05.40.06 Setningafræði 

7. kafli: Spurnarfærsla

 1. Spurnarfærsla: Nokkur dæmi

Hér er bent á að í (beinum) spurnarsetningum með spurnarorði (hv-spurningum) verður að gera ráð fyrir tveimur færslum. Annars vegar er hjálparsögnin (eða aðalsögnin, sem hefur verið flutt í I ef engin hjálparsögn er í setningunni) flutt úr I í C; og hins vegar er spurnarliðurinn fluttur fremst í setninguna, í ákvarðarabásinn (Spec) í CP (sjá hríslur á bls. 372). Bæði sögnin og spurnarliðurinn skilja auðvitað eftir sig spor (traces; t) sem verður að merkja með mismunandi vísi (index) til að sýna hvaða liður hafi skilið eftir hvaða spor.

 

2. Spurnarliðir

Lítið nú á nokkur dæmi um spurnarfærslu:

[1] [Hvað] hefur Sveinn borðað?

[2] [Hvaða manni] hefur Sveinn boðið?

[3] [Hvers dóttir] er María?

[4] [Hvar] hefur Jón búið?

[5] [Hvenær] mun Jón birtast á svæðinu?

[6] [Hvers vegna] hefur Jón ekki komið?

[7] [Við hvern] hefur Jón talað?

[8] [Í hvaða skúffu] geymir Jón bréfin?

[9] [Hvernig] hefur Jón gert þetta?

[10] [Hversu há] munu verðlaunin verða?

Hér sést að mið (target) spurnarfærslunnar, það sem færist, er liður (phrasal constituent; þ.e. XP, en ekki X eða X'). Ýmiss konar liðir færast; nafnliðir í [1]-[3], atviksliðir í [4], [5] og [9], forsetningarliðir í [6]-[8], og lýsingarorðsliður í [10]. Eins og dæmin sína er bæði hægt að færa rökliði og viðhengi. Færði liðurinn í setningum af þessu tagi er kallaður spurnarliður (wh-phrase, wh-constituent).

Í [1], [4], [5] og [9] er spurnarorðið (hv-orðið) sjálft haus liðarins. Í [2], [3] og [10] er spurnarorðið hins vegar ákvarðari í hinum færða lið (sjá hríslur á bls. 374). Þar sem hausinn ákvarðar gerð liðarins í heild leiðir það af sjálfu sér að liður sem hefur spurnarorð að haus verður spurnarliður (interrogative phrase) eða hv-liður (wh-phrase). Gert er ráð fyrir að spurnarorð beri þáttinn [+HV] ([+WH]); og sé spurnarorð haus, þá varpar það þessum þætti upp á liðinn í heild; þátturinn stígur (percolates) frá höfðinu upp á meginvörpun þess. Það er hins vegar ljóst að spurnarfærsla nær ekki eingöngu til liða sem hafa spurnarorð að haus; eins og setningarnar hér að framan sýna getur hún líka tekið til liða sem hafa spurnarorð að ákvarðara. Það sýnir að hausinn er ekki einn um að ákvarða þætti liðarins í heild; þættir ákvarðarans geta líka haft áhrif á þá. Áður hefur komið fram að ákvarðari getur haft áhrif á haus sinn, s.s. það að frumlag í ákvarðarabás stjórnar persónu og tölu sagnarinnar sem er haus. Í setningum eins og [6]-[8], þar sem forsetningarliður er færður, er spurnarorðið hvorki haus né ákvarðari, heldur hluti fylliliðar (complement) forsetningarinnar. Athugið að í sumum tilvikum er hægt að skilja forsetninguna eftir, þótt fylliliður hennar sé færður:

[11] [Hvern] hefur Jón talað við?

[12] [Hverjum] varst þú hjá?

Þetta er kallað forsetningarstrand (preposition-stranding), en það þegar forsetningin er færð með fyllilið sínum, eins og í [6]-[8], kallast forsetningarfylgni (pied-piping). Það er alltaf hægt að færa forsetninguna með spurnarliðnum, en ekki alltaf hægt að skilja hana eftir, eins og þessi dæmi sýna:

[13] *Hvaða leyti kemur Jón um?

[14] *Hvaða höfund er þessi bók eftir?

Í ensku er forsetningarstrand oft mögulegt, eins og í íslensku; en í mörgum málum, t.d. ítölsku og frönsku, verður að færa forsetninguna með fylliliðnum (sjá dæmi á bls. 376). Ekki er ljóst af hverju þessi munur stafar.

 

3. Lendingarstaður spurnarfærslu

3.1 Langfærsla og skammfærsla

Lítið á þessa setningu:

[15] Hverjum hafðir þú vonað [CP að [Sveinn mundi bjóða]]

Þetta er samsett (complex) setning. vona tekur tvo rökliði; ytri rökliðurinn er frumlagið þú, en innri rökliðurinn er aukasetningin (CP). bjóða tekur líka tvo rökliði; ytri rökliðurinn er Sveinn, en sá innri er spurnarliðurinn hverjum, þótt hann sé kominn út úr aukasetningunni og fremst í aðalsetninguna; en það er augljóst að bjóða úthlutar honum bæði falli og merkingarhlutverki. D-gerðin er því eins og sýnt er á bls. 377 [setjið íslensku orðin í staðinn fyrir þau ensku og skoðið formgerðina vandlega; hún er alveg eins í íslensku og ensku]. Í S-gerðinni er hverjum fært úr andlagssæti aukasetningarinnar upp í ákvarðarabás CP í móðursetningunni, og skilur eftir sig sammerkt spor (co-indexed trace). Auk þess er hjálparsögnin hafa flutt inn í C í móðursetningunni. Grunngerðin er því [16], og niðurstaðan verður [17]:

[16] Þú hafðir vonað að Sveinn mundi bjóða hverjum

[17] Hverjumi hafðirj þú tj vonað [CP að [IP Sveinn mundi bjóða ti]]

Færsla af þessu tagi, þar sem spurnarliður er færður út úr klausu sinni upp í móðursetningu, er kölluð langfærsla (long movement); spurnarfærsla eins og í [1]-[10], þar sem spurnarliðurinn er færður innan sinnar eigin klausu, er kölluð skammfærsla (short movement).

