05.40.06 Setningafræði 

8. kafli: Tómir liðir

 1. Núll-eindir í ensku

Þegar hér er komið sögu höfum við kynnst þrenns konar "núll-eindum"; FOR, eins og í [1], nafnliðasporum, eins og í [2], og spurnarfærslusporum, eins og í [3]:

[1] Jóni ætlar [CPað [IP FORi berja Svein]]

[2] [IP Sveinni var barinn ti]

[3] [CP Hverni hafðirj [IP þú tj haldið [CP t'i að [IP Jón myndi berja ti]]]]?

Allar þessar núll-eindir í S-gerð eiga sér undanfara (antecedent) sem þær eru sammerktar (co-indexed), en að öðru leyti er FOR gerólíkt sporum; í [1] er ekki um neina færslu að ræða. Það er líka ýmiss konar munur á nafnliðasporum og spurnarfærslusporum.

 

1.1 D-gerð

Lítið nú á D-gerð setninganna hér að framan:

[4] Jóni ætlar [CPað [IP FORi berja Svein]]

[5] [IP e var barinn Sveinn]

[6] [CP [IP þú hafðir haldið [CP að [IP Jón myndi berja hvern]]]]?

Hér eru liðirnir sem færðir hafa verið í [2] og [3] enn á sínum upphafsstað. Athugið að í [3] þarf að gera ráð fyrir millispori í ákvarðarabás CP í aukasetningunni til að grannstöðuskilyrðið (subjacency condition) sé ekki brotið. Þótt þolmyndarsögnin í [5] úthluti engu ytra merkingarhlutverki þá krefst víðara vörpunarlögmálið þess að frumlagsbásinn sé fyrir hendi þegar í D-gerð; hann er þar táknaður með e.

Mikilvægur munur á FOR og sporum er sá að FOR er núll-eind þegar í D-gerð; eind sem fær sérstakt merkingarhlutverk frá annarri sögn en undanfarinn. Í [1]/[4] úthluta bæði so. ætla og so. berja ytra merkingarhlutverki til frumlagssætisins; en samkvæmt hlutverkareglunni (theta-criterion) getur sami liður (eða sama keðja) aðeins fengið merkingarhlutverk frá einni sögn. Þess vegna mynda Jón og FOR í [1]/[4] ekki keðju, þótt liðirnir séu sammerktir; sammerkingin táknar bara að þeir hafi sömu vísun. Keðja með fleiri en einum hlekk verður aðeins til við færslu; hér eru því tvær keðjur, <Jón> og <FOR>. Í [2] er aftur á móti keðjan <Sveinni, ti>, og í [3] keðjan <Hverni, t'i, ti>. Hvor keðja um sig fær aðeins merkingarhlutverk frá einni umsögn; það er fóturinn (neðsti hlekkurinn, þ.e. upphafsstaður færða liðarins) sem fær merkingarhlutverk (hlutverk ÞOLANDA) frá so. berja í báðum tilvikum.

 

1.2 Greining núll-einda

Núll-eind í S-gerð, sem á sér samvísandi undanfara, getur verið annaðhvort FOR eða spor. Ef undanfarinn og núll-eindin fá bæði merkingarhlutverk tilheyra þau tveim mismunandi keðjum, og núll-eindin hlýtur þá að vera FOR; ef þau hafa sameiginlegt merkingarhlutverk mynda þau keðju og núll-eindin er þá spor. Vegna þess að FOR hefur eigið merkingarhlutverk getur það einnig staðið án undanfara, eins og fram hefur komið:

[7] [CP Að [IP FOR berja Svein]] væru mistök

[8] [CP Að [IP FORi flýta séri]] er varasamt

 

1.3 Stjórnun

Hér er rifjað upp að í 4. og 5. kafla kom fram að PRO verður að vera stjórnlaust (ungoverned). Það er vegna þess að það er hvorttveggja í senn, [+fornafn] og [+endurvísir]; þar með lýtur það bæði A- og B-lið bindikenningarinnar, og verður að vera bæði bundið og frjálst í stjórnardeild (governing category) sinni. Það er auðvitað mótsögn, sem ekki er hægt að bjarga sér úr nema með því að gera ráð fyrir að FOR hafi enga stjórnardeild; en þá má því ekki vera stjórnað. Lítið aftur í 4. og 5. kafla ef þið eruð óklár á þessu.

