05.40.06 Setningafræði 

6. kafli: Ummyndanir: Nafnliðarfærsla

 1. Færsluummyndanir

1.1 Þolmynd: Upprifjun

Hér er bent á að gera verður ráð fyrir tveimur sviðum (levels of representation) í afleiðslu (derivation) setninga. Annars vegar er það D-gerð (D-structure), sem er "grunngerð" eða "djúpgerð" setninganna; hins vegar S-gerð (S-structure), sem er "yfirborðsgerð" setninga. [Áður hét þetta á ensku deep structure og surface structure, en nú eru bókstafirnir D og S komnir í staðinn. Ástæðan er sú að skilningur manna á þessum sviðum hefur breyst; það er t.d. einföldun að segja að S-gerð samsvari "yfirborðsgerð" setninga, þótt svo sé hér látið heita - og komi yfirleitt ekki að sök.] D-gerðin sýnir grunnvensl umsagna og rökliða; milli hennar og S-gerðar geta svo átt sér stað ýmiss konar færslur, t.d. færsla andlags í frumlagssæti í þolmyndarsetningum. Orðaröð D-gerðarinnar er nefnd grundvallarorðaröð eða baklæg orðaröð (underlying order); orðaröð S-gerðar afleidd orðaröð (derived order). Einnig eru frumlög í þolmyndarsetningum kölluð afleidd frumlög (derived subject), vegna þess að þau eru ekki frumlög í grunngerð (D-gerð) setninganna. Staðan á eftir umsögninni er kölluð grunnstaða (base-position) andlaga, og sagt að þau séu grunnmynduð (base-generated) þar, þótt þau séu síðar flutt í frumlagssæti í þolmyndarsetningum.

 

1.2 Spurningar

Í 1.2.1 er bent á að spurningar greinast í nokkra flokka; já/nei-spurningar (yes-no questions), bergmálsspurningar (echo questions), hv-spurningar eða liðspurningar (wh-questions, constituent questions) og óbeinar spurningar (indirect questions). Bent er á að formgerðarlegu (structural) falli er úthlutað í S-gerð; innbyggðu (inherent) falli aftur á móti í D-gerð. [Það kemur fram í því að þolfallsandlög germyndarsetninga fá nefnifall í þolmynd, en þágufalls- og eignarfallsandlög haldast óbreytt; þau síðarnefndu "taka fallið með sér" við færsluna milli D- og S-gerðar, en hin fyrrnefndu hafa ekki hlotið fall í D-gerð, og þurfa því að fá það í S-gerð til að brjóta ekki fallsíuna; og fá þá fall miðað við stöðu sína í S-gerð.] Athugið að iðulega eru D- og S-gerð eins í meginatriðum, t.d. hvað varðar orðaröð; ekki eru líkt því alltaf neinar færslur á ferðum.

Í 1.2.2 er fjallað um já/nei-spurningar, eins og Bauð Jón Pétri?. Þar er gert ráð fyrir að sögnin færist úr I í C (sjá hríslur á bls. 301-2).

Í 1.2.3 er minnst á bergmálsspurningar, eins og t.d. Jón hefur boðið hverjum?; þar er ekki um neina færslu að ræða.

Í 1.2.4 eru svo teknar fyrir hv-spurningar, eins og Hverjum hefur Jón boðið?. Þar er bæði gert ráð fyrir að sögnin færist úr I í C, eins og í já/nei-spurningum, og líka að spurnarorðið, hv-orðið (wh-element) færist úr grunnstöðu sinni í ákvarðarabás CP (Spec,CP; sjá bls. 304). Spurnarliðurinn skilur eftir sig spor (trace) í grunnstöðu sinni (Hverjumi hefur Jón boðið ei?). Sögnin úthlutar þá merkingarhlutverki og falli (formgerðarlegu þolfalli) til sporsins, e; og vegna þess að færði liðurinn er sammerktur sporinu og myndar keðju með því þá fær hann viðkomandi merkingarhlutverk og fall.

