05.40.06 Setningafræði 

 5. kafli: Huldir liðir, FOR og völdun

 Í þessum kafla er fjallað um "hulda" nafnliði, þ.e. liði sem ekki koma fram í yfirborðsgerð setninga (hafa ekkert hljóðform), en virðast þó vera setningafræðilega "virkir" eða "til" í einhverjum skilningi. Slíkir liðir eru nefndir FOR(nafn; e. PRO(noun)), og hafa þáttasamsetninguna [+endurvísir, +fornafn].

 

1. Hulin frumlög nafnháttarsetninga

1.1 Skynjaðir rökliðir

Skoðið eftirfarandi setningar:

[1] Þetta var gott

[2] [Að Jón skyldi ljúka rannsókninni] var gott

[3] Jón lauk rannsókninni

Í [1] kemur fram að lo. góður tekur einn röklið, frumlagið þetta. Í [2] er þessi rökliður aukasetningin Að Jón skyldi ljúka rannsókninni. Umsögnin ljúka tekur tvo rökliði, eins og sést í [2] og [3]; ytri rökliðinn (gerandann), Jón, og þemað, rannsókninni. Það er ekki hægt að nota merkingarlaust fornafn í stað ytra rökliðarins:

[4] *Það lauk rannsókninni

(Þessi setning getur því aðeins gengið að það vísi til einhvers, t.d. barnið). Hins vegar getum við sagt:

[5] [Að ljúka rannsókninni] væri gott

Hér hefur umsögnin ljúka aðeins einn röklið. Það virðist þó vera einhver gerandi falinn í setningunni:

[6] [Að ljúka rannsókninni til að spara peninga] væri leiðinlegt

[7] [Að ljúka rannsókninni án þess að gefa skýringu] væri leiðinlegt

Við skiljum [6] þannig að hinn (ónefndi) gerandi sem lýkur rannsókninni sé sá sami (ónefndi) og sá sem vill spara peninga; og [7] skiljum við svo að sá sem lýkur rannsókninni sé sá sami og gefur ekki skýringu á því athæfi. Í einhverjum skilningi er því "falinn" gerandi í þessum setningum, rétt eins og í þolmynd; við vitum að þetta gerist ekki af sjálfu sér. Mikilvægur munur þessara setninga og þolmyndar er þó sá að í nafnháttarsetningunum virðist gerandinn ekki bara vera merkingarlega til staðar, heldur líka setningafræðilega. Þetta skýrist betur á eftir.

 

1.2 Víðara vörpunarlögmálið

Hér er bent á að samkvæmt víðara vörpunarlögmálinu verða allar setningar að hafa frumlag - líka nafnháttarsetningar, þótt þær hafi ekkert frumlag á yfirborði. Ef víðara vörpunarlögmálið á að gilda verðum við sem sé að gera ráð fyrir að frumlagssæti sé í formgerð nafnháttarsetninga eins og annarra.

Athugið að hið "ósagða" frumlag nafnháttarsetninga hefur ekki ákveðna vísun, heldur almenna; hefur oft svipaða stöðu og maður sem óákveðið fornafn. Þessi liður er nefndur FOR (PRO).

 

1.3 Staðbundin vensl

Í 1.3.1 er rökstutt frekar að nafnháttarsetningar hafi í raun og veru frumlag þótt það komi ekki fram í yfirborðsgerð; vegna þess að röksemdin byggist að nokkru leyti á sambandinu for - to er ekki hægt að beita henni á sama hátt í íslensku.

Í 1.3.2 eru tíndar til röksemdir sem varða orðið together, eða saman. Lítum á þessar setningar:

[8] *Lokið var við rannsóknina saman

[9] Að ljúka rannsókninni saman væri gott

[10] *Jón lauk rannsókninni saman

[11] Jón og Sveinn luku rannsókninni saman

[Ég er reyndar ekki viss um að saman á íslensku verki alveg eins og together á ensku - hvað finnst ykkur?] saman verður að vísa til nafnliðar í fleirtölu, eins og [8], [10] og [11] sýna. En í [9] er enginn slíkur fleirtöluliður fyrir hendi - samt gengur setningin [eða a.m.k. gengur samsvarandi setning í ensku]. Það bendir til þess að fleirtölufrumlag (gerandi) sé fyrir hendi í setningunni, þótt það komi ekki fram á yfirborði.

Í 1.3.3 eru tekin dæmi af setningum sem hafa að geyma lýsingarorðssagnfyllingar. Þar er enn byggt á sambandinu for - to, og rökin verða því ekki yfirfærð beint á íslensku.

