Réttlátt samfélag
Stefnuskrá Lýðræðisvaktarinnar stendur föstum fótum í
stjórnarskrárfrumvarpinu, sem 2/3 hlutar kjósenda lýstu stuðningi við í
þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012.
Helztu einkunnarorð Lýðræðisvaktarinnar eru sótt í upphafsorð nýju
stjórnarskrárinnar:
„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir
sitja við sama borð.“
Hvers vegna þarf að hamra á þessu? Það stafar af því, að hingað til
höfum við ekki fengið að sitja öll við sama borð. · Við búum enn við ójafnan atkvæðisrétt, þar sem sumir greiða tvö atkvæði í alþingiskosningum og aðrir aðeins eitt.
·
Við búum enn við ójafnan aðgang að arðinum af sameiginlegum auðlindum
okkar.
·
Við búum enn við ójafnan aðgang að upplýsingum, svo að við fáum ekki
einu sinni að heyra hljóðrit af dýrasta símtali Íslandssögunnar, þar sem
forsætisráðherra og seðlabankastjóri tefldu frá sér – nei, frá
skattgreiðendum – 40 milljörðum króna.
Lýðræðisvaktin er ekki eins máls flokkur. Stjórnarskráin, sem þjóðin
kaus og þingið brást, spannar vítt svið. Fyrir liggur styrkur stuðningur
meðal þjóðarinnar við helztu ákvæði nýju stjórnarskrárinnar. Í
þjóðaratkvæðagreiðslunni lýstu 83% kjósenda sig fylgjandi auðlindum í
þjóðareigu, og 67% lýstu sig fylgjandi jöfnum atkvæðisrétti. Þetta eru
þverpólitísk mál. |
Þverpólitískt framboð ...
Okkur á Lýðræðisvaktinni þótti rétt að veita færi á framboði, þar sem
eru í forsvari átta fv. stjórnlagaráðsfulltrúar auk nýrra samherja úr
ýmsum áttum. Við erum þverpólitískt framboð, nema réttara sé að kalla
okkur ópólitískt framboð. Hvernig má það vera?
Þeim, sem lesa stefnuskrá Lýðræðisvaktarinnar á xlvaktin.is, er
ómögulegt að færa haldbær rök að því, að hún hallist til hægri eða
vinstri. Stefnuskrá Lýðræðisvaktarinnar býr yfir sama galdri og frumvarp
Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Hún hefur breiða skírskotun til
kjósenda hvar í flokki sem þeir kunna áður að hafa staðið. Þannig er
nýja stjórnarskráin, enda speglar hún niðurstöðu þjóðfundarins, þar sem
allar raddir heyrðust.
Auðlindir í þjóðareigu snúast ekki um vinstri eða hægri stefnu. Jafnt
vægi atkvæða snýst ekki um vinstri eða hægri stefnu, og það gerir frjáls
aðgangur að upplýsingum til að girða fyrir leynd og spillingu ekki
heldur – og þá ekki heldur persónukjör eða beint lýðræði.
Helztu stefnumið Lýðræðisvaktarinnar eru mál, sem þjóðin lýsti stuðningi
við 20. október og gömlu flokkarnir á Alþingi brugðu fæti fyrir á
lokadegi þingsins í eiginhagsmunaskyni. Baráttan fyrir jöfnum
atkvæðisrétti hefur staðið frá 1849. Baráttan fyrir réttlátri og
hagkvæmri fiskveiðistjórn hefur staðið í 40 ár. Þjóðin tók af skarið.
Þingið tók völdin af þjóðinni. |
... gegn sérhagsmunum
Vitaskuld eru ríkir hagsmunir við það bundnir, að þessi framfaramál og
önnur nái ekki fram að ganga. Þess vegna var stjórnarskrárfrumvarpinu
siglt í strand í skjóli nætur fyrir þinglok, þótt fyrir lægi opinber
stuðningur 32 þingmanna af 63 við samþykkt frumvarpsins, sem 2/3 hlutar
kjósenda höfðu áður lagt blessun sína yfir. Forseti Alþingis braut
þingsköp með því að bera frumvarpið ekki undir atkvæði, þótt enginn hafi
fyrr en nú haft orð á þeim þætti hneykslisins opinberlega.
Lýðræðisvaktin mælist til, að Alþingi staðfesti framgang þjóðarviljans í
stjórnarskrármálinu. Lýðræðisvaktin býðst einnig til að hjálpa til við
að endursemja þau lög, sem þarfnast endurskoðunar, svo að þau standist
nýja stjórnarskrá. Málið er brýnt. Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi kom
upp um sig á lokadögum þingsins, þegar hann lagði fram
fiskveiðistjórnarfrumvarp, sem gekk bersýnilega í berhögg við
stjórnarskrárfrumvarp sama þingmeirihluta.
Við á Lýðræðisvaktinni bjóðum fram krafta okkar á Alþingi til að
tryggja, að lagasetningin, sem þarfnast endurskoðunar í samræmi við nýja
stjórnarskrá, verði rétt samin og með henni sé ekki reynt að fara á svig
við efni og anda nýrrar stjórnarskrár. Við bjóðumst einnig til að hjálpa
til við að koma hagstjórninni í betra og varanlegra horf og leggja grunn
að betra lífi um landið. |