Lýðræði í deiglunni
Lýðræðisskipulagið er viðkvæmara og brothættara en margur hyggur. Hvers
vegna? Lýðræðið á óvini. Jónas Kristjánsson ritstjóri lýsti vandanum vel
á vefsetri sínu um daginn: „Lýðræði er smám saman að víkja fyrir
sjónarmiðum aðila, sem vilja drottna í friði.“ Jónas er ekki bara að
lýsa útlöndum. Óvarlegt er að ganga út frá lýðræði sem gefnum hlut,
einnig hér heima.
|
Fyrir 70 árum, 1943, voru aðeins fimm lýðræðisríki í Evrópu: Bretland,
Írland, Ísland, Svíþjóð og Sviss, þar sem konur fengu þó ekki
kosningarrétt fyrr en 1971. Evrópa var blóðvöllur. Fyrir 30-40 árum voru
Grikkland, Portúgal og Spánn ennþá einræðisríki, herforingjar réðu þar
ríkjum, en ekki lengur. Fyrir 20-25 árum voru Austur-Evrópulöndin öll
harðsvíruð einræðisríki, en ekki lengur. Evrópa hefur tekið
stakkaskiptum með frelsi, lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi. |
Lýðræði sækir nú á um allan heim í krafti ótvíræðra yfirburða sinna
umfram aðra stjórnarhætti. Evrópa hefur varðað veginn. Fyrstu 30 árin
eftir 1960, þegar Afríkuríkin tóku sér sjálfstæði eitt af öðru, voru
lýðræðisríkin þar suður frá aðeins fimm eða færri, en fáræðis- og
einræðislöndunum fjölgaði úr 17 í 41. Með fáræðislöndum er átt við ríki,
sem geta hvorki talizt vera lýðræðisríki né einræðisríki, heldur liggja
miðsvæðis á skalanum frá einræði til lýðræðis skv. viðteknum mælingum
stjórnmálafræðinga við háskólann í Maryland í Bandaríkjunum.
Eftir hrun kommúnismans í Austur-Evrópu um 1990 urðu gagnger umskipti í
stjórnmálum Afríku. Lýðræðisríkjum þar fjölgaði úr fjórum í 17, og
einræðisríkjum fækkaði niður fyrir tíu. Nú (tölurnar eru frá 2012) eru
aðeins þrjú einræðisríki eftir í Afríku, lýðræðisríkin eru 17 og
fáræðisríkin 30. Stjórnarskipti í Afríku eiga sér nú iðulega stað í
friði og spekt í kjölfar lýðræðislegra kosninga. Ég lýsti lýðræðisþróun
Afríku nýlega á evrópska hagfræðivefsetrinu
www.voxeu.org. |
Svipaða sögu er að segja um Suður-Ameríku. Skoðum þau tíu lönd álfunnar,
þar sem spænska eða portúgalska eru þjóðtungurnar (Argentína, Bólivía,
Brasilía, Ekvador, Kólombía, Paragvæ, Perú, Síle, Venesúela og Úrugvæ).
Aðeins þrjú þessara landa (Kólombía, Venesúela og Úrugvæ) bjuggu við
lýðræði 1961. Fjórum áratugum síðar, 2001, voru öll löndin tíu komin í
hóp lýðræðisríkja. Síðustu ár hefur þó hallað undan fæti í Ekvador og
Venesúelu, svo að þau eru fallin niður í fáræðisflokkinn. Eftir stendur,
að átta lönd af þessum tíu fylla nú flokk lýðræðisríkja og láta hvergi
bilbug á sér finna.
Mestu skiptir, að Argentína, Brasilía og Síle, harðsvíruð einræðisríki á
fyrri tíð líkt og Grikkland, Portúgal og Spánn í Evrópu, eru nú óskoruð
lýðræðisríki. Og lýðræðið skilar þeim margþættum árangri. Ég skrifa
þessar línur á lýðræðisráðstefnu í gamla þinghúsinu í Santiago,
höfuðborg Síle. Borgin hefur tekið ólýsanlegum framförum frá fyrri tíð
og ljómar nú af velsæld, skínandi hallir og háhýsi blasa við á alla vegu
og glaðlegt fólk á götunum. Kaupmáttur þjóðartekna á mann í Síle var
tæpur fimmtungur af tekjum á mann á Íslandi 1960, en er nú kominn upp
undir tvo þriðju. Bilið heldur áfram að mjókka. Nýfædd börn í Síle geta
nú vænzt þess að verða áttræð á móti 82 árum hér heima. Síle uppsker nú
árangurinn af þeirri ákvörðun herforingjastjórnar Pinochets að láta af
völdum í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu 1988 um framhald
setu hans á valdastóli. Jafnvel harðstjórinn Pinochet kaus að virða
vilja fólksins. Síleska verðlaunamyndin
No eftir Pablo Larraín frá
2012 segir sögu málsins.
|
Lýðræði er ennþá fjarlægur draumur sums staðar um heiminn og er í djúpri
lægð sums staðar annars staðar, þar sem eiga mætti von á öðru. Í
Bandaríkjunum ögruðu repúblikanar á þingi lýðræðinu með misbeitingu
málþófs og með því að hóta að keyra alríkisstjórnina í greiðsluþrot nema
þingið og forsetinn afturkölluðu lýðræðislegar ákvarðanir um
heilbrigðistryggingar handa fátæku fólki. Á elleftu stundu tókst að
bægja hættunni frá í bili. Jafnvel í Bandaríkjunum, vöggustofu
lýðræðisins, á lýðræðisskipulagið undir högg að sækja. Óvinir
lýðræðisins svífast einskis. Þeir vilja fá að drottna í friði.
Demókratar neyttu um daginn meirihlutavalds í þinginu til að girða fyrir
frekari misbeitingu málþófs af hálfu repúblikana, úrræði, sem
ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hugleiddi og hafnaði á síðasta
Alþingi. Hér heima daðrar Alþingi enn við að hafa að engu niðurstöðu
þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 um nýja stjórnarskrá. Verði
það niðurstaðan, þegar upp er staðið, verður Ísland aldrei aftur samt.
Alþingi leikur sér að eldi. |