Vor í lofti og varla komin jól
Alþingi hefur haldið vel á stjórnarskrármálinu, sýnist mér, þegar allt
er skoðað. Alþingismenn komust ekki hjá að heyra kröfur fólksins, sem
barði potta sína og pönnur á Austurvelli og víðar eftir hrun og bað m.a.
um nýja stjórnarskrá. Alþingi hafði lofað endurskoðun stjórnarskrárinnar
allar götur frá 1944, en hafði ekki getað lokið því verki vegna
misklíðar. Rannsóknarnefnd Alþingis (RNA-skýrslan, 2010, 8. bindi, bls.
184) setti hrunið í samhengi við stjórnskipunina og tók undir kröfu
fólksins í landinu um endurskoðun stjórnarskrárinnar eftir hrun. |
Alþingi brást vel við þessum áskorunum og samþykkti einum rómi 28.
september 2010 sögulega ályktun þess efnis, að hafa bæri gagnrýni RNA að
leiðarljósi. Í ályktuninni segir m.a.: „Alþingi ályktar að taka verði
gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að
af henni verði dreginn lærdómur. Alþingi ályktar að skýrsla
rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum,
stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“ Í
þingsályktuninni birtist langur loforðalisti, sem hefst á loforði um
endurskoðun stjórnarskrárinnar frá 1944.
Alþingi setti stjórnarskrármálið í lýðræðislegan farveg, sem hefur vakið
heimsathygli. Hryggjarstykkið í ferlinu var þjóðfundurinn í nóvember
2010, þar sem 950 manns valin af handahófi úr þjóðskrá lögðu grunninn að
nýrri stjórnarskrá. Allir Íslendingar 18 ára og eldri áttu jafna
möguleika á að veljast til setu á þjóðfundinum. Hlutverk Stjórnlagaráðs,
sem var kjörið af þjóðinni og skipað af Alþingi, var í reyndinni ekki
annað en að færa niðurstöður þjóðfundarins í frumvarpsbúning. Ráðið
studdist við starf stjórnarskrárnefnda Alþingis undanfarna áratugi og
einnig skýrslur og úttektir fræðimanna og stjórnlaganefndar og
stefnuskrár allra stjórnmálaflokka. Höfuðeinkenni frumvarpsins er, að
það fylgir niðurstöðum þjóðfundarins og fyllir einnig ýmsar eyður.
Þjóðfundurinn kallaði eftir jöfnu vægi atkvæða, auðlindum í þjóðareigu
og þannig áfram. Þannig bergmálaði þjóðfundurinn þjóðarviljann. Þjóðin
staðfesti síðan vilja sinn í atkvæðagreiðslunni 20. október, þar sem 67%
lýstu stuðningi við frumvarpið í heild og einnig við jafnt vægi atkvæða
og 83% studdu auðlindir í þjóðareigu. |
Alþingi hefur ekki setið auðum höndum. Það varði mörgum mánuðum í að
skoða frumvarpið og beindi síðan athugasemdum og spurningum til
Stjórnlagaráðs og fékk svör við þeim að loknum aukafundi ráðsins í marz.
Eðlilegt getur talizt, að Alþingi áskilji sér rétt til að gera
smávægilegar breytingar á frumvarpinu í samræmi við bréfaskipti þingsins
og ráðsfulltrúa í marz. Alþingi hefur einnig áskilið sér rétt til að
breyta orðalagi, svo framarlega sem í þeim breytingum felast engar
efnisbreytingar. Hér þykknar þráðurinn, þar eð nefnd lögfræðinga, sem
Alþingi fól að fara yfir frumvarpið og greinargerð Stjórnlagaráðs með
frumvarpinu, leggur til bæði orðalags- og efnisbreytingar á frumvarpinu
og greinargerðinni og seilist því út fyrir verksvið sitt. Kjósendur
hljóta að gera kröfu um, að Alþingi standi við upphaflega ætlan sína og
geri engar efnisbreytingar á frumvarpinu. Hollt er að rifja upp, að
Bandaríkjaþing gerði af velsæmisástæðum engar breytingar á frumvarpi
stjórnlagaþingsins í Fíladelfíu 1787, hvorki orðalags- né
efnisbreytingar, taldi það ekki vera í sínum verkahring, heldur sendi
þingið frumvarpið óbreytt til kjósenda í fylkjunum, sem þá voru þrettán
talsins, til samþykktar eða synjunar.
Bandaríska stjórnarskráin, langlífasta stjórnarskrá heimsins, var
samþykkt með naumum meiri hluta atkvæða 1787-88 gegn harðri andstöðu.
Andstæðingar frumvarpsins óttuðust, að alríkisstjórnin myndi í krafti
stjórnarskrárinnar geta skert um of svigrúm einstakra fylkja til að fara
sínu fram. Svo naumur var meiri hlutinn, að hefðu 20 kjósendur sagt nei
við frumvarpinu frekar en já, hefði það strandað. |
Góð stjórnarskrárfrumvörp mæta ævinlega andstöðu þeirra, sem ætlunin er
að setja stólinn fyrir dyrnar. Þrettándi viðaukinn við bandarísku
stjórnarskrána bannaði þrælahald 1864 og mætti að sjálfsögðu harðri
andstöðu þrælahaldara í suðurríkjunum, svo harðri, að Lincoln forseti
var skotinn til ólífis árið eftir, 1865.
Tvisvar hafa breytingar á stjórnarskrá Íslands vakið harðar deilur á
Alþingi. Í fyrra skiptið, 1942, var stjórnarskránni breytt til að jafna
vægi atkvæða gegn harðri andstöðu stærsta þingflokksins, sem þá var
Framsóknarflokkurinn. Hann einangraðist eftir þetta utan ríkisstjórnar í
fimm ár. Sagan endurtók sig 1959, þegar stjórnarskránni var aftur breytt
til að jafna vægi atkvæða gegn harðri andstöðu Framsóknarflokksins. Hann
sat eftir það utan ríkisstjórnar í tólf ár. Staðhæfingar um, að
stjórnarbætur fari jafnan fram í fullri sátt, eru rangar og stangast á
við bæði rök og reynslu innan lands og utan. Alþingi ber að virða vilja
þjóðarinnar með því að samþykkja nýja stjórnarskrá fyrir þinglok og
aftur, þegar þing kemur saman á ný í vor. |