05.40.06 Setningafræði 

 4. kafli: Vísivensl og yfirborðsnafnliðir

 Í þessum kafla er fjallað um bindikenninguna (binding theory), sem er sá þáttur málfræðinnar sem gerir grein fyrir mögulegum tengslum skáletruðu nafnliðanna í setningum á borð við þessar:

[1] Jón meiddi hann

[2] Jón meiddi sig

[3] Jón sagði að hann væri þreyttur

[4] Jón taldi honum líða betur

[5] Hann taldi Jóni líða betur

[6] Hann taldi að Jón væri þreyttur

Gerður er munur á þrem tegundum nafnliða:

[7] (i) "fullkomnum" nafnliðum s.s. Jón, maðurinn, bók, hús;

[Athugið að þar sem talað er um fornöfn í sambandi við bindikenninguna er eingöngu átt við persónufornöfn; og þar sem talað er um afturbeygð fornöfn er ekki bara átt við sig/sér/sín, heldur líka afturbeygða eignarfornafnið sinn/sín/sitt. Hvað varðar beygingu og setningafræðilega stöðu er það auðvitað í flokki með eignarfornöfnunum minn og þinn; en í sambandi við bindingu hagar það sér alveg eins og sig, og það er það sem skiptir máli hér.]

"Fullkomnir" nafnliðir hafa sjálfstæða vísun (independent reference); þurfa hvorki ákveðið setningarlegt samhengi né tilteknar aðstæður í tíma og rúmi til að vera skiljanlegir. Fornöfn eru hins vegar háð samhengi um skilning; þau vísa annaðhvort til einhvers sem hefur áður verið nefnt, eða til einhvers sem er skiljanlegt út frá ytri aðstæðum. Afturbeygð fornöfn eru aftur á móti algerlega háð setningarlegu samhengi; þau þurfa að vísa til einhvers sem áður hefur verið nefnt, en geta ekki vísað "út fyrir málið".

Meginefni þessa kafla eru vensl milli nafnliða í rökliðastöðum (A-positions); þetta er kallað rökliðabinding (A-binding). Bindikenningin felur í sér þrjú lögmál, sem hvert um sig gerir grein fyrir dreifingu og túlkun ákveðinnar tegundar nafnliða. Lögmál A (Principle A) gerir grein fyrir túlkun liða sem eru algerlega háðir öðrum, s.s. afturbeygðra fornafna. Lögmálið leggur svo fyrir að afturbeygð fornöfn séu bundin af (bound by) nafnlið í rökliðastöðu innan sérstaks svæðis, bindisviðs (binding domain). Lögmál B segir fyrir um túlkun (persónu)fornafna, sem mega ekki vera tengd nafnlið í rökliðastöðu innan bindisviðsins. Lögmál C segir svo að vísiliður (referential expression) megi ekki vera bundinn af nafnlið í rökliðastöðu. Allt skýrist þetta síðar í kaflanum.

[Hér hefur komið fram að bæði fornöfn og afturbeygð fornöfn geta vísað til undanfarandi texta; til liðar sem áður hefur verið nefndur. En það er ekki sama hvar í undanfarandi texta sá liður er; það skiptir máli hver tengslin eru milli hans og þess sem vísar til hans. Lítum á eftirfarandi dæmi:

[8] Jón meiddi hann

[9] Jón meiddi sig

[10] Jón er slasaður. Siggi meiddi hann

[11] Jón er slasaður. Siggi meiddi sig

Í [8] getur hann ekki vísað til Jón; setningin getur ekki merkt sama og Jón meiddi sig. Í [10] vísar hann aftur á móti til Jón. Þessu er öfugt farið með afturbeygða fornafnið; í [9] getur sig ekki vísað til neins annars en Jón, en í [11] getur það alls ekki vísað til Jón, heldur verður að vísa til Siggi. Það er hins vegar ekkert einfalt mál að gera nákvæma grein fyrir því hvernig tengslum milli vísandi orðs og þess sem vísað er til megi vera háttað; en það er verkefni bindikenningarinnar.]