 

1.3 Setningafræðileg formgerð

Hér eru áréttuð helstu einkenni D-gerðar og S-gerðar hvorrar um sig, og bent á að milli þeirra eru færsluummyndanir (movement transformations). Þær færslur sem um getur verið að ræða eru þrenns konar; (i) færsla sagnar úr I í C; (ii) spurnarfærsla (færsla hv-liða) (wh-movement) í ákvarðarabás CP; og (iii) nafnliðarfærsla (NP-movement), s.s. færsla germyndarandlags í tómt frumlagssæti þolmyndarsetningar. Margt er líkt með þessum tegundum færslna, og oft eru þær kallaðar einu nafni færið ölfu (move alpha), þar sem alfa (a ) er breyta sem getur staðið fyrir ýmislegt. Greina má á milli færslnanna annars vegar eftir miði (target) færslunnar, þ.e. hvaða eind er færð; og hins vegar eftir lendingarstað (landing site), þ.e. hvar hin færða eind lendir. Um er að ræða tvenns konar mið. Annars vegar er hægt að færa haus í pláss annars hauss, t.d. I (haus IP) í C (haus CP); þá er talað um haus-í-haus færslu (head-to-head-movement). Hins vegar er svo hægt að færa meginvarpanir, ýmist með spurnarfærslu eða nafnliðarfærslu. Oft er gert ráð fyrir að færsla geti eingöngu tekið til þessara tveggja tegunda; annaðhvort verðum við að færa heilan lið (XP) eða haus hans (X), en ekkert þar á milli (þ.e. ekki X').

 

2. Nafnliðarfærsla

2.1 Inngangur: Þolmynd og lyfting

Hér er byrjað á að rifja upp afleiðslu þolmyndarsetninga:

[1] [IP e [I' var [VP barinn [NP Sveinn] af Jóni]]]

[2] [IP [NP Sveinni] [I' var [VP barinn ei af Jóni]]]

So. telja hlutverkamerkir (theta-marks) NP Sveinn beint í [1], og frumlagssætið er þar tómt vegna þess að þolmyndarsögn úthlutar ekki ytra merkingarhlutverki; ending lh.þt. "gleypir" það. Sveinn fær hins vegar ekki fall í [1], því að so. í lh.þt. úthlutar ekki formgerðarlegu falli; Sveinn verður því að færast í frumlagssætið í [2] til að fá (nefni)fall. Lítið nú á þessar setningar:

[3] Það var talið [CP að [IP Sveinn hefði lesið bókina]]

[4] Sveinni var talinn [IP ei hafa lesið bókina]

Í [3] er merkingarlaust það í frumlagssæti aðalsetningarinnar. telja tekur aukasetningu (CP) sem fyllilið; aukasetningar þurfa ekki að fá fall (andstætt nafnliðum), og því má setningin standa áfram í andlagssætinu enda þótt sögnin (talið) sé í lh.þt. Ljóst er að frumlag aukasetningarinnar, Sveinn, hefur engin hlutverkavensl (thematic relation) við sögn aðalsetningarinnar. Sama gildir um [4]; enda þótt Sveinn sé þar kominn í frumlagssæti aðalsetningarinnar er það frá sögn aukasetningarinnar (lesa) sem hann fær merkingarhlutverk. Færslan í frumlagssæti aðalsetningarinnar er hins vegar skyldubundin; [5] er vond:

[5] *Það var talið Svein(n) hafa lesið bókina

Hér fær Sveinn ekkert fall; sögn aðalsetningarinnar er í lh.þt. og úthlutar ekki formgerðarlegu (þol)falli, og I í aukasetningunni er [-tíð, -SAMR] og úthlutar ekki heldur (nefni)falli. [Þess vegna hef ég sett sviga um seinna n-ið í Svein(n); ekki er ljóst hvort hann ætti að fá nf. eða þf., enda fær hann hvorugt.] Eina leiðin til að bjarga þessari setningu er því að færa Svein í frumlagssæti aðalsetningarinnar og fá út [4].