Þetta þýðir að einnig er hægt að greina milli FOR og spora út frá stöðu þeirra í formgerðinni; ef við finnum núll-eind í stöðu sem ekki er stjórnað hlýtur það að vera FOR. Sporum verður aftur á móti að stjórna, eins og sýnt verður hér á eftir.

 

1.4 Bindikenningin og tegundir nafnliða

Í 1.4.1 er taflan um þáttasamsetningu nafnliða rifjuð upp:

[9] Gerð Yfirborðsliðir Huldir liðir

Þessi tafla sýnir að fyrirbæri eins og FOR og spor eru ekki ósundurgreinanlegar eindir, heldur nöfn á núll-eindum með mismunandi þáttasamsetningu. Út frá þessari mismunandi þáttasamsetningu er síðan hægt að skýra ýmsa eiginleika þeirra, hvar þær mega standa, hvaða bindilögmálum þær lúta o.s.frv.

 

1.5 Nafnliðaspor og FOR

Í 1.5.1 er bent á að munur FOR og spora kemur líka fram í því hversu langt má vera milli þeirra og undanfarans. Lítum á [10]:

[10] Jóni telur [CP1 að [IP1 [NP sú ákvörðun [CP2 að [IP2 FORi berja Svein]]] hafi verið röng]]

Milli undanfarans, Jón, og FOR í [10] eru þrír bandakvistir (bounding nodes); IP1, NP og IP2. Þetta brýtur samt ekki grannstöðuskilyrðið (subjacency condition), vegna þess að hér er ekki um neina færslu að ræða; grannstöðuskilyrðið leggur bara hömlur á færslur, en skiptir sér ekki af völdun, eins og hér sést.

Í 1.5.2 er bent á að ekki er hægt með nafnliðarfærslu að færa nafnlið inn í andlagsstöðu. Um þetta þarf þó ekki að setja neina sérstaka reglu; það leiðir af öðru í heildarkenningunni. Til að slík færsla væri möguleg þyrfti að vera fyrir hendi einhver tómur andlagsbás, sem engu merkingarhlutverki væri úthlutað til. Auðvitað eru til sagnir sem úthluta engu innra merkingarhlutverki; en þá er ekki heldur ástæða til að gera ráð fyrir neinum andlagsbás. Vörpunarlögmálið (projection principle) segir að orðasafnseiginleikar orða endurspeglist í formgerð setninga; það þýðir að sögn sem ekki úthlutar innra merkingarhlutverki tekur ekki heldur neinn innri röklið í setningu. Andlagsbásar eru sem sé því aðeins fyrir hendi að viðkomandi sögn krefjist þeirra; þess vegna eru ekki til neinir andlagsbásar sem eru tómir í D-gerð og bíða þess bara að einhver utanaðkomandi nafnliður leiti skjóls í þeim.

Öðru máli gegnir með frumlagsbásinn. Það eru vissulega til sagnir sem úthluta engu ytra merkingarhlutverki; þær hafa samt frumlagsbás í samræmi við víðara vörpunarlögmálið (extended projection principle), sem segir að allar sagnir hafi frumlagsbás (ákvarðarabás IP) í D-gerð. Þess vegna eru til tómir frumlagsbásar sem engu merkingarhlutverki er úthlutað til, og utanaðkomandi liðir geta færst inn í. Sem sagt: Það þarf ekki að setja neina reglu sem segir að nafnliðarfærsla inn í frumlagsbás sé möguleg en nafnliðarfærsla í andlagsbás útilokuð. Þetta leiðir af almennum lögmálum.

