05.40.06 Setningafræði 

1. kafli: Orðasafnið og formgerð setninga

 1. Einingar í setningafræðilegri greiningu

Hér er farið yfir ýmis grunnhugtök sem flestum ættu að vera kunn, og nauðsynleg eru til að gera grein fyrir formgerð setninga. Þar má nefna beina stofnhluta (immediate constituents) [frumlagsnafnliðurinn er t.d. beinn stofnhluti í setningunni], óbeina stofnhluta (ultimate constituents) [einstök orð eru óbeinir stofnhlutar í setningunni; sögnin er t.d. beinn stofnhluti í sagnliðnum, sem aftur er beinn stofnhluti í setningunni]; nafnliði (noun phrases), sagnliði (verb phrases) og forsetningarliði (prepositional phrases). Bent er á að liðir eru kenndir við aðalorð sitt, höfuð (head) sitt; þannig eru nafnorð höfuð nafnliða, sagnir höfuð sagnliða, o.s.frv. Bent er á að hægt er að gera grein fyrir formgerð setninga á þrennan hátt; með hríslum (tree diagrams), eins og í (2a), liðgerðarreglum (phrase structure rules/rewrite rules), eins og (2b), og merktum hornklofum (labelled brackets) eins og í (2c). Einnig er rifjað upp hvernig hægt er að færa til orðarunu sem myndar lið, sbr. (3). Gert er ráð fyrir að allar setningarnar í (3a-c) hafi sömu grunngerð (underlying structure) og (1). Þá er minnst á tvær tegundir spurninga; já/nei-spurningar (yes-no questions) og spurningar með spurnarorði eða hv-spurningar (constituent questions, wh-questions).

 

2. Orð og liðir

Í upphafi er bent á að orð tilheyri mismunandi orðflokkum (syntactic categories), og það ákvarði dreifingu (distribution) þeirra; þ.e., hvar í setningu þau geta staðið. Þá er minnst á orðasafn hugans (mental lexicon), og hvaða upplýsingar fylgi orðunum þar; m.a. upplýsingar um orðflokk, sem ræður mögulegri staðsetningu orðanna í setningum. Sérhver málnotandi þarf að læra orðin og upplýsingar um þau, en þrátt fyrir það virðast ákveðin atriði sem takmarka eðli orðasafnsins vera meðfædd. Bent er á að merking endaeindanna (terminal category labels) í hríslunni, s.s. N, V o.s.frv., ákvarði hvaða orðum hægt er að stinga inn í hrísluna. Höfuð liðar ákveður eðli liðarins í heild; nafnliðir standa á tilteknum stöðum í setningum af því að höfuð þeirra er nafnorð.

Þá er bent á að fleira en setningafræðilegir eiginleikar orða og liða ákvarðar hvort tiltekin setning er góð. Setningar eins og (7b-c) eru t.d. setningafræðilega réttar, að því leyti að nafnliðir standa þar aðeins á stöðum þar sem nafnliðir eiga að geta staðið. Merking þessara nafnliða er hins vegar þess eðlis að óeðlilegt er að rekast á þá þarna. Því má segja að (7b) sé málfræðilega rétt (grammatical), en hins vegar ótæk (unacceptable) af merkingarlegum ástæðum.

 

3. Umsagnir og rökliðir

3.1 Undirflokkun

Hér er bent á að sumir liðir í setningum eru skyldubundnir; án þeirra verður setningin ótæk. Aðrir geta verið með en þurfa þess ekki, s.s. forsetningarliðir sem vísa til staðar og tíma; þeir eru nefndir viðhengi (adjuncts). Dæmi:

 

[1] Jón mun laga myndina á morgun

[2] Jón mun laga myndina

[3] *Jón mun laga

Hér sést að Fl á morgun má sleppa, en ekki Nl myndina. Rifjuð er upp skipting sagna í þrjá flokka; áhrifslausar (intransitive), áhrifssagnir (transitive) og tveggja andlaga (ditransitive). [Athugið að í síðastnefnda hópinn falla hér bæði sagnir eins og gefa, sem taka tvo nafnliði, og líka sagnir sem taka nafnlið og skyldubundinn forsetningarlið, eins og setja. Þetta styðst við það að stundum er hægt að skipta á öðru andlaginu og forsetningarlið; við getum sagt bæði Jón sendi mér bókina og Jón sendi bókina til mín. Reyndar eru slíkar tvímyndir miklu algengari í ensku en íslensku; hægt er að segja bæði John gave me the book og John gave the book to me, en við getum aðeins sagt Jón gaf mér bókina, ekki *Jón gaf bókina til mín.] Sögnin laga þarf nafnlið sem fyllilið (complement), og því er [3] vond. Bent er á að undirflokkun (subclassification) hverrar sagnar er meðal þess sem við verðum að læra um hana; þær upplýsingar verðu að geyma með sögninni í orðasafninu. Rifjaðir eru upp flokkunarrammar (subcategorization frames) [sem þið eigið að þekkja úr bók HÞ].