Þær spurnarsetningar sem við höfum skoðað til þessa eru beinar spurningar (direct questions) eða rótarspurningar (root questions); spurnarliðurinn er færður fremst í aðalsetningu. Í óbeinum spurningum (indirect questions, embedded questions) er spurnarliðurinn fremst í aukasetningu, eins og hér:

[18] Ég spurði [hvort [Sveinn myndi bjóða mér]]

[19] Ég veit ekki [hverjum [Sveinn hefur boðið]]

Eitt af því sem greinir milli beinna og óbeinna spurninga er að í þeim óbeinu færist hjálparsögnin (eða aðalsögnin, sem komin er í I ef engin hjálparsögn er) ekki úr I í C, heldur helst kyrr í I. [Formgerð [18] er alveg sambærileg við hrísluna á bls. 379; athugið bara að -s í I í aðalsetningunni er 3. persónu endingin, fulltrúi fyrir þáttinn [+SAMR]; þetta -s bætist við sögnina wonder þegar hún færist í I. D-gerð [19] er aftur á móti alveg hliðstæð hríslunni á bls. 380, og S-gerð sömu setningar hliðstæð hríslunni á bls. 381. Setjið íslensku orðin inn í hríslurnar og skoðið þær vel. Þegar þið eruð búin að skoða þær nægilega skuluð þið reyna að teikna þær sjálf, án þess að kíkja! Það er mikilvægt að æfa sig í því; og ef þið skiljið grundvallaratriði X'-kenningarinnar, og hafið áttað ykkur á uppbyggingu setninganna, eigið þið ekki að vera í neinum vandræðum með þetta - en það þarf æfingu!]

Í [19] er um að ræða skammfærslu í óbeinni spurnarsetningu; spurnarliðurinn er færður innan klausu. En langfærslur geta einnig komið fyrir í óbeinum spurnarsetningum, rétt eins og beinum. Dæmi um það er [20]; reynið að átta ykkur á gerð hennar:

[20] Ég spurði hverjum Jón héldi að Sveinn myndi bjóða

 

3.2 Liðstýring

Sú meginregla gildir um spurnarfærslu, eins og um nafnliðarfærsluna, að undanfarinn (antecedent), þ.e. færði liðurinn, verður að liðstýra sporinu eftir sig.

 

3.3 Spurnarfærsla og umskipting

Gert er ráð fyrir að lendingarstaður spurnarfærslu sé ákvarðarabásinn í CP [Spec,CP], sem annars er auður. Athugið að eins og fram hefur komið geta spurnarliðir verið af ýmsu tagi. Vegna þess að þeir lenda allir á sama stað (fremst) í setningu er hæpið að gera ráð fyrir að hver tegund liðar færist inn í auðan bás af sama tagi (spurnarnafnliðir inn í nafnliðabása, spurnaratviksliðir inn í atviksliðabása o.s.frv.). Einfaldara er að gera ráð fyrir að spurnarliðir færist inn í bás sem ekki sé fyrirfram frátekinn fyrir liði af ákveðinni tegund. Þannig er einmitt ástatt um ákvarðarabásinn í CP [andstætt t.d. ákvarðarabásnum í IP; það er frumlagssætið, sem er frátekið fyrir nafnliði, því að aðrir liðir geta ekki gegnt frumlagshlutverki]. Spurnarfærslan er því hliðstæð nafnliðarfærslu að því leyti að hún færir liði inn í tóma bása; munurinn er hins vegar sá að nafnliðarfærsla færir liði inn í rökliðarstöðu (argument position), en það gerir spurnarfærsla ekki.

 

3.4 Bann við að tvíbóka [Spec,CP]

Nú má spyrja hvers vegna gert sé ráð fyrir að spurnarliðir færist inn í ákvarðarabás CP; væri ekki eins hægt að gera ráð fyrir að þeir færðust inn í hausinn, aukatengingarbásinn sjálfan, þ.e. C? Það pláss er líka autt, eins og sést á hríslunum á bls. 380-381. Gegn því eru tvenns konar rök. Í fyrsta lagi hefur verið minnst á það áður að lendingarstaður færðra einda verði að vera sams konar og upphafsstaður þeirra; haus getur aðeins færst í haus, meginvörpun aðeins í meginvörpun. Þess vegna gæti liður (meginvörpun) ekki færst inn í haus (C). Í öðru lagi eru þess dæmi í óbeinum spurnarsetningum í ýmsum málum að þar sé bæði spurnarliður og aukatenging, og spurnarliðurinn þá á undan; sjá dæmi á bls. 382-383. Í ensku getur þetta tvennt - spurnarliður í ákvarðarabás CP og aukatenging í C - hins vegar ekki farið saman. Því er lýst með "the doubly filled COMP filter". [Sama gildir að mestu leyti í íslensku. Þó eru til - í máli sumra - setningar á við þessar:

[21] ??Ég veit ekki [hvernigi að Jón getur þetta ti]

[22] ??Ég veit ekki [hvenæri að hann kom heim ti]

[23] Ég veit ekki [hvort að Jón kemur á morgun]

Í [21] og [22] virðist sem spurnarliður hafi verið færður í ákvarðarabás CP, en aukatengingin standi í C. Þetta eru þó hæpnar setningar, og margir geta alls ekki sagt þær - athugið samt að þær eru miklu verri á prenti en að heyra þær! [23] er hliðstæð að því leyti að þar er bæði spurnarliður og aukatenging; hins vegar er venjulega gert ráð fyrir því að hvort sé spurnaraukatenging, upprunnin í aukatengingarbásnum, C; og ætti því ekki að geta komið fyrir með , sem er líka aukatenging. En kannski er eðlilegt að gera ráð fyrir hvort í ákvarðarabás hér, en ekki sem haus.]