Lítið svo á þessar setningar:

[6] Það virðist [að [Sveinn hafi lesið bókina]

[7] Sveinn virðist hafa lesið bókina

[6] sýnir að virðast er einrúm umsögn (one-place predicate; þ.e. umsögn sem tekur einn röklið), sem tekur aukasetningu sem fyllilið; það-ið í frumlagssætinu er merkingarlaust. [Reyndar er virðast ekki alveg sambærileg við seem á ensku, vegna þess að virðast (og sýnast) hafa oftast aukafallsfrumlag (í þgf.) í íslensku, þótt hægt sé að sleppa því.] Vegna þess að virðast úthlutar ekki ytra merkingarhlutverki er hægt að færa frumlag aukasetningarinnar í frumlagssæti aðalsetningarinnar, eins og [7] sýnir; þetta sést betur í [8]:

[8] Sveinni virðist [ei hafa lesið bókina]

Þegar frumlag aukasetningar er fært upp í frumlagssæti aðalsetningarinnar, eins og hér hafa verið sýnd dæmi um, er það kallað lyfting (raising), og þær sagnir sem leyfa slíkt lyftingarsagnir (raising verbs). Færsla nafnliða úr einum rökliðarbás (A-position) í annan, t.d. í þolmynd og lyftingu, er kölluð nafnliðarfærsla (NP-movement).

 

2.2 Spor

Gert er ráð fyrir að færður liður skilji eftir sig spor (trace) á þeim stað þar sem hann er grunnmyndaður (og á öllum viðkomustöðum sínum, ef hann er færður oftar en einu sinni). Spor er venjulega táknað með t (fyrir trace), og sammerkt (co-indexed) liðnum sem skildi það eftir; sá kallast undanfari (antecedent) sporsins. [Athugið að fram að þessu höfum við notað e (fyrir empty) fyrir alla nafnliði án hljóðforms, tóma liði og til að sýna upphafsstað færðs liðar; hér eftir er gerður munur á þessu, þannig að t stendur fyrir spor, en e táknar þá liði sem eru tómir í grunngerð (D-gerð).]

Síðan er rifjað upp að sagnir úthluta merkingarhlutverki til liða í grunngerð (D-gerð); það er hins vegar í yfirborðsgerð (S-gerð) sem (formgerðarleg) fallmörkun kemur til. Í setningu eins og [8] höfum við keðjuna (chain) <Sveinni, ti>. Staðan sem Sveinn er í nefnist höfuð (head) keðjunnar; staðan sem t er í er fótur (foot) hennar. Fallinu er úthlutað til höfuðsins, en merkingarhlutverki til fótarins; keðjan fær bara eitt fall og bara eitt merkingarhlutverk, sem er eins og það á að vera.

Í 2.2.1 - 2.2.3 er verið að sýna fram á að það sé eðlilegt að gera ráð fyrir spori í frumlagssæti nafnháttarsetninga með sögnum eins og seem, og að "upphaflegu" frumlagi nafnháttarsetninganna hafi verið lyft og gert að frumlagi viðkomandi aðalsetningar. Reynið að búa til samsvarandi setningar á íslensku og athuga hvernig þetta kemur út þar! [Setningar af þessu tagi minna ykkur sjálfsagt á nafnháttarsetningar með FOR, sem við töluðum um nýlega. Þar var hins vegar ekki gert ráð fyrir neinni færslu (lyftingu); FOR er sem sé ekki spor, heldur sjálfstæður liður sem er grunnmyndaður í frumlagssæti. Munurinn á setningum með FOR og setningum með virðast t.d. er sá að með FOR úthluta bæði sögnin í aukasetningunni (nafnháttarsetningunni) og sögn aðalsetningar merkingarhlutverki til frumlagsins; ef þar væri gert ráð fyrir færslu, og þar af leiðandi keðju milli frumlagssætanna, þá fengi sú keðja merkingarhlutverk frá tveim sögnum - sem er bannað. Sagnir eins og virðast úthluta aftur á móti ekki ytra merkingarhlutverki, og því er ekkert því til fyrirstöðu að færa frumlag aukasetningarinnar inn í frumlagssæti virðast; keðjan fær samt bara eitt merkingarhlutverk.]

 

2.3 Ýmsir eiginleikar nafnliðarfærslu

Í 2.3.1 er byrjað á að rifja upp að við höfum fram að þessu séð dæmi um tvenns konar nafnliðarfærslu úr einni rökliðarstöðu í aðra; þolmynd, þ.e. færslu úr andlagsstöðu í frumlagsstöðu sömu sagnar; og lyftingu, þ.e. færslu úr frumlagssæti aukasetningar í frumlagssæti aðalsetningar. Eftirtalin atriði eru sameiginleg með öllum nafnliðarfærslum:

[9] a Færði liðurinn er nafnliður (NP).

