Sennilega hefur söngur sjaldan gegnt mikilvægara hlutverki í lífi þjóðar
en í Eistlandi árin 1986-1991. Það voru þau ár, þegar Eistar leystu sig
undan langvinnu oki einræðis og kúgunar með sönginn að vopni. Hundruð
þúsunda komu saman undir berum himni og sungu forboðna
ættjarðarástarsöngva og sálma og kröfðust sjálfstæðis. Rokkhljómsveitir
léku með. Jafnvel Rauði herinn lagði ekki í að ráðast á syngjandi fólk.
Spilltir dómarar láta sig samt ekki muna um að fangelsa rokksöngvara í
Rússlandi nú fyrir að gera grín að forsetanum. Það er afturför. |
Byltingin í Eistlandi 1991 var sannkölluð söngvabylting. Forsagan var
sár og löng. Einum áfanga á langri leið Eista til frelsis og sjálfstæðis
var náð 1969, þegar þúsundir þeirra komu saman og sungu aftur og aftur
óopinberan þjóðsöng sinn „Land feðra minna, land, sem ég elska“, lag frá
1947 við gamalt kvæði. Lögreglan reyndi fyrst að þagga niður í
söngvurunum og síðan að drekkja söngnum og dreifa mannfjöldanum, en allt
kom fyrir ekki: fólkið hélt áfram að syngja þar til löggan gafst upp.
Þessi minning lifði, þegar Eistum gafst loksins færi á að kasta af sér
hlekkjunum 1991 með eftirminnilegri uppörvun Jóns Baldvins
Hannibalssonar utanríkisráðherra. Eitt helzta torgið í hjarta Tallinn
heitir Íslandstorg í þakkarskyni.
Í Eistlandi eru nú um 700 kórar starfandi. Það gerir einn kór á hverja
2000 íbúa. Sönghefðin er rík í Eystrasaltslöndunum líkt og á
Norðurlöndum. Danir söfnuðust saman á torgum og sungu ættjarðarsöngva á
stríðsárunum, þegar Danmörk var hernumin af þýzkum nasistum. Þjóðkórinn
söng ættjarðarlög á tröppum Alþingishússins í búsáhaldabyltingunni.
Á Íslandi eru nú rösklega 300 kórar starfandi, varlega áætlað, þ.m.t um
100 kirkjukórar, 30 karlakórar, 30 kvennakórar, 30 blandaðir kórar, 70
barnakórar og 20 framhaldsskólakórar. Það gerir einn kór á hverja þúsund
íbúa. Miðað við 20 til 25 söngvara í hverjum kór, má gera ráð fyrir sex
til sjö þúsund kórsöngvurum á Íslandi. Söngur er ein helzta þjóðaríþrótt
Íslendinga. Í Svíþjóð syngja um 600 þúsund manns í kór, enn hærra
hlutfall mannfjöldans en hér heima.
|
Rannsóknir vísindamanna sýna, að söngur eykur líkamlega vellíðan
söngvarans með því m.a. að framkalla sömu efni í heilanum og t.d.
súkkulaði, líkamsrækt og aðrar líkamsnautnir ónefndar. Til dæmis má
nefna nýlega rannsókn á 600 kórsöngvurum í Bretlandi, en hún sýnir, að
söngur bætir geðheilsuna líkt og holl hreyfing með því að örva
heiladingulinn til að framleiða taugaboðefnið endorfín, öðru nafni
innrænt morfín. Þetta er samt ekki allt. Söngur styrkir ónæmiskerfið
skv. niðurstöðum vísindamanna í Háskólanum í Frankfurt í Þýzkalandi.
Viðtalskönnun félagsfræðinga í Ástralíu leiddi í ljós, að kórsöngvarar
eru jafnan ánægðari með lífið og tilveruna en annað fólk. Rannsókn á
vistmönnum dvalarheimila aldraðra leiddi í ljós, að söngur dregur úr
kvíða og þunglyndi. Við bætist, að söngurinn bætir öndun og örvar
blóðrásina og léttir lund manna einnig með því móti.
Einsöngur hefur einnig öll þessi áhrif á söngvarann líkt og kórsöngur,
en þó er einn munur á. Samsöngur er félagsathöfn í ríkari mæli en
einsöngur. Félagsstarf kóra, samveran sjálf, er snar þáttur í ánægjunni,
sem söngvarinn hefur af söngnum. Rannsóknir benda til, að þetta sé hluti
skýringarinnar á því, hvers vegna kórsöngvarar njóta lífsins yfirleitt
betur en annað fólk.
|
Og þá eru enn ótalin áhrif söngsins á áheyrendur. Hjörtu okkar flestra
slá örar, þegar við heyrum fallegan söng. Föðurbróður konunnar minnar
sagði, þegar hann hlustaði á Benjamino Gigli: Mann langar að fara í
sparifötin. Sem minnir mig á, að í Kaldalóni í Hörpu ætla söngvararnir
Garðar Cortes tenór og Bergþór Pálsson baritón að frumflytja ásamt Selmu
Guðmundsdóttur píanóleikara og Gunnari Kvaran sellóleikara Þrettán
sonnettur um heimspeki hjartans eftir Kristján Hreinsson skáld á
menningarnótt laugardaginn 18. ágúst kl. 20, aðgangur er ókeypis. Svo
skemmtilega vill til, að grein um málið eftir Kristján birtist við hlið
þessarar greinar í blaðinu í dag. |