05.40.06 Setningafræði 

3. kafli: Fallakenningin

 1. Beygingarlegt fall og óhlutstætt fall

Í þessum kafla er bent á að nafnliðir taka oft á sig mismunandi form eftir stöðu í setningu. Þetta er sem sagt fallbeyging, sem ekki þarf að segja Íslendingum neitt um. Það skiptir hins vegar máli hér að gerður er munur á beygingarlegu falli (morphological case) sem kemur fram í formbreytingum á orðunum (endingum og/eða stofnbreytingum) og óhlutstæðu falli (abstract case). Með hinu síðarnefnda er átt við að gert er ráð fyrir að orð fái tiltekið fall vegna stöðu sinnar í setningu, enda þótt það komi ekki fram sem formbreyting á orðinu. Í íslensku er t.d. enginn munur nf. og þf. í fornafninu hann, eða í mannsnafninu Jón; samt erum við ekki í neinum vafa um að í setningunni Hann sá Jónhann nf. og Jón þf., en í setningunni Jón sá hann sé þetta öfugt. Hér er gert ráð fyrir að í ensku t.d. sé John í þolfalli í setningunni He saw John, enda þótt enska geri aldrei beygingarlegan mun á nf. og þf. (nema í nokkrum fornöfnum).

 

2. Formgerðarlegt fall: Nefnifall og þolfall

2.1 Fylliliðir: Þolfall

Í 2.1.1 er bent á að áhrifssagnir og forsetningar eru fallvaldar (case assigners), sem fallmerkja eða (case-mark) nafnliði sem þær stjórna; úthluta falli (assign case) til þeirra. Hér er sem sagt um það að ræða að haus (so./fs.) fallmerkir fyllilið sinn. Bent er á að fallmörkun er háð stjórnun; sögn getur ekki fallmerkt nafnlið sem er utan sagnliðarins, vegna þess að hún stjórnar honum ekki. [Hér kemur reyndar upp vandamál í íslensku. Það verður nefnilega ekki betur séð en sk. ópersónulegar sagnir stjórni falli frumlaga sinna: Mig langar, Mér líkar o.s.frv. Þessi dæmi má þó skýra á annan veg; við komum að því síðar.]

Hér er skilgreining á stjórnun einnig tekin upp úr 2. kafla og bætt við hana nánari skýringu:

[1] Stjórnun (sbr. bls. 160):

A stjórnar (governs) B ef og aðeins ef

(i) A er stjórnandi (governor);

(ii) A meginstýrir (m-commands) B; og

(iii) engin hamla (barrier) er milli A og B.

Stjórnendur eru orðhausarnir (lexical heads, þ.e. V, N, P, A) og I sem ber tíð (er [+tíð]

Meginvarpanir (maximal projections) eru hömlur á stjórnun.

Einnig er bent á að no. og lo. geta ekki stjórnað þolfalli. (Þau geta hins vegar stjórnað þágufalli og/eða eignarfalli: Jón er góður mér, Jón steig á bak hestinum, Hús Jóns.) Sagnir og forsetningar úthluta þolfalli. [Í íslensku er þetta reyndar flóknara, því að fylliliðir sagna og forsetninga geta líka staðið í þágufalli og eignarfalli; við komum að því síðar.]

Í 2.1.2 er bent á að í sagnlið eins og skrifa með blýanti, sem hefur að geyma tvo hugsanlega fallvalda, V og P, er það forsetningin með en ekki sögnin skrifa sem stjórnar falli á nafnliðnum blýanti. Til að sýna fram á þetta er tekið dæmi úr þýsku, þar sem sögnin og forsetningin stjórna mismunandi falli; íslenska gerir sama gagn.