 

3.2 Rökformgerð og hlutverkaformgerð

Hér er bent á að það er ekki tilviljanakenndur frumeiginleiki (primitive property) hverrar sagnar hvort hún tekur tvö, eitt eða ekkert andlag; það fer eftir merkingu hennar. Það eru mismunandi margir "þátttakendur" í þeirri athöfn eða ástandi sem sögnin lýsir.

Í 3.2.1 er þetta tengt við rökfræði, og kynnt hugtökin umsögn (predicate) og rökliður (argument). Fjöldi rökliða svarar til fjölda "þátttakenda" í athöfn eða ástandi sagnarinnar. Umsögn sem þarfnast tveggja rökliða er kölluð tvírúm umsögn (two-place predicate). Þannig er t.d. með sögn eins og bíta; hún tekur venjulega tvo rökliði, frumlag (þann sem bítur) og andlag (þann eða það sem bitið er). Áhrifslausar sagnir svara aftur á móti til einrúmra umsagna (one-place predicates); taka aðeins einn röklið.

Í 3.2.2 er svo komið að málfræðinni. Þar er bent á að talað er um að hver umsögn hafi tiltekna rökformgerð (argument structure), þar sem fram komi hversu marga rökliði hún tekur. Athugið að það eru ekki eingöngu sagnir sem hafa rökliði; nafnorð, lýsingarorð og forsetningar geta líka haft þá. Einnig er bent á að stundum má sleppa tilteknum rökliðum; við getum bæði sagt Jón gaf Maríu bókina og Jón gaf bókina. Í seinni setningunni er samt ljóst að einhver hefur fengið bókina að gjöf; sagt er að þar sé ónefndur (implicit) rökliður.

Í 3.2.3 er gerð grein fyrir hlutverkakenningunni (theta theory). Þar er bent á að rökliðir tiltekinnar umsagnar hafa mismunandi merkingarhlutverk (theta roles); geta verið gerendur, þolendur o.s.frv. Sagt er að hver umsögn hlutverkamerki (theta-marks) rökliði sína, og hafi sérstaka hlutverkaformgerð (thematic structure). Helstu merkingarhlutverkin eru þessi:

[4] a GERANDI (AGENT/ACTOR): sá sem viljandi kemur af stað þeirri athöfn sem umsögnin lýsir.

Í bókinni er hlutverkum ÞOLANDA og ÞEMA steypt saman í eitt:

i ÞEMA: sá/það sem verður fyrir áhrifum af þeirri athöfn sem umsögnin lýsir.

Dæmi:

[5] Jón (GERANDI) sendi Maríu (ÞIGGJANDI/MARKMIÐ) bókina (ÞEMA)

[6] Jón (GERANDI) velti boltanum (ÞEMA) til Sveins (MARKMIÐ)

[7] Boltinn (ÞEMA) valt til Sveins (MARKMIÐ)

[8] Jóni (SKYNJANDI/REYNANDI) var kalt

[9] Jón (SKYNJANDI/REYNANDI) var hræddur

[10] Jón (GERANDI) keypti bókina (ÞEMA) af Sveini (UPPTÖK)

[11] Jón (ÞEMA) býr í Reykjavík (STAÐUR)

Bent er á að oft er erfitt að ákvarða merkingarhlutverk einstakra liða, þótt í meginatriðum sé það auðvelt. Gert er ráð fyrir að hluti af þeim upplýsingum sem fylgi umsögnum í orðasafninu sé hlutverkagrind (thematic grid, theta grid) þeirra.

Í lok kaflans er svo hlutverkareglan (theta criterion) sett fram:

[12] a) Hverjum röklið er úthlutað einu og aðeins einu merkingarhlutverki.

Þetta þýðir t.d. að enginn liður getur gegnt bæði hlutverki geranda og þolanda; ef merking umsagnarinnar krefst beggja þessa hlutverka verður hún að hafa með sér tvo rökliði til að taka við þeim. Jafnframt þýðir þetta að rökliðir sagnarinnar mega hvorki vera fleiri né færri en merkingarhlutverkin sem hún úthlutar.

 

4. Vörpunarlögmálið

Hér er sett fram vörpunarlögmálið (projection principle):

[13]Eiginleikar einstakra orða birtast setningarlega (Lexical information is syntactically represented).