Einnig er bent á að ekki er hægt að færa tvo spurnarliði fremst í einni og sömu setningu:

[24] Jón spurði [hverjum ég hefði gefið hvað]

[25] Jón spurði [hvað ég hefði gefið hverjum]

[26] *Jón spurði [hvað hverjum ég hefði gefið]

[27] *Jón spurði [hverjum hvað ég hefði gefið]

Hér sést (í [24] og [25] að þegar tveir spurnarliðir eru í setningu þá er hægt að færa hvorn þeirra sem er fremst. [26] og [27] sýna hins vegar að það er útilokað að færa þá báða fremst í sömu setningunni, og gildir þá einu hvor röðin er reynd. Þetta er skiljanlegt ef við gerum ráð fyrir því að spurnarliðir séu færðir inn í bás sem þegar er fyrir hendi í formgerðinni, þ.e. ákvarðarabás CP; aðeins einn slíkur er fyrir hendi, og því aðeins hægt að færa einn lið þar inn. [Athugið að ef tveir liðir væru færðir inn í ákvarðarabásinn, þá yrði hann að klofna einhvern veginn; og þar væri kominn inn nýr greinóttur kvistur, sem ylli því að færðu liðirnir gætu ekki liðstýrt sporum sínum, eins og þeir þurfa að gera.] Þó er bent á að dæmi úr pólsku benda til að færsla tveggja spurnarliða fremst (multiple wh movement) geti stundum gengið.

 

3.5 Viðhenging

Hér er fjallað um viðhengingu, og hvort eðlilegt sé að gera ráð fyrir henni í sambandi við spurnarfærslu. Þetta er snúið, og kemur íslensku ekki sérstaklega við, svo að ég legg til að þið sleppið því.

 

3.6 Færsla meginvarpana: Færsla í rökliðastöður - færsla í aðrar stöður

Hér eru bornir saman lendingarstaðir spurnarfærslu og nafnliðarfærslu:

[28] Sveinii verður boðið ti

[29] Sveinni virðist ti vera bestur

[30] Hverjumi heldur þú að Jón muni bjóða ti

[31] Hveri heldur þú að ti sé bestur?

Í [28] og [29] er um nafnliðarfærslu að ræða; nafnliður er færður í frumlagssæti, sem er rökliðarstaða (A-position). Í [30] og [31] er spurnarfærsla; spurnarliður er færður í ákvarðarabás CP, sem er ekki rökliðarstaða (A'-position). Vegna þessara mismunandi lendingarstaða er greint á milli þeirra keðja sem myndast, og sagt að nafnliðarfærsla myndi rökliðakeðju (A-chain), en spurnarfærsla myndi ekki rökliðakeðju (A'-chain). Sagt er að undanfari í rökliðarstöðu rökbindi (A-binds) spor sitt, en undanfari sem er ekki í rökliðarstöðu rökbindur ekki (A'-binds) sitt spor. Færsla í rökliðastöðu er rökfærsla (A-movement), en færsla í stöðu sem er ekki rökliðastaða er ekki rökfærsla (A'-movement).

 

4. Spor og spurnarfærsla

Næst skal litið á staðinn sem fært er úr (extraction site); fót keðjunnar. Færðir spurnarliðir skilja eftir sig spor, rétt eins og færðir nafnliðir. Þau eru nefnd spurnarliðaspor (wh-traces), en spor eftir nafnliði nafnliðaspor (NP-traces). Í næstu köflum verða færð rök fyrir tilvist spora.

 

4.1 Hlutverkakenningin og vörpunarlögmálið

Áður hefur komið fram að sögn getur aðeins úthlutað innra merkingarhlutverki til liðar sem hún stjórnar. Lítum þá á setningu eins og þessa:

[32] Hverjumi hafðir þú vonað að Jón myndi bjóða ti

Hér er ljóst að hverjum fær merkingarhlutverk sitt frá sögninni bjóða; en jafnljóst er að hún stjórnar ekki hverjum í yfirborðsgerð (S-gerð). Allt gengur hins vegar upp ef gert er ráð fyrir spori í andlagssæti bjóða, sem sögnin úthluti merkingarhlutverki til; þetta spor myndar síðan keðju með hverjum, og það er í raun keðjan sem fær merkingarhlutverkið.

 

4.2 Samræmi og binding

Hér eru sýnd ýmis dæmi þar sem ekki verður gerð grein fyrir bindingu og samræmi svo að vel sé nema gera ráð fyrir sporum. Lítið t.d. á þessa:

[33] [Hvaða menn]i hélst þú [að ti væru komnir/*væri kominn]?

Hér kemur fram að sögnin (og sagnfyllingin) í aukasetningunni verður að vera í fleirtölu, eins og spurnarliðurinn fremst í aðalsetningunni. Nú geta sagnir venjulega aðeins lagað sig að sínu eigin frumlagi, sem stendur þá næst þeim, en ekki að nafnliðum einhvers staðar langt í burtu. Hér er því einfaldast að gera ráð fyrir spori í frumlagssætinu, sem sögnin lagi sig að; með því móti getum við haldið okkur við þá staðhæfingu að samræmi frumlags og sagnar sé staðbundið (local process). Þetta þýðir þá auðvitað að gera verður ráð fyrir að sporið hafi sömu þætti hvað varðar persónu og tölu (og kyn) og liðurinn sem færður er; það er sem sé keðjan <[Hvaða menn]i, ti> sem hefur þessa þætti.

