sagnavefur

 

 

 

Um verkefnið

 

Verkefnið var unnið af nemendum í námskeiðinu Beygingafræði I í íslensku fyrir erlenda stúdenta í Háskóla Íslands á haustmisseri 2002. Í námskeiðinu var fjallað um sagnir í íslensku.

 

        Ákveðið var að búa til einhverskonar handbók um sagnir með dæmum frá nemendum sjálfum. Ástæðan er sú að nemendur lenda oft í vandræðum með notkun orðabóka sem hafa ekki þær upplýsingar sem þá vantar, sem dæmi má nefna að í sumum orðabókum eru margar sagnir í íslensku þýddar með sömu sögn í ensku án þess að merkingarmunur sé tilgreindur, t.d. með dæmum. Vefurinn hefur það umfram hefðbundnar orðabækur að þar má sjá sagnirnar fullbeygðar ásamt dæmum um notkun auk athugasemda sem geta gagnast útlendingum í íslenskunámi.

Kennari tók saman 100 algengustu sagnir í íslensku skv. Íslenskri orðtíðnibók. Hver nemandi fékk 5 sagnir til að beygja og búa til dæmi um notkun ásamt dæmum um frasa og föst orðasambönd með sögnunum. Af þessum fimm sögnum voru 3 af lista yfir 100 algengustu sagnir auk þess sem hver nemandi valdi sér tvær sagnir til viðbótar.

Nemendur ákváðu í samráði við kennara hvaða upplýsingar skyldu vera um sagnirnar; hvaða upplýsingar myndu gagnast þeim best. Þeir komu síðan með tillögur um hvernig best væri að gefa verkefnið út. Margar góðar tillögur komu og kynntu nemendur þær í kennslustund. Tillaga Olgu Holowniu um vefsíðu var valin. Olga hannaði vefsíðuna og setti sagnirnar og dæmin inn ásamt kennara. Kennari hafði umsjón með verkefninu (auk þess að vinna við það) og sá um ritstjórn. Vinnan við vefinn stóð allt vormisseri 2003 og fékkst styrkur frá kennslumálasjóði Háskóla Íslands til að ljúka verkinu.

 

Nemendur í námskeiðinu komu víða að úr heiminum og tala ólík tungumál. Nöfn þeirra eru: Aliki, Angela, Anna Kaarina, Anna Sofia, Catherine, Christina, Dagmar, Dens, Ekaterina, Elvira, Hedda, Jaroslava, Jeremy, Julian, Korinna, Lenka, Melody, Merrill, Michelle, Mikhail, Olga H., Olga M., Rasa, Samsidantih, Shannon, Birgitta, Sona, Stefan, Tanja, Tatja, Vladimir, Þorsteinn.

 

Notkun

 

Sagnavefinn er hægt að skoða á Netinu en einnig er hægt að prenta hann út sem handbók. Þar er að finna beygingu sagnanna í germynd og miðmynd (þar sem við á), í framsöguhætti, viðtengingarhætti og stundum er lýsingarháttur þátíðar beygður. Dæmi eru um notkun sagnanna og er hægt að fara beint frá beygingardæmi hverrar sagnir og skoða notkunardæmin.

 

Athugasemdir

 

Vafalaust eru villur í vefnum og sums staðar vantar góð dæmi. Notendur eru því vinsamlega beðnir að senda inn athugasemdir sjái þeir villur. Einnig væri vel þegið að fá fleiri dæmi um notkun.

 

 

Reykjavík, 16. júní 2003

 

Guðrún Theodórsdóttir (gt@hi.is)

Aðjunkt í íslenskuskor

Nýja Garði

Háskóla Íslands v/Suðurgötu