Þetta mætti kalla SVO-tilgátuna/kenninguna (the SVO hypothesis). Ef þeirri tilgátu er síðan beitt á frekari gögn þá spáir hún því réttilega að (3a) og (3b) séu málfræðilega réttar; en hún spáir því hins vegar að (3c) og (3d) séu málfræðilega rangar, því að þar er andlagið á undan bæði frumlagi og sögn. En þessar setningar eru samt kórrétt enska. Því verður annaðhvort að gefa SVO-tilgátuna upp á bátinn, eða bæta í reglusafn málfræðinnar einhverjum skýringum á því að (3c) og (3d) eru málfræðilega réttar. Til að skýra (3c) má t.d. setja fram reglu um kjarnafærslu (rule of topicalization) sem færir beina andlagið (eða annan lið) fremst í setningu; og til að skýra (3d) má setja fram reglu um myndun spurninga, sem færir spurnarliðinn (which stories) í fremsta sæti (initial position) setningar, og snýr við röð frumlagsins og hjálparsagnarinnar eða hjálparliðarins (auxiliary) (do).

Málfræði einstaks tungumáls er samsafn þeirra reglna og lögmála sem liggja að baki málfræðilega réttum setningum málsins. Sagt er að málfræðin leiði út eða myndi (generates) setningar málsins. Lágmarkskrafa sem gerð er til málfræði einstaks máls er sú að hún geti greint sundur þær orðarunur sem eru réttar setningar í málinu og orðarunur sem eru það ekki. Slík málfræði kallast eftirtektarhæf (observationally adequate).

 

2. Innfæddur málhafi: Réttar setningar og tækar

2.1 Lýsingarhæf málfræði

Hér er bent á að enda þótt almennur málnotandi sem hefur tiltekið mál að móðurmáli (native speaker) er jafn hæfur og málfræðingur til að dæma um það hvaða setningar móðurmáls hans eru réttar og hverjar rangar. Hinn almenni málnotandi er að vísu venjulega ófær um að setja fram eða gera grein fyrir þeim almennu reglum og lögmálum sem gilda um setningagerð móðurmáls hans, en eigi að síður er ljóst að hann beitir þessum reglum ómeðvitað til að mynda eigin setningar og skilja setningar annarra. Meginviðfangsefni málfræðinga sem aðhyllast generatífa málfræði í anda Chomskys er þessi ómeðvitaða kunnátta almennra málnotenda.

Síðan er tekið dæmi til að skýra muninn á málfræði sem er eftirtektarhæf og málfræði sem er lýsingarhæf (descriptively adequate). Sú síðarnefnda gerir meira en bara að greina milli rétt og rangt myndaðra setninga; hún leitast við að gera grein fyrir þeirri málkunnáttu sem við búum yfir og gerir okkur kleift að mynda setningar; reynir að setja fram alhæfingar (generalizations) sem hafi sem almennast gildi, í stað þess að setja fram sérstaka skýringu á hverju einasta atriði og tengja skýringarnar ekki saman. Slíkar alhæfingar gera meira en að lýsa tilteknu mengi setninga; þær gera okkur einnig kleift að spá (predict) fyrir um það hvaða setningar utan þessa mengis séu réttar og hverjar rangar. Með tilkomu generatífrar málfræði breytist viðfangsefni málfræðinga úr því að vera málið sjálft yfir í það að vera málkerfið, þ.e. hin ómeðvitaða kunnátta almennra málnotenda.

 

2.2 Réttar setningar og tækar

Hér er bent á það að málfræðilega réttur (grammatical) er teoretískt hugtak, en tækur (acceptable) vísar til tilfinninga eða skoðana málnotandans. Setningar geta verið ótækar þótt þær séu málfræðilega réttar. Dæmi er Músin sem kötturinn sem hundurinn sem Jón á beit var að elta slapp. Þetta er samsett setning (complex sentence), þar sem frumlagið hefur að geyma aukasetningu (subordinate clause) sem er tengd með aukatengingu (subordinate conjunction). Það er fullkomlega leyfilegt samkvæmt reglum íslenskunnar, eins og setningin Músin sem kötturinn var að elta slapp sýnir. En vegna þess að reglunni er beitt aftur og aftur, þ.e. frumlag aukasetningarinnar inniheldur líka aukasetningu o.s.frv., verður runan á endanum óskiljanleg. Þótt hún sé málfræðilega rétt, í þeim skilningi að hún brýtur engar reglur málkerfisins, er hún ótæk.