 

1. Afturbeygð fornöfn

1.1 Binding og undanfari

Lítum á eftirfarandi setningar:

[12] Jón meiddi sig

[13] *Ég meiddi sig

Nafnliðurinn sem vísað er til er undanfari (antecedent) afturbeygða fornafnsins. Undanfarinn og fornafnið eru sammerkt (co-indexed) til að sýna að þau hafi sömu tilvísun:

[14] Jóni meiddi sigi

Afturbeygða fornafnið og undanfarinn verða að hafa sömu beygingarlega þætti (persónu, tölu og kyn - hins vegar ekki fall). Þess vegna er setning eins og [13] vond; þar er undanfarinn [+1.pers.], en afturbeygða fornafnið [+3.pers.]. Ástæðan fyrir því að þáttamerkingin verður að vera sú sama er sú að afturbeygða fornafnið hefur ekki sjálfstæða vísun, heldur er háð undanfara sínum um merkingu; er bundið af undanfara (bound by an antecedent). Þess vegna getur auðvitað ekki gengið að 3. persónu orð vísi til 1. persónu. [Athugið þó að afturbeygða fornafnið sig og afturbeygða eignarfornafnið sinn/sín/sitt haga sér ekki eins að öllu leyti hvað þetta varðar; sinn (eins og minn og þinn) stendur í sömu persónu og undanfarinn, en sambeygist hausnum sem það stendur með, eins og t.d. lo. gera.]

 

1.2 Staðbundnar hömlur

Hér er bent á að ákveðin skilyrði gilda um samband afturbeygðs fornafns og undanfara, sbr. eftirfarandi setningar:

[15] Jóni meiddi sigi

[16] *Jóni veit að ég meiddi sigi

Í [16] getur sig ekki vísað til Jón. Undanfarinn verður að vera innan tiltekins bindisviðs (binding domain), og afturbeygða fornafnið þar með að vera staðbundið (locally bound). Út frá [15] og [16] mætti álykta að bindir (binder) afturbeygðs fornafns í aukasetningu yrði að vera innan hennar, en mætti ekki vera uppi í móðursetningunni; og bindisvið afturbeygðra fornafna sé því klausan (clause). [Orðið klausa er hér notað sem þýðing á `clause', þótt það sé ekki að öllu leyti heppilegt. Það sem máli skiptir er að átta sig á muninum á sentence og clause. `Sentence' er setningin í heild, aðalsetning sem getur innihaldið aukasetningar sem aftur geta innihaldið aðrar aukasetningar o.s.frv. `Clause' er aftur á móti orðaruna sem ekki inniheldur nein setningaskil. Í [16] er þá Jón veit ein klausa, og að ég meiddi sig önnur. Út frá [16] virðist sem afturbeygt fornafn geti ekki vísað yfir setningaskil, þ.e. ekki út úr sinni klausu. - Athugið samt að `sentence' er oft notað í sömu merkingu og `clause', ef ekki þarf að gera mun; en aldrei öfugt.]

Setjum nú fram þá tilgátu að ef afturbeygt fornafn og undanfari eru í sömu klausu þá sé allt í lagi. En ath. [17]:

[17] *Ég tel [sigi hafa meitt Jóni]

Þetta gengur augljóslega ekki; það er sem sagt ekki gefið að það dugi til að gera setningu góða að afn. og undanfari séu í sömu klausu. Við þurfum einnig að setja það skilyrði að undanfarinn komi á undan afn. (eins og nafnið bendir til); þá er allt í lagi:

[18] Ég tel [Jóni hafa meitt sigi]

Þetta er allt í lagi. En hvað með [19]?

