Þjóðin getur létt undir með Alþingi
Evrópumálið er eins og stjórnarskrármálið að því leyti, að
stjórnmálaflokkarnir á Alþingi þurfa ekki og eiga helzt ekki að koma
nálægt því nema til að staðfesta ákvörðun þjóðarinnar. Þjóðin er sjálf
fullfær um að leiða bæði málin til lykta án milligöngu flokkanna.
Stjórnmálaflokkarnir eru allir klofnir í afstöðu sinni til ESB-aðildar.
Þjóðaratkvæðagreiðslur henta vel í málum, sem flokkarnir eiga erfitt með
að gera upp við sig. Flokkarnir verðu kröftum sínum betur, ef þeir
einbeittu sér málum, þar sem meiri árangurs er að vænta af starfi
þeirra. |
Andrúm kaldastríðsáranna var óþægilegt á Íslandi eins og t.d. ritstjórar
Morgunblaðsins þau ár hafa
öðrum mönnum betur lýst á prenti. Stjórnmálasamræðan var hörð og
illskeytt m.a. vegna tortryggninnar, sem Alþingi sáði með því að keyra
málið í gegn á eigin spýtur og hafna kröfum um þjóðaratkvæðagreiðslu.
Hefði slík atkvæðagreiðsla verið haldin og þjóðin samþykkt aðild, hefði
andstæðingunum trúlega reynzt auðveldara að una niðurstöðunni. Hefði
þjóðin á hinn bóginn hafnað aðild, hefði það verið rétt lýðræðisleg
niðurstaða. Þá hefðu Íslendingar staðið utan Nató, og sagan sýnir í
endurskini reynslunnar, að það var þrátt fyrir allt óhætt. En þetta voru
ár tortryggninnar, og engin þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram um stofnaðild
Íslands að Nató. Danir og Norðmenn greiddu ekki heldur atkvæði um málið,
en þar voru engin áhöld um vilja almennings. Stundum er óþarft að halda
þjóðaratkvæðagreiðslu, ef ljóst þykir, hvert hugur kjósenda stefnir.
Spánverjar héldu eftir fall herforingjastjórnar Frankós
þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild að Nató 1986. Hún var
samþykkt. Ný aðildarlönd Nató í Mið- og Austur-Evrópu héldu flest
almennar atkvæðagreiðslur um inngönguna eftir 1990. Aðildin var alls
staðar samþykkt með ríflegum meiri hluta. |
Alþingi fer með löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar. Þetta stendur
skýrum stöfum fremst í frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrrar
stjórnarskrár. Þetta er kjarni þingræðishefðarinnar. Samt hefur Alþingi
ekki treyst sér til að skila umboði sínu til þjóðarinnar nema í örfá
skipti og þá oftast til að fjalla um afmörkuð mál eins og áfengisbann og
afnám þess. Austurríkismenn, Finnar, Norðmenn og Svíar héldu
þjóðaratkvæðagreiðslur um aðild að ESB 1994, en Íslendingar gerðu það
ekki. Skoðanakannanir Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands þá sýndu,
að meiri hluti þjóðarinnar hefði sennilega samþykkt aðild. Íslendingar
héldu ekki heldur almennar atkvæðagreiðslur um inngönguna í EES nokkru
fyrr og ekki heldur um inngönguna í EFTA 1970. Ófýsi Alþingis til að
halda þjóðaratkvæðagreiðslur virðist öðrum þræði mega rekja til þess, að
þar sitja allir kjósendur við sama borð. |
Nú sér fyrir endann á ofríki Alþingis gagnvart kjósendum, ef frumvarp
Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár hlýtur brautargengi í
þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október. Frumvarpið tryggir, verði það
samþykkt, að Ísland gengur því aðeins í ESB, að þjóðin samþykki
ráðahaginn í almennri atkvæðagreiðslu. Sem stendur þarf þjóðin að gera
sér að góðu fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að halda
þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Aðild að ESB á ekki að vera háð geðþótta
meiri hluta Alþingis.
Andstæðingar ESB-aðildar ættu að fagna frumvarpi Stjórnlagaráðs, þar eð
það verndar þá og aðra gegn hættunni á, að meiri hluti Alþingis leiði
Ísland inn í ESB án þess að spyrja þjóðina. Andstæðingum ESB-aðildar er
engin stoð í gildandi stjórnarskrá, því að hún leyfir í reyndinni aðild
alveg eins og hún leyfði aðild að EES og Nató. Sumir telja, að gildandi
stjórnarskrá girði fyrir ESB-aðild. Sumir töldu einnig, að
stjórnarskráin girti fyrir aðildina að EES, en annað kom á daginn. Engin
Evrópuþjóð býr við stjórnarskrá, sem girðir fyrir aðild að ESB.
Evrópskar stjórnarskrár virða vilja fólksins. Ef menn halda, að lagaleg
rök hnígi í aðra átt hér heima, þarf að lagfæra stjórnarskrána til að
leysa ágreining um inntak hennar. Einmitt það gerði Stjórnlagaráð með
því að setja inn í frumvarp sitt sérstakt ákvæði um framsal ríkisvalds
og bindandi þjóðaratkvæði um slíkt framsal auk nýrra ákvæða um beint
lýðræði.
Stuðningsmenn ESB-aðildar ættu
einnig að fagna frumvarpinu, enda er þess vart að vænta, að þeir vilji
leiða Ísland inn í ESB án beins samþykkis þjóðarinnar í bindandi
þjóðaratkvæðagreiðslu svo sem frumvarp Stjórnlagaráðs mælir fyrir um. |