Ef skilgreining stjórnunar er byggð á meginstýringu, þá gæti sögn stjórnað öllu innan sagnliðarins; höfuð meginstýrir nefnilega öllu innan meginvörpunar sinnar. En í setningu eins og Jón skrifar með blýanti þá er ljóst að það er fs. með en ekki so. skrifa sem fallmerkir no. blýantur; það stendur í þgf., en so. skrifa stjórnar þf. ein og sér. Þegar betur er að gáð kemur líka í ljós að í skilgreiningunni segir að meginvarpanir séu hömlur á stjórnun; ekki sé hægt að stjórna inn í meginvörpun. PP með blýanti er meginvörpun, og þess vegna getur sögnin ekki stjórnað inn í hann, enda þótt hún meginstýri öllum orðum innan hans. Athugið samt að sögnin stjórnar forsetningarliðnum í heild, þótt hún stjórni ekki einstökum orðum innan hans. Sama gildir um INFL; hann meginstýrir öllu innan sagnliðarins. Nú hefur því verið haldið fram að INFL úthluti nefnifalli (til frumlagsins); en auðvitað má ekki úthluta nefnifalli til andlagsins. Það sem kemur í veg fyrir að slíkt gerist er að sagnliðurinn (VP, V'') er meginvörpun.

[2] Lágmarkssvið (bls. 163):

Skoðið þessa skilgreiningu með tilliti til myndarinnar á bls. 164. Meginmálið er það að ef tiltekinn liður á sér fleiri en einn hugsanlegan stjórnanda, þá er það aðeins sá sem er næstur sem fær að stjórna, sbr. forsetninguna í dæminu hér að framan. Meginvörpun hauss afmarkar stjórnunarsvið (governing domain) hans, og meginvarpanir eru hömlur (barriers) á stjórnun að utan. [Þannig hamlar forsetningarliðurinn í (16d) því að sögnin stjórni nafnliðnum.]

 

2.2 Frumlög: Nefnifall og þolfall

Í 2.2.1 er bent á að frumlög sagna í persónuhætti standa jafnan í nefnifalli. [Í íslensku eru reyndar til aukafallsfrumlög, eins og áður er nefnt, en þau má skýra á annan hátt; við komum að því síðar.] Þolfall er aftur á móti dæmigert fall andlaga og fallorða forsetninga.

Síðan er bent á að frumlög sagna í nafnhætti standi í þolfalli; For him to attack him would be surprising, en ekki *For he to attack him .... Þetta er notað sem rök fyrir því að það sé INFL (annaðhvort þátturinn [+tíð] eða [+SAMR] sem stjórni nefnifallinu á frumlaginu; þess vegna komi frumlagið ekki í nefnifalli í nafnháttarsetningum, því að þar er INFL merktur [-tíð] og [-SAMR]. [Gallinn fyrir okkur er sá að setningar af þessu tagi eru ekki til í íslensku; við höfum ekkert sem samsvarar for ... to. Þess vegna er ekki hægt að yfirfæra þessa röksemd beint yfir á íslensku; en athugið samt að íslenska mælir ekki beinlínis gegn greiningunni.]

Ef við viljum segja að INFL fallmerki frumlagið, þá verður INFL að stjórna því, vegna þess að fallmörkun er háð stjórnun. Til að um stjórnun sé að ræða verður að byggja skilgreiningu hennar á meginstýringu (m-command), en ekki liðstýringu (c-command). INFL liðstýrir ekki frumlaginu, þótt hann meginstýri því.

Í 2.2.2 er fjallað um fall frumlagsins í nafnháttarsetningum. Í 2.2.2.1 er bent á að for í enskum setningum eins og For him to attack him would be surprising er ek. sambland af aukatengingu og forsetningu (prepositional complementizer). [Vegna þess að slíkar setningar eru ekki til í íslensku verður hliðstæðri röksemdafærslu ekki beitt þar, eins og áður segir.] Því er haldið fram að hlutverk for sé að fallmerkja frumlagið; en spurningin er: Hvers vegna þarf frumlagið að fá eitthvert fall? Í framhaldi af því er sett fram fallsían (case filter):

[3] Sérhver yfirborðsnafnliður verður að fá óhlutstætt fall.

