Langt ágrip
 

Þorvaldur Gylfason
Lengri æviskrá með hefðbundnu sniði


Þorvaldur Gylfason f. 18. júlí 1951 í Reykjavík.

Faðir: Gylfi Þ. Gíslason, dr. rer. pol., prófessor, alþingismaður og ráðherra   í Reykjavík, f. 7. feb. 1917, d. 18. ág. 2004. For.: Þorsteinn Gíslason, ritstjóri og skáld í Reykjavík, f. 26. jan. 1867, d. 20. okt. 1938, og k.h. Þórunn Pálsdóttir, húsfreyja, f. 26. okt. 1877, d. 14. jan. 1966.

Móðir: Guðrún Vilmundardóttir, stúdent, húsfreyja, f. 7. des. 1918, d. 15. ágúst 2010. For.: Vilmundur Jónsson, landlæknir í Reykjavík, f. 28. maí 1889, d. 28. marz 1972, og k.h. Kristín Ólafsdóttir, læknir, f. 21. nóv. 1889, d. 20. ágúst 1971.

Bræður: Þorsteinn Gylfason, prófessor í Reykjavík, f. 12. ágúst 1942, d. 16. ágúst 2005, og Vilmundur Gylfason, alþingismaður og kennari í Reykjavík, f. 7. ágúst 1948, d. 19. júní 1983.

Nám: Stúdent frá M.R. 1970. B.A. Econ. (Honours) í hagfræði frá University of Manchester í Englandi 1973. M.A. í hagfræði frá Princeton University í Bandaríkjunum 1975 (sérgreinar: alþjóðahagfræði, peningahagfræði, tölfræði og hagmælingar). Ph.D. í hagfræði frá Princeton University 1976 (sérgrein: þjóðhagfræði).

Störf: Starfsmaður í hagfræðideild Seðlabanka Íslands sumrin 1971-72. Starfsmaður hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins (Þjóðhagsstofnunar) sumrin 1973-74. Aðstoðarkennari í hagfræði við Princeton-háskóla 1975-76. Hagfræðingur í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington, DC, 1976-81. Rannsóknafélagi hjá Alþjóðahagfræðistofnuninni (Institute for International Economic Studies) við Stokkhólmsháskóla 1978-96 og hjá SNS (Center for Business and Policy Studies) í Stokkhólmi 1996-2004. Gistikennari við International Graduate School í Stokkhólmsháskóla 1982-83. Prófessor í þjóðhagfræði í Háskóla Íslands frá 1. júlí 1983, rannsóknaprófessor í hagfræði frá 1. janúar 1998 til 30. júní 2004. Gistiprófessor í Princeton-háskóla 1986-88. Ráðgjafar- og ritstörf fyrir Seðlabanka Íslands 1984-93. Rannsóknafélagi við Center for Economic Policy Research (CEPR) í London 1987-2009, við Center for U.S.-Japan Business and Economic Studies við New York University í New York frá 1989 og við Center for Economic Studies (CESifo) við Háskólann í München frá 1999. Ráðgjafarstörf og fyrirlestrahald á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) frá 1993 og Fríverzlunarsamtaka Evrópu (EFTA) frá 1992 og einnig ráðgjöf og rannsóknir fyrir Evrópusambandið, Alþjóðabankann og Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Hefur haldið fyrirlestra um allan heim og leiðbeint um hagfræði og hagstjórn á fjölmörgum endurhæfingarnámskeiðum alþjóðastofnana fyrir embættis- og stjórnmálamenn frá fyrrum kommúnistalöndum og víðar í Austur-Evrópu, Asíu og Afríku. Ritstjóri European Economic Review 2002-2010. Kjörinn á Stjórnlagaþing 2010, tók skipun Alþingis í Stjórnlagaráð 2011.

Félags- og trúnaðarstörf: Formaður stjórnar Kaupþings hf. 1986-90. Deildarforseti viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands 1988-90. Formaður stjórnar Styrktarfélags Íslensku óperunnar 1988-94. Formaður fulltrúaráðs Styrktarfélags Íslensku óperunnar 1987-88. Formaður í Programme Committee í European Economic Association (Evrópska hagfræðingafélaginu) á 5. ársfundi félagsins í Lissabon 1990. Formaður stjórnar hlutabréfasjóðsins Auðlindar hf. 1990-92. Kjörinn í framkvæmdaráð Economic European Association 1992-96. Formaður sérfræðinganefndar, sem gerði úttekt á sænsku efnahagslífi 1997. Kjörinn heiðursfélagi í Evrópska hagfræðingafélaginu 2004. Í stjórn Söngskólans í Reykjavík frá 2010.

Ritstörf: Sjá ritaskrá annars staðar á vefsetrinu. Auk þess rösklega 1.000 greinar í dagblöðum, einkum Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, DV og Stundinni, og tímaritum, einkum Vísbendingu, og einnig í erlendum ritum, einkum VoxEU og Social Europe. Einnig nokkrar greinar um óperur og óperutónlist í Morgunblaðinu, Óperublaðinu og leikskrá Íslensku óperunnar og níu prentuð kórverk í Skírni og Tímariti máls og menningar.

Ritstjórnarstörf: European Economic Review, 1986-92 (í ritstj.), ritstjóri 2002-2010; Japan and the World Economy (í ritstj.), frá 1989; Scandinavian Journal of Economics (í ritstj.), 1995-2005; Macroeconomic Dynamics (aðstoðarritstj.), frá 1997. 

Maki: 18. okt. 1987, Anna Karitas Bjarnadóttir, kennari frá K.Í. 1972, stúdent frá K.H.Í. 1973, starfsmaður og síðan deildarstjóri í Samábyrgð Íslands á fiskiskipum 1973-2001 og tryggingaráðgjafi í Sjóvá-Almennum tryggingum frá 2002, f. 18. des. 1951. For.: Bjarni Kristinn Ólafsson, rafvirkjameistari í Reykjavík, f. 18. okt. 1914, d. 7. jan. 1986, og k.h. Hólmfríður Sigrún Jóhanna Pálmadóttir, húsfreyja, f. 11. nóv. 1923, d. 5. feb. 2008.

Fósturbörn: (1) Jóhanna Andrea Jónsdóttir, stúdent og heimilismóðir, f. 23. apríl 1972, búsett í Bandaríkjunum, maki hennar: Philip Gavern, fasteignasali, f. 6. apríl 1961, dóttir þeirra: Andrea Elizabeth Gavern, f. 2. marz 1999, (2) Bjarni Jónsson, rafvirki og rafmagnstæknifræðingur (B.Sc. frá Háskólanum í Óðinsvéum), f. 8. sept. 1976, býr í Reykjavík, maki hans: Þórlaug Einarsdóttir geislafræðingur, f. 10. júlí 1975, synir þeirra: Eiður Snorri Bjarnason, f. 14. marz 2003, Konráð Bjarnason, f. 15. marz 2006 og Birna Rún Bjarnadóttir, f. 30. september 2010.


Heimild: Viðskipta- og hagfræðingatal.

Aðrar heimildir: Kennaratal, Samtíðarmenn, Who´s Who in Science and Engineering og Who´s Who in the World.


Aftur heim