Tvennt ræður mestu um auðsöfnun
þjóða og þá um leið um lífskjör þeirra til langs tíma litið. Annað
er gróska í einkarekstri, hitt er efling mannauðsins.
Gróska í einkarekstri er mikilvæg driffjöður hagvaxtar vegna þess, að einkafyrirtækin eru hryggjarstykki efnahagslífsins: þar fer framleiðslan fram. Þessi gróska hvílir á mörgum stoðum: hún útheimtir hvatningu og svigrúm til fjárfestingar í vélum og tækjum; hún kallar á frjálslegt búskaparlag, þar á meðal frelsi til viðskipta innan lands og utan; hún kallar einnig á stöðugt verðlag, sem tryggir stöðugt starfsumhverfi handa fyrirtækjum; og hún kallar síðast en ekki sízt á heilbrigða verkaskiptingu milli almannavalds og einkafyrirtækja, þar sem meginreglan á að vera sú, að einkafyrirtæki hafi á sínum snærum nær alla framleiðslu og þjónustu aðra en þá, sem almannavaldið eitt ræður við.
Efling mannauðsins er tvíþætt. Hún felst annars vegar í útrýmingu sjúkdóma og auknu heilbrigði og langlífi og hins vegar í meiri og betri menntun mannaflans, þannig að sem flestir nái að bæta menntun sína og menningu eftir fremsta megni. Einnig þetta er auðsöfnun: fjárfesting í mannauði. Af þessu má ráða mikilvægi menntamála í efnahagslífinu.
Meðfylgjandi mynd segir meira um þetta samhengi en mörg orð. Myndin nær yfir 87 lönd um allan heim árin 1965-1998 og sýnir sambandið milli vaxtar þjóðarframleiðslu á mann á ári á lóðréttum ás og aðsókn að framhaldsskólum 1980-1998 sem hlutfall af hverjum árgangi á láréttum ás. Hagvaxtartölurnar á lóðrétta ásnum hafa verið lagaðar að þjóðarframleiðslu á mann við upphaf tímabilsins með því að draga frá þann hluta hagvaxtarins, sem rekja má til þróunarstigs hvers lands. Þetta er gert til að eyða grunsemdum, sem kynnu annars að vakna, í þá veru, að myndin sé villandi: hún lýsi ekki öðru en því, að menntun sé meiri í ríkum löndum en fátækum og ríku löndin vaxi örar en hin. (Raunar er hitt nær sanni, að fátæk lönd vaxi örar en rík, og það ætti þá að veikja sambandið milli hagvaxtar og menntunar, en við skulum ekki fást um það hér.) Fylgnin milli hagvaxtar og menntunar á myndinni (0,57) er marktæk í tölfræðilegum skilningi. Við getum túlkað aðfallslínuna gegnum punktaskarann þannig, að aukning framhaldsskólasóknar um tæplega 30% af hverjum árgangi haldist í hendur við aukningu hagvaxtar á mann á ári um eitt prósentustig.
Er það mikið eða lítið? Tökum Mexíkó til dæmis. Þar sækja innan við 70% af hverjum árgangi framhaldsskóla. Ef þeim í Mexíkó tækist að koma öllum í framhaldsskóla, svo sem tíðkast um langflest önnur OECD-ríki, þá myndi það duga til að auka hagvöxt á mann um 1% á ári að öðru jöfnu til langs tíma litið (enda þótt framleiðsla kynni að dragast saman í bráð, þegar ungt fólk færi af vinnumarkaði í skóla). Það er ekki lítið miðað við það, að þjóðarframleiðsla á mann í Mexíkó óx um 1,5% á ári að jafnaði árin 1965-1998.
Skólasókn segir þó ekki alla söguna. Framhaldsskólasókn er til að mynda jafnmikil hér heima og annars staðar í iðnríkjum OECD, það er fullt hús (nær allir sækja framhaldsskóla), þótt við verjum miklu minna fé til menntamála miðað við þjóðarframleiðslu en hinar Norðurlandaþjóðirnar fjórar, eða rösklega 5% hér á móti 7-8% þar. Og þótt grunnskólasókn í Mexíkó sé nú orðin jafnalmenn og í Bandaríkjunum, fullt hús á báðum stöðum, er samt ólíku saman að jafna, því að grunnskólanemendur eru miklu fleiri á hvern kennara í Mexíkó en í Bandaríkjunum, eða 28 á móti 16 (og 14 hér heima; hér er þó ekki átt við bekkjarstærð, heldur meðalfjölda ársverka nemenda í hlutfalli við ársverk kennara skv. upplýsingum frá OECD). Unglingar í Mexíkó geta vænzt þess að verja að jafnaði tæpu ári í framhaldsskóla á móti 3½ ári í Bandaríkjunum (og tveim árum hér). Í Mexíkó sækir aðeins sjöttungur hvers árgangs nám á háskólastigi á móti 80-90% í Bandaríkjunum og Kanada fyrir norðan (og innan við 40% hér heima til frekari samanburðar). Mexíkó á ennþá langt í land.