Bent er á að almennir málnotendur geta ekki dæmt hvort tiltekin setning er málfræðilega rétt eða ekki; þeir hafa á hinn bóginn tilfinningu (intuition) fyrir því hvort setningin er tæk eða ekki. Það er verkefni málfræðinga að skera úr um það hvort tiltekin setning er dæmd ótæk vegna þess að hún brjóti málfræðilegar reglur og sé því málfræðilega röng, eða hvort aðrar ástæður liggi að baki. Ein hugsanleg ástæða getur t.d. verið að setningin sé erfið í greiningu (hard to process), þ.e. erfitt að átta sig á því hvernig tengslum setningarliðanna sé varið, eins og í dæminu hér að framan.

Meginatriðið er að hafa í huga að viðfangsefni okkar er strangt tekið ekki málið sjálft, heldur málkerfið sem liggur þar að baki, og sem gerir okkur kleift að tala og skilja aðra. Á hinn bóginn höfum við engan beinan aðgang að málkerfinu; leið okkar að því liggur alltaf í gegnum málið. Þess vegna getur menn greint á um ýmsa þætti málkerfisins; sá ágreiningur stafar oftast af því að menn túlka tiltekin atriði í málinu á mismunandi hátt.

 

2.3 Málið sem kerfi lögmála

Hér er bent á að ekki sé hægt að hugsa sér að málkunnáttan felist í því að kunna skrá sem hafi að geyma allar málfræðilega réttar setningar málsins, og dæma þær setningar sem ekki finnist í þeirri skrá rangar. Það er auðvelt að sýna fram á að það er óhugsandi að kunna allar hugsanlegar setningar. Þess í stað verðum við að gera ráð fyrir því að málnotendur búi yfir einhverri endanlegu (finite) kerfi þekkingar, sem geri þeim kleift að mynda og skilja óendanlegan (infinite) fjölda setninga. Þetta þekkingarkerfi eða lögmálakerfi er hin innbyggða málfræði okkar. Verkefni málfræðinga er að skrásetja þessi ómeðvituðu lögmál sem málhæfni (competence) okkar byggist á.

 

3. Þekking á tungumálinu

3.1 Rýrt áreiti

Hér er rætt um það að eitt meginviðfangsefni málfræðinnar er að komast að því hvernig þeir sem hafa tiltekið mál að móðurmáli læra reglur þess. Sagt er að kenning nái skýringarhæfi (explanatory adequacy) ef hún getur skýrt hvernig málnotendur tileinka sér reglur málsins og læra að beita þeim; þ.e., ef hún getur gert grein fyrir máltökunni (language acquisition). Meginleyndardómur máltökunnar tengist rýrð áreitisins (poverty of the stimulus); þ.e., málkunnátta okkar er miklu víðtækari en við er að búast ef tekið er tillit til vankanta á áreitinu, þ.e. málinu í kringum okkur. Í fyrsta lagi heyrum við ekki bara fullkomnar og málfræðilega réttar setningar, heldur einnig mesta fjölda ófullkominna setninga, mismæla og hvers kyns afbrigðilegra setninga. Í öðru lagi er áreitið, málið sem við heyrum, endanlegt, en samt byggjum við á því kerfi sem gerir okkur kleift að mynda og skilja óendanlegan fjölda setninga. Í þriðja lagi tileinkum við okkur ýmsa kunnáttu um málið án þess að jákvæð rök (positive evidence) liggi þar að baki.

Meginatriðin eru þessi: Það er gjá milli þeirra gagna sem við höfum aðgang að, þ.e. málsins í kringum okkur, ílagsins (input), og þekkingarinnar sem við byggjum upp, frálagsins (output). Ílagið er of ruglingslegt og fátæklegt til að unnt sé að byggja málkerfið á því. Þetta þýðir að ekki er hægt að líta einfaldlega á málkerfi sem afurð málsins í kringum okkur (triggering experience); það segir ekki alla söguna að börnin læri málið vegna þess að það er haft fyrir þeim.