 

1.6 Spor

Hér er minnt á helstu einkenni nafnliðarspora og spurnarfærsluspora, sem eiga það sameiginlegt að hafa þáttinn [-fornafn]:

[11] Nafnliðaspor Spurnarfærsluspor

 

2. Núll-eindir í málfræði

Ef gert er ráð fyrir núll-eindum í málinu verður að setja um það ströng skilyrði hvar þær geta verið. Sá sem er að læra málið verður að hafa möguleika á að átta sig á því hvar þær eru, enda þótt þær komi ekki fram í hljóðformi setninganna. Þegar hefur verið fjallað um FOR; það getur aðeins verið í stjórnlausum (ungoverned) stöðum, og merkingartúlkun þess byggist á völdun. Lítum nú á spor.

 

2.1 Formleg löghelgun: Lögmál tómra liða

Hér er kynnt ný tegund stjórnunar; raunstjórnun (proper government). Fram að þessu höfum við gert ráð fyrir að stjórnendur væru hausar (heads). Við höfum líka minnst á hlutverkastjórnun eða merkingarstjórnun (theta-government); haus sem bæði stjórnar tilteknum lið X og úthlutar merkingarhlutverki til X hlutverkastjórnar X. Sagnir hlutverkastjórna þannig andlögum sínum. (I, eða þáttabálkurinn [+tíð, +SAMR] hlutverkastjórnar aftur á móti ekki frumlaginu; hann stjórnar því að vísu, en úthlutar hins vegar ekki merkingarhlutverki til þess.) En stjórnendur þurfa ekki endilega að vera hausar; einnig er til svonefnd undanfarastjórnun (antecedent government), þar sem stjórnandinn er sammerkt meginvörpun (co-indexed maximal projection). Raunstjórnun (proper government) felst svo í annaðhvort hlutverkastjórnun eða undanfarastjórnun. Og þá erum við komin að lögmáli tómra liða (Empty category principle, ECP):

[12] Lögmál tómra liða:

Sporum verður að vera raunstjórnað.

A raunstjórnar B ef og aðeins ef A hlutverkastjórnar eða undanfarastjórnar B.

A hlutverkastjórnar B ef og aðeins ef A stjórnar og úthlutar merkingarhlutverki til B.

A undanfarastjórnar B ef og aðeins ef A stjórnar og er sammerkt B.

[13] Stjórnun:

A stjórnar B ef og aðeins ef

[14] Lágmarkssvið (minimality):

Sú skilgreining á stjórnun sem hér kemur fram nær yfir bæði hausastjórnun og undanfarastjórnun. Við höfum skoðað öll hugtök sem hér eru nefnd nema hamla (barrier); um hömlur er fjallað í 10. kafla (sem við ætlum reyndar ekki að lesa, en þið getið auðvitað gert það upp á eigin spýtur).

Þið munið e.t.v. eftir því að í ensku er því aðeins hægt að færa frumlag aukasetningar burt með spurnarfærslu að aukatengingunni sé sleppt, sbr. muninn á [15] og [16]:

[15] *Whoi do [IP you think [CP t'i that [IP ti will invite Poirot]]]?

[16] Whoi do [IP you think [CP t'i [IP ti will invite Poirot]]]?

Hér er frumlag aukasetningarinnar fært upp í ákvarðarabás CP í aðalsetningunni (með viðkomu í ákvarðarabás CP í aukasetningunni, til að brjóta ekki grannstöðuskilyrðið). [15] er vond, en [16] góð; eini munur þeirra á yfirborðinu er að í [15] er aukatengingin that höfð með, en sleppt í [16]; í ensku er iðulega hægt að sleppa that þótt sjaldan sé hægt að sleppa í íslensku.

