Eins og leikrit eftir Ibsen
Um daginn birtist frétt um, að vallarstjóri bæðist afsökunar á að hafa
borið kjötmjöl í kögglum á vellina í Kópavogi, svo að gargandi mávar
héldu vöku fyrir íbúum bæjarins um nætur, en vallarstjórinn, Ómar
Stefánsson, er bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins þar. Hann mun vera
fyrsti embættis- og stjórnmálamaðurinn, sem biður almenning afsökunar
eftir hrun. |
Hrunið hefur breytt Íslandi í vígvöll, sem er eins og leikrit eftir
Ibsen. Menn bítast ekki bara um brakið, heldur er hver illskeytt höndin
uppi á móti annarri sem aldrei fyrr. Þetta sjá allir. Hitt sjá kannski
færri, að hrunið hefur sundrað fjölskyldum og vinum. Hvers vegna?
Saga vinar míns af frænda sínum bregður birtu á málið. Frændinn var alla
tíð í góðum holdum og harður en þó hófsamur flokksmaður og fór yfirleitt
aldrei út af línunni. Hrunið kom honum úr jafnvægi, því allt sem hann
hafði áður talið satt og rétt reyndist vera tál, fannst honum eftir
hrun. Hann horaðist og kom að máli við vin minn til að þakka honum
kærlega fyrir að hafa ekki vaðið í sömu villu. Þú ert kjölfestan í lífi
mínu, sagði frændinn. Tíminn leið. Hann hefur nú aftur náð fyrri þyngd
og hefur aldrei verið harðari á línunni. Kjölfestan í lífi hans er nú
aftur orðin að villuráfandi sauði.
Ég sé þetta allt í kringum mig. Egill Helgason blaðamaður sér þetta
líka. Hann segir á
Eyjunni: „Jafn grímulaust pólítískt blað og Morgunblaðið hefur varla
verið starfandi á Íslandi frá því löngu fyrir dauða flokksblaðanna.“ |
Rannsóknarnefnd Alþingis tekur á vandanum í skýrslu sinni, en þar segir:
„Í skýrslum ráðherra og fyrirsvarsmanna
ríkisstofnana fyrir rannsóknarnefnd Alþingis vísaði hver á annan um
athafnaskyldu og enginn gekkst við
ábyrgð.“ (1. bindi, bls. 39-40). Ætla má, að það hafi verið
stjórnmálamönnum og embættismönnum þungbær raun, að skýrsla RNA skyldi
fella svo þungan áfellisdóm yfir stjórnsýslunni sem raun varð á.
Ríkisstjórnin hafnaði hugmynd um að fela erlendum sérfræðingum að
rannsaka aðdraganda og orsakir hrunsins, sérfræðingum, sem væru hafnir
yfir grun um hlutdrægni. Sumir óttuðust, að rannsóknarnefnd skipuð
Íslendingum myndi e.t.v. reyna að hvítþvo ábyrgðarmenn hrunsins, en svo
fór þó ekki. Nefndin stóðst prófið í grófum dráttum, þótt hún hefði mátt
kasta netum sínum víðar og grafa dýpra á stöku stað. Sama gildir um
Landsdóm. Hann stóðst prófið. Þeir, sem héldu, að Landsdómur hlyti að
skila auðu af hugulsemi við stjórnmálastéttina, reyndust hafa rangt
fyrir sér.
Eftir stendur forhertur hópur manna, sem harðneitar að bera nokkra sök á
hruninu, þótt flestir aðrir geri sér grein fyrir sekt þeirra og ábyrgð í
ljósi fyrirliggjandi gagna frá RNA og Landsdómi. Uppgjörið heldur áfram.
Um 80 mál liggja á borðum sérstaks saksóknara með kveðju frá
Fjármálaeftirlitinu. Slíkum málum á trúlega eftir að fjölga. |
Mönnum lætur misvel að gangast við ábyrgð. Tyrkir hafa ekki enn fengizt
til að viðurkenna þjóðarmorðið á Armenum 1915-1923. Í Tyrklandi eru menn
enn dæmdir í fangelsi fyrir að segja sannleikann um morðin. Kínverjar
hafa ekki heldur gert upp við menningarbyltinguna 1966-1976. Maó
formaður prýðir enn í dag alla kínverska peningaseðla. Helztu
virðingarmenn í kínverska kommúnistaflokknum nú voru rauðir varðliðar í
menningarbyltingunni. Einn
þeirra, Bo
Xilai – hann var að vísu af öðrum ástæðum nýlega sviptur
kjóli og kalli – tók þátt í
aðför varðliðanna að föður hans fyrir tæpri hálfri öld. Þegar sonurinn
hafði látið spörkin dynja á föður sínum liggjandi og brotið í honum þrjú
rif, stundi faðirinn upp: Sonur minn, þú átt bjarta framtíð fyrir þér í
Flokknum.
Þegar menn fást til að játa misgerðir sínar og biðjast afsökunar á þeim,
er frekara uppgjör við fortíðina óþarft líkt og víða í Austur-Evrópu
eftir hrun kommúnismans. Fyrirgefning dugir. En fyrirgefning útheimtir
iðrun. Þegar menn þræta fram í rauðan dauðann fyrir drýgðar misgerðir,
kallar þráinn á frekara uppgjör líkt og í Suður-Afríku og einnig hér
heima, svo að tryggt sé, að sagan sé rétt skráð. Sagan er kjarni
málsins, ekki refsingin eða auðmýkingin. Sagan varðar veginn fram á við.
|