 

3.2 Algild málfræði

Af framangreindum ástæðum verður að gera ráð fyrir því að verulegur hluti af ómeðvitaðri málkunnáttu okkar sé meðfæddur (innate); mannskepnan hafi líffræðilegan útbúnað (genetic endowment) til að læra mál. Þeir sem aðhyllast generatífa málfræði leitast við að skilgreina þennan meðfædda hæfileika eða útbúnað. Við vitum að sjálfsögðu að barn lærir mál þess samfélags þar sem það elst upp, óháð því hvaðan það kemur. Því hlýtur þessi meðfædda málkunnátta að felast í einhverju sem er sameiginlegt öllum tungumálum; einhverjum almennum reglum eða lögmálum sem gilda í öllum málum. Dæmi um slíkt gæti verið innfellingarlögmálið (embedding principle):

Málfræðilega rétta setningu má gera að aukasetningu í samsettri setningu.

Með þessu er verið að reyna að orða lítið brot af hinni ómeðvituðu málkunnáttu almennra málnotenda. Þetta lögmál er ekki málbundið (language-specific) við neitt eitt tungumál, heldur virðist gilda í öllum málum. Þetta er því algilt (universal) lögmál. Slík lögmál eru talin hluti algildrar málfræði (universal grammar; UG). Með því er átt við kerfi þeirra lögmála sem eru sameiginleg öllum tungumálum.

Generatífistar telja að algild málfræði sé öllum mönnum meðfædd. Þeir telja að með því móti megi skýra gjána sem nefnd var hér að framan; málkerfið sem við byggjum upp í máltökunni sé ekki eingöngu afurð málsins í kringum okkur, heldur sameiginleg afurð þess og hinna meðfæddu lögmála.

 

3.3 Færibreytur og algild málfræði

Þótt ýmis málfræðileg lögmál séu algild er vissulega alls konar munur milli tungumála. Hér er gerð grein fyrir kenningu um færibreytur (parameters). Með þeim er átt við eins konar "ramma" sem eru fyrir hendi í öllum málum, en fylla má út á mismunandi hátt (gefa mismunandi gildi) í ólíkum málum. T.d. er talað um orðaraðarfæribreytuna (word-order parameter); ramminn er þá hinir þrír grunnhlutar setninga, frumlag, sögn og andlag (S, V, O), en hin mismunandi gildi koma fram í því að þessir liðir geta staðið í mismunandi röð í ólíkum málum. Íslenska og enska eru t.d. SVO, en japanska SOV. Hægt er að setja þennan mun fram sem tvígilda (binary) færibreytu, með gildin (settings) VO og OV. Færibreytan er þá hluti af meðfæddu málkerfi, en án gildis í upphafi; börn á máltökuskeiði þurfa síðan að gefa henni gildi (fix the setting), annaðhvort OV eða VO, út frá því máli sem þau heyra kringum sig.

Einnig er oft talað um færibreytur í máli sem e.k. fullyrðingar sem geta þá fengið jákvætt eða neikvætt gildi (plús eða mínus). Önnur leið til að gera grein fyrir muninum á japönsku annars vegar og íslensku og ensku hins vegar gæti verið sú að segja að í algildri málfræði væri röð sagnar og andlags alltaf VO; hins vegar væri til færibreytan "færið andlag fram fyrir sögn", og japanska hefði plús-gildi á þeirri færibreytu (þ.e. reglan er virk þar) en íslenska og enska mínus-gildi (reglan er ekki virk í þeim málum).

Hér hafa verið sett fram tvö einkenni algildrar málfræði:

[1] (i) Algild málfræði hefur að geyma mengi algilda, reglna og lögmála sem eru óbreytileg milli mála.

Algild lögmál þarf ekki að læra; þau eru meðfædd. Málbundin einkenni þarf ekki heldur að læra frá grunni, heldur þarf aðeins að læra hver hinna hugsanlegu möguleika (sem eru meðfæddir) á við í viðkomandi máli. Því má segja að það ferli að ná valdi á tungumáli sé ekki nám í venjulegum skilningi, heldur sé það málkerfi sem barn kemur sér upp óhjákvæmileg afleiðing tveggja þátta: Þess að algild málfræði er barninu meðfædd, og það elst upp í ákveðnu málumhverfi. Af þessum ástæðum er í seinni tíð oft talað um máltöku (acquisition) frekar en málnám (learning).

En málið er ekki aðeins lögmál og reglur, heldur líka orðaforði. Hann er að sjálfsögðu einstakur í hverju máli, og er að engu leyti meðfæddur, heldur verða börnin að læra hann algerlega af umhverfi sínu. Það ferli er þó ólíkt máltökunni, þ.e. tileinkun málkerfis, á ýmsan hátt. Við tileinkum okkur reglur og lögmál móðurmáls okkar á fáeinum árum, en við höldum áfram að læra ný orð alla ævi.

