Þegar amma fékk að kjósa
Föðuramma mín var komin undir fertugt, þegar hún fékk kosningarrétt. Það var 1915, en það ár fengu danskar og íslenzkar konur almennan kosningarrétt í áföngum, tveim árum síðar en norskar konur og sex árum á undan sænskum konum. Sænskar konur fengu að vísu kosningarrétt 1718, ef þær greiddu skatta, en þær misstu hann aftur 1771. Brezkar konur fengu ekki kosningarrétt í þingkosningum fyrr en 1928, í sveitarstjórnarkosningum 1869. Bandarískar konur fengu almennan kosningarrétt 1920 skv. breytingu á stjórnarskrá, en ýmis fylki Bandaríkjanna höfðu veitt konum kosningarrétt fyrir þann tíma. Franskar konur fengu ekki almennan kosningarrétt fyrr en 1945. | Hvers vegna rek ég þessa sögu hér? Ég geri það til að minna á, að óskorað lýðræði og fullt jafnrétti kynjanna eru nýfengin réttindi, sem við þurfum að umgangast af alúð og virðingu og getum ekki alltaf gengið út frá sem gefnum hlut, ef við gætum ekki að okkur. Við þurfum að sýna viljann í verki. | Lýðræðið á illskeytta óvini. Það sannast á tilburðum andstæðinga frumvarps Stjórnlagaráðs, sem sæta færis að gera lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni um frumvarpið 20. október n.k. og sýna lýðræðinu með því móti makalausa lítilsvirðingu. Fyrst hrintu þeir hagkerfinu fram af bjargbrúninni 2008 með glórulausri óstjórn efnahagsmála og bankamála. Þeir harðneita enn að biðjast afsökunar og axla ábyrgð, þótt níu binda skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis ræki ábyrgðina til þeirra, m.a. til þriggja nafngreindra ráðherra og fjögurra embættismanna; þar af voru fjórir sjálfstæðismenn. Þá tóku þeir upp baráttu gegn þeirri ákvörðun Alþingis að verða við kröfum búsáhaldabyltingarinnar 2009 um nýja stjórnarskrá, kröfum, sem RNA tók undir í skýrslu sinni 2010 og einnig þjóðfundurinn sama ár. Þessu næstu beittu þeir málþófi á Alþingi til að koma í veg fyrir, að vilji þingmeirihlutans til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakjöri 30. júní næði fram að ganga. Loks reyndu þeir aftur að beita málþófi á þingi til að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október, en það tókst ekki. Nú reyna þeir að telja kjósendur af því að neyta atkvæðisréttar síns fram á kjördag, en kosningin er þegar hafin. Andstæðingar nýrrar stjórnarskrár með helztu forustumenn Sjálfstæðisflokksins í broddi fylkingar reyna að traðka á lýðræðinu við hvert fótmál. Varla verður því trúað að óreyndu, að óbreyttir flokksmenn taki þátt í þessari aðför að lýðræðinu með því að sitja heima. | Hvers vegna mæla andstæðingarnir ekki gegn frumvarpinu með rökum og hvetja kjósendur til að greiða atkvæði gegn frumvarpinu og einstökum ákvæðum þess? Hvers vegna ráða þeir kjósendum ekki að greiða atkvæði gegn því, að auðlindir landsins komist í þjóðareigu? Hvers vegna ráða þeir kjósendum ekki að greiða atkvæði gegn jöfnu vægi atkvæða og persónukjöri við hlið listakjörs í alþingiskosningum? Hvers vegna ráða þeir kjósendum ekki að greiða atkvæði gegn beinu lýðræði og greiðum aðgangi almennings að upplýsingum í fórum stjórnvalda? Spurningarnar svara sér sjálfar. Andstæðingar frumvarpsins reyna heldur að koma því til leiðar, að kjörsókn verði lítil, að því er virðist til að geta reynt að varpa rýrð á niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar eftir á með skírskotun til lítillar kjörsóknar. Þó hefur það aldrei gerzt, að úrslit atkvæðagreiðslu séu talin ógild vegna ónógrar kjörsóknar, enda er engin heimild í lögum til slíkrar túlkunar. Það er grundvallarregla í okkar stjórnskipun, að meiri hlutinn ræður óháð kjörsókn. |
Færeyingum var boðið til þjóðaratkvæðagreiðslu 1946 um
fullt sjálfstæði eyjanna, tveim árum eftir lýðveldisstofnunina á
Þingvöllum 1944. Sambandsflokkurinn, stærsti flokkur Færeyja, lagðist
gegn sjálfstæði eins og hann gerir enn, en hann treysti því ekki, að
kjósendur fylgdu leiðsögn hans, og fór því að eins og
Sjálfstæðisflokkurinn nú: hann gerði lítið úr atkvæðagreiðslunni fyrir
fram og hvatti fólk til að sitja heima eða skila auðum eða ógildum
atkvæðaseðlum. Aðför Sambandsflokksins að lýðræðinu mistókst, kjörsókn
var 67%. Sjálfstæðissinnar sigruðu með 51% atkvæða gegn 49%. (Nánar
tiltekið fengu sjálfstæðissinnar 49%, sambandssinnar 47%, og 4%
atkvæðaseðla voru auð eða ógild.) Færeyska þingið lýsti fáeinum dögum
síðar yfir stofnun lýðveldis að íslenzkri fyrirmynd. Eigi að síður ákvað
kóngurinn, Kristján tíundi, fyrir hönd dönsku stjórnarinnar að hafa
úrslitin og ákvörðun lögþingsins að engu, sendi herlið til Færeyja,
leysti þingið upp á þeirri forsendu, að lýðveldisstofnun í Færeyjum
bryti gegn stjórnarskránni, og boðaði til nýrra kosninga. Þarna voru
framin reginsvik við færeysku þjóðina, en Færeyingar fengu að vísu
heimastjórn 1948, og þar við situr enn. |
Öruggasta leiðin til að tryggja, að sams konar svik verði ekki framin á Íslandi, er að fara á kjörstað og kjósa um frumvarp Stjórnlagaráðs 20. október eða fyrr. Kjósendur hafa aldrei áður fengið slíkt tækifæri til að kjósa um jafnt vægi atkvæða, auðlindir í þjóðareigu, greiðan aðgang að upplýsingum og aðrar slíkar réttarbætur. Nú er lag. Látum ekki einstakt tækifæri okkur úr greipum ganga. Sýnum viljann í verki. Kjósum. |