Lítið einnig á þessa setningu:

[34] [Hvern af nemendum sínumi]j heldur Sveinni mest upp á tj?

(Hér táknar vísirinn i bindivensl milli Sveinn og sínum; vísirinn j á hins vegar við spurnarliðinn í heild og sporið eftir hann.) Hér virðist Sveinn vera undanfarinn (bindirinn) sem bindur afturbeygða (eignar)fornafnið sínum; samt er sínum á undan undanfaranum, og liðstýrir honum, en ekki öfugt, eins og vera ætti. Með því að gera ráð fyrir spori á eftir forsetningunni á aftast í setningunni gengur hins vegar allt upp; Sveinn er undanfari sporsins, bindur það og liðstýrir því.

 

4.3 Fall

Í 4.3.1 er fjallað um þau rök fyrir sporum sem sækja má til fallmörkunar; slík rök er miklu auðveldara að finna í íslensku en ensku. Ljóst er að hverjum í [32] hér að framan fær fall sitt (þgf.) frá bjóða, en fallmörkun er háð stjórnun, sem ekki er fyrir hendi. Það mál leysist líka með því að gera ráð fyrir að bjóða fallmarki sporið í andlagssæti sínu, og þar með keðjuna í heild. Athugið líka muninn á þessum setningum:

[35] Sveinni var barinn ti á ballinu

[36] Hverni mun Jón berja ti á ballinu?

Í báðum setningunum er liður sem er upphaflega (í D-gerð) andlag so. berja færður fremst í setninguna. Hann fær hins vegar ekki sama fall; í [35] fær hann nefnifall, en í [36] þolfall. Munurinn liggur í því að í [35] er nafnliðarfærsla, en í [36] spurnarfærsla. barinn í [35] úthlutar ekki falli; Sveinn verður því að færast inn í frumlagssætið, þar sem hann getur fengið (nefni)fall frá I sem er [+tíð, +SAMR]. berja í [36] úthlutar hins vegar (þol)falli til andlagssætisins. Spurnarliðurinn Hvern er heldur ekki færður inn í stöðu þar sem hann fær fall, heldur inn í ákvarðarabás CP. berja úthlutar því falli til sporsins í andlagssætinu, og þaðan stígur (percolates) það eftir keðjunni til spurnarliðarins Hvern.

Í 4.3.2 er sýndur munur nafnliðarfærslu og spurnarfærslu hvað varðar fallmörkun:

[37] Nafnliðarfærsla Spurnarfærsla

Með því að skoða annaðhvort haus eða fót keðju er hægt að ákvarða tegund og eiginleika þeirrar færslu sem um er að ræða.

 

4.4 Spor eftir viðhengi

Hér er sýnt að viðhengi (adjuncts) geta færst með spurnarfærslu ekki síður en rökliðir (arguments):

[38] Hvenæri sagðir þú [að Jón myndi koma ti]?

sbr.: [39] Þú sagðir [að Jón myndi koma á morgun]

eða: [40] Hvenæri sagðir þú ti [að Jón myndi koma]?

sbr.: [41] Þú sagðir í morgun [að Jón myndi koma]

Setning eins og [38]/[40] getur haft tvær mismunandi merkingar; annars vegar getur spurnarliðurinn átt við aukasetninguna, eins og í [39], hins vegar við móðursetninguna, eins og í [41]. Þessar mismunandi túlkanir eru sýndar í [38] og [40] með því að sporið er á mismunandi stöðum.

 

5. Frumlagsfærsla

5.1 Ósýnilegar færslur

Lítum nú á setningar þar sem spurnarliðurinn er frumlag:

[42] Hveri heldur þú [að ti hafi hjálpað mér]?

[43] Hver hjálpaði mér?

Í [42] er augljóst að færsla hefur átt sér stað, og það er spor í frumlagssæti aukasetningarinnar. Þetta er hins vegar ekki eins ljóst í [43]. Við höfum gert ráð fyrir að spurnarfærsla færi spurnarlið úr grunnstöðu (base position) sinni inn í ákvarðarabás CP. Lítum á formgerð [43]:

 

[44] CP

 

Spec C'

 

C IP

 

NP I'

 

Hver hjálpaði mér

 

Spurnarliðurinn er hér í frumlagssætinu, ákvarðarabás IP. Milli þess sætis og ákvarðarabáss CP er hins vegar ekkert orð; þótt Hver sé fluttur úr frumlagssætinu í ákvarðarabás CP helst orðaröð setningarinnar því óbreytt á yfirborði. Færslur sem ekki hafa nein áhrif á yfirborðsorðaröðina eru kalaðar ósýnilegar færslur (vacuous movement). Haegeman bendir á að Chomsky hafi látið í ljós efa um að rétt sé að gera ráð fyrir ósýnilegum færslum. Barn sem er að læra málið hefur enga möguleika á að átta sig á því að einhver færsla hafi átt sér stað; ekkert í setningunni gefur það til kynna, því að orðaröðin er sú sama hvort sem færsla er eða ekki.

 

5.2 "The that-trace Filter"

Hér er bent á að í ensku er [45] vond setning, þótt [46] sé góð:

[45] *Whoi do you think [CP that [IP ti will arrive first]]?

[46] Whoi do you think [CP [IP ti will arrive first]]?

Í báðum tilvikum er frumlag aukasetningarinnar spurnarliður, sem er færður í ákvarðarabás aðalsetningarinnar. Munurinn er hins vegar sá að í ótæku setningunni, [45], er aukasetningin tengd með aukatengingunni that; í góðu setningunni [46], er aukasetningin ótengd; aukatengingarbásinn, C, er auður. Um þetta gildir ákveðin regla, "That-trace filter", sem segir að bannað sé að hafa spor næst á eftir aukatengingu. Athugið að þetta er bara lýsing, ekki skýring. Þetta er ekki heldur algilt; flestir Íslendingar (þó e.tv. ekki allir) samþykkja setningar af þessu tagi, sbr. [42] hér að framan og [47]-[48]:

[47] Hveri segir Jón [að ti hafi barið hann]?

