Tvær leiðir í ljósi sögunnar
Stjórnarskrár eru næstum aldrei samdar upp úr þurru. Þær verða þvert á
móti nær alltaf til af ærnu tilefni, eins og t.d. í kjölfar
kerfisbreytingar, styrjaldar eða hruns. Það er engin tilviljun, að
andstæðingar frumvarpsins að nýrri stjórnarskrá, sem nú er til annarrar
umræðu á Alþingi, eru einmitt margir í hópi þeirra, sem halda áfram að
þræta fyrir augljósa ábyrgð sína á hruninu eða jafnvel fyrir hrunið
sjálft og tala um „svokallað hrun“. Stuðningur þeirra við nýja
stjórnarskrá fæli í sér óbeina viðurkenningu á tilefninu, þ.e. á
hruninu, og til þess mega margir þeirra ekki hugsa. Þess vegna stendur
þingflokkur sjálfstæðismanna nú óskiptur gegn frumvarpi til nýrrar
stjórnarskrár, einn flokka, þótt ljóst sé, að sjálfstæðismenn greiddu
þúsundum saman atkvæði með frumvarpinu og einstökum ákvæðum þess í
þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október s.l. Án atkvæða stuðningsmanna
Sjálfstæðisflokksins hefði frumvarpið varla hlotið náð fyrir augum 73
þúsund kjósenda. Án sjálfstæðismanna hefði auðlindaákvæðið varla heldur
hlotið náð fyrir augum 85 þúsund kjósenda, persónukjör fyrir augum 78
þúsund kjósenda, jafnt vægi atkvæða fyrir augum 67 þúsund kjósenda og
beint lýðræði fyrir augum 73 þúsund kjósenda. Enda rímar
stjórnarskrárfrumvarpið vel við stefnu Sjálfstæðisflokksins fyrr og nú,
þar á meðal ákvæðin um auðlindir í þjóðareigu og jafnt vægi atkvæða auk
fjölda annarra ákvæða, sem eru í samræmi við breytingartillögur
stjórnarskrárnefndar Alþingis undir forustu Bjarna Benediktssonar, síðar
forsætisráðherra, svo sem Bjarni gerði grein fyrir þeim 1953. |
Það hefur gerzt áður, að nauðsyn þótti bera til að samþykkja breytingar
á stjórnarskránni gegn atkvæðum stærsta flokksins á Alþingi. Það gerðist
1942, þegar Framsókn varð að lúta ákvörðun Alþingis um
stjórnarskrárbreytingu. Framsókn átti eftir það ekki afturkvæmt í
ríkisstjórn fyrr en fimm árum síðar, 1947. Sagan endurtók sig 1959,
þegar Framsókn, þá næststærsti flokkurinn á þingi, varð enn að lúta
ákvörðun Alþingis um stjórnarskrárbreytingu. Framsókn átti eftir það
ekki afturkvæmt í ríkisstjórn fyrr en 12 árum síðar, 1971.
Sjálfstæðisflokkurinn er nú í áþekkri stöðu á þingi. Við höfum séð þetta
allt saman áður. |
Það er ýmist, að stjórnmálamenn fela sjálfum sér eða sínum fulltrúum að
semja nýjar stjórnarskrár eða sérkjörnum fulltrúum fólksins. Fyrri
leiðin er jafnan háð tveim annmörkum. Þegar þingmenn taka verkið að sér
á eigin spýtur, er hætt við hagsmunaárekstri og sjálftöku. Þingmönnum
getur hætt til að gera þinginu of hátt undir höfði í stjórnarskrá, t.d.
með því að kveða á um þingkjörinn forseta frekar en þjóðkjörinn eins og
reynt var 1944. Hinn gallinn er, að stjórnarskrá samin af
stjórnmálamönnum hneigist í átt að lægsta samnefnara. Reynslan frá 1944
er gott dæmi. Þá sættust þingmenn á smávægilegar breytingar á
stjórnarskránni vegna lýðveldisstofnunarinnar, lofuðu að ráðast í
gagngerar breytingar strax eftir 1944 og reyndust síðan ófærir um að
efna loforðin allar götur fram yfir hrunið 2008. Þá loksins ákvað
Alþingi að velja síðari leiðina og fela sérstöku stjórnlagaþingi, sem
síðar varð að Stjórnlagaráði, að semja nýja stjórnarskrá að loknum 950
manna þjóðfundi, sem allir Íslendingar 18 ára og eldri höfðu sama færi á
að sitja. Úr varð frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem dregur hvorki taum
Alþingis né annarra. Frumvarpið hneigist ekki heldur að lægsta
samnefnara af tillitssemi við sérhagsmuni né heldur víkur það svo neinu
nemi frá niðurstöðum þjóðfundarins. Í þessu ljósi þarf að skoða
yfirgnæfandi stuðning kjósenda við frumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslunni
20. október s.l.
|
Stjórnarskrár fólksins, samdar á sérstökum stjórnlagaþingum frekar en á
löggjafarþingum, skipta tugum. Bandaríska stjórnarskráin frá 1787 er í
þessum flokki. Hún var ekki fullkomin frekar en aðrar stjórnarskrár.
Höfundar hennar lögðu t.d. ekki til atlögu gegn þrælahaldi; það beið í
næstum 80 ár. Franska stjórnarskráin 1789 var einnig samin á
stjórnlagaþingi og lagði grunninn að löggjöf um frelsi, jafnrétti og
bræðralag, löggjöf, sem breiddist út um alla Evrópu og allan heim.
Eiðsvallarstjórnarskrá Noregs var einnig samin á stjórnlagaþingi, sem
var fyrirmynd þjóðfundarins hér heima 1851. Fyrsta lýðræðislega
kosningin í sögu Rússlands var kosningin til stjórnlagaþings 1917, en
það var leyst upp með ofbeldi í blóðugri byltingu kommúnista.
Lýðræðisstjórnarskrá Rússlands var kæfð í fæðingu. Stjórnarskrá Indlands
var samin á stjórnlagaþingi 1947-50 og lagði grunn að lýðræði í þessu
fjölmennasta lýðræðisríki heimsins. Mörg önnur dæmi um frægar
stjórnarskrár fólksins mætti nefna. Í ljósi þessarar sögu m.a. er fylgzt
vel innan lands og utan með afdrifum stjórnarskrárfrumvarpsins á Alþingi
nú. Lýðræði felur í sér, að engum leyfist, ekki heldur Alþingi, að taka
ráðin af heilli þjóð. Fólkið í landinu er yfirboðari Alþingis. Íslenzka
þjóðin er ekki boðflenna í eigin landi. |