Munur þessara setninga hefur verið skýrður með lögmáli tómra liða. Lítum á sporið ti í frumlagssæti aukasetningarinnar í [15]. Þessu spori er stjórnað af I, sem er [+tíð, +SAMR]. Þar er hins vegar ekki um hlutverkastjórnun (theta-government) að ræða; I úthlutar ekki merkingarhlutverki. Athugum svo hvort sporinu sé undanfarastjórnað (antecedent governed) af sammerktri meginvörpun (co-indexed maximal projection). Vissulega á það sér sammerkta meginvörpun; þ.e. t'i í ákvarðarabás CP í aukasetningunni (þetta er spor eftir meginvörpun, þ.e. spurnarliðinn fremst í setningunni, og jafngildir því meginvörpun). En ef aukatengingin that er til staðar, þá getur fyrra sporið, t', ekki stjórnað því seinna; vegna þess að til er annar hugsanlegur stjórnandi (that) sem er nær (that jafngildir því Z í skilgreiningu lágmarkssviðs hér að framan). Sporinu í frumlagssæti er því hvorki hlutverkastjórnað né undanfarastjórnað; það þýðir að því er ekki raunstjórnað, og lögmál tómra liða er því brotið. Þegar that er sleppt, eins og í [16], er rutt úr vegi þeirri hindrun sem var á undanfarastjórnun fyrra sporsins (t') á því síðara; það er ekki lengur neinn annar stjórnandi á milli stjórnandans og liðarins (sporsins) sem þarf að stjórna. Þá getur t' raunstjórnað t (vegna þess að IP er ekki hamla á utanaðkomandi stjórnun, öfugt við aðrar meginvarpanir), og lögmál tómra liða er ekki brotið; setningin er góð. Skoðið vandlega hríslurnar á bls. 443 til að átta ykkur á þessu.

Gallinn er bara sá að þessi röksemdafærsla á ekki við í íslensku. Reynum að búa til sambærilegar setningar:

[17] Hveri hafðir [IP þú haldið [CP t'i að [IP ti myndi bjóða Sveini]]]?

[18] *Hveri hafðir [IP þú haldið [CP t'i [IP ti myndi bjóða Sveini]]]?

Í íslensku kemur þetta öfugt út; [17], sem samsvarar [15], er góð; en [18], sem samsvarar [16], er vond. Það seinna skiptir í sjálfu sér ekki máli hér; það stafar af því að venjulega er ekki hægt að sleppa aukatengingunni í íslensku, eins og áður var nefnt. Það sem kemur á óvart er að [17] skuli vera góð. Það mætti nefnilega búast við að um sporið í frumlagssætinu þar gilti allt hið sama og í ensku setningunni [15]; því væri ekki raunstjórnað.

Hvað er til ráða? Lögmál tómra liða (ECP) er einn helsti hornsteinn kenningarinnar, og vont að þurfa að hafna því. Miklu vænlegri leið er að halda því fram að í íslensku sé öðruvísi en that í ensku á einhvern hátt, þannig að það geti ekki verið stjórnandi, og geti þar af leiðandi ekki hindrað undanfarastjórnun á sporinu í frumlagssætinu. Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta á þessu stigi.

 

2.2-2.3

Ég legg til að þið sleppið þessum köflum.

 

3. Hulin frumlög: fornafnafellifæribreytan

3.1 Gatið í töflunni: for

Í 3.3.1 er bent á að ef nafnliðir einkennast af tveimur þáttum, ["endurvísir] og ["fornafn], þá ættu fjórar tegundir nafnliða að vera hugsanlegar, vegna þess að þættirnir geta raðast saman á fjóra vegu. Sýnt hefur verið fram á að til eru yfirborðsliðir af þremur tegundum (endurvísar, (persónu)fornöfn og vísiliðir); fjórða tegundin, liður sem væri [+endurvísir, +fornafn], er óhugsandi, vegna þess að sá liður ætti að vera háður bæði bindilögmáli A og B, og vera bæði frjáls og bundinn í stjórnardeild sinni. Til að þetta gangi upp má liðurinn ekki hafa neina stjórnardeild, þ.e. verður að vera stjórnlaus (ungoverned); en þá getur hann ekki heldur fengið fall, eins og yfirborðsnafnliðir verða að fá. Sem sagt: Slíkur liður getur ekki verið til.

Við höfum líka séð dæmi um hulda (non-overt) nafnliði af þremur tegundum. Huldir liðir geta verið [+endurvísir, +fornafn] eins og áður hefur komið fram, af því að þeir þurfa ekki að fá fall; og FOR er einmitt af þessari tegund. Einnig hefur verið sýnt fram á að nafnliðaspor lúta bindilögmáli A, eins og endurvísar; og spurnarfærsluspor lúta bindilögmáli C, eins og vísiliðir. Við höfum hins vegar enn sem komið er ekki séð nein dæmi um hulda liði sem lúti bindilögmáli B; liði sem samsvari (persónu)fornöfnum og hafi þættina [-endurvísir, +fornafn]. Það er samt ekkert sem mælir gegn því að slíkir liðir séu til.