Með þessu er átt við að sérhver nafnliður verður að standa þannig í setningu að honum sé stjórnað af einhverjum fallvaldi. Ástæðan fyrir því að talað er um óhlutstætt fall (abstract case) er sú að þetta á líka að gilda um mál þar sem fallbeyging er lítil sem engin. [Við gætum reyndar fundið óbein rök fyrir því í íslensku að INFL sem er [+tíð], [+SAMR] úthluti nefnifalli til frumlagsins. Í nafnháttarsetningum þar sem INFL er [-tíð], [-SAMR] má nefnilega ekkert frumlag vera; Að lesa bók er skemmtilegt er í lagi, en ekki *Að ég lesa bók er skemmtilegt. Seinni setningin væri þá vond af því að frumlagið getur ekki fengið fall; það er enginn fallvaldur. Í ensku er hins vegar hægt að hafa frumlag í nafnháttarsetningum ef for er með af því að for úthlutar falli.]

Það lítur hins vegar ekki nógu vel út að segja að for í ensku fallmerki frumlagið (for him to ...). Ástæðan er sú að him er þar hluti IP, sem er meginvörpun; og búið er að segja að ekki sé hægt að stjórna (og fallmerkja) utan frá inn í meginvörpun. Hér er þó það að athuga að INFL er annars eðlis en aðrir liðir; og svo virðist sem INFL sem hefur tóma mínusþætti, þ.e. [-tíð] og [-SAMR] sé of "veikur" til að banna utanaðkomandi stjórnun.

Í 2.2.2.2 er bent á að sömu skýringu má hafa á þolfallinu í setningum eins og Jón telur Svein vera ríkan, og þá erum við komin með rök sem ganga í íslensku. Búast mætti við að so. telja gæti ekki stjórnað falli á Svein, því að meginvörpun (IP) er þar á milli (sjá mynd á bls. 170). En hér er um að ræða vörpun af "veikum" INFL, þ.e. nafnhætti sem er [-tíð] og [-SAMR], og því er sú meginvörpun ekki hamla á stjórnun. Þetta er kallað afbrigðileg fallmörkun (exceptional case-marking).

Í 2.2.2.3 er fjallað um smásetningar (small clauses), eins og Jón telur Svein ríkan, þar sem engin sögn er í aukasetningunni. Litið er á sambandið Svein ríkan sem lýsingarorðslið (AP), þ.e. vörpun af lýsingarorðinu. Þá er spurning hvernig Svein fær fall. Lýsingarorð úthluta ekki falli, en allir Nl verða að fá fall skv. fallasíunni. Eðlilegt er að gera ráð fyrir að so. telja fallmerki Svein; en þá er um að ræða stjórnun inn í AP, sem er hámarksvörpun.

 

3. Lýsingarorð og nafnorð

3.1 Innsetning of

Hér er bent á að nafnorð og lýsingarorð úthluti ekki falli. Við getum sagt Jón öfundar hann en ekki *Jón er öfundsjúkur hann, heldur Jón er öfundsjúkur út í hann; og ekki *Öfund Jóns hann, heldur Öfund Jóns út í hann. Það þarf sem sagt á forsetningu að halda til að setningarnar gangi. Því er hér haldið fram að fallsían komi hér til; no. og lo. geti ekki stjórnað falli á sama hátt og so. og fs., og því fái hann í dæmunum hér á undan ekki fall nema skotið sé inn forsetningu; og ef hann fær ekki fall segir fallsían að setningin sé vond. Gert er ráð fyrir að enska hafi ek. "björgunarnet" til að gera slíkar setningar góðar; það er að setja inn fs. of. [Í íslensku er þetta flóknara, og við höfum enga eina forsetningu sem hægt sé að nota í öllum tilvikum sem of er notað í ensku.] Úthlutun eignarfalls til no. sem standa með öðrum no., eins og Jóns í öfund Jóns, er svo annað mál, sem ekki er farið út í að ráði. Gert er ráð fyrir að eignarfallsorðið sé ákvarðari (specifier), og í ákvarðara nafnliða sé sérstakur þáttur, EIGN (POSS) sem úthluti eignarfalli til liðarins. En þetta er of flókið til að fara út í það á þessu stigi.