Í 1.3.4 er þetta tengt við bindikenninguna. Lítum á annað dæmi sem sýnir að gera verður ráð fyrir "ósögðu" frumlagi í nafnháttarsetningum:

[12] [Að meiða sig] er sárt

Við höfum sagt að afn. sig verði að vera bundið í stjórnardeild (governing category) sinni, sem í þessu tilviki er setningin í heild. En það er sama hvernig við leitum; við finnum engan annan nafnlið í yfirborðsgerð setningarinnar. Eina leiðin er að gera ráð fyrir að sig vísi til hins "ósagða" frumlags so. meiða.

 

2. FOR: Fornafn og endurvísir

2.1 [+endurvísir] og [+fornafn]

Vörpunarlögmálið, víðara vörpunarlögmálið, hlutverkareglan og bindikenningin benda til þess að gera verði ráð fyrir tilvist FOR. Hér koma dæmi nokkuð annars eðlis:

[13] Jón reyndi [að FOR yfirgefa Maríu]

[14] Jón neyddist til [að FOR yfirgefa Maríu]

[Það er spurning hvort gera á ráð fyrir FOR á undan eða eftir ; það skiptir þó ekki máli á þessu stigi.] Í nafnháttarsetningunum sem áður voru komnar gat FOR - eftir aðstæðum - haft almenna vísun eða vísað til einhvers sem áður hafði verið nefndur. Þar hafði FOR sem sagt svipaða stöðu og fornafn; var ekki háður öðrum nafnlið í setningunni um túlkun. Hér er FOR hins vegar í hlutverki endurvísis, því að vísun þess hlýtur að vera til frumlags aðalsetningarinnar. Hið ósagða frumlag so. yfirgefa í aukasetningunum hlýtur sem sé að vera hið sama og frumlag sagnarinnar í aðalsetningunum; við getum ekki sagt *Jón reyndi að Sveinn yfirgæfi Maríu. Í tilvikum þessum, þar sem FOR er háð öðrum nafnlið í setningunni um túlkun, er sagt að FOR sé valdað af (controlled by) þeim nafnlið. Það er sýnt með sammerkingu (co-indexation):

[15] Jóni reyndi [að FORi yfirgefa Maríu]

Þegar FOR er ekki valdað af öðrum nafnlið getur það haft almenna (arbitrary) vísun; það er stundum táknað FORalm (PROarb):

[16] [Að FORalm yfirgefa Maríu] væri leiðinlegt

FOR getur líka verið háð ónefndum (implicit) rökliðum:

[17] Bókin var lesin [til að FOR fræðast]

Hér er augljóst að sá sem les (sem er merkingarlega fyrir hendi, þótt ending lh. lesin gleypi gerandahlutverkið) er sá sem vill fræðast.

 

2.2 Nafnrænir þættir

Hér er bent á að FOR, eins og aðrir nafnliðir, hefur þættina [+N, -V], sbr. 2. kafla. Spurningin er hins vegar hvort FOR hafi aðra nafnræna þætti, s.s. persónu, tölu og kyn. Hér má taka dæmi úr íslensku:

[18] a Jón er rólegur/*róleg/*rólegt/*rólegir/*rólegar/

b María er róleg/*rólegur/*rólegt/*rólegar/*rólegir

Þessi dæmi sýna að lýsingarorðssagnfyllingar samræmast frumlaginu í kyni, tölu og falli. Lítið nú á [19]:

[19] a Ég bað Jón [að FOR vera rólegan/*rólega/*rólegt/*rólegar/*róleg]

b Ég bað Maríu [að FOR vera rólega/*rólegan/*rólegt/*rólegar]

Til að gera grein fyrir því hvernig lýsingarorðssagnfyllingin birtist í þessum dæmum verður að segja að FOR hafi persónu, tölu, kyn og fall, sem sagnfyllingin lagi sig eftir.

 

3. Dreifing FOR

3.1 Staðreyndir

Það hefur nú verið rökstutt að í formgerð setninga verði að gera ráð fyrir nafnliðum sem ekki koma fram á yfirborði; en geta slíkir liðir verið víðar en í frumlagssæti nafnháttarsetninga?

[20] *Jóni reyndi [að FORi berja FOR]

[21] *FOR barði Svein

[22] *Jóni telur [FORi vera ríkan]

Engin þessara setninga gengur. Við höfum áður séð að FOR getur haft almenna merkingu, og því gætum við e.t.v. búist við að [20] gæti merkt `Jón reyndi að berja einhvern', og [21] gæti merkt `Einhver barði Svein'. Vegna þess að fram hefur komið að FOR getur verið frumlag nafnháttarsetninga gætum við líka búist við að [22] gengi, því að aukasetningin þar er nafnháttarsetning; en svo er ekki heldur.

