Söngvar um svífandi fugla

Lagabálkur eftir Þorvald Gylfason við ljóð eftir Kristján Hreinsson

Söngvar um svífandi fugla eru fjórtán sönglög eftir Þorvald Gylfason prófessor við ljóð eftir Kristján Hreinsson skáld og heimspeking. Lögin eru samin fyrir söngrödd, píanó og selló, og hefur Þórir Baldursson tónskáld útsett þau. Ljóðin og lögin eru óður til lífsins með tæran boðskap um fegurð heimsins og himinsins að leiðarljósi. Fimmtándi fuglasöngurinn, Sólskríkjan mín syngur, hefur nýlega bætzt í flokkinn. Kristinn Sigmundsson bassi, Bryndís Halla Gylfadóttir selló og Jónas Ingimundarson píanó frumfluttu ljóðaflokkinn fyrir fullu húsi í Salnum í Kópavogi 7. september 2014 og aftur 14. september og síðan í Bergi á Dalvík 21. september. Skáldið flutti skýringar á undan hverju lagi og ljóði sem var varpað á vegg á bak við sviðið. Dagskráin tók um 80 mínútur með hléi. Kvikmyndafélagið Í einni sæng tók tónleikana upp fyrir sjónvarp. Myndin verður sýnd í ríkissjónvarpinu 2018. Sjá kvæðin hér.
Kristján HreinssonKristján Hreinsson er skáld, tónskáld, söngvari og heimspekingur. Eftir hann liggja bráðum 40 bækur, nú síðast Verði ljóð (2015), Ég sendi þér engil (2016), Skáld eru skrýtnir fuglar (2016) og Koddaljóð (2017), auk fjölda hljómdiska.
Þorvaldur Gylfason hefur samið um 100 sönglög, m.a. Sautján sonnettur um heimspeki hjartans og Sjö sálma við kvæði Kristjáns Hreinssonar og Fimm árstíðir við kvæði Snorra Hjartarsonar. Sonnetturnar voru fluttar í Hörpu 2012 og 2013, sálmarnir í Langholtskirkju 2014 og í Guðríðarkirkju 2015 og Fimm árstíðir í Hannesarholti 2017. Kristinn Sigmundsson bassi stendur á hátindi ferils síns sem óperusöngvari og ljóðatúlkandi í fremstu röð á heimsvísu. Jónas Ingimundarson píanóleikari hefur leikið inn á tugi hljómdiska og leikið með flestum helztu ljóðasöngvurum landsins s.l. 50 ár.

EFNISSKRÁ

1.   Í köldu myrkri

2.   Unaðsreiturinn

3.   Vorið brosir

4.   Erlan

5.   Vegur þagnar

6.   Í faðmi fugla 

7.   Grátur Jarðar

8.   Fuglshjartað

9.   Dúfa

10. Vals

11. Spegill fuglanna

12. Fuglar minninga

13. Ég syng fyrir þig

14. Einn kafli

Þórir Baldursson tónskáld hefur verið í hópi ástsælustu músíkanta landsins í meira en hálfa öld. Bryndís Halla Gylfadóttir hefur verið fyrsti sellóleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 1990. Vignir Jóhannsson myndlistarmaður gerði bakgrunna glærusýningarinnar, sem fylgir söngnum og hljóðfæraleiknum á tónleikunum.
 

FUGLAR MINNINGA

Að kvöldi dags, við hafið á meðan sólin sest
og sælubros af heitum vörum skín,
hér sit ég einn að hausti og finn að birtan best
fer blíðlega um djúpu augun mín.

Í huga sé ég fugla sem fóru grein af grein
er gleðitár af vanga mínum rann,
og söngurinn sem lifði, er orðinn minning ein;
sá unaður sem glaður hugur fann.

Í hljóðri kyrrð með tíma ég fæ að fylgja þeim,
já, fuglunum sem áður sá ég hér.
Svo svíf ég út á hafið með dýrð um draumaheim
og dásemd lífsins vakir yfir mér.

Myndbrot úr kvöldfréttum RÚV 13. september, síðasta erindi lokalagsins.

Umsögn Bryndísar Schram á visir.is um tónleikana í Salnum 7. september 2014.

Til baka

In English