 

3.2 of-innsetning bregst

Hér er gerður munur á tvenns konar fallmörkun; "formgerðarlegri" fallmörkun (structural case assignment) og "innbyggðri" fallmörkun (inherent case assignment). Með þeirri fyrrnefndu er átt við það þegar fallmörkunin er tengd því að fallþeginn hafi tiltekna stöðu í formgerð setningarinnar; frumlög fá nefnifall af því að þau eru frumlög, andlög fá þolfall af því að þau eru andlög. "Innbyggð" fallmörkun er aftur á móti háð eiginleikum (sérvisku) fallvaldsins. [Þannig fá t.d. sum andlög í íslensku ekki þolfall, heldur þágufall eða eignarfall; það eru þá tilteknar sagnir sem stjórna því.] Um innri fallmörkun gildir sérstakt skilyrði (bls. 176):

[4] Ef A er fallvaldur sem úthlutar "innbyggðu" falli, þá úthlutar A því aðeins falli til tiltekins nafnliðar að það úthluti einnig merkingarhlutverki til hans.

Þetta er síðan notað til að skýra ákveðin atriði í sambandi við of-innsetningu, sem óþarfi er að fara út í hér, enda eiga þau ekki við í íslensku. Meginatriðið er að átta sig á muninum á "formgerðarlegri" og "innbyggðri" fallmörkun.

 

3.3 Dæmi um innbyggða fallmörkun

Hér eru dæmi um "innbyggða" fallmörkun í þýsku; samsvarandi dæmi má taka úr íslensku. Athugið að gert er ráð fyrir að "innbyggð" fallmörkun sé hluti af þeim upplýsingum sem geyma verður um fallvaldinn í orðasafni. Við getum sagt að þolfall sé "eðlilegt" eða ómarkað fall andlaga í íslensku, og það þurfi ekki að læra það sérstaklega ef tiltekin sögn tekur með sér andlag í þolfalli. Taki sögn aftur á móti með sér andlag í þágufalli eða eignarfalli þarf að læra það sérstaklega og geyma þær upplýsingar með sögninni í orðasafni hugans.

 

4. Grannstaða og fallmörkun

Hér er bent á að fallmörkun virðist ekki alltaf geta farið fram þótt stjórnun sé fyrir hendi. [Skoðið dæmin á bls. 178 og athugið hvernig þetta kemur út í íslensku.] Svo virðist sem fallvaldur og fallþegi þurfi að vera grannstæðir (adjacent), þ.e. standa hlið við hlið, til að fallmörkun geti átt sér stað; ekkert megi koma á milli þeirra. [Það er reyndar ekki ljóst, og umdeilt meðal málfræðinga, hvort þetta grannstöðuskilyrði (adjacency requirement) gildi í íslensku. Reynið að finna dæmi þar sem það virðist brotið.]

 

5. Þolmynd: Upphaf umræðu

5.1 Þolmynd og rökformgerð

Þolmynd hefur áhrif á sögnina; hún kemur í lýsingarhætti þátíðar, og hjálparsögnin vera kemur inn. Í þolmynd kemur gerandinn ekki fram í rökliðarstöðu (A-position), og þarf reyndar alls ekkert að vera með. Það er dálítið undarlegt í ljósi vörpunarlögmálsins (projection principle), sem gerir ráð fyrir að eiginleikar orða, þ. á m. fjöldi rökliða, haldist óbreyttir hvernig sem setningunni er breytt; en hér virðist einn rökliður og eitt merkingarhlutverk falla brott þegar breytt er úr germynd í þolmynd. En það sem einkennir þolmyndarsetningar er að ytra merkingarhlutverkinu - hlutverki GERANDA - er þar ekki úthlutað.

Og vissulega virðist manni gerandi vera fyrir hendi í einhverjum skilningi þótt hann komi ekki fyrir í setningunni; setning eins og Pétur var barinn felur það í sér að einhver barði Pétur, þótt sá sé ekki nefndur. Gert er ráð fyrir að "þolmyndarbeygingin" (passive morphology), þ.e. ending lh.þt., "gleypi" (absorbs) hlutverk GERANDA. Þess vegna er ekki hægt að úthluta því til neins nafnliðar.

