FME og Seðlabankinn
Hægt er að færa gild rök að þeirri niðurstöðu, að fjármálaeftirlit og
seðlabankastarfsemi eigi heima undir sama þaki og sömu stjórn, einkum í
litlu landi. Hægt er einnig að leiða gild rök að gagnstæðri ályktun, að
fjármálaeftirlit eigi að vera óháð seðlabanka, einkum í landi með
ósjálfstæðan seðlabanka. Sumar þjóðir kjósa að fara aðra leiðina, aðrar
kjósa hina. Danska fjármálaeftirlitið óskaði t.d. eftir að fá að
sameinast seðlabankanum, en stjórnvöld höfnuðu tillögunni af ótta við
samþjöppun valds. Aðalatriðið er, að upplýsingar flæði greitt á milli
stofnana. Hitt skiptir minna máli, hvort þær lúta sömu stjórn eða ekki.
Sumir seðlabankar vilja helzt að sleppa við málaferli, sem fylgja
fjármálaeftirliti.
|
Almennar röksemdir af þessum toga eiga ekki vel við um Ísland eins og
sakir standa. Þrennt veldur því.
Í fyrsta lagi hefur Fjármálaeftirlitið undir stjórn Gunnars Þ. Andersen
náð miklum árangri þau tæplega þrjú ár, sem hann hefur stýrt FME. Undir
stjórn Gunnars hefur FME vísað 77 málum til sérstaks saksóknara, og
fleiri mál eru á leiðinni. Því færi ekki vel á að hrófla við FME í
miðjum klíðum eftir alþekktri reglu: „If it ain‘t broke, don‘t fix it.“
Komið hefur fram opinberlega, að alvarlegustu málin eru þegar komin í
skjól hjá sérstökum saksóknara. Samt kunna ríkir hagsmunir að vera við
það bundnir, að FME sendi ekki fleiri mál til frekari rannsóknar.
Í annan stað er reynslan af fjármálaeftirliti á vegum seðlabankans á
fyrri tíð ekki góð. Það þarf ekki að koma neinum á óvart í ljósi
umsagnar Rannsóknarnefndar Alþingis (RNA) um FME, sem var þá orðin
sjálfstæð stofnun, en starfaði með gamla laginu fram að hruni.
Seðlabankinn var rammpólitísk og meðvirk stofnun og er það enn, og
fjármálaeftirlitið var sama marki brennt, þegar það var deild í
bankanum. Ég lýsti vandanum svo í
Morgunblaðinu 22. maí 1994: „Meiri hluti bankastjórnarinnar er enn
sem fyrr skipaður sérlegum sendiherrum stjórnmálaflokkanna. Yfirboðarar
hennar hafa augljósan hag af því að hylja þann skaða, sem þeir eru
sjálfir búnir að valda í gegnum banka- og sjóðakerfið í sameiningu.“ |
Dettur nokkrum heilvita manni í hug, að FME hefði sent 77 mál til sérstaks saksóknara eftir hrun, ef eftirlitið væri ennþá deild í seðlabankanum? Ég held varla. Í því ljósi þarf að skoða áhuga seðlabankans á að leysa FME til sín og einnig aðild aðstoðarseðlabankastjóra að aðförinni að forstjóra FME um daginn, aðför, sem virðist brjóta í bága við lög. Rannsaka þarf hugsanlega aðild seðlabankans að þessari aðför. Í þriðja lagi hefur
seðlabankinn ekki náð þeim markmiðum, sem honum eru sett í lögum eins og
lýst er í skýrslu RNA. Seðlabankanum ber skv. lögum að tryggja stöðugt
verðlag. Það hefur honum ekki tekizt. Verðbólgan er ennþá miklu meiri
hér heima en í nálægum löndum og langt yfir auglýstu verðbólgumarkmiði.
Seðlabankanum ber einnig að lögum að tryggja stöðugleika
fjármálakerfisins. Allir vita, hvernig fór. Fjármálakerfið hrundi eins
og spilaborg 2008, án þess að seðlabankinn hefði birt í skýrslum sínum
nokkrar viðvaranir um veilur í bönkunum. Seðlabankinn fær herfilega
útreið í skýrslu RNA, en samt hefur ný stjórn bankans ekki enn látið
rannsaka brestina í bankanum fram að hruni. Þeir menn, sem mótuðu stefnu
bankans sem sérfræðingar fyrir hrun, fylgja nú sem stjórnendur sömu
stefnu eftir hrun. |
Seðlabankinn var í reyndinni allur á bandi bankanna fyrir hrun. Tvö
dæmi duga til að lýsa því. Þegar ég benti á mikinn vaxtamun í bönkunum
eftir einkavæðingu þeirra – þ.e. mikinn mun útlánsvaxta og innlánsvaxta
– þrættu ekki bara bankarnir sjálfir fyrir þær opinberu tölur, sem ég
lagði fram, heldur tók seðlabankinn undir með bönkunum. Samt voru
tölurnar óyggjandi, þær komu frá AGS, auk þess sem það liggur í
hlutarins eðli, að bankakerfi, sem þarf ekki að lúta erlendri samkeppni,
býður upp á mikinn vaxtamun. Þegar ég spurði aðstoðarbankastjóra
seðlabankans á opinberum fundi í Háskóla Íslands 18. júní 2008 að því,
hvers vegna seðlabankinn hefði lækkað bindiskyldu bankanna frekar en að
hækka hana, eins og viðnám gegn verðbólgu hefði kallað á, sagði hann, að
seðlabankinn hefði lækkað bindiskylduna að vilja bankanna. Þetta þýðir,
að seðlabankinn tók við tilmælum frá viðskiptabönkunum, ekki öfugt. |
Heilbrigð stjórnsýsla fækkar verkefnum þeirra stofnana, sem ráða ekki
við þau viðfangsefni, sem þær hafa þegar á hendi, frekar en að fjölga
þeim. Fyrirætlun ríkisstjórnarinnar um að fella FME aftur undir
seðlabankann er fráleit og beinlínis hættuleg eins og sakir standa. Áður
en tímabært getur orðið að sameina FME og seðlabankann, þarf FME þarf að
fá frið til að ljúka því verki, sem þar er nú unnið, og seðlabankinn
þarf að sýna fram á árangur við að ná sínum markmiðum. |