Síðan er sýnt fram á að ekki sé hægt að færa nafnlið inn í stöðu sem merkingarhlutverki er úthlutað til, því að þá yrði árekstur; færði liðurinn væri í keðju með spori sínu, og sú keðja fengi merkingarhlutverk miðað við stað sporsins; en að auki fengi liðurinn merkingarhlutverk á nýja staðnum. En það gengur ekki að sama keðjan fái tvö hlutverk.

Þá er bent á að það verður að hafa dálítinn fyrirvara á g hér að framan. Færður liður getur nefnilega lent í stöðu sem fær ekki fall, en það verður þá bara millilending; hann verður að færast áfram þar til hann getur fengið fall. Lítið á eftirfarandi setningar:

[10] Það virðist [að [einhver hafi lesið bókina]]

[11] *Það virðist [bókini hafa verið lesin ti]

[12] Bókini virðist [ti' hafa verið lesin ti]

Í [10] er aukasetningin í germynd; það í frumlagssæti virðast er merkingarlaust, því að virðast úthlutar ekki ytra merkingarhlutverki, eins og áður segir. Í [11] hefur aukasetningunni verið breytt í þolmynd, og bókin flutt úr andlagssæti í frumlagssæti, eins og venjulega í þolmynd. Þar má bókin hins vegar ekki standa, því að hún fær ekkert fall; I er þarna [-tíð, -SAMR], og virðast úthlutar ekki falli til andlags, þannig að utanaðkomandi fallmörkun kemur einnig til greina. Eina leiðin til bjargar er því að bókin haldi áfram að færast, og lyftist upp í frumlagssæti aðalsetningarinnar, eins og í [12]. Þá er hún búin að skilja eftir sig tvö spor, sem táknuð eru ti' (t strikað, t merkt) og ti; bæði fá sem sagt sama vísi (index, þ.e. i), en greint er milli þeirra með því að tákna annað t', hitt aðeins t. [Athugið að auðvitað er líka hægt að hafa sögn aukasetningarinnar í persónuhætti, og segja Það virðist að bókin hafi verið lesin. Það er hins vegar önnur setningagerð en [11], og [11] er nauðsynlegt millistig í afleiðslunni, sem gera verður ráð fyrir til að hægt sé að skýra að [12] er gild setning.]

Auðvitað mætti láta sér detta í hug að bókin færðist í einu stökki úr andlagssæti aukasetningarinnar í frumlagssæti aðalsetningarinnar, án viðkomu í frumlagssæti aukasetningarinnar (það er kallað "one fell swoop"). Þá ættum við hins vegar að geta fengið setningar eins og [13]:

[13] *Bókini virðist [að [það hafi verið lesin ti]

Ef bókin er færð í einu stökki, án viðkomu í frumlagssæti aukasetningarinnar, þá ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að [13] væri góð. Keðjan væri þá <bókini, ti>, og hún fengi merkingarhlutverk frá lesin og fall frá I í aðalsetningunni; merkingarlausu það væri síðan stungið inn í frumlagssæti aukasetningarinnar til að friða víðara vörpunarlögmálið. Þetta gengur samt ekki; og raunar er hægt að færa ýmis fleiri rök fyrir því að slíkar langdrægar færslur gangi ekki. Við komum nánar að því síðar. Talað er um að færslur af þessu tagi séu þrepaðar (cyclic); liðurinn færist þrep af þrepi, og skilur eftir sig millispor (intermediate traces) á viðkomustöðum sínum.

Í lok kaflans er bent á að sum einkennin í [9] eru sameiginleg með nafnliðarfærslu og spurnarfærslu (wh-movement), sem fjallað verður um í 7. kafla, en önnur gilda aðeins um nafnliðarfærslu.

Í 2.3.2 er bent á meginreglu sem gildir um allar færslur; hinn færði liður verður alltaf að liðstýra (c-command) spori sínu. Ef liðurinn hefur komið víða við á leiðinni og skilið eftir sig millispor verður sérhvert spor að liðstýra næsta spori á undan (fyrir neðan).