 

5.2 Fallgleyping

Hér er spurt hvers vegna ekki sé hægt að skjóta merkingarlausu fornafni (dummy) inn í frumlagssæti þolmyndarsetninga, en láta vera að færa fylliliðinn (þolandann) í frumlagssæti; hvers vegna er ekki hægt að breyta germyndarsetningunni (Einhver) barði Pétur í *Það var barið Pétur, heldur verður að færa Pétur í frumlagssæti og segja Pétur var barinn? Ef fylliliðurinn er hins vegar setning gegnir öðru máli; germyndarsetningunni (Einhver) veit að Pétur er farinn má breyta í Það er vitað að Pétur er farinn, án þess að gera andlagið, að Pétur er farinn, að frumlagi. Skýringin er sá munur á nafnliðum og aukasetningum að nafnliðir þurfa að fá fall (sbr. fallsíuna), en aukasetningar þurfa þess ekki. Gert er ráð fyrir að sögn með "þolmyndarbeygingu" (þ.e. í lh.þt.) missi hæfileikann til að úthluta formgerðarlegu þolfalli. Það leiðir til þess, ef andlagið er nafnliður, að það verður að færast á stað þar sem það getur fengið fall, þ.e. í frumlagssætið - þar sem það fær nefnifall frá INFL. Frumlagssætið er laust í þolmyndarsetningum, vegna þess að ytra merkingarhlutverkinu (sem venjulega er úthlutað til frumlagsins) er ekki úthlutað til Nl, heldur gleypir ending lh.þt. það. Aukasetningin þarf hins vegar ekki fall, og má því vera kyrr. [Við sjáum þetta vel í íslensku. Í setningu eins og (Einhver) gaf mér bókina er hægt að gera mér að frumlagi í þolmynd; þá fáum við Mér var gefin bókin (nf.), en ekki *Mér var gefin bókina (þf.). gefin (lh.þt.) stjórnar sem sagt ekki þf., þótt gaf geri það. - Hitt er svo annað mál: Hvaðan fær bókin fall sitt, þ.e. nf.? Ef sögn í lh.þt. úthlutar ekki falli, fær þá bókin nokkurt fall; og er það þá ekki brot á fallsíunni?]

 

5.3 Eiginleikar þolmyndar

Eiginleikar þolmyndar eru dregnir hér saman:

[5] (i) beyging sagnarinnar breytist;

Síðan er bent á að hér er ekki um 6 óskyld atriði að ræða, sem barn þurfi að læra hvert fyrir sig til að ná valdi á þolmynd, heldur séu þau flest meira og minna samfléttuð, þannig að eitt leiði af öðru. E.t.v. má leiða allt af fyrsta atriðinu; en það verður nánar rætt síðar.

 

5.4 Þolmynd og innbyggt fall

Í 5.4.1 kemur fram að í þýsku halda andlög í þgf. og ef. falli sínu þótt þau séu gerð að frumlagi í þolmynd; andlög í þf. fá aftur á móti nf. í þolmynd. Sama gildir í íslensku. Þetta er talið vera rök fyrir því að fallmörkun þgf.- og ef.-andlaga sé annars eðlis (þ.e. innbyggð) en fallmörkun þf.-andlaga. Hér kemur líka í ljós að setningar eins og John was given a book eru vandamál í ensku, eins og hliðstæðar setningar í íslensku; hvaðan fær a book fall? [Hér kemur líka dæmi um hvernig fallamál eins og íslenska geta skorið úr um atriði sem ekki koma fram í beygingarlitlum málum. Stungið er upp á því að í setningum eins og I gave John a book fái beina andlagið, a book, innbyggt fall, sem það geti haldið í þolmyndinni, vegna þess að það sé bara formgerðarlegt fall sem so. í lh.þt. geti ekki úthlutað; innbyggð föll standi eftir sem áður. Þessu er hægt að halda fram í ensku vegna þess að enginn beygingarlegur munur er á nf. og þf. Í íslensku kemur aftur á móti fram, eins og áður segir, að fallið breytist í þolmyndinni; Mér var gefin bókin en ekki *Mér var gefin bókina. Það er því ljóst að ekki er um innbyggt fall að ræða.]