Marktækt samband menntunar og
hagvaxtar veit á gott í þeim skilningi, að menntun er í mannlegu valdi. Stjórnvöld
hafa það í hendi sinni að efla menntun og þá um leið hagvöxt til langs tíma
litið. Þetta geta þau gert meðal annars með því að verja meira fé til
menntunarmála, svo sem til að tryggja kennurum sómasamleg laun til að laða
sem mest af hæfum kennurum inn í skólana. Þráfelld verkföll kennara hér
heima á liðnum árum — og aftur nú eina ferðina
enn! — eru til marks um
það, að þetta hefur okkur Íslendingum mistekizt hrapallega. Lítil útgjöld
til menntamála og lág laun kennara hljóta að bitna á gæðum kennslunnar,
heildarafköstum mannaflans og hagvexti, þegar frá líður.
Hér er samt ekki fjárskorti einum um að kenna eða öllu frekar ófýsi fjárveitingarvaldsins til að efla menntakerfið. Nei, skipulag efnahagslífsins og skólamálanna sérstaklega stendur í vegi fyrir nauðsynlegri leiðréttingu á launum kennara. Áframhaldandi miðstýring á vinnumarkaði gerir forustumönnum verklýðsfélaga kleift að hamla kjarabaráttu kennara með því að krefjast sams konar kjarabóta handa öllum öðrum launþegum og hóta því þá um leið að hleypa efnahagslífinu í bál og brand með gamla laginu. Á frjálsum, virkum vinnumarkaði myndu kennarar geta samið um hærri laun sér til handa, stæði vilji vinnuveitanda þeirra, þ.e. ríkis og byggða, til þess að bæta kjör kennara miðað við aðrar stéttir. Á þetta reynir þó ekki við núverandi skipan á vinnumarkaði, þar eð stjórnvöld geta skýlt sér á bak við andstöðu annarra verklýðsfélaga við bætt kjör kennara.
Þetta er samt ekki
allt. Markaðsbúskaparsjónarmið af því tagi, sem flestum finnst nú orðið
sjálfsagt að láta ráða gangi efnahagsmála á heildina litið, hafa ekki
enn náð að ryðja sér til rúms í menntamálum nema á stöku stað (og
ekki heldur í heilbrigðismálum). Þetta er að sönnu ekki séríslenzkur
vandi, heldur evrópskur, jafnvel alþjóðlegur. Við hvað er átt með markaðsbúskap
í menntamálum? Jú, hér er átt við aukið svigrúm til einkarekstrar í skólakerfinu,
aukna samkeppni milli skóla um nemendur og kennara, aukna sérhæfingu í skólastarfi
til að koma til móts við ólíkar þarfir og óskir nemenda og foreldra, aukið
svigrúm skólastjórnenda til að greiða kennurum mishá laun eftir afköstum
og annað af því tagi.
Allt þetta myndi stuðla
að því að gera vinnumarkað kennara skilvirkari og tíðkast raunar nú þegar
á háskólastigi. Háskóli Íslands keppir við aðra háskóla innan lands og
utan um kennara, rannsóknara og nemendur. Háskólinn hefur brugðizt við þessari
samkeppni með því að tengja laun starfsmanna sinna afköstum og árangri í
starfi. Þessi launastefna Háskólans hefur aukið rannsóknarafköst
starfsmanna verulega, bætt hag þeirra og aukið hróður skólans út á við.
Leita þyrfti leiða til að innleiða svipaða búskaparhætti á öðrum skólastigum.
Það verður þungur róður. Allar líkur virðast þó benda til þess, að slík
lausn myndi hafa svipuð áhrif á starfsánægju, afköst og tekjur framhaldsskólakennara
og þegar hefur orðið raunin meðal háskólakennara.
Vísbending,
1. desember 2000.