 

2.4 Lýsingarorð með lyftingu

Hér er sýnt að það eru (í ensku) ekki bara ákveðnar sagnir sem orsaka (induce) lyftingu; sum lýsingarorð gera það líka, s.s. likely í ensku. Eftir því sem ég best veit þá eru hins vegar engin íslensk lýsingarorð af þessu tagi.

 

3. Alhæfing Burzios

3.1 Fallmörkun og rökformgerð

Hér að framan hafa verið rakin tvö megineinkenni þolmyndar:

[14] (i)Þolmyndarsögn (þ.e. sögn í lh.þt.) úthlutar ekki formgerðarlegu falli til fylliliðar síns, þannig að nafnliðir í þeirri stöðu verða að færast í frumlagssæti til að fá fall.

Enn fremur hefur komið fram að lyftingarsagnir (raising verbs) líkjast þolmyndarsögnum að því leyti að þær úthluta ekki formgerðarlegu falli og hafa ekki ytri röklið. Luigi Burzio hefur sett fram alhæfingu um þetta:

[15] Alhæfing Burzios (Burzio's generalization):

(i) Sögn sem vantar ytri röklið úthlutar ekki þolfalli.

(ii) Sögn sem úthlutar ekki þolfalli hlutverkamerkir (theta-marks) ekki ytri röklið.

[Athugið að þessi alhæfing er lýsing, ekki skýring; "descriptive generalization".]

Ef sögn sem tekur nafnlið sem fyllilið úthlutar ekki þolfalli, þá verður fylliliðurinn að færast í frumlagssætið til að fá fall (frá I). Til að slík færsla sé möguleg má ekki úthluta merkingarhlutverki til frumlagssætisins, því að þá væri þessi nafnliður kominn með tvö hlutverk, eins og áður var bent á.

Þolmyndarsagnir falla undir alhæfingu Burzios; þær vantar ytri röklið, og úthluta því ekki þolfalli; þar með verður fylliliður þeirra að færast í frumlagssætið, og það er í lagi því að það fær ekki merkingarhlutverk. Sagnir af þessu tagi eru kallaðar þolfallsleysingjar (unaccusatives).

En það eru ekki bara þolmyndarsagnir sem þetta gildir um. Gert er ráð fyrir að sumar germyndarsagnir hafi ekki heldur neinn ytri röklið, og falli þar með undir alhæfingu Burzios. Grunngerð setninga með slíkum sögnum má þá lýsa með [16], en yfirborðsgerðinni með [17]:

[16] [IP e [I' [VP SÖGN NP]

[17] [IP NPi [I' [VP SÖGN ti]

Í [17] hefur fylliliðurinn verið færður í tómt frumlagssætið, og skilur eftir sig sammerkt spor. Hjá áhrifslausum sögnum, þ.e. sögnum sem taka engan fyllilið en hafa ytri röklið, má hins vegar lýsa grunngerð og yfirborðsgerð á sama hátt, þ.e. með [18]:

[18] [IP NP [I' [VP SÖGN]

Þetta þýðir að á yfirborðinu er enginn munur á áhrifssögnum af þessu tagi og þolfallsleysingjum, eins og [17], vegna þess að sporið í [17] er auðvitað ekki borið fram. Það eru þó setningafræðileg rök fyrir því að greina milli þessara flokka, eins og við komum brátt að.

 

3.2 Þolfallsleysingjar í ítölsku

Það er auðvitað æskilegt að þið lesið þetta og pælið í því, en ég læt samt kyrrt liggja þótt þið sleppið því.

 

3.3 Einrúmar sagnir í ensku

Í 3.3.1 er bent á að sagnir þar sem liður er færður inn í frumlagssætið með nafnliðarfærslu, þ.e. þolmyndarsagnir (t.d. var barinn) og lyftingarsagnir (t.d. virðast) eru þolfallsleysingjar; úthluta ekki þolfalli til andlags síns, sem verður því að færast í stöðu þar sem það fær fall.