[19] *Systir Jónsi meiddi sigi

[19] er að vísu góð setning, en ekki ef sú sammerking sem þar er sýnd á að gilda; sig getur sem sé ekki vísað til Jóns hér, þótt hann komi á undan og sé innan sömu klausu. Eitthvað þarf að fjölga skilyrðunum enn.

 

1.3 Formgerðarvensl milli undanfara og afturbeygðs fornafns

Hér er byrjað á að sýna formgerð þeirra ensku setninga sem fjallað hefur verið um í textanum, í (8b-d). Skoðið hana vandlega, og reynið að teikna formgerð íslensku setninganna hér að framan.

Þegar formgerð setninganna er skoðuð kemur í ljós að í góðu setningunum liðstýrir undanfarinn afn.; í þeim vondu gerir hann það ekki. Út frá því sem nú hefur komið fram má setja upp eftirfarandi reglur:

[20] Reglan um túlkun afturbeygðra fornafna (principle of reflexive interpretation, bls. 212):

[21] Binding er síðan skilgreind á þennan hátt (bls. 212):

Hér er alls staðar verið að tala um sk. rökliðabindingu (A-binding), þar sem bindirinn er í rökliðastöðu (A(rgument)-position. Aðrar tegundir bindingar eru teknar fyrir aftar í bókinni.

 

1.4 Bindisvið afturbeygingar

Í 1.4.1 kemur fram að skilyrðin sem sett hafa verið fram um stöðu og túlkun afn. eru of ströng; þau útiloka setningar eins og [22]:

[22] Jóni telur [sigi vera bestan]

Hér eru undanfarinn og afn. ekki í sömu klausu, en samt er setningin góð. Það virðist því þurfa að stækka bindisviðið þannig að það nái yfir meira en klausuna. Ath. þó [23] og [24]:

[23] *Jóni veit [að sigi vantar peninga]

[24] *Jóni veit [að María elskar sigi]

Þessar ganga ekki; þannig að það verður að fara varlega í að stækka bindisviðið. Athugið að í [22] er um að ræða afbrigðilega fallmörkun (exceptional case-marking), þar sem sögnin í aðalsetningunni stjórnar frumlagi aukasetningarinnar og fallmerkir það. Hér er e.t.v. komin ástæðan fyrir því að setningin gengur. Reynandi er að setja fram endurskoðaða reglu:

[25] Reglan um túlkun afturbeygðra fornafna (2. gerð, bls. 213):

Afturbeygt fornafn X verður að vera bundið í klausu sem hefur að X og stjórnanda þess.

Stjórnandi afturbeygða fornafnsins í [22] er sögn aðalsetningarinnar, telja; minnsta klausa sem hefur að geyma afn. og stjórnandann er því ekki aukasetningin, heldur setningin í heild; og afn. er bundið innan hennar, því að undanfarinn er frumlag aðalsetningarinnar.

Í 1.4.2 - 1.4.5 er farið út flókna hluti, sem er enn erfiðara að átta sig á en ella vegna þess að íslenska hagar sér að verulegu leyti öðruvísi en enska í sambandi við afturbeygingu. Ég legg eiginlega til að þið sleppið þessum köflum að mestu eða öllu leyti (ef þið viljið. Auðvitað er æskilegt að þið lesið þá, en ég er hræddur um að það sé of tímafrekt). Þið þurfið hins vegar að kannast við hugtakið stjórnardeild (governing category). Það merkir svona um það bil `setning með tíðgreiningu', þ.e. setning sem hefur að geyma I með þættinum [+tíð]. Í íslensku gefur þetta í flestum tilvikum sömu niðurstöðu og sú skilgreining sem gefin er í bókinni; en hún er samt dálítið frábrugðin. Hún er einhvern veginn svona:

[26] Stjórnardeild (governing category):

Stjórnardeild A er minnsta svið (minimal domain) sem hefur að geyma A, stjórnanda (governor) þess og aðgengilegt (accessible) frumlag/FRUMLAG.