 

3.4 Málnám og máltaka

Eins og áður var nefnt byggist hæfileiki okkar til að tala eitthvert mál annars vegar á meðfæddum lögmálum og færibreytum úr algildri málfræði, en hins vegar á áreiti frá viðkomandi máli. Á þessu tvennu byggjum við kjarnamálfræði (core grammar) málsins; þ.e. meginþætti málkerfisins, það sem er lifandi og virkt. Um sex ára aldur hafa börn komið sér upp fullmótuðu málkerfi; en mál þeirra heldur áfram að þróast. Bæði lærum við ný orð, eins og áður er nefnt, og einnig ýmsar sjaldgæfar setningagerðir málsins. Slík afbrigðileg eða mörkuð mynstur eru ekki talin til kjarnamálfræðinnar, heldur eru á mörkuðu jaðarsvæði (marked periphery) málkerfisins. Málnotendur þurfa einnig að tileinka sér ýmiss konar félagsleg eða menningarleg atriði sem tengjast málinu, s.s. að sum orð tilheyra formlegu málsniði en önnur óformlegu o.s.frv. Slík atriði eru ekki hluti málfræðinnar, heldur teljast til almennrar mannlegrar breytni.

Að lokum er bent á að málfræðingar leitast við að gera grein fyrir þremur meginatriðum máltökunnar; (i) lögmálum algildrar málfræði og mismunandi gildum færibreytna (parametric variation) milli mála; (ii) því máláreiti (triggering experience) sem nauðsynlegt er til að virkja lögmál algildrar málfræði og byggja upp málkerfi einstaklingsins; og (iii) þeirri kjarnamálfræði einstakra mála sem samspil fyrrnefndra tveggja þátta leiðir af sér. Kenning sem getur gert grein fyrir þessum þremur þáttum hefur náð skýringarhæfi.

 

3.5 Generatífistar

Hér að framan hefur verið lýst þeim hugmyndum sem hafa verið ráðandi í málvísindum hátt í 40 ár. Rifjað er upp að meginmarkmið generatífista er ekki að lýsa einstökum málum í smáatriðum, heldur að orða þau lögmál sem gilda í málfræði mannlegra mála. Til að gera það þurfa þeir auðvitað að byggja á gögnum úr einstökum tungumálum.

Generatífisti sem er að fást við íslenska málfræði þarf að ákvarða annars vegar hvaða einkenni hennar eru algild, og hins vegar hver þeirra eru málbundin við íslensku sérstaklega, og hvernig þau tengjast færibreytum algildrar málfræði. Það ætti nú að vera orðið ljóst að þetta er ekki hægt að gera með því einu að skoða íslensku, heldur þarf einnig að athuga önnur tungumál til að sjá hvernig þau hegða sér, og hvort og hvernig þau einkenni sem finnast í íslensku koma fram þar. Þess vegna er generatíf málfræði óhjákvæmilega samanburðarleg (comparative).

 

4. Nýja samanburðarsetningafræðin

4.1 Lögmál og færibreytur: Yfirlit

Í þessum kafla er bent á að áhugi á samanburðarmálfræði hefur stóraukist undanfarin 25 ár. Þar er þó um að ræða annars konar samanburðarmálfræði en þá sem stóð í blóma á 19. öld; hún var söguleg og miðaði að því að skýra upprunatengsl tungumála, en markmið generatífs samanburðar er sálfræðilegt, þ.e. að gera grein fyrir málkunnáttu. Þar er annars vegar spurt hvað málkunnátta sé, og hins vegar hvernig málnotendur tileinki sér hana. Síðarnefnda spurningin beinist að því að hve miklu leyti málfræðileg þekking okkar er ákvörðuð af ytra áreyti eða reynslu (experience), og að hve miklu leyti megi rekja hana til meðfædds sálræns útbúnaðar (predetermined mental mechanism).

Hér er bent á að enda þótt gert sé ráð fyrir að hugmyndin um færibreytur geti skýrt ýmiss konar mun tungumála sé það tæpast svo að hvert atriði sem munar á einhverjum tveimur tungumálum megi rekja til sérstakrar færibreytu. Samanburður mála hefur leitt í ljós að ýmis atriði sem greina tungumál að flokkast oft saman, og þannig má greina tungumál í hópa. Í þeim tilvikum má þá rekja margs konar mun til einnar og sömu færibreytunnar; oft er það þannig að ef tiltekið mál hefur einkenni X þá hefur það líka einkenni Y og Z, en annað mál hefur ekkert þessara einkenna.

