Land og sjór eru systur
Það gefur augaleið, að framsókn
þjónustuhagkerfisins hlýtur að draga úr vægi hefðbundinna atvinnuvega í
efnahagslífinu. Þjónusta leggur fram tvo þriðju hluta landsframleiðslunnar í
OECD-löndum. Ísland er engin undantekning: hér er hlutdeild þjónustu í
landsframleiðslunni komin upp í 62% (1999). Iðnaður stendur á bak við önnur 25%,
svo að framlag landbúnaðar og sjávarútvegs til landsframleiðslunnar er komið niður
í 13%.
Skoðum landbúnaðinn fyrst. Skerfur hans til
þjóðarframleiðslunnar árið 1901 var röskur helmingur. Í stríðslok 1945 var
hlutfallið komið niður í rúman fimmtung. Árið 1973 var skerfur landbúnaðarins til
landsframleiðslunnar 5% og hefur síðan þá minnkað niður í 2% (1999). Þetta er
eins og vera ber að öðru leyti en því, að þetta hefur gerzt of hægt fyrir
þá sök, að ríkisvaldið hefur streitzt á móti og kostað til þess miklu fé,
ýmist beint með niðurgreiðslum á kostnað skattgreiðenda eða óbeint með
samkeppnishömlum, sem hafa hækkað matarverð langt upp fyrir heimsmarkaðsverð á
kostnað neytenda.
Útvegur: 11% af landsframleiðslu
Hlutdeild sjávarútvegsins í landsframleiðslu hefur
með líku lagi minnkað úr 16% 1973 í 11% (1999). Hlutdeild sjávarfurða í
útflutningi vöru og þjónustu hefur einnig dregizt saman. Hlutdeild útvegsins í
útflutningi var rösklega helmingur 1960, fór síðan upp í 60% 1980, en er nú komin
niður í 46% (1999). Hlutdeild fiskifangs í útflutningi tók djúpa dýfu árin
1983-1984 og fór þá niður fyrir helming, en það stafaði af miklum aflasamdrætti.
Nú háttar á hinn bóginn þannig til, að hlutdeild sjávarútvegsins í útflutningi
er komin niður fyrir helming í góðæri. Þetta er æskileg þróun og óhjákvæmileg.
Hvers vegna?
Jú, það stafar af því, að fiskaflinn á
Íslandsmiðum helzt nokkurn veginn óbreyttur frá náttúrunnar hendi til langs tíma
litið (og hefur raunar farið minnkandi með tímanum sumpart vegna ofveiði, að
því er virðist), á meðan skerfur annarra atvinnuvega til þjóðarbúsins eykst jafnt
og þétt. Hagvöxturinn á sér með öðrum orðum stað í iðnaði, verzlun og
þjónustu í fyrsta lagi, en sneiðir hjá sjávarútvegi af náttúrufræðilegum
ástæðum mestanpart. Þess vegna hlýtur framlag sjávarútvegsins til
þjóðarbúskaparins að dragast saman með tímanum miðað við aðra atvinnuvegi.
Bætt tækni leiðir smám saman til þess, að okkur nægja færri sjómenn og færri
fiskiskip til að ná gefnum afla á land. Það liggur í hlutarins eðli.
Hagvöxturinn sneiðir einnig hjá landbúnaði vegna
þess, að fæðuþörf mannsins er takmörkuð frá náttúrunnar hendi við ákveðinn
fjölda hitaeininga á dag. Bætt tækni leiðir því smám saman til þess, að færri
og færri bændur þarf til að fullnægja fæðuþörf þjóðanna. Þess vegna fækkar
bændum, nema þeir færi út kvíarnar í ferðaþjónustu og þess háttar.
Nútímaþjóðarbúskapur hvílir á mannauði, sem getur
oftast nær skilað mestum afköstum í iðnaði, verzlun og þjónustu þeim
greinum, sem spyrja helzt eftir vel menntuðu vinnuafli. Það hefur á hinn bóginn
reynzt þjóðinni dýrt, hversu stjórnvöld hafa staðið í vegi fyrir þessari þróun
með því að styrkja bæði landbúnað og sjávarútveg leynt og ljóst, bak og
brjóst, með byggðasjónarmið að leiðarljósi (eða að minnsta kosti að yfirvarpi).
Þannig stendur á þeim gríðarlega kostnaði, sem landbúnaðarstefnan leggur á
almenning, svo sem hátt matarverð vitnar um enn þann dag í dag. Ný skýrsla frá OECD
sýnir, að búverndin hér heima kostaði í fyrra næstum 3 milljónir króna á hvert
ársverk í landbúnaði og er heimsmet. Og þannig stendur einnig að miklu leyti á
þeim óbeina ríkisstyrk, sem útvegurinn hefur notið og nýtur enn aðallega í gegnum
ókeypis aðgang að verðmætum aflaheimildum aflaheimildum, sem þjóðin á í
sameiningu samkvæmt lögum.
Líkt með skyldum
Búverndarstefnan og gjafakvótakerfið eru angar á einum
og sama meiði, enda er að ýmsu leyti við svipuð vandamál að etja í landbúnaði og
sjávarútvegi, ekki aðeins hér heima, heldur um allan heim. Stjórnmálamenn og
sérhagsmunasamtök keppast við að reyna að leyna ríkisstuðningnum við gömlu
,,undirstöðuatvinnuvegina, og þeim hefur tekizt það svo vel, að margir
virðast ekki enn gera sér fulla grein fyrir kostnaðinum. Enn er hvergi neitt að finna
í opinberum hagskýrslum íslenzkum um óbeinan ríkisstuðning við landbúnaðinn í
gegnum innflutningshöft og aðrar hömlur, sem halda matarverði hér langt fyrir ofan
heimsmarkaðsverð neytendum til tjóns. Menn þurfa að lesa skýrslur frá OECD til að
komast í réttar upplýsingar um málið. (Bændasamtökin birta eina töflu frá OECD
án skýringa á vefsetri sínu; það er spor í rétta átt. Nánari upplýsingar með
skýringum er að finna á vefsetri mínu.)
Réttar upplýsingar um búverndina þyrftu þó helzt að
vera tiltækar í heimatilbúnum hagskýrslum eftir þeirri einföldu reglu, að
hagstjórnin verður að vera gagnsæ og rétt skal vera rétt. Gagnsæi er ætlað
að tryggja, að stjórnvaldsákvarðanir séu reistar á réttum grundvelli og
almenningur fái rönd við reist, ef út af ber. Og svo er annað. Reynslan frá Evrópu
sýnir, að bústuðningurinn þar er ekki aðeins óhagkvæmur, heldur einnig ranglátur,
því að mikill hluti styrkjanna hafnar í höndum tiltölulega fárra stórbænda, sem
eru forríkir fyrir.
Svipuðu máli gegnir um sjávarútveginn, svo sem liggur í hlutarins eðli. Stjórnvöld hreykja sér af því innan lands og utan, að útvegurinn nýtur einskis beins stuðnings á fjárlögum, eins og það komi málinu ekki við, að útvegsfyrirtækin eru í raun réttri á ríkisframfæri í gegnum gjafakvótakerfið auk annars, samanber til dæmis sjómannaafsláttinn. Örlæti almannavaldsins við útveginn hefur tafið þá hagræðingu, sem þar er að eiga sér stað, svo sem þráfelld skuldasöfnun útvegsfyrirtækja síðustu ár vitnar um, og lagt umtalsverðan fórnarkostnað á fólkið í landinu um leið.
Morgunblaðið, 21. júlí 2000.