Í 3.3.2 kemur fram að þær sagnir sem hafa aðeins innri röklið, þ.e. sagnir af gerðinni [16], virðast einkum vera sagnir eins og koma, fara, byrja, hætta og fleiri í þeim dúr; munið þið ekki eftir að "áhrifslausar hreyfingar- og breytingarsagnir" hafi þarfnast sérmeðferðar í einhverjum málum sem þið hafið lært? Þetta eru einmitt sagnir af því tagi. Í íslensku eru þetta einkum sagnir sem mynda samsetta umsögn með vera, án þess að um þolmynd sé að ræða:

[19] Sveinn er kominn/farinn/byrjaður/hættur

Slíkar setningar eru auðvitað ekki þolmynd af *Einhver kom/fór/byrjaði/hætti Svein. Sagnir eins og í [18], þ.e. venjulegar áhrifslausar sagnir sem taka ytri röklið, gera þetta hins vegar ekki; við getum ekki sagt:

[20] *Jón er unninn/sunginn/hrotinn

Á hinn bóginn er ekki hægt að greina milli þessa tveggja flokka með mismunandi hegðun þeirra í sambandi við það, eins og hægt er með there í ensku; það gengur nefnilega með flestum eða öllum flokkum sagna, ólíkt there.

Í 3.3.3 er fjallað um setningar af þessu tagi:

[21] Bóndinn fækkaði fénu

[22] Fénu var fækkað

[23] Fénu fækkaði

[24] Jón stækkaði íbúðina

[25] Íbúðin var stækkuð

[26] Íbúðin stækkaði

Sagnir af þessu tagi eru kallaðar orsakarsagnir (causatives). Takið eftir muninum á þolmyndarsetningunum [22] og [25] annars vegar og [23] og [26] hins vegar; út úr þolmyndarsetningunum má lesa að það er einhver sem veldur fækkuninni/stækkuninni; [23] og [26] benda hins vegar ekki til að neinn orsakavaldur hafi komið við sögu; þetta bara gerðist.

Spurningin er nú: Hvernig á að gera ráð fyrir að grunngerð (D-gerð) setninga eins og [23] og [26] sé? Er hún eins og [16] eða eins og [18]; þ.e., er frumlagið grunnmyndað í andlagssæti og síðan fært í frumlagssætið í yfirborðsgerð, eða er frumlagið grunnmyndað í frumlagssætinu? Haegeman gerir ráð fyrir að grunngerð setninganna sé eins og [18], með frumlagið á sínum stað frá upphafi. Rökin fyrir því að flokka sagnir af þessu tagi ekki með þolfallsleysingjum eins og koma og fara eru tvenns konar. Í fyrsta lagi koma þessar sagnir líka fram sem áhrifssagnir, eins og í [21] og [24]; það gera þolfallsleysingjar hins vegar ekki. Hin röksemdin varðar hegðun there í ensku, og verður því ekki yfirfærð á íslensku. Haegeman gerir því ráð fyrir því að þessar sagnir hafi ytri röklið, og úthluti ÞOLANDAhlutverki til hans í grunngerð.

Sagnir af þessu tagi (þ.e. eins og fækka og stækka) eru kallaðar ergatífar sagnir (ergatives). Haegeman bendir á að margir málfræðingar flokki þær með þolfallsleysingjum, og segir að þessi flokkun sé nú mjög til umræðu.

[Það eru viss rök fyrir því að segja að íslenska bendi til að greining Haegeman sé röng, og réttara væri að gera ráð fyrir að grunngerð [23] og [26] sé eins og [16]. Þá er sem sé sagt að sagnirnar hafi ekki ytri röklið í grunngerð, heldur sé yfirborðsfrumlag þeirra komið úr andlagssætinu, eins og í þolfallsleysingjum á við koma og fara. Það sem bendir til þessa er þágufallsfrumlagið í [23]. Ef I úthlutar eingöngu nefnifalli, eins og venjulega er talið, þá hlýtur þágufallið að vera komið frá sögninni; og [21] sýnir einmitt að sem áhrifssögn úthlutar sögnin fækka þágufalli. Því virðist eðlilegast að gera ráð fyrir að yfirborðsfrumlagið fénu í [23] sé upprunnið sem andlag. - Til fróðleiks má samt nefna að a.m.k. á síðustu öld og fram á þessa tóku sagnirnar fækka og fjölga nefnifallsfrumlag í setningum á við [21]; menn sögðu féð fækkaði.]