[48] [Þessi maður]i hélt Jón [að ti hefði barið sig]

 

6. Bandakenningin

6.1 Eyjahömlur: Dæmi

Lítið á eftirfarandi dæmi um langfærslu (langa spurnarfærslu):

[49] [CP Hvaða mannii hefur þú sagt [CP að Jón haldi [CP að Sveinn muni bjóða ti]]]?

Nafnliðurinn Hvaða manni er hér færður úr andlagssæti bjóða og upp í ákvarðarabás efstu klausunnar. Það er hægt að færa liði um langan veg; en samt er ljóst að slíkar færslur lúta ýmsum hömlum. Fyrsta rannsóknin á slíkum hömlum er doktorsrit Johns Roberts Ross frá 1967, Constraints on Variables in Syntax; það er mjög frægt rit, sem þið þurfið að kannast við, og oft er talað um "hömlur Ross" (Ross' constraints), sem eru hömlur sem Ross uppgötvaði að væru á færslum.

Í 6.1.1 er fjallað um setningar eins og þessar:

[50] [CP Hverni hefur [IP þú séð ti nýlega]]?

[51] [CP Hverni hefur [IP Jón sagt [CP að [IP hann hafi séð ti nýlega]]]]?

[52] *[CP Hverni hefur [IP þú trúað [NP þeirri fullyrðingu [CP að [IP hann hafi séð ti nýlega]]]]]?

Í ótæku setningunni, [52], er spurnarliðurinn færður út úr samsettum nafnlið (complex NP), þ.e. nafnlið þar sem hausinn (fullyrðing) tekur setningu sem fyllilið. Gerð liðarins er svona:

 

[53] NP

 

Spec N'

 

þeirri N CP

 

fullyrðingu að hann hafi séð nýlega

 

Niðurstaða Ross var sú að færsla út úr samsettum nafnlið af þessu tagi gengi ekki. Þetta er kallað hamla samsetts nafnliðar (complex NP constraint).

Í 6.1.2 er svo komið að setningum á við þessar:

[54] Jón sagði mér [CP hvenæri [IP hann hefði séð Maríu ti]]

[55] Jón sagði mér [CP hverni [IP hann hefði séð ti í síðustu viku]]

[56] [CP Hverni hefur [IP Jón sagt þér [CP að [IP hann hafi séð ti]]]]?

[57] *[CP Hverni hefur [IP Jón sagt þér [CP hvenærj [IP han hafi séð ti tj]]]]?

Í [57] er reynt að færa spurnarliðinn Hvern út úr óbeinni spurnarsetningu, þar sem spurnaratviksorðið hvenær hefur verið fært fremst. Það eru sem sagt tveir spurnarliðir í aukasetningunni í D-gerð. Við höfum áður séð að ekki er hægt að færa tvo spurnarliði fremst í sömu klausunni, vegna þess að þeir þyrftu þá báðir að fara inn í ákvarðarabás CP, og það gengur ekki. Í [57] mætti hins vegar búast við að allt væri í lagi; annar spurnarliðurinn færi inn í ákvarðarabás CP í aukasetningunni, og hinn í samsvarandi bás í aðalsetningunni. Þetta gengur samt greinilega ekki; og þegar málið er skoðað kemur í ljós að það er aldrei hægt að færa út úr óbeinum spurnarsetningum. Ross dró því þá ályktun að spurnarsetningar séu eyjar (islands), þaðan sem ekki sé hægt að komast.

Í 6.1.3 kemur fram að hömlur á færslur af þessu tagi, þ.e. bann við færslu út úr spurnarsetningum og samsettum nafnliðum (og ýmsar fleiri) eru kallaðar eyjahömlur (island constraints). Þessar hömlur eru (eða eiga að vera) algildar; eiga við öll tungumál. Spurningin er nú hvernig hægt sé að skýra þær.

 

6.2 Grannstaða

Í 6.2.1 kemur fram að til að skýra hömlur á færslum hefur verið sett fram bandakenningin (bounding theory), sem á að gera grein fyrir því hversu langt er hægt að færa orð eða liði. Chomsky setti fyrir löngu fram þá kenningu að S (= IP hér) og NP væru bönd (boundaries) á færslur. Þetta hefur verið sett fram sem grannstöðuskilyrðið (subjacency condition):

[58] Grannstöðuskilyrðið:

Færsla getur ekki farið út úr nema einum bandakvisti (bounding node), en bandakvistir eru IP og NP.

Berið þetta nú að setningunum hér að framan, þ.e. [50]-[57]. Í [54] og [55] er bara fært út úr einum bandakvisti í hvorri setningu, þ.e. IP. Í ótæku setningunni [57] er fært út úr tveimur; IP í aukasetningunni og IP í aðalsetningunni, og upp í ákvarðarabás CP (sem er fyrir utan IP). Það skýrir að setningin skuli vera vond. En hvað þá með [56], þar sem einnig virðist fært út úr tveimur bandakvistum; IP í aðal- og aukasetningu, eins og í [57]? Af hverju er [56] tæk?