Í [19]-[21] eru sýnd dæmi úr ítölsku, þar sem fram kemur að frumlagi er hægt að sleppa, bæði í aðal- og aukasetningu (skoðið dæmin vandlega!).

[19] Giacomo ha parlato

[20] e Ha parlato

[21] Giacomo ha detto [CP che [IP e ha parlato

Athugið að samkvæmt víðara vörpunarlögmálinu verður að gera ráð fyrir að frumlagsbásinn sé til staðar þarna eins og endranær, þótt enginn yfirborðsliður sé í honum. Athugið að það verður líka að gera ráð fyrir einhverju í frumlagsbásnum, þótt það komi ekki fram á yfirborði; einhver liður verður að vera þar til að taka við ytra merkingarhlutverkinu sem sögnin úthlutar. Þarna hlýtur að vera einhver nafnliður án hljóðforms, eins og FOR og spor eru. En hvers eðlis? Augljóst er að þessi nafnliður án hljóðforms er ekki spor, enda er enginn undanfari tiltækur. Ekki getur hann heldur verið FOR, því að frumlagsbásnum er augljóslega stjórnað þarna af I, sem er [+tíð, +SAMR].

Nafnliðir af þessu tagi hafa ákveðna tilvísun, og eru að því leyti hliðstæðir (persónu)fornöfnum. Eins og fornöfn geta þeir vísað út fyrir setninguna (í undanfarandi texta eða umhverfið), eins og í [20]; eða verið sammerktir öðrum lið í setningunni. Ein möguleg túlkun [21] er sú að hið hulda frumlag ha parlato í aukasetningunni sé hið sama og frumlag aðalsetningarinnar; þ.e., fornafn án hljóðforms sem vísi til Giacomo.

Sem sagt: Hið hulda frumlag í [20] og [21] er einmitt liðurinn sem okkur vantaði til að fylla upp í síðustu eyðuna í töflunni sem við höfum séð oft áður; þetta er (persónu)fornafn án hljóðforms, sem hefur þáttasamsetninguna [-endurvísir, +fornafn], eins og venjuleg persónufornöfn. Venja er að tákna þessa samsetningu sem for ("lítið for"; skrifað með litlum stöfum til aðgreiningar frá FOR). Við getum þá táknað [20] og [21] svona:

[22] for Ha parlato

[23] Giacomo ha detto [CP che [IP for ha parlato

Í 3.3.3 er sýnd lokagerð töflunnar:

[24] Gerð Yfirborðsliðir Huldir liðir

Athugið að gera verður ráð fyrir bæði FOR og for í D-gerð, vegna þess að þau fá merkingarhlutverk. Þótt for eigi sér oft samvísandi undanfara í setningunni myndar það ekki keðju með honum, vegna þess að bæði for og undanfarinn fá merkingarhlutverk hvort á sínum stað.

 

3.2 Munur tungumála: Fornafnafellifæribreytan

Hér er bent á að for kemur ekki fyrir í öllum málum; ítalska og spænska hafa slík núll-frumlög (null subjects), en enska og franska t.d. ekki; skoðið dæmin á bls. 456. Bent er á að það sé greinilega samband milli þess hversu fjölskrúðug sagnbeygingin er og þess hvort mál hefur for. Mál þar sem sagnir beygjast í persónu og tölu hafa oft núll-frumlög, for; þar má segja að sagnbeygingin "komi í stað" frumlagsins að verulegu leyti, þ.e. sýni persónu og tölu þess. Mál þar sem sögnin er eins í flestum eða öllum persónum og tölum hafa hins vegar venjulega ekki for í frumlagssæti; þar má segja að of mörg merkingarleg atriði tapist með því að láta frumlagið ekki koma fyrir á yfirborði, og sagnbeygingin geti ekki bætt upp þann missi.