Það er auðvitað hægt að setja FOR þrjú skilyrði; að það geti ekki komið fyrir í andlagssæti, ekki í frumlagssæti setninga með tíðgreiningu (tensed clauses), og ekki í sumum nafnháttarsetningum (sem þyrfti að afmarka nánar). En æskilegast væri auðvitað að geta komið þessu öllu undir eina reglu.

 

3.2 FOR og yfirborðsnafnliðir

Meginatriði þessa kafla er að sýna fram á að í þeim setningum þar sem við höfum séð að FOR má ekki vera, þá stendur það í stöðu sem er stjórnað (governed). Í [20] er FOR (þ.e. það seinna, sem er það sem gerir setninguna vonda) andlag so. berja, og andlagsstöðu er alltaf stjórnað af sögninni. Í [21] er frumlagssætinu sem FOR situr í stjórnað af þáttabálknum [+tíð, +SAMR]; og í [22] er frumlagssæti aukasetningarinnar, sem FOR situr í, stjórnað af sögn aðalsetningarinnar, telja, vegna þess að í aukasetningunni hefur I þáttasamsetninguna [-tíð, -SAMR], sem getur ekki stjórnað frumlagssætinu, og er ekki nógu sterk til að hindra utanaðkomandi stjórnun. Í setningunum þar sem FOR er í lagi, þá er því hins vegar ekki stjórnað; þar er það frumlag setninga þar sem I hefur þáttasamsetninguna [-tíð, -SAMR] og getur því ekki stjórnað frumlagssætinu. Þær nafnháttarsetningar (öfugt við aukasetninguna í [22]) standa aftur á móti í frumlagssæti aðalsetningarinnar (ekki í andlagssæti, eins og í [22]), og því er FOR þar ekki stjórnað - að því tilskildu að við gerum ráð fyrir að nafnháttarsetningin sé CP, ekki IP; sjá hríslur á bls. 271 og 272. [Þetta getur líka tengst stöðu nafnháttarmerkisins í formgerðinni - við ræðum það e.t.v. nánar í tíma.]

 

3.3 FOR má ekki vera stjórnað

Niðurstaðan er því sú að FOR geti aðeins komið fyrir í stöðum sem ekki er stjórnað (ungoverned). Það þýðir að FOR er í fyllidreifingu við yfirborðsnafnliði (þ.e. nafnliði sem hafa hljóðform); þar sem FOR getur komið fyrir getur yfirborðsnafnliður ekki staðið, og öfugt. Yfirborðsnafnliðir geta ekki verið í stöðum sem ekki er stjórnað vegna þess að ef þeim er ekki stjórnað þá geta þeir ekki heldur fengið fall, og brjóta þar með fallsíuna.

En hvers vegna getur FOR aðeins komið fyrir í stöðum sem ekki er stjórnað? Rifjum upp að vegna líkinda sinna við bæði fornöfn og endurvísa var talið að FOR væri [+endurvísir, +fornafn]. Rifjum í framhaldi af því upp síðustu gerð bindikenningarinnar:

[23] Lögmál A: Nafnliðir með þáttinn [+endurvísir] verða að vera bundnir í stjórnardeild (governing category) sinni.

Ef FOR er [+endurvísir, +fornafn], þá er það háð bæði A og B; og ætti samkvæmt því að vera bæði bundið og frjálst í stjórnardeild sinni. Það gengur augljóslega ekki, þar sem bundið og frjálst eru andstæður. Eina leiðin til að sleppa frá þeirri mótsögn er að segja að FOR hafi alls enga stjórnardeild. Ef svo er, þá hefur hvorug reglan gildi í þessu tilviki, og þar með rekast þær ekki heldur á [gangið úr skugga um að þið áttið ykkur alveg á þessu!]. Og þetta passar einmitt við það sem við höfum sagt að FOR sé ekki stjórnað; liður sem ekki er stjórnað getur ekki heldur haft neina stjórnardeild, því að það felst í skilgreiningu stjórnardeildar að hún hafi að geyma liðinn sem um er að ræða og stjórnanda hans. Þar með höfum við sýnt fram á að sú regla að FOR megi ekki vera stjórnað er bein afleiðing af bindikenningunni, en ekki viðbótarregla sem þarf að læra.

 

3.4 FOR og aðrar tegundir setning án tíðgreiningar

Hér er bent á að (í ensku) kemur FOR ekki eingöngu fyrir í nafnháttarsetningum heldur ýmsum öðrum tegundum aukasetninga (sem ekki eiga sér allar hliðstæðu í íslensku). Það er þó ljóst að um þær allar gildir sama regla; FOR er þar ekki stjórnað, vegna þess að I í aukasetningunum er [-tíð, -SAMR], og utanaðkomandi stjórnun kemur ekki til greina.