Önnur hugtök sem þessu tengjast eru frumlag/FRUMLAG (subject/SUBJECT) og aðgengilegur (accessible):

[27] Frumlag/FRUMLAG:

a Frumlag: [NP, XP]; þ.e., sá nafnliður sem er beinn stofnhluti í XP.

[Þetta þýðir ákvarðari XP, því að ákvarðarinn er eini nafnliðurinn sem er beinn stofnhluti í lið; við höfum séð að frumlagið er ákvarðari í IP. XP tekur í þessu tilviki til IP og NP. Frumlag nafnliðar eins og hús Jóns er ákvarðarinn, Jóns; athugið að ákvarðari þarf ekkert endilega að standa fremstur.]

b FRUMLAG samsvarar SAMR í setningum með tíðgreiningu, þ.e. [+SAMR].

[Þetta er vegna þess að [+SAMR] hefur í sér fólgna "nafnræna" (nominal) þætti, eins og persónu og tölu; persóna og tala frumlagsins (ákvarðarans) flyst yfir á [+SAMR], þannig að sögnin samræmist frumlaginu hvað þessa þætti varðar. Því er litið svo á að [+SAMR] geti, þegar á þarf að halda, tekið að sér hlutverk frumlagsins að einhverju leyti, orðið eins konar frumlag, en bara "eins konar"; þess vegna er það táknað á sérstakan hátt, með hástöfum: FRUMLAG.]

[28] Aðgengilegt frumlag/FRUMLAG:

A er aðgengilegt frumlag fyrir B ef sammerking (co-indexation) A og B brýtur engar málfræðireglur [sjá hér á eftir].

Hér þarf einnig að nefna i innan i-síuna (i-within-i-filter):

[29] i innan i-sían

[Stjarnan hér fyrir framan þýðir að þessi formgerð sé ótæk. Það sem hér er lýst ótækt er að hluti liðar sé sammerktur við liðinn í heild; niðurskrifað Ai upp við vinstri hornklofann táknar liðinn í heild, en Bi með punktalínum báðum megin við táknar sammerktan lið einhvers staðar innan A. Þetta þýðir að hluti liðar getur ekki vísað til hins sama og liðurinn í heild. Liðurinn bróðir Jóns hefur ákveðna vísun; og sú vísun er hvorki sú sama og orðið bróðir eitt og sér hefur, né sú sem Jóns hefur eitt og sér.]

Lítum nú á dæmi þar sem það skiptir máli hvort stjórnardeild er skilgreind sem `setning með tíðgreiningu' eða á þann hátt sem gert er hér að ofan.

[30] Poiroti thinks [CP that [IP [a picture of himselfi] will be on show at the exhibition]]

Hér er aukasetningin (CP) með tíðgreiningu; so. will er í nt. Ef skilgreining stjórnardeildar er tengd tíðgreiningunni ætti himself að vera bundið innan aukasetningarinnar; en svo er ekki.

Lítum nú á hvernig þetta kemur út miðað við skilgreininguna hér á undan: Stjórnardeild A [hér himself] er minnsta svið sem hefur að geyma A [himself], stjórnanda þess [hér fs. of] og aðgengilegt (accessible) frumlag/FRUMLAG. Stjórnandinn er sem sé fyrir hendi í aukasetningunni; en til að hún sé stjórnardeild fyrir himself þarf hún einnig að hafa að geyma aðgengilegt frumlag/FRUMLAG. Þar kemur tvennt til greina; annars vegar frumlag setningarinnar, þ.e. NP a picture of himself; og hins vegar FRUMLAGIÐ, þ.e. [+SAMR] í so. will. Rifjum nú upp að frumlag/FRUMLAG er því aðeins aðgengilegt fyrir A að sammerking (co-indexation) þess og A brjóti engar málfræðireglur. En ef við sammerkjum A, þ.e. himself, og frumlagsnafnliðinn í heild, þ.e. a picture of himself, þá erum við einmitt að brjóta eina slíka reglu; þ.e. i innan i-síuna, sem bannar sammerkingu hluta af lið og liðarins í heild. Þess vegna er frumlagsnafnliðurinn í heild, a picture of himself, ekki aðgengilegt frumlag fyrir himself.

