Svik í tafli?
Kannski erum við nú í þann veginn að verða vitni að svívirðilegustu
svikum þingsögunnar.
Kannski ekki, vonandi ekki.
Nú liggur fyrir, að 32 þingmenn hafa lýst því yfir, að þeir
muni „virða vilja kjósenda og greiða atkvæði
með nýju stjórnarskránni áður en Alþingi lýkur störfum fyrir kosningar“,
sjá
20.oktober.is. Meiri hluti þings hefur því staðfest, að hann styður
frumvarpið. Samt eiga 3 þingmenn, sem greiddu atkvæði með því að bjóða
til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá, eftir að svara
spurningunni. Þeir liggja enn undir feldi, þar á meðal bæði formaður
Samfylkingarinnar og forseti Alþingis. Þau eru enn að hugsa sig um,
hvort Alþingi þurfi að virða vilja þjóðarinnar. En það skiptir ekki
lengur máli, því að meiri hlutinn liggur nú fyrir. |
Næsta víst má telja, að í mesta lagi 15 til 20 þingmenn myndu áræða að
greiða atkvæði gegn nýju stjórnarskránni. Ekki fengust nema 15 þingmenn
til að greiða atkvæði gegn því að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna 20.
október 2012. Það er öll andstaðan á Alþingi. Andstæðingar nýrrar
stjórnarskrár skjálfa af ótta við afhjúpandi atkvæðagreiðslu á Alþingi.
Það er viðeigandi og spilltur skjálfti. En jafnvel þótt 31 þingmaður
legðist gegn frumvarpinu, dygði það ekki til.
Fullbúið og endanlegt frumvarp að nýrri stjórnarskrá liggur nú fyrir
Alþingi. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins hefur unnið úr
ábendingum Feneyjanefndarinnar og annarra. Verkinu er lokið. Ekkert er
eftir nema smiðshöggið. Hvað er að?
Hyggnir og réttsýnir stjórnmálamenn ganga ekki gegn skýrum þjóðarvilja í
máli sem þessu. Við erum að tala um nýja stjórnarskrá handa hrundu og
sáru landi, þar sem alþingismenn hafa að gefnu tilefni samþykkt einróma
ályktun gegn sjálfum sér: „Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á
íslenska stjórnmálamenningu alvarlega.“ |
Nýja stjórnarskráin kveður á um jafnt vægi atkvæða, persónukjör, beint
lýðræði, auðlindir í þjóðareigu, upplýsingafrelsi, óspilltar
embættaveitingar og fjölmargar aðrar réttarbætur handa fólkinu í
landinu, réttarbætur, sem er ætlað m.a. að draga úr hættunni á nýju
hruni, brúa gjána milli þings og þjóðar, skapa traust og virðingu.
Tveir þriðju hlutar kjósenda lýstu stuðningi við frumvarpið í
þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október. Fimm sjöttu hlutar kjósenda lýstu
stuðningi við ákvæðið um auðlindir í þjóðareigu.
Það hefur aldrei gerzt í sögu landsins, að Alþingi gangi gegn úrslitum
þjóðaratkvæðagreiðslu. |
Alþingi leyfist ekki, hvorki nú né nokkurn tíma, að ganga gegn vilja
þjóðarinnar. Það væri valdníðsla.
Lýðræði felst í því, að engum, ekki heldur Alþingi, má líðast að taka
ráðin af þjóðinni. |