Þrettán lönd á fleygiferð
Hvaða lönd hafa náð mestum árangri í efnahagsmálum frá 1950? Sé miðað
við hagkerfi, sem hafa vaxið um sjö prósent á ári eða meira í
aldarfjórðung eða lengur, fylla 13 lönd þennan flokk. Hagkerfi, sem vex
um sjö prósent á ári, tvöfaldar framleiðslu sína á tíu ára fresti eða þar
um bil.
Þessi 13 lönd eru í öllum heimsálfum. Sum eru stór, önnur smá. Flest eru
í Asíu. Kína, Hong Kong og Taívan eru í þeim hópi og einnig Indónesía,
Japan, Kórea, Malasía, Singapúr og Taíland. Hin fjögur eru Afríkulandið
Bótsvana, Brasilía í Suður-Ameríku, Evrópulandið Malta – já, Malta – og
Arabalandið Óman. Reynsla þessara 13 landa sýnir, að lönd geta vaxið
hratt, sé vel á málum haldið. Reynslan sýnir einnig, að ör hagvöxtur til
langs tíma litið er enginn hægðarleikur, enda hafa aðeins 13 af rösklega
200 löndum heims náð að vaxa um sjö prósent á ári eða meira í 25 ár eða
lengur. Afríku er ekki alls varnað. Bótsvana á heimsmetið í hagvexti. Þar náði framleiðsla á mann að átjánfaldast frá 1960 til 2005 á móti fjórtánföldun í Kína, ellefuföldun í Japan, sjöföldun í Taílandi og fjórföldun í Brasilíu. Indland og Víetnam sýnast líkleg til að slást í vaxtarræktarhópinn innan tíðar. Þessar upplýsingar eru sóttar í fróðlega yfirlitsskýrslu Alþjóðabankans frá 2008. |
Hvað eiga þessi 13 lönd sammerkt? Hvernig tókst þeim að vaxa svona
hratt? Skýrsla Alþjóðabankans tilgreinir fimm lykilatriði, sem eru öll í
góðu samræmi við hagvaxtarfræði nútímans.
Í fyrsta lagi hösluðu öll löndin 13 sér völl á heimsmarkaði. Þau breiddu
út faðminn og fluttu inn hugmyndir, tækni og verklag frá útlöndum og
fluttu út vörur og þjónustu, sem þeim hefði ekki tekizt að selja heima
fyrir, þar eð heimamarkaðurinn er of lítill til þess. Þau fluttu inn
þekkingu, sem þau vantaði utan úr heimi, og fluttu út varning, sem önnur
lönd vanhagaði um.
Í annan stað tókst löndunum 13 yfirleitt að halda verðbólgu í skefjum.
Verðbólgan varð yfirleitt ekki svo mikil, að sparifjáreigendur fengjust
ekki til að leggja fé í banka. Fjármál ríkisins voru einnig yfirleitt í
góðu lagi, svo að skuldir ríkisins héldust innan hóflegra marka. Engar
kollsteypur þar.
Í þriðja lagi tókst löndunum 13 að leggja grunninn að miklum sparnaði
innan lands og þá um leið mikilli fjárfestingu. Lítil verðbólga var
nauðsynleg til að það mætti takast. Fjárfestingin heima fyrir spratt af
innlendum sparnaði frekar en erlendu lánsfé.
Í fjórða lagi var markaðsbúskapur meginreglan í þessum löndum, ekki
miðstjórn. Einkaframtakið fékk svigrúm til að njóta sín, en
almannavaldið smíðaði umgerðina og sá um eftirlitið.
Í fimmta lagi var landsstjórnin yfirleitt í höndum hæfra og trúverðugra
manna. Efnahagsumræðan var á háu stigi, hvort heldur fyrir opnum tjöldum
eða luktum dyrum, svo sem erlendir gestir vitna um. |
Þótt náttúruauðlindagnægð hafi reynzt vera blendin blessun, búa sex
þessara 13 landa að ríkulegum náttúruauði (Botsvana, Brasilía, Óman,
Indónesía, Malasía og Taíland) og hafa á heildina litið farið vel með
hann. Ætla mætti, að náttúrauðlindir örvuðu jafnan hagvöxt, en reynslan
sýnir annað eins og rakið er í skýrslunni. Vandinn er, að ríkið hneigist
til að selja aðganginn að sameignarauðlindum of lágu verði eða heimta of
lág gjöld af auðlindatekjunum til sameiginlegra þarfa. Stundum er
tekjunum beinlínis stolið, eða sérhagsmunahópar ná að sölsa þær undir
sig og sóa þeim. Með því að sjá þjóðarbúinu fyrir gjaldeyristekjum
byrgir auðlindagnægðin stjórnvöldum sýn á nauðsyn þess að renna stoðum
undir fjölbreytta útflutningsframleiðslu; þetta er helzta einkenni
Hollenzku veikinnar. Eina færa leiðin til að sneiða hjá þessum ógöngum
er, að ríkið leysi til sín eðlilegan hluta rentunnar af
sameignarauðlindum líkt og Norðmenn gera, leggi álitlegan hluta fjárins
til hliðar erlendis handa komandi kynslóðum og verji afganginum varlega
til arðvænlegrar uppbyggingar heima fyrir.
Skýrsla Alþjóðabankans bendir einnig á ýmsar hættur, sem fylgja fámenni.
Kostnaður hvers íbúa af almannaþjónustu er mun meiri í litlum löndum en
stórum. Vegna smæðarinnar hafa lítil lönd lakari skilyrði en stór lönd
til fjölbreytts atvinnulífs, svo að smálöndin eru að því skapi viðkvæmari
fyrir ýmsum áföllum. Svarið við vandanum er náið samstarf við önnur
lönd. Sum smálönd, til dæmis nokkur eyríki í Karíbahafi, styðjast við
erlenda viðskiptabanka og sameinast um myntir, seðlabanka, sendiráð,
dómstóla og jafnvel Hæstarétt í hagræðingarskyni. Þau deila fullveldi
sínu með öðrum. |