En hvað með FRUMLAGIÐ, þ.e. [+SAMR]? Er þar aðgengilegt FRUMLAG fyrir himself? Til að svo geti verið þá má sammerking himself og [+SAMR] ekki brjóta neinar málfræðilegar reglur. Nú er það svo að [+SAMR] verður að vera sammerktur við frumlagsnafnliðinn í heild, vegna þess að hann (þ.e. [+SAMR]) þiggur þætti sína (persónu og tölu) frá frumlagsnafnliðnum. En ef [+SAMR] er sammerktur frumlagsnafnliðnum í heild, og líka sammerktur hluta hans, himself, þá þýðir það að allir þrír: [+SAMR], a picture of himself, og himself, eru sammerktir; og það er brot á i innan i-síunni að a picture of himself og himself séu sammerktir, eins og áður segir.

Niðurstaðan verður því sú að hvorki frumlagsnafnliðurinn í heild né [+SAMR] sé aðgengilegt frumlag/FRUMLAG fyrir himself; sammerking hvors sem er við himself er brot á i innan i-síunni. Þar með er ljóst að innan aukasetningarinnar er ekkert aðgengilegt frumlag/FRUMLAG fyrir himself, og því getur aukasetningin ekki verið stjórnardeild himself. Þess í stað verður stjórnardeild þess setningin í heild; og himself er bundið innan hennar, þ.e. af frumlagi aðalsetningarinnar.

Hins vegar leysir þessi skilgreining ekki öll mál, og ýmsar skilgreiningar þessu tengdar eru mjög til umræðu um þessar mundir. Rétt er að geta þess að liðir sem innihalda orðið picture og nokkur hliðstæð orð (oft kölluð picture-nouns) eru á margan hátt mjög sérstæðir í ensku (og ýmsum málum), og hæpið að draga almennar ályktanir af þeim. Og athugið að lokum að íslenska hagar sér öðruvísi; eftirfarandi setning er vond, þótt enska hliðstæðan sé góð:

[31] *Jóni veit [að mynd af séri verður á sýningunni]

Hins vegar getum við sagt:

[32] Jóni heldur [að mynd af séri verði á sýningunni]

- en eins og minnst bent er á hér á eftir er hægt í íslensku að láta afturbeygt fornafn í aukasetningu með viðtengingarhætti vísa upp í aðalsetninguna.

[Eins og áður segir er þetta snúið, og þið þurfið ekki að leggja sérstaka áherslu á það.]

 

1.5 Túlkun afturbeygðra fornafna: Yfirlit

Hér eru dregnar saman skilgreiningar sem hafa verið settar fram. Þið þurfið að standa klár á því hvað binding er, svo og liðstýring, og einnig vera með regluna um túlkun afturbeygðra fornafna nokkurn veginn á hreinu.

 

2. Endurvísar: Afturbeygð og gagnverkandi fornöfn

Gagnverkandi fornöfn (reciprocals), eins og hver annar, lúta svipuðum lögmálum og afturbeygð fornöfn. Þau verða að hafa málfræðilegan undanfara, og tengslin milli undanfarans og gagnverkandi fornafnsins eru svipuð og milli undanfara og afn. Tekið er upp nafnið endurvísir (anaphor), sem nær yfir fornöfn sem þurfa málfræðilega undanfara, þ.e. afturbeygð og gagnverkandi fornöfn. Sett er fram endurskoðuð regla:

[33] Regla um túlkun endurvísa (bls. 224):

Endurvísir verður að vera bundinn í stjórnardeild sinni.