[Með þessu er átt við það að með því að velja að nota tiltekið orð, þá ákvörðum við að verulegu leyti gerð setningarinnar. Ef við veljum að nota sögn sem úthlutar þremur merkingarhlutverkum þá verður setningin að hafa þrjú nafnliðarpláss (oftast; stundum geta þó aðrir liðir komið í staðinn) þannig að sögnin hafi einhverja liði sem hún geti úthlutað þessum hlutverkum til.]

 

5. Úthlutun merkingarhlutverka

5.1 Setningar sem rökliðir

Hér er bent á að merkingarhlutverkum er m.a. hægt að úthluta til aukasetninga, eins og hér:

[14] a [Að Jón skyldi berja Maríu] gerði alla hissa

b *gerði alla hissa

[15] a Allir telja [að Sveinn hafi barið Maríu]

b *Allir telja

c Allir telja [Svein hafa barið Maríu]

[14b] og [15b] sýna að umsögnunum dugir ekki einn rökliður; og því hljóta skýringarsetningarnar (-setningarnar) í [14a] og [15a] að gegna hlutverkum rökliða og geta borið merkingarhlutverk. Þetta eru persónuháttarsetningar (finite clauses), sem hefjast á aukatengingunni (complementizer) . Málið er flóknara með [15c]; þar virðist aukasetning líka koma á eftir telja, en hún hefst ekki á aukatengingu, og hefur ekki að geyma sögn í persónuhætti. Slíkar setningar eru kallaðar smásetningar, og verða til umræðu síðar.

 

5.2 Fylliorð

Í 5.2.1 eru tekin dæmi af nafnliðum í frumlagssæti sem ekki fá merkingarhlutverk, og teljast þar af leiðandi ekki rökliðir. Í íslensku er þar um að ræða merkingarlausa fornafnið (expletive pronoun, pleonastic element) það:

[16] Það gerði alla hissa [að Jón skyldi berja Maríu]

[17] Það rignir

[16] merkir alveg sama og [14]; þótt -setningin sé fráfærð (extraposed), þ.e. færð úr frumlagssætinu aftast í aðalsetninguna, og það sett í frumlagssætið í staðinn, fjölgar merkingarhlutverkum ekkert. Veðurfarssagnir eins og rigna í [17] úthluta engu merkingarhlutverki; við getum eins sagt Nú rignir, án nokkurs nafnliðar.

Í 5.2.2 er önnur tegund setninga með fylliorði í frumlagssæti:

[18] Það hefur einhver lesið bókina

So. lesa tekur tvo rökliði, GERANDA og ÞEMA; augljóst er að það í [18] hefur ekkert merkingarhlutverk.

Í 5.2.3 er bent á að tvö ensk orð, it og there, koma oft fyrir í upphafi setninga án þess að hafa nokkurt merkingarhlutverk. [Athugið að það í íslensku samsvarar bæði it og there í ensku, í setningum eins og It surprised Jeeves that the pig had been stolen, og There are three pigs escaping.]

 

5.3 Aðalsagnir og hjálparsagnir

Hér er bent á að það eru eingöngu aðalsagnir (main verbs) sem úthluta merkingarhlutverkum; hjálparsagnir (auxiliaries) gera það ekki. Það má sjá m.a. af dæmum eins og (75), þar sem merkingarhlutverkin eru jafn mörg, og þau sömu, hvort sem hjálparsögn er í setningunni eða ekki. enn fremur má taka dæmi eins og [16]-[18]:

[19] a Jón las bókina (GERANDI)

b Jón hefur lesið bókina (GERANDI)

[20] a Jón datt (ÞEMA)

b Jón hefur dottið (ÞEMA)

[21] a Jón dreymdi Svein (SKYNJANDI/REYNANDI)

b Jón hefur dreymt Svein (SKYNJANDI/REYNANDI)

Hér sést að frumlagið fær alltaf sama merkingarhlutverk í a- og b-setningunni, enda þótt hjálparsögnin hafa sé í b-setningunni en ekki í a-setningunni. Ef hafa úthlutaði merkingarhlutverki yrði að segja að hún gæti úthlutað mörgum mismunandi hlutverkum, og úthlutaði alltaf sama hlutverki og aðalsögnin. Í stað þess að segja það er miklu einfaldara og eðlilegra að gera ráð fyrir að hafa, og aðrar hjálparsagnir, úthluti engum merkingarhlutverkum.

