Samstaða lýðræðisflokkanna: Taka tvö
Við upphaf heimsstyrjaldarinnar 1939 hófst fyrir luktum dyrum
undirbúingur að gerð nýrrar stjórnarskrár Íslands. Þetta var gert að
frumkvæði Sveins Björnssonar, sendiherra og síðar forseta Íslands, og
Hermanns Jónassonar forsætisráðherra í samstjórn Framsóknarflokks,
Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1939-1942. Til verksins fengu þeir
þrjá dómara í Hæstarétti (Einar
Arnórsson, Gizur Bergsteinsson og Þórð Eyjólfsson)
auk Bjarna Benediktssonar prófessors í lögum. Fjórmenningunum var falið
að leggja aðeins til „þær breytingar á stjórnarskránni, sem leiðir af
niðurfalli dansk-íslenzkra sambandslaga og af því, að forseti kemur í
stað konungs“. Alþingi staðfesti verklagið. Í apríl 1943 lagði
stjórnarskrárnefnd fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá nær óbreytt frá
þeim drögum, sem dómararnir þrír og Bjarni Benediktsson höfðu samið þrem
árum áður. |
Allir flokkar á Alþingi voru á einu máli um, að frumvarp
stjórnarskrárnefndarinnar 1943 væri aðeins til bráðabirgða. Eysteinn
Jónsson, Framsóknarflokki, sagði 17. janúar 1944: „Við megum ekki taka
upp í lög um lýðveldisstjórnarskrá annað en það sem stendur í beinu
sambandi við stofnun lýðveldis í stað konungdæmis … Síðan eigum við að
vinna af kappi að því að endurskoða stjórnarskrána í heild ...“ Stefán
Jóhann Stefánsson, Alþýðuflokki, sagði 25. febrúar: „er það skoðun
allrar nefndarinnar að vinna beri hið bráðasta að því að fram fari
gagnger endurskoðun á stjórnarskránni“. Jakob Möller, einn stofnenda
Sjálfstæðisflokksins, sagði 26. febrúar: „Þessi fyrirhugaða stjórnarskrá
... er hugsuð og í rauninni yfirlýst sem hrein bráðabirgðastjórnarskrá,
þ.e.a.s., jafnframt því sem hún er samþykkt er gert ráð fyrir að
stjórnarskrá ríkisins í heild verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar
á næstu árum.“
Sigfús Sigurhjartarson, Sósíalistaflokki, sagði 8. marz: „... þegar hafa
verið gerðar ráðstafanir til þess að endurskoða stjórnarskrána ...“
|
Ný ríkisstjórn tók við völdum haustið 1944, nýsköpunarstjórn
Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks og Alþýðuflokks, undir forsæti Ólafs
Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins. Í stjórnarsáttmála hennar var
lofað gagngerum breytingum á stjórnarskránni „eigi síðar en síðari hluta
næsta vetrar“. Í breyttri stjórnarskrá yrðu „ótvíræð“ ákvæði um réttindi
allra til atvinnu, almannatrygginga og menntunar, „jafn kosningaréttur“
tryggður og sett „skýr fyrirmæli um verndun og eflingu lýðræðisins“.
Sumarið 1945 var Gunnar Thoroddsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og
prófessor í lögum, skipaður framkvæmdastjóri stjórnarskrárnefndar. |
Nýsköpunarstjórnin fór frá 1947 án þess að endurskoða stjórnarskrána.
Síðar það ár var skipuð ný stjórnarskrárnefnd, en hún skilaði engum
tillögum til breytinga, ekki frekar en aðrar slíkar nefndir síðar. Að
vísu flutti Gunnar Thoroddsen, þá orðinn forsætisráðherra og formaður
stjórnarskrárnefndar, frumvarp í eigin nafni um endurskoðun
stjórnarskrárinnar 1983, nær fjórum áratugum eftir að það átti að gerast
„síðari hluta næsta vetrar“, en frumvarp hans náði ekki fram að ganga
frekar en aðrar slíkar tilraunir.
Þar koma við sögu margir merkir menn, sem voru staðráðnir í að ljúka
verkinu, en hik, sundurlyndi og tregða höfðu alltaf að lokum sigur þrátt
fyrir góðan hug. |
Það var ekki fyrr en eftir hrun og búsáhaldabyltinguna í byrjun árs
2009, að skriður komst loksins á málið. Fólkið á Austurvelli heimtaði
nýja stjórnarskrá. Þjóðfundurinn 2010 tók undir kröfuna. Fullbúið
frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár hefur nú legið fyrir
þingi og þjóð í bráðum tíu mánuði og bíður þess, að þingið kynni
frumvarpið vel fyrir þjóðinni svo sem lög mæla fyrir um og þjóðin fái
síðan að taka afstöðu til frumvarpsins í almennri atkvæðagreiðslu eins
og Alþingi hefur lofað. Einn helzti sérfræðingur heimsins í nýjum
evrópskum stjórnarskrám, Jon Elster prófessor í Kólumbíaháskólanum í New
York, lýsti þeirri skoðun í Silfri Egils á sunnudagunn var, að
frumvarpið sé „afbragðsgott“ og á því séu engir áberandi meinbugir eða
hnökrar.
|
Allsherjarendurskoðun stjórnarskrárinnar, sem allir flokkar á Alþingi
sáu fyrir sér allan lýðveldistímann, hefur aldrei farið fram, þótt ýmsar
frekar smávægilegar breytingar hafi verið á henni gerðar sjö sinnum. Til
að tryggja einingu þjóðarinnar við lýðveldisstofnunina 1944 ákvað
Alþingi að lögfesta lítt breytta stjórnarskrá til bráðabirgða, en
endurskoða hana síðan við fyrstu hentugleika. Enda mátti ennþá sjá, að
stjórnarskráin hafði að miklum hluta verið samin í danska kansellíinu
1849, eins og Jón forseti sagði um hana á sínum tíma. Í þessu ljósi þarf
að skoða frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár og
örvæntingarfullt málþóf sjálfstæðismanna á Alþingi gegn frumvarpinu og
gegn lýðræðinu. Góðir sjálfstæðismenn: Standið nú ekki í vegi fyrir
vilja þings og þjóðar. Frumvarpi Stjórnlagaráðs er öðrum þræði ætlað að
efna loforð Ólafs Thors, Bjarna Benediktssonar og Gunnars Thoroddsen. |