Þetta má skýra með því að gera ráð fyrir að færsla Hvern í [56] verði ekki í einu stökki, heldur tveimur. Munur [56] og [57] er nefnilega sá, að í [57], sem er ótæk eins og áður segir, er spurnarliður (hvenær) í ákvarðarabás CP í aukasetningunni; sá bás er sem sagt upptekinn, og ekki hægt að færa neitt meira inn í hann. Í [56] er aftur á móti enginn liður í ákvarðarabás aukasetningarinnar; hann er því laus og hægt að færa eitthvað inn í hann. Hugmyndin er nú að það sé einmitt gert, og í stað þess að Hvern sé færður í einu stökki fremst í aðalsetninguna þá sé Hvern fyrst færður inn í ákvarðarabás CP í aukasetningunni, skilji þar eftir sig millispor (intermediate trace), og taki síðan undir sig annað stökk upp í ákvarðarabás CP í aðalsetningunni. Með því móti er liðurinn aðeins færður út úr einum bandakvisti í hverju stökki (sjá skýringarmyndir á bls. 403). Hér er því um að ræða þrepaða færslu (successive cyclic movement). Gert er ráð fyrir að allar færslur séu þrepaðar, þannig að þær verki fyrst neðst í hríslunni og færi sig síðan upp á við. En gerð [56] verður þá svona:

[59] [CP Hverni hefur [IP Jón sagt þér [CP ti að [IP hann hafi séð ti]]]]?

Ef þið berið þetta saman við [56] sjáið þið að hér hefur verið skotið inn spori í ákvarðarabás CP í aukasetningunni, á undan aukatengingunni .

Í 6.2.2 sýnt hvernig þetta kemur út gagnvart hömlu samsetts nafnliðar. Lítum á [57], ótæka setningu þar sem reynt er að færa út úr samsettum nafnlið. Þar er hægt að byrja á að færa Hvern úr andlagssæti aukasetningarinnar í ákvarðarabás CP í henni, og það er allt í lagi. En ef færa á Hvern áfram, upp í ákvarðarabás CP í aðalsetningunni, verður ekki hjá því komist að fara gegnum tvo bandakvisti, eins og sést á skýringarmynd efst á bls. 404. Útkoman verður ótæk setning.

Í 6.2.3 er litið á spurnarfærslu. Það mætti spyrja hvort ekki væri líka hægt að bjarga [57] á svipaðan hátt. Gætum við ekki byrjað á að færa Hvern í ákvarðarabás CP í aukasetningunni, og síðan áfram upp í ákvarðarabás CP í aðalsetningunni; hvor færsla færi bara gegnum einn bandakvist. Síðan væri hægt að færa hvenær inn í ákvarðarabás CP í aukasetningunni, sem þá væri laus, vegna þess að Hvern kom þar aðeins við, en hélt síðan áfram (sjá mynd á bls. 405). Ef þetta gengi, þá ætti [57] að vera góð. Það eru samt ýmsar ástæður fyrir því að þessi greining gengur ekki upp. Ein er sú að þótt Hvern staðnæmist ekki í ákvarðarabás CP í aukasetningunni, þá skilur liðurinn þar eftir sig spor. Því er ekki hægt að færa hvenær þangað inn nema þurrka út þetta spor; og þar með rofnar keðjan sem Hvern myndar með sporum sínum. Það er óleyfilegt; enda er [57] vond. [Á hinn bóginn eru ekki allar slíkar setningar jafn vondar. Það virðist skipta máli hvort spurnarliðurinn sem færður er fremst í aðalsetninguna er viðhengi, eins og hvenær, eða rökliður, eins og hvern. En við skulum ekki fara út í þá sálma.]

Niðurstaðan er sem sé sú að spurnarfærsla sé háð grannstöðuskilyrðinu (subjacency condition), og þar sem hægt er að færa yfir tvo eða fleiri bandakvisti þá sé það vegna þess að færði liðurinn geti tyllt sér niður á leiðinni, þannig að hann þurfi aðeins yfir einn bandakvist í hverju stökki.

 

6.3 Grannstaða sem merki um færslu

Við höfum nú séð að spurnarfærsla er háð grannstöðuskilyrðinu. Hér er þessu snúið við og sagt: Ef tiltekin færsla er háð grannstöðuskilyrðinu, þá bendir það til þess að um spurnarfærslu sé að ræða.

Í 6.3.1 er minnst á vinstri sveiflu (left dislocation), en þið skuluð láta hana liggja milli hluta.

Í 6.3.2 er hins vegar talað um tilvísunarsetningar í ensku. Þær eru iðulega tengdar með wh-orðum, þ.e. spurnarorðum. Slíkar setningar eru líka hugsanlegar í íslensku, þótt þær séu sjaldgæfar og hljómi undarlega í nútímamáli:

[60] Þetta er maðurinn hverjumi Jón sagði að hann myndi bjóða ti

Venjulega segjum við auðvitað:

[61] Þetta er maðurinn sem Jón sagði að hann myndi bjóða

Í [60] (eins og sambærilegum enskum setningum) er auðvelt að færa rök fyrir færslu; bjóða stjórnar fallinu á hverjum o.s.frv. Það er líka ljóst að þessi færsla er háð grannstöðuskilyrðinu:

[62] *Þetta er maðurinn hverjumi Jón spurði mig hvenær hann ætti að bjóða ti

[63] *Þetta er maðurinn hverjumi Jón trúir ekki þeirri fullyrðingu að Sveinn muni bjóða ti

Í báðum þessum setningum er hverjum færður út úr tveim bandakvistum, eins og sést á mynd á bls. 408.

Athugið að ekkert í formgerð tilvísunarsetninga segir að maðurinn og hverjum í [62] og [63] hafi sömu tilvísun. Þar þarf að koma til sérstök umsagnarregla (predication rule), sem geri grein fyrir því að tilvísunarsetningin eigi við eða fjalli um (is predicated of) maðurinn. Þetta er mál sem við skulum láta liggja milli hluta í bili a.m.k.