Mál sem hafa for í frumlagssæti eru kölluð fornafnafellimál (pro-drop languages); þau "fella" fornafnið í frumlagssætinu. Gert er ráð fyrir ákveðinni færibreytu (parameter) sem þetta varðar, fornafnafellifæribreytunni (pro-drop parameter). Ef sú færibreyta hefur mínusgildi þá leyfir málið ekki að (yfirborðs)fornöfnum sé sleppt; hafi hún plúsgildi má sleppa (yfirborðs)fornöfnum og nota for. Eitt af því sem börn þurfa að læra á máltökuskeiði er hvaða gildi þessi færibreyta hefur í því máli sem þau alast upp við.

Málfræðingar hafa deilt nokkuð um hvaða stöðu íslenska hefði í þessum samanburði. Sumir hafa talið að íslenska sé "hálfgildings fornafnafellimál" (semi-pro-drop language). Við getum að vísu ekki sagt *Fór í merkingunni `Ég/hann/hún fór', eða *Jón segir að hafi farið í merkingunni `Jón segir að hann hafi farið', eins og hægt er í ítölsku. Ef sögn úthlutar ekki ytra merkingarhlutverki, þá þurfum við hins vegar ekki endilega að færa nafnlið inn í frumlagsbásinn eða fylla hann með merkingarlausu það; við getum sagt Nú rignir, Hér var dansað, Talið er að Jón sé farinn o.s.frv. Þetta er t.d. ekki hægt í ensku. Því er líka stundum haldið fram að forníslenska hafi verið "meira fornafnafellimál" en nútímaíslenska; það er a.m.k. ljóst að í fornu máli er hægt að sleppa ýmsum nafnliðum sem ekki er hægt að sleppa nú. Við getum ekki sökkt okkur ofan í þetta núna, en þetta er mjög spennandi rannsóknarefni.

 

3.3-3.4

Ég legg til að þið sleppið þessum köflum líka.

 

4. Huldir undanfarar spurnarfærslu

4.1 Tilvísunarsetningar

Í síðasta kafla var minnst á þær tilvísunarsetningar í ensku sem eru tengdar með spurnarorðum (wh-orðum); eins og þar var nefnt eru (eða a.m.k. voru) slíkar setningar einnig hugsanlegar í íslensku, þótt þær séu mjög sjaldgæfar (a.m.k. í nútímamáli). Nær allar tilvísunarsetningar í nútímaíslensku eru tengdar með sem; og eins og ég nefndi í útdrætti 7. kafla er alls ekki augljóst að nokkur spurnarfærsla hafi átt sér stað í þeim.

En það eru ekki allar tilvísunarsetningar í ensku tengdar með spurnarorðum (wh-orðum); oft eru þær tengdar með that, sem hagar sér svipað og sem í íslensku. Hér er athugað hvort eðlilegt sé að gera ráð fyrir einhverri færslu í þeim setningum. Það kemur í ljós að milli tilvísunartengingarinnar that og eyðunnar sem einkennir tilvísunarsetningar má aðeins vera einn bandakvistur (bounding node); that-tilvísunarsetningar virðast því háðar grannstöðuskilyrðinu ekki síður en tilvísunarsetningar tengdar með wh-orðum, þar sem rök fyrir færslu eru augljós. Þetta má sjá hér:

[25] This is [NP the man [CP that [IP Lord Emsworth made [NP the claim [CP that [IP he will invite e]]]]]]

Það að grannstöðuskilyrðið skiptir máli er venjulega notað sem rök fyrir því að um færslu sé að ræða, eins og áður hefur komið fram.

