Brothætt lýðræði
Niðurlæging heilla
þjóðþinga er ekki tíður vandi í lýðræðisríkjum. Heimsbyggðin hefur
síðustu vikur staðið forviða frammi fyrir atganginum á Bandaríkjaþingi,
þar sem illskeyttur og ofstækisfullur minni hluti repúblikana reyndi
fram á elleftu stundu að knýja Bandaríkjastjórn í greiðsluþrot með
ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir efnahagslíf landsins og heimsins.
Repúblikanar heimtuðu, að lýðræðislegar ákvarðanir, sem þegar höfðu
verið teknar um heilbrigðistryggingar handa fátæku fólki, yrðu
afturkallaðar, ella myndu þeir keyra ríkissjóð í þrot. Í New York Times
segja fastir dálkahöfundar, að þjóðaröryggi Bandaríkjanna stafi meiri
hætta af þinginu í Washington en af Al Kaída. Það mátti þingið þó eiga, að fáeinir skylduræknir repúblikanar tóku höndum saman við demókrata um að varna stórslysi. Það tókst. Höfundar bandarísku stjórnarskrárinnar sáu við vandanum 1787. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings, sem varð sér til svo stórfelldrar minnkunar, er endurkjörin í heilu lagi á tveggja ára fresti. Þrír af hverjum fjórum kjósendum segjast nú skv. könnunum ekki vilja sjá neinn af þingmönnum repúblikana framar. Verða kjósendur búnir að gleyma því í þingkosningunum að ári? Kannski ekki. Repúblikanar hafa margir haft þann háttinn á undangengin ár að sigra keppinauta sína í kosningum með því að lofa lögbanni gegn fóstureyðingum og nýta sigurinn til að létta sköttum af auðmönnum án þess að hrófla við fóstureyðingum. Thomas Frank lýsir repúblikönum með áhrifaríkum hætti í bókum sínum What‘s the Matter with Kansas (2005) og The Wrecking Crew (2009). |
Framganga
sjálfstæðismanna og framsóknarmanna á Alþingi á síðasta kjörtímabili var
keimlík framgöngu repúblikana. Minni hlutinn í stjórnarandstöðu hafði
sitt fram í hverju málinu á eftir öðru með málþófi og öðrum
spellvirkjum. Traustið, sem kjósendur bera til Alþingis skv. mælingum
Capacents, fór niður í 9%. Nýkjörið Alþingi nýtur trausts 14% kjósenda
skv. sömu mælingum: 86% kjósenda vantreysta Alþingi. Grófust var
framganga Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í stjórnarskrármálinu.
Byrjum á Framsókn. Fyrir alþingiskosningarnar 2009 sagði Framsókn í auglýsingu: „Meginrökin fyrir stjórnlagaþingi eru þau að gefa þjóðinni tækifæri til að endurskoða stjórnskipun landsins. Það var ætlunin við stofnun lýðveldis. Því standast ekki andmæli um að stjórnlagaþing taki vald frá alþingismönnum sem eru nú einráðir um stjórnarskrána. Þingmenn hafa á undanförnum 65 árum ekki getað sæst á meiriháttar breytingar á stjórnarskrá auk þess sem Framsóknarflokkurinn hefur fært þau rök fyrir tillögu sinni um stjórnlagaþing að óeðlilegt sé að Alþingi ákveði sína eigin starfslýsingu og tengsl sín við ríkisstjórn, dómstóla o.s.frv. Aldur stjórnarskrárinnar, 130 ár, er því ekki meginástæðan fyrir stjórnlagaþingi. Andstæðingar stjórnlagaþings vilja að það sé ráðgefandi. Þeir óttast völd þess. ... Framsóknarflokkurinn vill að ný og nútímaleg stjórnarskrá verði samin af stjórnlagaþingi þar sem eiga sæti þjóðkjörnir fulltrúar, að skerpt verði á aðskilnaði löggjafar- og framkvæmdavalds og ráðherrar gegni ekki þingmennsku.“ |
Framsókn gerði
þessar frómu kröfur um nýja stjórnarskrá að skilyrði fyrir stuðningi
flokksins við minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í
febrúar 2009. Ferill málsins var síðan í öllum aðalatriðum eins og
Framsókn lagði upp með. Og Framsókn sveik: hún sneri bakinu við eigin
afkvæmi. Engan þarf að undra, að Framsókn skuli hafa logið sig til valda
á ný með loforðum um að létta skuldabyrðar heimilanna. Ferill Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrármálinu er sama marki brenndur. Í ályktun landsfundar flokksins 2009 segir: „Lögð er áhersla á mikilvægi þess að vandað sé til verka við breytingar á stjórnarskrá og tryggð sé aðkoma þjóðarinnar.“ Mjög var vandað til verka eins og umsagnir fjölmargra fræðimanna innan lands og utan vitna um. Svanur Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræði kallar frumvarp Stjórnlagaráðs „eitt merkilegasta skjal sem til hefur orðið í allri stjórnmálasögu landsins.“ Og aldrei hefur nokkur þjóð haft jafnbeina aðkomu að gerð nýrrar stjórnarskrár eins og varð hér heima fyrir tilstilli þjóðfundar, sem boðað var til m.a. að frumkvæði sjálfstæðismanna á Alþingi, og einnig með því að fjöldi fólks nýtti sér vefsetur Stjórnlagaráðs með því að beina þangað fjölda skriflegra erinda og athugasemda, þegar frumvarpið var í smíðum fyrir opnum tjöldum. Enda reyndist frumvarpið njóta yfirgnæfandi stuðnings í þjóðaratkvæðagreiðslunni, sem Sjálfstæðisflokknum og Framsókn mistókst að koma í veg fyrir þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. |
Á sunnudaginn
kemur verður eitt ár liðið frá þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október
2012. Í henni lýstu 2/3 hlutar kjósenda sig fylgjandi frumvarpi
Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrár. Myndarlegur meiri hluti kjósenda
lýsti sig einnig fylgjandi einstökum ákvæðum frumvarpsins, sem Alþingi
spurði um, svo sem um auðlindir í þjóðareigu (83% sögðu já), beint
lýðræði (73%), persónukjör (78%) og jafnt vægi atkvæða (67%). Margar stjórnarskrárnefndir skipaðar þingmönnum hafa reynt að koma sér saman um endurskoðun stjórnarskrárinnar frá 1944. Allar tilraunir þeirra hafa farið út um þúfur. Eina nefndin, sem skilaði af sér fullbúnu frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, og það einum rómi, var Stjórnlagaráð, kosið af þjóðinni og skipað af Alþingi. Alþingi ber að fara að skýrum vilja kjósenda eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Ef Alþingi bregzt skyldu sinni, getur Ísland ekki lengur talizt vera fullburða lýðræðisríki. |