 

4.2 Fornafnafellieinkennin

Í þessum kafla er gerð grein fyrir einni þekktustu færibreytunni, sem m.a. á að skýra ýmiss konar mun ensku og ítölsku. Í ítölsku má sleppa frumlagi persónuháttarsetningar (finite clause), en það er ekki hægt í ensku. Þetta er nefnt frumlagseyðufæribreytan (pro-drop parameter), og mætti orða svo: "Fornöfnum í frumlagshlutverki má sleppa." Þessi færibreyta hefur jákvætt gildi (+) í ítölsku, en neikvætt gildi (-) í ensku, þar sem aldrei er hægt að sleppa frumlagi. Ítalska er því fornafnafellimál (pro-drop language), en enska ekki.

Síðan er gerð grein fyrir ýmsum öðrum setningafræðilegum mun á ensku og ítölsku; s.s. hvort frumlag getur staðið aftan sagnar, sbr. (18) og (19); hvort hægt er að færa frumlag aukasetningar fremst í aðalsetningu og skilja eftir frumlagseyðu næst á eftir tengingu, sbr. (20); hvort veðurfarssagnir (weather verbs) eins og rigna hafa frumlag, sbr. (21); og hvort fornafn kemur í stað aukasetningar sem færð er úr frumlagssæti aftast í setningu, sbr. (22) og (23). [Athugið að stjarna innan sviga, (*, eins og í (23a), táknar að ef það sem er innan svigans er haft með, verður setningin ótæk. Stjarna utan sviga, *(, eins og í (23b), táknar aftur á móti að ekki má sleppa því sem er innan svigans - þá verður setningin ótæk.]

 

4.3 Einkennin tengd saman

Hér er sýnt hvernig rekja má þann mun ensku og ítölsku sem lýst var í 4.2 til þess að ítalska er fornafnafellimál, þar sem fornöfnum í frumlagssæti er sleppt nema þau beri áherslu, t.d. til að skapa andstæðu. Þetta má skýra út frá hagkvæmni (economy); það er einfaldara eða kostar minni áreynslu að sleppa fornöfnunum en að hafa þau með, og þess vegna eru þau aðeins notuð þegar einhver sérstök ástæða er til þess. Þess vegna verður að sleppa þeim með veðurfarssögnum (21a) og þegar aukasetning er færð úr frumlagssæti (23a); þar getur fornafnið ekki haft neitt hlutverk, og því ber að sleppa því.

Þótt enskar setningar verði að hafa frumlag þarf það ekki endilega að vera tilvísandi (referential expression). Í setningu eins og (25) er there málfræðilegt frumlag, en það tengist óákveðnu frumlagi á eftir sögninni (indefinite post-verbal subject). Segja má að there sé sett í eyðu sem óákveðna frumlagið skilur eftir sig, og uppfylli þannig þá kröfu að í öllum enskum setningum sé frumlagssætið setið. There getur hins vegar aldrei borið áherslu í slíkum setningum; og þar sem ítalska er fornafnafellimál þarf hún ekki á neinni slíkri uppfyllingu að halda, sbr. (18a) og (19a).

Einnig er bent á að ekki er allt sem sýnist með færslu frumlags aukasetningar. Ekki nægir að líta á setningarnar eins og þær koma fyrir, heldur verður að skoða afleiðslu (derivation) þeirra. Vegna þess að frumlag getur staðið aftan sagnar í ítölsku þarf ekki að hugsa sér að frumlag aukasetningar sé fært úr frumlagssætinu og eyða skilin eftir á eftir aukatengingunni, eins og í (26a); einnig er hugsanlegt að frumlagið sé fært úr stöðu aftan sagnar, eins og (26b) sýnir, og þá er engin eyða á eftir aukatengingunni. Slík færsla er einnig til í ensku, sbr. (27a); og þar með er hægt að halda fast við það að bannið við því að hafa eyðu næst á eftir aukatengingu gildi í ítölsku ekki síður en ensku.

