![]() |
Guðrún Vilmundardóttir fæddist í Kaupmannahöfn
7. desember 1918, dóttir hjónanna Vilmundar Jónssonar landlæknis (1889-1972) og
Kristínar Ólafsdóttur læknis (1889-1971). Systkini Guðrúnar voru Ólöf tannsmiður
(1920-1998), gift Þorsteini Ólafssyni tannlækni, og Þórhallur (f. 1924), kvæntur
Ragnheiði Torfadóttur fyrrum rektor Menntaskólans í Reykjavík. Guðrún lauk
stúdentsprófi 1938, var blaðamaður um tíma, giftist 1939 Gylfa Þ. Gíslasyni
(1917-2004) prófessor og ráðherra og stofnaði með honum heimili í Reykjavík, þar
sem þau bjuggu fyrst í Garðastræti 13a (1939-1948) og síðan að Aragötu 11.
Foreldrar Gylfa voru Þorsteinn Gíslason skáld og ritstjóri og Þórunn Pálsdóttir
húsmóðir. Synir Guðrúnar og Gylfa voru Þorsteinn Gylfason (1942-2005) prófessor,
Vilmundur Gylfason (1948-1983) menntaskólakennari og ráðherra og Þorvaldur
Gylfason (f. 1951) prófessor. Guðrún þýddi æviminningar Trygve Brattelie,
forsætisráðherra Noregs (Nótt í Niflungaheimi, 1983). |