 

4. Eiginleikar völdunar

4.1 Skyldubundin og valfrjáls völdun

Hér kemur fram að völdun er ýmist valfrjáls (optional) eða skyldubundin (obligatory).

[24] Jóni finnst mikilvægt [að FOR haga sér vel]

[25] Jón reyndi [að FOR haga sér vel]

Í [22] er völdun valfrjáls; setningin getur bæði merkt `Jóni finnst mikilvægt að fólk (svona yfirleitt) hagi sér vel' en líka `Jóni finnst mikilvægt að hann hagi sér vel (við eitthvert tiltekið tækifæri t.d.). FOR getur sem sé bæði verið valdað af Jóni, og eins haft frjálsa vísun. Í [25] verður FOR hins vegar að vera valdað af Jóni, en getur ekki haft neina almenna vísun - getur ekki merkt `Jón reyndi að láta fólk haga sér vel' eða þess háttar.

 

4.2 Frumlagsvöldun og andlagsvöldun

Athugið einnig að FOR getur ýmist verið valdað af frumlagi eða andlagi móðursetningar. Í (25) er það augljóslega frumlagið sem er valdari (controller), en lítum á [26]:

[26] Jón skipaði Pétri [að FOR haga sér vel]

Hér er augljóst að FOR vísar til andlags aðalsetningarinnar, Péturs; það er hann sem á að haga sér vel.

 

4.3 Liðstýring og skyldubundin völdun

Hér kemur fram að þegar völdun er skyldubundin verður liðurinn sem valdar að liðstýra FOR. Þegar völdun er aftur á móti valfrjáls virðist ekki vera gerð krafa um liðstýringu.

 

4.4 Rökliðavöldun

Hér er röksemdafærsla sem tengist there í ensku; en þar sem það í íslensku hagar sér öðruvísi á þetta ekki við okkur.

 

5. Tegundir völdunar: Fleiri dæmi

5.1 FOR í fyllisetningum

Hér kemur fram að ef FOR er frumlag í fullyrðingarsetningu (declarative complement clause) verður það að vera valdað af nafnlið; FOR með almenna vísun gengur þar ekki. Í spurnarsetningum (interrogative clauses) kemur hins vegar hvorttveggja til greina.

 

5.2 Þolmynd og völdun

Ef setningu þar sem andlagið valdar FOR er breytt í þolmynd þá heldur andlagið áfram að valda FOR þótt það sé orðið að frumlagi:

[27] Jón skipaði méri [að FORi lesa bókina]

[28] Méri var skipað [að FORi lesa bókina

Misjafnt er hins vegar hvað gerist ef setningu þar sem frumlagið valdar FOR er breytt í þolmynd:

[29] Jón ákvað [að FOR lesa bókina] Það var ákveðið [að FOR lesa bókina]

[30] Jón reyndi [að FOR lesa bókina] Það var reynt [að FOR lesa bókina]

[31] Jón ætlaði [að FOR lesa bókina] *Það var ætlað [að FOR lesa bókina]

[30] Jón vildi [FOR lesa bókina] *Það var viljað [FOR lesa bókina]

[Hér kemur í ljós að merkingin virðist ekki stjórna þessu, nema þá að nokkru leyti; það er ekki hægt að segja *It was tried to go á ensku, þótt við getum sagt Það var reynt að fara.]

 

5.3 FOR í viðhengdum setningum

Hér kemur fram að ef FOR er frumlag aukasetninga sem eru viðhengi (adjunct clauses), þá er skyldubundið að valda það.

 

5.4 FOR í frumlagssetningum

Hér kemur fram að ef FOR er frumlag í aukasetningu sem gegnir frumlagshlutverki í móðursetningu sinni þá er ekki skylda að það sé valdað; og ef það er valdað, þá þarf valdarinn ekki að liðstýra því. Klykkt er út með því að segja að enn sem komið er hafi enginn komið fram með heildarkenningu um völdun sem nái yfir allar þær flækjur sem fram hafa komið í þessum kafla.

 

5.5 Skyldubundin völdun er ekki orðasafnsþáttur

Hér er rætt um hvað ráði því hvort völdun er valfrjáls eða skyldubundin; hvort það tengist einstökum sögnum og lýsingarorðum (sé orðasafnsþáttur þeirra), eða fari eftir gerð setningarinnar. Sýnt er fram á að í viðhengjum af ákveðinni gerð, sbr. [32]-[33], er völdun skyldubundin, og ekki er hægt að tengja það við sögn aðalsetningarinnar.

[32] Jón kom [FOR ánægður með sig]

[33] Jón yfirgaf hljómsveitina [til að FOR fara að vinna á eigin spýtur]