Athugið að það er ljóst að "eyðan" í tilvísunarsetningum er ekki alveg "auð"; þar verður að gera ráð fyrir einhvers konar nafnlið án hljóðforms, sem geti tekið við því merkingarhlutverki sem úthlutað er til viðkomandi báss. Við höfum skipt nafnliðum án hljóðforms í fjóra flokka, eftir þáttasamsetningu; í hvern þeirra fellur eyðan í setningum af þessu tagi? Henni er stjórnað, svo að ekki getur verið um FOR að ræða; og hún fær fall, svo að ekki getur þarna verið nafnliðaspor, því að þau fá ekki fall í grunnstöðu sinni -þess vegna er það sem nafnliðafærslan verður. Ólíklegt er að um for sé að ræða, a.m.k. í ensku, því að sýnt hefur verið fram á að for komi þar ekki fyrir. Þá eru eftir spurnarfærsluspor; sá möguleiki er eðlilegur, því að sýnt hefur verið fram á spurnarfærslu í öðrum tilvísunarsetningum (þ.e. þeim sem eru tengdar með wh-orðum í ensku, hv-orðum í íslensku). Þar með er hægt að gera ráð fyrir sams konar færslu (spurnarfærslu) í öllum tegundum tilvísunarsetninga, hvernig sem þær eru tengdar; og þar með skýrist að þær skuli allar lúta grannstöðuskilyrðinu [í ensku - einhverjar undantekningar eru frá því í íslensku, eins og áður segir].

En ef spurnarfærsla er í öllum tilvísunarsetningum, líka þeim sem eru tengdar með sem í íslensku, that í ensku - hvar er þá færði liðurinn? Hér er gert ráð fyrir að þar sem spurnarfærslusporið ("eyðan") er í S-gerð setninganna, sé í D-gerðinni e.k. hulinn (non-overt) spurnarliður; spurnarorð án hljóðforms, sem hér er táknað sem O. Í S-gerð er þetta "spurnarorð" síðan fært inn í ákvarðarabás CP í tilvísunarsetningunni, rétt eins og "venjuleg" spurnarorð:

[26] Ég þekki manninn [CP sem [IP Sveinn hefur barið O]]

[27] Ég þekki manninn [CP Oi sem [IP Sveinn hefur barið ti]]

Við sögðum áðan að sporið eftir O í S-gerðinni væri spurnarfærsluspor. En hvers eðlis er O sjálft? Það er auðvitað ekki spor; spor verða aðeins til við færslur, en hér er gert ráð fyrir að O sé grunnmyndað sem liður án hljóðforms. Til hverrar hinna fjögurra tegunda tómra liða gæti það talist?

Ein hugmynd er sú að O sé FOR. Nú mætti það virðast fráleitur möguleiki; FOR verður að vera stjórnlaust, en augljóst er að O er stjórnað í andlagssæti [26], þar sem það er upprunnið. En rifjið þá upp að bannið við því að FOR sé stjórnað er í sjálfu sér ekki frumforsenda (primitive) í kenningunni. Þetta bann er bara afleiðing af því að vegna þáttasamsetningar sinnar er FOR ofurselt andstæðum bindilögmálum - nema því aðeins að því sé ekki stjórnað. Nú er það svo, eins og áður hefur komið fram, að bindikenningin tekur gildi í S-gerð. Þar sem [26] sýnir stöðu O í D-gerð, þá gerir ekkert til þótt því sé stjórnað þar. Þetta myndi þá skýra það að færsla O inn í ákvarðarabás CP er skyldubundin; ef O færðist ekki, heldur væri áfram í grunnstöðu sinni í S-gerðinni, þá væri því áfram stjórnað þar; þá hefur bindikenningin tekið gildi, O (sem FOR) ætti að vera bæði bundið og frjálst í stjórnardeild sinni - og það gengi ekki. Því verður O að færast á stað þar sem því er ekki stjórnað í S-gerðinni.

Hitt er svo annað mál hvort O er í raun og veru stjórnlaust eftir flutninginn í ákvarðarabás CP - eins og það þarf að vera skv. framansögðu. Það mætti búast við því að haus CP, tilvísunartengingin sem, stjórnaði því, vegna þess að öll skilyrði stjórnunar virðast uppfyllt; sem er haus, meginstýrir O í ákvarðarabásnum (hann er innan meginvörpunar C, CP); og enginn annar stjórnandi er þarna á milli. Það er ekki ljóst hvernig á að komast hjá því að sem stjórni O (Haegeman nefnir í neðanmálsgrein að hugsanlega mætti segja að that í ensku - og þá sem í íslensku - stjórni aðeins til hægri; en það væri ad hoc, aðeins sett fram til að bjarga sér út úr vandræðum).

