Þau skilja ekki skaðann
Þeir, sem mestu ollu um hrun bankanna og auðmýkingu Íslands, sem enn sér
ekki fyrir endann á, virðast yfirleitt ekki bera glöggt skyn á skaðann,
sem þeir skilja eftir sig.
Rannsóknarnefnd Alþingis lýsir því í skýrslu sinni, að enginn þeirra
mörg hundruð manna, sem nefndin yfirheyrði, taldi sig bera ábyrgð á einu
eða neinu; þeir vísuðu allir hver á annan. Það var eins og þeir teldu
ránin hafa framið sig sjálf. Sagan endurtók sig fyrir Landsdómi. Og nú
er sagan enn að endurtaka sig fyrir opnum tjöldum í héraðsdómi, þar sem
sakborningar láta sig ekki muna um að gera lítið úr sérstökum saksóknara
frammi fyrir dómara. |
Sami vandi er uppi á vettvangi stjórnmálanna. Hér verður eitt dæmi
tilgreint.
Ef Alþingi kýs að vanvirða skýra niðurstöðu einnar
þjóðaratkvæðagreiðslu, og það um nýja stjórnarskrá, mikilvægasta mál,
sem hægt er að bera undir þjóðaratkvæði, þá er Alþingi að grafa undan
lýðræðinu með því eyðileggja þjóðaratkvæðagreiðslur sem þátt í
stjórnskipun lýðveldisins.
Hvers vegna skyldi nokkur maður hirða um að taka þátt
þjóðaratkvæðagreiðslu t.d. um aðild að ESB, þjóðaratkvæðagreiðslu, sem
fv. ríkisstjórn lofaði að halda, ef Alþingi hefur sýnt og sannað, að það
fer því aðeins eftir úrslitunum, að þau séu þingmönnum þóknanleg?
|
Á vefsetrinu 20.oktober.is kemur fram, að 14 þingmenn af 63 telja, að
„Alþingi beri að virða vilja kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu.“ Þingmenn
hafa nú í hátt á þriðju viku fengið fjölda skriflegra áskorana um að
svara spurningunni. Enn eru 49 þingmenn að því er virðist að hugsa sig
um, þar á meðal formenn beggja stærstu stjórnarandstöðuflokkanna.
Málið er alvarlegt vegna þess, að Alþingi sækir vald sitt til
þjóðarinnar, ekki öfugt.
Þessi grundvallarhugsjón lýðræðisins er bundin óbeint í stjórnarskrána
frá 1944 á þann hátt, að forseti Íslands getur skotið málum til
þjóðarinnar. Nýja
stjórnarskráin, sem 2/3 hlutar kjósenda lýstu stuðningi við í
þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012, kveður með beinum hætti á um,
að „Alþingi fer með löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar.“ Auk þess
kveður nýja stjórnarskráin á um aukið vægi þjóðaratkvæðagreiðslna, ýmist
að frumkvæði forseta Íslands í samræmi við gildandi stjórnarskrá eða
fyrir frumkvæði 10% atkvæðisbærra manna, sem er nýlunda.
Nýkjörið Alþingi daðrar nú við að kasta þessu öllu á glæ til að þóknast
þröngum sérhag stjórnmálastéttarinnar og tengdra hagsmuna í
viðskiptalífinu. Ný rannsókn Gallups sýnir, að 2/3 hlutar Íslendinga
telja spillingu útbreidda í stjórnkerfinu, þ.e. í stjórnmálum. Ísland
hefur skipað sér í hóp spilltustu landa álfunnar. Spillingin gaus upp á
yfirborðið í vitund almennings eftir hrun. |
Nýskipaður formaður enn einnar stjórnarskrárnefndar Alþingis (engin slík
nefnd hefur skilað af sér öðru en smábreytingum á stjórnarskránni allar
götur frá 1944) lætur eins og hann varði ekkert um vilja kjósenda eins
og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Hann heldur enn fram
einkaskoðunum sínum eins og engin þjóðaratkvæðagreiðsla hafi farið fram.
Hann þarf þó eins og aðrir að una því, að sjónarmið hans munu koma aftur
til álita næst þegar stjórnarskráin verður endurskoðuð, vonandi fyrr en
eftir önnur 70 ár.
Til er fær leið út úr þeim alvarlega vanda, sem Alþingi kom þjóðinni í
með því að salta frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir þinglok fyrr á
þessu ári. Alþingi getur bætt skaðann með því að samþykkja í tvígang
frumvarpið, sem 2/3 hlutar kjósenda hafa nú þegar lýst sig fylgjandi.
Ýmsir þingmenn virðast þó staðráðnir í að brjóta gegn kröfu þjóðarinnar
um auðlindir í þjóðareigu, jafnt vægi atkvæða, beint lýðræði o.fl.
Sveipaðir íslenzka fánanum daðra þeir við að svíkja auðlindirnar
endanlega af þjóðinni auk annars. Fari svo, mun Alþingi í reyndinni
segja Ísland úr lögum við lýðræði og þá um leið úr félagsskap norrænna
ríkja. Þá blasa við Íslandi örlög sumra Suður-Ameríkuríkja, þar sem
harðdrægir eignamenn brugðu fæti fyrir lýðræði og kölluðu á langvinna
óstjórn og upplausn.
|