Í 6.3.3 er bent á að hægt er að mynda tilvísunarsetningar án færslu. Það er í mörgum málum gert þannig að í stað spors eftir tilvísunarorð, sem fært hefur verið með spurnarfærslu, er notað fornafn. Slík dæmi eru til í enskum mállýskum:

[64] The man whoi John saw ti / himi

Venjulega gerðin er auðvitað með spori á eftir saw, en sumir hafa þó fornafn (him) þar í staðinn. Vegna þess að fornafnið er í andlagsstöðunni getur spurnarorðið (who) ekki verið upprunnið þar, heldur hlýtur það að vera grunnmyndað þar sem það stendur, þ.e. í ákvarðarabás CP. Í setningum af þessu tagi ætti því ekki að vera um neina færslu að ræða; og þess vegna ætti grannstöðuskilyrðið ekki að skipta þar máli. Svo virðist ekki heldur vera í ensku.

[Setningar með slíku aukafornafni (resumptive pronoun) koma líka fyrir í íslensku; Halldór Laxness notar a.m.k. setningar af þessu tagi:

[65] ... maðurinn sem ég sá bara frakkann hans og hattinn ...

Þið getið lesið um slíkar setningar í grein H.Þ., Konan sem dó, í Mími 1973.]

Er einhver færsla í venjulegum tilvísunarsetningum í íslensku, sem eru tengdar með sem?

[66] Þetta er maðurinn sem Jón spurði mig hvenær hann ætti að bjóða

[67] *Þetta er maðurinn sem Jón trúir ekki þeirri fullyrðingu að Sveinn muni bjóða

Mér finnst [66] (sem er hliðstæð [62]) ganga, en [67] (sem er hliðstæð [63]) ekki; en annars er ég alls ekki viss. Hvað finnst ykkur? Það er a.m.k. ekkert augljóst að færsla komi við sögu í tilvísunarsetningum tengdum með sem, eins og allir vita sem hafa lesið grein H.Þ. í Íslensku máli 2 (lesið hana strax ef þið eruð ekki búin að því!). Við komum seinna að greiningu slíkra setninga.

Í 6.3.4 er bent á að grannstöðuskilyrðið gildir ekki bara um spurnarfærslu, heldur líka nafnliðarfærslu. Við getum ekki sagt:

[68] *Sveinni virðist [CP að [IP það sé talið [IP ti hafa lesið bókina]]]

Hér er reynt að lyfta yfir (eða í gegnum) setningu. Slíkar setningar eru ótækar, því að grannstöðuskilyrðið er þar brotið. Í 6. kafla var bent á að slíkar setningar eru líka brot á bindikenningunni, því að neðsta sporið er ekki bundið.

 

6.4 Grannstöðufæribreytan

Hér kemur fram að grannstöðuskilyrðið virðist ekki gilda í ítölsku, a.m.k. ekki á sama hátt og í ensku. Sú hugmynd hefur verið sett fram að það sé mismunandi milli mála hvaða kvistir séu bandakvistir; í ensku virðast það vera NP og IP, en í ítölsku fæst rétt niðurstaða ef gert er ráð fyrir að bandakvistirnir séu NP og CP. Þetta hefur verið sett fram sem færibreyta, grannstöðufæribreytan (subjacency parameter). [Hvar stendur íslenska að þessu leyti?]

 

7. Bindikenningin og spor eftir spurnarfærslu

7.1 Flokkun nafnliða

Þegar nafnliður er færður með spurnarfærslu hefur sporið eftir hann ýmsa eiginleika nafnliðar; það hefur t.d. sömu beygingarlega þætti og liðurinn sem skildi það eftir. Spurningin er nú hvers konar nafnliðir þessi spor eru; hvar koma þeir inn í töfluna sem var sett fram í 6. kafla?

Það er ljóst að spurnarfærsluspor geta ekki verið endurvísar; endurvísar verða að vera bundnir af lið í rökliðarstöðu (A-position). Lendingarstaður spurnarfærslu er hins vegar ekki rökliðarstaða (A'-position). Einnig er ljóst að spurnarfærsluspor eru ekki sömu tegundar og FOR; spurnarfærslusporum er augljóslega stjórnað, sem FOR má ekki vera. Þá kemur einnig í ljós að spurnarfærsluspor geta verið bundin af nafnlið í sömu stjórnardeild; þar með haga þau sér ekki eins og fornöfn, sem verða að vera frjáls innan stjórnardeildar sinnar.

Þá er aðeins einn möguleiki eftir; spurnarfærsluspor hljóta að vera hliðstæð vísiliðum (R-expressions), sem verða að vera frjálsir alls staðar; sama gildir um spurnarfærslusporin, þegar að er gáð. Við getum þá bætt einum lið í töfluna úr 6. kafla:

[69] Gerð Yfirborðsliðir Huldir liðir

 

[Afganginum af þessum kafla (7.1) getið þið sleppt ef þið viljið, svo og 7.2.]

 

8. Hægri færslur í ensku

Fram að þessu hefur eingöngu verið fjallað um færslur setningarliða til vinstri; nafnliðafærslu inn í frumlagssætið, ákvarðarabás IP; og spurnarfærslu inn í ákvarðarabás CP. Hér á eftir er fjallað um færslur til hægri, og sýnt að þær lúta sömu lögmálum og spurnarfærsla. Orðið spurnarfærsla verður því hér eftir haft um færslur í stöður sem ekki eru rökliðastöður.