 

4. Svið málsins og lögmál málfræðinnar

Hér er fjallað um tengslin milli þeirra tveggja sviða málsins sem hér hafa komið við sögu, D-gerðar og S-gerðar, og hvernig þau málfræðilögmál sem rakin hafa verið í bókinni tengjast þessum sviðum.

 

4. Lögmálið um varðveislu formgerðar

Meginreglan um tengsl milli sviðanna tveggja er sú að formgerðir D-gerðarinnar verða að halda sér í S-gerð; ummyndanir eru formgerðarvarðveitandi (structure preserving). Þetta þýðir að ef tiltekin staða er fyrir hendi í D-gerð þá verður hún líka að vera í S-gerð. Nafnliðastöður halda áfram að vera nafnliðastöður, I er áfram I o.s.frv. Allir þættir hafa sama gildi í S-gerð og þeim var gefið í D-gerð; þetta gildir bæði um orðflokkaþætti eins og [?N] og [?V], og einnig þætti eins og [?endurvísir] og [?fornafn]. Þetta þýðir líka að sérhver eind sem færist verður að færast inn í sams konar stöðu og hún kemur úr. NP getur ekki færst í N' eða N, heldur aðeins í NP; og hausar verða að færast í aðrar hausastöður.

Einnig þýðir þetta að færslur verða að virða orðflokka; nafnliðir geta t.d. ekki færst inn í lýsingarorðsliðastöður. Það þýðir hins vegar ekki að nafnliðir geti aðeins færst í nafnliðastöður; þeir geta líka færst í stöður sem ekki eru merktar ákveðnum orðflokki, eins og ákvarðarabásar (Spec) eru oft. Reglan um varðveislu formgerðar bannar ekki að liður fái aðra stöðu í S-gerð en D-gerð, ef sú staða sem liðurinn er færður í er fyrir hendi (tóm) í D-gerðinni. Einnig er leyfilegt að gera liði sem færðir eru að viðhengjum (adjuncts) í S-gerð, því að sú formgerð sem var í D-gerðinni helst (þótt einnig bætist við hana).

 

4.2 Hlutverkareglan

Hér er bent á að orðasafnseiginleikar (lexical properties) koma fram í D-gerðinni; þar er merkingarhlutverkum úthlutað, eins og áður er sagt, og þar gildir hlutverkareglan (theta criterion). Með því að gera ráð fyrir keðjum, og skilgreina hlutverkaregluna út frá þeim, þá má segja að hún gildi líka í S-gerð, eins og áður er komið fram.

 

4.3 Víðara vörpunarlögmálið

Víðara vörpunarlögmálið gildir á öllum sviðum; setningar verða að hafa frumlagssæti á öllum sviðum málsins. Það er hins vegar ekki gerð krafa um að þetta sæti sé fyllt með yfirborðsnafnliðum, þ.e. liðum sem hafa hljóðform; við höfum séð dæmi um spor og FOR í frumlagssætinu. Ekki er heldur gerð krafa um að rökliðir standi þar; við höfum séð dæmi um merkingarlaust það.

 

4.4 Fallsían

Eins og fram hefur komið gildir fallsían í S-gerð; þar er formgerðarlegu falli úthlutað. Í D-gerð þurfa nafnliðir ekki að hafa fall. Það þýðir samt ekki að þeir megi ekki fá fall þar, enda er innbyggðu falli úthlutað í D-gerðinni.

 

4.5 Bindikenningin

Í 4.5.1 er þeirri spurningu velt upp á hvaða sviði bindikenningin gildi. Hér eru rakin dæmi úr ensku sem virðast sýna að kröfur bindilögmáls A er hægt að uppfylla í S-gerð; sumir telja að einnig sé hægt að uppfylla þær í D-gerð. Það virðist hins vegar ljóst að bindilögmál B og C gildi eingöngu í S-gerð, ekki í D-gerð.