Þegar spænska og franska eru bornar saman kemur í ljós að spænska hagar sér eins og ítalska en franska eins og enska í öllum þeim atriðum sem hér hafa verið rakin. Það eru sterk rök fyrir því að þessi einkenni tengist á einhvern hátt, og tengingin er talin vera fornafnafellifæribreytan.

[Hitt er svo annað mál að staða íslensku í slíkum samanburði er óljós. Lítum á eftirfarandi setningar:

[2] a *Er kominn Jón (sbr. (18))

b *Hefur hringt konan þín (sbr. (19))

[3] Hver heldur þú að ___ hafi hringt? (sbr. (20))

[4] a *Rignir (sbr. (21))

b Nú rignir (sbr. (21))

[5] a *Er ljóst að Lovísa fer ekki (sbr. (23))

b Nú er ljóst að Lovísa fer ekki (sbr. (23))

Eins og [1] sýnir getur frumlagið yfirleitt ekki farið á eftir sögninni (nema eitthvað annað sé fært fremst í staðinn), og að því leyti hegðar íslenska sér eins og enska. Aftur á móti sýnir [2] að það er hægt að skilja eftir frumlagseyðu næst á eftir aukatengingu eins og í ítölsku, en öfugt við ensku. [3a] og [4a] benda til þess að það verði að fylla frumlagssætið, bæði með veðurfarssögnum og þegar aukasetning er færð aftast, og þar með flokkast íslenska með ensku. Aftur á móti sýna [3b] og [4b] að ekki er nauðsynlegt að fornafnið það komi þar í staðinn (sbr. it í ensku); þar getur eins komið eitthvað annað, t.d. atviksorðið . Þessi dæmi sýna að ekki er ótvírætt að íslenska falli í annan hvorn flokkinn, heldur virðist hún vera þar einhvers staðar á milli. Það gæti bent til þess að það eigi ekki rétt á sér að tengja þessi einkenni saman og rekja þau til fornafnafellifæribreytunnar; en einnig er hugsanlegt að skoða þurfi íslensku betur, og sú skoðun leiði í ljós að frávikin sem hér eru nefnd megi rekja til málbundinna sérkenna íslensku, sem komi fornafnafellifæribreytunni ekki við.]

 

4.4 Samræmi og fornafnafelling

Þegar sagnbeyging í ensku og ítölsku er borin saman kemur mikill munur í ljós; í ítölsku hefur hver persóna og tala mismunandi endingar, þannig að framsöguháttur nútíðar hefur sex mismunandi myndir. Í ensku eru myndirnar hins vegar aðeins tvær, sbr. (30). Oft hefur verið reynt að tengja þennan mun við fornafnafellifæribreytuna; það kemur í ljós að mál sem hafa mikla beygingu (rich inflection) eru iðulega fornafnafellimál. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt; sagnbeygingin sýnir þá persónu og tölu frumlagsins, og þess vegna er hægt að sleppa því án þess að nokkrar upplýsingar glatist. Í ensku dugir sagnbeygingin hins vegar alls ekki; þar myndu þessar upplýsingar ekki koma fram ef fornafnið væri fellt brott.

Fornafnafellifæribreytan er gott dæmi um það hvernig samanburði er beitt til að afla nýrrar þekkingar um eðli mannlegs máls. Mállýskumunur (dialect variation) innan einstaks tungumáls nýtist einnig vel í sama tilgangi; og enn fremur má hafa mikið gagn af sögulegri setningafræði (historical syntax), þar sem borin eru saman mismunandi málstig sama tungumáls. Oft má líta á málbreytingar sem afleiðingu af breyttu gildi einstakrar færibreytu.

 

5. Tilgangur og skipulag bókarinnar

5.1 Megintilgangur

Megintilgangur bókarinnar er að vera almennur inngangur að generatífri setningafræði, og gefa yfirlit yfir meginrannsóknaniðurstöður greinarinnar undanfarin 30 ár. Bókin er ekki ætluð algerum byrjendum, heldur þeim sem hafa einhverja undirstöðu í setningafræði; eru vanir hríslum, og þekkja grundvallarorðaforða greinarinnar; orð eins og setningu, nafnorð, sögn, frumlag, andlag o.s.frv.

 

5.2 Skipulag

Bókin skiptist í tólf kafla, auk inngangs. Í fyrstu 10 köflunum er gerð grein fyrir meginatriðum kenningarinnar, en í tveim þeim síðustu er lýst nýjum stefnum innan hennar.