 

3. Fornöfn

Næst eru það fornöfn. Hér er sýnt fram á að (í stórum dráttum) eru fornöfn og endurvísar í fyllidreifingu; ef hægt er að vísa til tiltekins undanfara með afn., þá er ekki hægt að setja (persónu)fornafn í stað afn., og öfugt:

[34] Jóni meiddi sigi/*hanni

[35] Jóni veit [að ég meiddi hanni/*sigi]

 

[36] Regla um túlkun fornafna (bls. 225):

Fornafn verður að vera frjálst (free) í stjórnardeild sinni, en

(i)stjórnardeild er minnsta svið (minimal domain) sem hefur að geyma fornafnið, stjórnanda þess og aðgengilegt frumlag/FRUMLAG;

(ii) frjálst er andstæða við bundið.

Þetta þýðir (svona um það bil) að (persónu)fornöfn mega ekki vísa til liðar innan sömu klausu (t.d. getur andlag ekki vísað til frumlags sömu sagnar).

 

4. Vísiliðir

Hér er fjallað um "fullkomna" nafnliði (referential expressions, R-expressions); þ.e., nafnliðir sem hvorki eru fornöfn né endurvísar, heldur bera merkingu í sjálfu sér, en eru hvorki háðir undanfarandi texta né ytri aðstæðum um túlkun. Það kemur í ljós að slíkir liðir mega ekki vera bundnir, hvorki innan klausu né yfir lengri vegalengd:

[37] *Hanni meiddi Jóni

[38] *Hanni segir [að ég hafi meitt Jóni]

[39] *Hanni segir [að Pétur viti [að ég hafi meitt Jóni]

[40] Regla um túlkun vísiliða (R-expressions; bls. 227):

Vísiliðir verða alls staðar að vera frjálsir (þ.e., mega aldrei vera bundnir af neinum undanfara).

 

5. Bindikenningin

Hér eru dregnar saman þrjú lögmál bindingar:

[41] Bindikenningin

Lögmál A: Endurvísar (anaphors) verða að vera bundnir í stjórnardeild (governing category) sinni.

Lögmál B: (Persónu)fornöfn (pronouns) verða að vera frjáls í stjórnardeild sinni.

Lögmál C: Vísiliðir (R-expression) verða alls staðar að vera frjálsir.

Venja er að vísa til þessara reglna sem lögmáls (principle) A, lögmáls B og lögmáls C.

 

6. Umræða: Vandamál í bindikenningunni

[Í þessum kafla er fjallað um atriði sem erfitt er að átta sig á vegna þess að íslenska hagar sér öðruvísi en enska að því leyti sem hér er til umræðu. Ég legg til að þið hlaupið yfir þennan kafla að mestu leyti; athugið samt að þar kemur fram að svo virðist sem ósagðir rökliðir (implicit arguments) geti stundum haft áhrif á það hvers konar binding er möguleg. Athugið líka að ýmis vafamál koma upp í íslensku. Þannig er binding möguleg yfir setningaskil í setningum eins og [42]:

[42] Jóni heldur [að María elski sigi]

Þetta gildir þó aðeins ef viðtengingarháttur er í aukasetningunni; ef þar er framsöguháttur í staðinn er þetta útilokað:

[43] Jóni veit [að María elskar *sigi/hanni]

Við eigum eftir að ræða þetta nánar.]

 

7. Gerðir nafnliða og þáttamerking

7.1 Þáttasamsetning nafnliða

Hér er rifjað upp að í 2. kafla var bent á að hægt sé að leysa orðflokkana upp í tvo tvígilda þætti; ["N] og ["V]. Á sama hátt er gert ráð fyrir því að þær þrjár tegundir nafnliða sem við höfum talað um, endurvísar, fornöfn og vísiliðir, séu ekki ósundurgreinanlegar eindir, heldur megi líka leysa þá upp í þætti. Notaðir eru þættirnir ["endurvísir] (anaphor) og ["fornafn] (pronoun). Endurvísar (afturbeygð fornöfn og gagnverkandi fornöfn) eru þá [+endurvísir, -fornafn]; (persónu)fornöfn eru [-endurvísir, +fornafn]; og vísiliðir eru [-endurvísir, -fornafn].