 

8.1 Frestun þungs nafnliðar

Þegar fjallað var um fallmörkun í 3. kafla var bent á að venjulega yrðu fallvaldur og fallþegi að vera hlið við hlið. Lítið á [70]-[71]:

[70] Ég kynnti Svein fyrir gestunum

[71] *Ég kynnti fyrir gestunum Svein

Svein er hér í þf. og fær fall frá so. kynna; ef forsetningarliðurinn fyrir gestunum kemur þar á milli, eins og í [71], verður setningin vond. En skoðið nú [72]:

[72] Ég kynnti fyrir gestunum gamla bóndann sem ég var í sveit hjá fyrir 20 árum

Það fer venjulega illa á að hafa langa eða "þunga" liði eins og gamla bóndann sem ég var í sveit hjá fyrir 20 árum inni í miðri setningu; það er sterk tilhneiging til að fresta þeim þannig að þeir komi aftast. Það má gera ráð fyrir að í D-gerð standi runan gamla bóndann sem ég var í sveit hjá fyrir 20 árum næst á eftir kynnti, eins og andlagið gerir í [70]; en andlaginu sé síðan frestað í S-gerðinni. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að það færist inn í tóman lið sem sé fyrir hendi; þá yrðum við að gera ráð fyrir tómum nafnliðabásum út um allt í öllum setningum. Eina eðlilega lausnin er að gera ráð fyrir viðhengingu, eins og sýnt er á hríslu neðst á bls. 420; þar er andlagið fært úr grunnstöðu sinni næst sögninni, þar sem það skilur eftir sig spor, og hengt við meginvörpun sagnarinnar, VP, þannig að myndaður er annar slíkur liður hærra uppi. Athugið að hér er fullnægt því skilyrði sem gildir um allar færslur að færði liðurinn liðstýri spori sínu; fyrsti greinótti kvisturinn yfir færða liðnum er efri VP, sem er líka yfir sporinu. Sögnin úthlutar svo falli til sporsins í andlagssætinu, og fallið færist yfir á keðjuna. Það er líka hægt að sýna fram á að grannstöðuskilyrðið gildir um þessa færslu; ekki er hægt að segja:

[73] *[NP Maðurinn [CP sem [IP drekkur ti á hverju kvöldi]]] fer í taugarnar á mér [tvö glös af skosku viskíi með heilmiklu af klaka]i

Hér er andlag so. drekka fært út úr tveim bandakvistum, IP og NP; og niðurstaðan verður vond setning.

Það er erfitt að tilgreina nákvæmlega hversu "löng", "þung" eða "efnismikil" andlög þurfi að vera til að megi fresta þeim á þennan hátt; en ljóst er að þau verða a.m.k. að vera fleiri en eitt orð. Þetta er því kallað frestun þungs nafnliðar (heavy NP-shift).

 

8.2 Fráfærsla forsetningarliðar úr nafnlið

Lítið nú á þessar setningar:

[74] Ég las [NP ritdóm [PP um þessa bók]] í gær

[75] Ég las [NP ritdóm] í gær [PP um þessa bók]]

Þessar setningar merkja það sama. Forsetningarliðurinn er fylliliður nafnorðsins ritdóm, og gera verður ráð fyrir að [74] samsvari grunngerðinni. Í [75] hefur forsetningarliðurinn verið færður út úr nafnliðnum og hengdur hægra megin á sagnliðinn. Þetta er kallað fráfærsla (extraposition); forsetningarliðurinn er færður frá andlagsnafnliðnum. Hér liðstýrir fráfærði liðurinn spori sínu eins og vera ber; og færslan lýtur grannstöðuskilyrðinu.

 

8.3 Niðurlag

Hér er vakin athygli á því, sem áður var nefnt, að færsla þungs nafnliðar og fráfærsla lúta sömu lögmálum og spurnarfærsla, enda þótt ekki sé um spurnarlið að ræða. Í báðum tilvikum eru um að ræða færslu í stöðu sem ekki er rökliðarstaða. Orðið spurnarfærsla (wh-movement) verður framvegis notað um slíkar færslur.

[Athugið að sama gildir um það sem venja er að kalla kjarnafærslu (topicalization) í íslensku; þegar einhver liður, s.s. andlag, forsetningarliður eða atviksliður, er færður fremst í setningu, til áhersluauka, tengingar við undanfarandi setningu o.s.frv.; dæmi eins og [74] og [75]:

[76] [NP Þennan mann]i hef ég ekki séð ti

[77] [PP Við þennan mann]i vil ég ekki tala ti

Í [76] er andlag fært fremst, í [77] forsetningarliður. Báðar færslurnar lúta öllum sömu lögmálum og spurnarfærsla, enda þótt ekki sé um spurnarlið að ræða. Athugið þó að kjarnafærsla í aukasetningum hagar sér öðruvísi en spurnarfærsla:

[78] Ég spurði [CP hverni [IP María hefði séð ti]]

[79] Ég veit [CP að [NP þennan mann]i [IP hefur María ekki séð ti]]

Í [78] færist hvern inn í ákvarðarabás CP, eins og áður er sagt. Sama getur hins vegar ekki gilt um [79]. Þar er nefnilega aukatengingin til staðar, og ákvarðarabásinn hlýtur að vera á undan henni; en færði liðurinn þennan mann lendir á eftir henni. Athugið líka að umröðun verður í aukasetningunni, þannig að hjálparsögnin hefur kemur á undan frumlaginu María. Það hefur venjulega verið skýrt með því að hjálparsögnin geti færst inn í aukatengingarbásinn, C, og komist þar með fram fyrir frumlagið; en hér hlýtur að vera í aukatengingarbásnum, sem þar með er ekki laus. Hvernig á að skýra þetta?

Það er hreint ekki ljóst, og tilfellið er að kjarnafærsla í aukasetningum hefur valdið málfræðingum miklum heilabrotum og verið mjög umdeild. E.t.v. er lausnarinnar að leita í hugmyndum sem settar eru fram í viðbæti við 6. kafla í bók Haegeman (sem ég sagði ykkur að sleppa); þar eru kynntar hugmyndir um að grunnstaða frumlagsins sé ekki í ákvarðarabás IP, heldur í ákvarðarabás VP. En látum það liggja á milli hluta að sinni.]