[Reyndar mætti hugsa sér aðra lausn. Athugið að enda þótt sem stjórni O í ákvarðarabás sínum, þá er þar ekki um raunstjórnun (proper government) að ræða, vegna þess að sem hlutverkastjórnar (theta-governs) ekki O (sbr. hér að framan). Nú hefur Halldór Ármann Sigurðsson einmitt haldið því fram að það sé ekki alveg rétt að FOR (a.m.k. í íslensku) megi ekki vera stjórnað. Hið rétta sé að því megi ekki vera raunstjórnað. Í flestum tilvikum kemur þetta í sama stað niður; en þó eru einstöku dæmi um að niðurstaðan sé mismunandi. Þetta gæti verið eitt af þeim; ef við segjum að það sé allt í lagi að O í ákvarðarabásnum sé stjórnað (af sem), því megi bara ekki vera raunstjórnað -sem því er ekki - þá fellur allt í ljúfa löð. Þetta er samt aðeins ábending, sem þyrfti að kanna miklu betur.]

Í dæmunum hér að framan var O í andlagssæti. Lítum nú á setningu með O í frumlagssæti:

[28] Ég þekki manninn [CP Oi sem [IP ti hefur barið Svein]]

Ef O jafngildir FOR, þá verður eins og áður að gera ráð fyrir að það færist úr grunnstöðu sinni í frumlagssæti aukasetningarinnar upp í ákvarðarabás CP í S-gerð, vegna þess að í S-gerðinni má því ekki vera stjórnað, eins og áður segir. En hér koma upp tvö vandamál. Í fyrsta lagi það sem við vorum að fást við rétt áðan; sem virðist stjórna O í [20], en má ekki gera það. Það er þó ljóst að hvaða ráð sem við finnum til að leysa þennan vanda í [27] gildir líka í [28].

En hér bætist annar vandi við. Til að hlíta lögmáli tómra liða (ECP) verður O að undanfarastjórna t í [28]. Það er vegna þess að sporum verður að vera raunstjórnað; þ.e. annaðhvort hlutverkastjórnað eða undanfarastjórnað af sammerktri meginvörpun. Hlutverkastjórnun kemur hér ekki til greina, vegna þess að hausinn sem stjórnar t (þ.e. I) úthlutar ekki merkingarhlutverki til t, en hlutverkastjórnun felur hvorttveggja í sér. Þá er bara undanfarastjórnun eftir; sammerktur undanfari er að vísu til, þ.e. O, en til að hann geti stjórnað t má enginn annar stjórnandi koma þar á milli. Það verður hins vegar ekki betur séð en sem sé slíkur stjórnandi. Við höfum samt séð áður (í setningu [17] hér að framan) að aukatengingin í íslensku virðist ekki hindra undanfarastjórnun "yfir" eða "gegnum" sig. E.t.v. gildir það sama um fleiri aukatengingar, t.d. sem.

Athugið samt að í ensku snúa menn sig út úr þessum vanda með því að gera ráð fyrir e.k. "sambræðslu" O og that, sem er sett upp á þennan veg:

[29] Aukatengingarsamruni (complementizer contraction):

Oi that --> thati (í íslensku: Oi sem --> semi)

[Þetta kemur dálítið öðruvísi út í ensku en íslensku vegna þess að í ensku samsvarar that bæði skýringartengingunni og tilvísunartengingunni sem.] En þetta á að samræmast því að í einhverjum skilningi er sem ekki bara aukatenging, heldur líka einhvers konar fulltrúi hins færða spurnarliðar O.

 

4.2

Ég legg til að þið sleppið þessum kafla.

 

5. Sníkigöt

Í setningum eins og þessari eru tvær eyður:

[30] ... grein sem hann lagði lengi stund á ___ án þess að taka próf í ___

Seinni eyðan er því á einhvern hátt háð hinni fyrri; lifir einhvers konar sníkjulífi á henni. Þess vegna eru slíkar eyður kallaðar sníkigöt (parasitic gaps). Rannsóknir á þeim voru mjög í tísku fyrir nokkrum árum, og það er hægt að færa ýmis rök að því að þau séu stórmerkileg. Lesið kaflann um þau ef þið treystið ykkur til, en ég geri ekki kröfu til þess.