[Við getum nú sagt að sig og sinn eigi þáttinn [+endurvísir] sameiginlegan; sinn á svo ýmsa aðra þætti sameiginlega með minn og þinn. Þar með verður auðskiljanlegt að í sumum atriðum hagar sinn sér eins og sig, en í öðrum eins og minn og þinn. Athugið líka að rugla ekki saman þáttunum sjálfum og þeim orðum eða orðflokkum sem þeir einkenna. Þótt þátturinn [+endurvísir] einkenni afturbeygð fornöfn þá eru endurvísir og afturbeygt fornafn ekki samheiti; notkun þáttarins [+endurvísir] er bara aðferð til að geta náð yfir orð eða orðflokka sem haga sér eins við tilteknar aðstæður (en gætu hagað sér mismunandi við einhverjar aðrar aðstæður.]

 

7.2 Bindikenningin sett fram með þáttum

Nú má umorða bindikenninguna út frá þáttum:

[44] Lögmál A: Nafnliðir með þáttinn [+endurvísir] verða að vera bundnir í stjórnardeild (governing category) sinni.

Vegna þess að vísiliðir eru mínusmerktir fyrir báða þættina gildir hvorug þessara reglna um þá. Vegna þess að þeir hafa "innbyggða" vísun þarf ekki að taka fram að þeir verða að vera frjálsir; hin innbyggða vísun gerir það að verkum að þeir geta ekki verið háðir öðrum vísandi lið um túlkun.

 

7.3 "Afgangs"nafnliðurinn

Hér er bent á að tveir tvígildir þættir geta raðast saman á fjóra vegu. Við höfum gert grein fyrir þremur þáttasamsetningum; en hvað með þá fjórðu, þ.e. [+endurvísir, +fornafn]? Í fljótu bragði gæti virst svo sem sú þáttasamsetning fæli í sér mótsögn; nafnliður með + á báðum þáttum ætti að vera háður bæði lögmáli A og B, og þar með að vera bæði bundinn (skv. A) og frjáls (skv. B) í stjórnardeild sinni. Það virðist erfitt að koma því heim og saman.

Eina leiðin til að þetta geti gengið upp er að um sé að ræða nafnlið sem hefur alls enga stjórnardeild; við slík skilyrði gætu hvorki A né B haft nokkurt gildi.

En hvernig er hægt að finna lið sem hefur enga stjórnardeild? Rifjum upp að skilgreining stjórnardeildar (governing category) byggist á stjórnun (government). Liður sem ekki er stjórnað hefur enga stjórnardeild. En nú er það svo að nafnliður sem ekki er stjórnað getur ekki heldur fengið fall; og skv. fallsíunni verða allir yfirborðsnafnliðir að fá fall, annars er setningin vond.

Ef við höfum aftur á móti nafnlið sem ekki kemur fram á yfirborði, þótt gera verði ráð fyrir honum í formgerð setningarinnar, þá erum við kannski að nálgast lausnina. Fallsían gildir bara um yfirborðsnafnliði; nafnliðir sem ekki koma fram á yfirborði þurfa ekki að fá fall. Þar af leiðandi þarf þeim ekki heldur að vera stjórnað; og ef þeir hafa engan stjórnanda, þá hafa þeir ekki heldur stjórnardeild, og eru óháðir bindireglum A og B. Í næsta kafla verður einmitt fjallað um nafnliði af þessu tagi; liði sem gera verður ráð fyrir í formgerð setninga, en koma ekki fram á yfirborði. Þeir eru nefndir PRO. Meira um þá síðar!

 

8. Viðbætir

[Ég legg til að þið sleppið þessu.]