Í 4.5.2 er farið út í að skoða þáttasamsetningu spora eftir nafnliði (NP-traces). Lítum á eftirfarandi setningar:

[27] Jóni virðist [ti vera þreyttur]

[28] Strákarniri virðast [ti vera þreyttir]

[29] Stelpurnari virðast [ti vera þreyttar]

Hér virðist lýsingarorðið í aukasetningunni fara í kyni og tölu eftir frumlagi aðalsetningarinnar. Vegna þess að lýsingarorðssagnfyllingar fara venjulega eftir frumlagi sinnar eigin klausu er eðlilegt að gera ráð fyrir að lýsingarorðin sambeygist í raun sporinu í frumlagssæti klausunnar; sporið hefur þá sömu þætti og liðurinn sem skildi það eftir, og er að því leyti hliðstætt venjulegum nafnlið, nema það hefur ekkert hljóðform.

Rifjið nú upp að við höfum gert ráð fyrir fjórum tegundum nafnliða með mismunandi þáttasamsetningu:

[30] Gerð Yfirborðsliðir Huldir liðir

Athugið dæmigerðar nafnliðarfærslur; þolmynd [30] og lyftingu [31]:

[30] Jóni var barinn ti

[31] Jóni virðist [ti vera bestur]

Ljóst er að sporin hér jafngilda ekki vísiliðum; þeir eiga að vera frjálsir alls staðar, en sporin hér eru bundin af undanfara sem liðstýrir þeim. Ef sporin jafngiltu vísiliðum væri um að ræða brot á bindilögmáli C. Sporin geta ekki heldur jafngilt fornöfnum; þau eiga að vera frjáls í stjórnardeild sinni, en sporin hér eru bundin í stjórnardeild sinni. Ekki er heldur hægt að telja sporin jafngilda FOR, þ.e. hafa þættina [+endurvísir, +fornafn]. Munið að slíkir liðir geta ekki staðist gagnvart bindikenningunni nema þeir hafi enga stjórnardeild; þeim má því ekki vera stjórnað. Það er hins vegar ljóst að sporinu í andlagssæti [30] er stjórnað (látið ekki rugla ykkur að sögn í lh.þt. úthlutar ekki falli - hún getur samt verið stjórnandi). Vegna þess að IP er ekki hamla á stjórnun þegar I er [-tíð, -SAMR], þá stjórnar virðast líka sporinu í [31].

Þá er ekki nema eitt eftir; þáttasamsetningin [+endurvísir, -fornafn], sem er sú sama og endurvísar (afturbeygð og gagnverkandi fornöfn) hafa. Það er nú gott, því að nafnliðaspor lúta einmitt sömu lögmálum og endurvísar; þau verða að vera bundin í stjórnardeild sinni. Það er því eðlilegt að nota orðið undanfari (antecedent) bæði fyrir bindi (binder) afturbeygðs fornafns og fyrir nafnlið sem hefur verið færður og bindur spor sitt. Við getum þá bætt í töfluna hér að framan:

[32] Gerð Yfirborðsliðir Huldir liðir

Þá eru eftir þrjár eyður í þessari töflu. Yfirborðsliðir af gerðinni [+endurvísir, +fornafn] geta ekki staðist, eins og áður hefur komið fram; þeir væru háðir bæði bindilögmáli A og B, og það getur aðeins gerst með því að þeir hafi enga stjórnardeild, og sé þar með ekki stjórnað; en öllum yfirborðsnafnliðum (nafnliðum með hljóðform) verður að vera stjórnað, því að þeir þurfa að fá fall, og það fá þeir ekki án stjórnunar. Við eigum hins vegar eftir að sjá dæmi um "huldar" samsvaranir fornafna og vísiliða, í 7. og 8. kafla.

 

4.6 Keðjur og færslur

Þið getið sleppt þessum kafla.

 

5. Frumlög og afleidd frumlög

Hér er viðruð sú hugmynd sem margir aðhyllast núna að frumlög séu ekki grunnmynduð sem ákvarðarar í IP, eins og við höfum gert ráð fyrir, heldur sem ákvarðarar í VP; ákvarðarabás IP sé hins vegar tómur í grunngerð (D-gerð). Ýmislegt bendir til að þetta sé rétt, en þetta er mál sem er í skoðun. Þið skuluð því ekki leggja áherslu á þennan kafla, enda gerir Haegeman áfram ráð fyrir því í þeim köflum sem á eftir fara að frumlagið sé grunnmyndað sem ákvarðari IP, eins og við höfum talið fram að þessu.