 

6. Víðara vörpunarlögmálið

Hér er sett fram víðara vörpunarlögmálið (extended projection principle). Það segir í raun að allar setningar verði að hafa frumlag (einhvern röklið í frumlagssæti), hvort sem þær úthluta einhverju merkingarhlutverki eða ekki. Sagnir eins og rigna úthluta engu merkingarhlutverki (þær hafa ekki geranda, þolanda o.s.frv.); samt er ekki hægt að segja bara *rignir (nema það sé spurning), heldur verður að setja merkingarlaust það í frumlagssætið, sbr. [16]-[18]. [Það er hins vegar ljóst að víðara vörpunarlögmálið gildir ekki undantekningarlaust í íslensku. Það er nefnilega hægt að fylla frumlagssætið með öðru en það, og segja t.d. Nú rignir, Í dag hefur einhver lesið bókina o.s.frv.]

 

7. Meira um merkingarhlutverk

7.1 Dæmigerð birting merkingarhlutverka

Hér er bent á að óljóst er að hvaða marki hlutverkagrind einstakra orða þarf að geyma upplýsingar um það til hvaða setningarliða einstökum merkingarhlutverkum er úthlutað. Þannig er t.d. gerandahlutverkinu alltaf úthlutað til nafnliðar, og því má segja að nafnliður sé dæmigerð birtingarmynd (canonical realization) GERANDA. Þess vegna þarf ekki að taka það fram í hlutverkagrind einstakra orða að GERANDAhlutverkinu sé úthlutað til nafnliðar. Með þessu er verið að segja að flokksvalið (categorial selection, c-selection) byggist á merkingarvali (semantic selection, s-selection). Þó er ekki alltaf fullkomið samræmi þar á milli, eins og [22]-[24] sýna:

[22] a Hann rændi aleigu minni

b Hann rændi mig aleigu minni

c Hann rændi frá mér aleigu minni

[23] a Hann stal aleigu minni

b *Hann stal mig aleigu minni

c Hann stal frá mér aleigu minni

[24] a *Hann svipti aleigu minni

b Hann svipti mig aleigu minni

c *Hann svipti frá mér aleigu minni

Sagnirnar ræna og stela eru u.þ.b. sömu merkingar, a.m.k. í [22a] og [23a], og því mætti búast við að þær úthlutuðu merkingarhlutverkum á sama hátt. En svo er ekki; eins og sjá má getur ræna úthlutað UPPTAKAhlutverkinu til hvort heldur er nafnliðar eða forsetningarliðar, en stela aðeins til forsetningarliðar. Sögnin svipta er svipaðrar merkingar, en hegðar sér ólíkt hinum tveimur; hún verður að úthluta UPPTAKAhlutverkinu, og aðeins til nafnliðar. Því hefur verið haldið fram að fyrirsegjanleg tengsl séu milli merkingar fylliliðar tiltekins orðs annars vegar og dæmigerðrar birtingarmyndar fylliliðarins hins vegar; þetta er nefnt dæmigerð formgerðarbirting (canonical structural representation, CSR). Það þýðir að upplýsingar um birtingu tiltekinna merkingarhlutverka eru því aðeins nauðsynlegar að þær séu ekki dæmigerðar.

 

7.2 Frumlagshlutverkið

Hér eru færð rök fyrir því að það sé rétt að gera mun á rökliðum í frumlagsstöðu og rökliðum í andlagsstöðu. Í fyrsta lagi þá geti val andlags haft áhrif á merkingarhlutverk frumlags en ekki öfugt:

[25] Jón (GERANDI) braut rúðu um daginn

[26] Jón (ÞEMA) braut (í sér) tönn um daginn

Í öðru lagi eru til föst orðasambönd (orðtök og málshættir) þar sem frumlagið er breytilegt; en engin slík orðasambönd eru til þar sem frumlagið er fast en andlagið breytilegt. Í þeim tilvikum má segja að sagnliðurinn í heild, en ekki bara umsögnin, úthluti merkingarhlutverki til frumlagsins. Þá er talað um óbeina hlutverkamörkun (indirect theta-marking), en bein hlutverkamörkun (direct theta-marking) er þegar umsögnin ein úthlutar merkingarhlutverki til tiltekins rökliðar.

Svo virðist sem það merkingarhlutverk sem úthlutað er til frumlagsins sé dálítið sér á báti. Talið er að það sé hluti af orðasafnsupplýsingum hverrar umsagnar hvaða rökliður fái frumlagshlutverkið, og þar með óbeina hlutverkamörkun. Vegna þess að frumlagið er utan sagnliðarins er það kallað ytri rökliður (external argument), og hlutverkið sem það fær er kallað ytra merkingarhlutverk (external theta role); aðrir rökliðir, þ.e. þeir sem standa innan sagnliðarins, eru þá innri rökliðir (internal theta roles), og fá innri merkingarhlutverk (internal theta roles).