 

6. Sýnileiki

6.1 Fallsían útskýrð

Hér er sagt aðeins sé hægt að úthluta merkingarhlutverki til nafnliðar sem sé sýnilegur; og fall geri hann sýnilegan (visible). [Við getum e.t.v. hugsað þetta sem svo að nafnliður án falls sé aðeins berrassaður bálkur af merkingarþáttum, setningafræðilegum þáttum og beygingarþáttum, án hljóðforms; hlutverk fallmörkunar sé að gefa honum hljóðform, klæða hann í búning sem hann geti látið sé sig í.] Það þýðir að fallsían er ekki sjálfstætt skilyrði, heldur leiðir beint af þeirri sýnileikakröfu (visibility requirement) sem gerð er til nafnliða. Því má segja að fallið löghelgi (licenses) nafnliði.

 

6.2 Færslur og keðjur

Í setningu eins og Pétur var barinn fær Pétur hlutverk ÞEMA - hann er augljóslega ekki GERANDI, þótt hann standi í frumlagsstöðu. ÞEMA er innra merkingarhlutverk sagnarinnar; en nú hefur því verið haldið fram áður að sagnir úthluti innra merkingarhlutverki aðeins til liða sem þær stjórna, en sögnin stjórnar augljóslega ekki frumlagssætinu. En samt þarf Pétur að færast í frumlagssætið til að fá fall. Hér virðist því komin upp mótsögn; Pétur getur aðeins fengið úthlutað merkingarhlutverki ef hann er í hlutverksstöðu (theta position), þ.e. andlagssætinu, og aðeins falli ef hann er í fallstöðu (case position), þ.e. frumlagssætinu, og hann þarf á hvorutveggja að halda; en hann getur ekki verið á báðum stöðunum í einu.

Lausnin er að gera ráð fyrir að liður sem er færður, eins og andlag sem er fært í frumlagssæti (og verður þar með að frumlagi) skilji eftir sig spor (trace) í andlagssætinu. Þetta spor og færði liðurinn eru sammerkt (co-indexed), og mynda keðju (chain). Sú keðja er táknuð <NP, e>, þar sem e táknar auðan bás; og það er til þessarar keðju sem innra merkingarhlutverkinu er úthlutað. Nú má umorða hlutverkaregluna:

[6] aSérhver rökliður A stendur í keðju sem hefur eina sýnilega hlutverkastöðu P, og sérhver hlutverkastaða P er sýnileg í keðju sem hefur að geyma einn röklið A.

Keðja fær merkingarhlutverk ef einn hlekkur hennar er í stöðu sem merkingarhlutverki er úthlutað til; og keðja er sýnileg ef einn hlekkur hennar er í stöðu sem fær fall. [Athugið að ef sagnir í lh.þt. héldu áfram að úthluta formgerðarlegu þolfalli værum við í vanda; í setningu eins og Péturi var barinn ei fengi keðjan tvö föll; nf. frá INFL, og þf. frá barinn. Það gengi ekki; sama keðjan getur aðeins fengið eitt fall.]

Athugið að samræmis vegna er líka talað um "keðju" þótt hlekkurinn sé aðeins einn. Í setningunni Jón barði Pétur höfum við því tvær "keðjur"; <Jóni> og <Péturi>.

 

6.3 Fall og heimilun nafnliða

Hér er bent á að hægt er að nota fallmörkun til að skýra hvort sagnir geta tekið fylliliði af tiltekinni gerð. Í (útdrætti úr) 1. kafla voru tekin þessi dæmi:

[7] a Hann rændi aleigu minni

b Hann rændi mig aleigu minni

c Hann rændi frá mér aleigu minni

[8] a Hann stal aleigu minni

b *Hann stal mig aleigu minni

c Hann stal frá mér aleigu minni

Þar var sagt að ræna gæti úthlutað tilteknu merkingarhlutverki til hvort heldur er nafnliðar eða forsetningarliðar, en stela aðeins til forsetningarliðar, eins og [8b] sýnir. En einnig er hægt að túlka þetta svo að ræna úthlutað falli til tveggja andlaga, en stela aðeins til eins. Ef stela tekur tvo nafnliði sem fylliliði, eins og í [8b], fær annar þeirra því ekki fall, og þar með verður setningin vond. Forsetningarliðir þurfa á hinn bóginn ekki fall, og þess vegna er [8c] í lagi.