Undarlegir hlutir gerast nú á vettvangi stjórnmálanna. Leyndarhyggjan
umlykur landið sem jafnan fyrr. Seðlabankinn þumbast gegn frómum óskum
um að birta hljóðrit af símtali, sem miklu skiptir til að upplýsa
lykilatvik í aðdraganda hrunsins. Hið eina, sem er óvenjulegt í þessu
tilviki, er, að nú er það Alþingi, sem biður um hljóðritið, en fær það
ekki. |
Hitt er að sönnu algengt, að Alþingi haldi upplýsingum leyndum langt
umfram eðlileg viðmið utan úr heimi eins og kom í ljós eftir hrun.
Frumvarp Eyglóar Harðardóttur alþingismanns um, að birtar verði
upplýsingar um, hverjir hafa fengið afskrifaðar skuldir yfir 100 mkr. í
bönkunum, náði ekki fram að ganga á Alþingi. Fram kemur í skýrslu
Rannsóknarnefndar Alþingis (2. bindi, bls. 200-201), að tíu alþingismenn
skulduðu bönkunum hver um sig 100 mkr. eða meira, þegar bankarnir
hrundu, sumir miklu meira. Meðalskuld þessara tíu þingmanna við bankana
var 900 mkr. Enn hefur ekki verið upplýst, hversu farið var með þessar
skuldir alþingismannanna tíu. Hver getur tekið mark á slíkum þingmönnum
í umræðum um bankamál? – einn brýnasta þátt efnahagsmálanna eins og
sakir standa.
Þessar upplýsingar skipta máli vegna þess, að bankarnir hafa látið bera
varnarlausa viðskiptavini út af heimilum sínum í stórum stíl vegna
erfiðleika við að greiða af stökkbreyttum lánum.
Bankaleynd á rétt á sér að vissu marki, en henni má ekki misbeita til að
mismuna viðskiptavinum bankanna. Í bönkum eins og annars staðar eiga
allir að sitja við sama borð. Það er rauði þráðurinn í nýrri
stjórnarskrá, sem bíður nú lokaafgreiðslu á Alþingi. Nýju
stjórnarskránni er m.a. ætlað að tryggja almenningi aðgang að opinberum
upplýsingum, nema þær varði þjóðaröryggi eða viðkvæma persónuhagi svo
sem heilsufar.
|
Því eru þessi nýlegu leyndardæmi rifjuð upp hér, að stjórnmálamenn á
Alþingi gæla nú upphátt og fyrir opnum tjöldum við að ganga gegn skýrum
úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýja stjórnarskrá 20. október
2012.
Rifjum upp forsöguna. Bankarnir hrundu. Hrunstjórnin hrökklaðist frá
völdum eftir kröftug mótmæli á Austurvelli og víðar. Mótmælendur voru
þverskurður þjóðarinnar, fólk á öllum aldri. Ein krafa þeirra var um
nýja stjórnarskrá. Ný ríkisstjórn Samfylkingar og VG gekk með stuðningi
Framsóknar að þessari kröfu, enda hafði Alþingi vanrækt ítrekuð
fyrirheit um endurskoðun stjórnarskrárinnar í nærfellt 70 ár. Fyrst var
skipuð stjórnlaganefnd. Hún kvaddi saman 950 manna þjóðfund til að
leggja grunninn að nýrri stjórnarskrá. Allir Íslendingar 18 ára og eldri
höfðu jafna möguleika á að veljast til setu á þjóðfundi. Sjálfstæðismenn
á þingi gerðu strax lítið úr þjóðfundinum, þótt þeir ættu frumkvæði að
honum; sennilega líkaði þeim ekki niðurstaða þjóðfundarins. Næst var
kosið til Stjórnlagaþings. Hæstiréttur úrskurðaði kosninguna ógilda,
þótt hann skorti lagaheimild til þess eins og ég hef ásamt öðrum lýst á
prenti. Átta af níu dómurum í réttinum á þeim tíma höfðu tekið við
skipun í embætti úr hendi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Alþingi
skipaði í stjórnlagaráð þá 25 fulltrúa, sem flest atkvæði fengu í
kosningunni til stjórnlagaþings. Stjórnlagaráð samdi frumvarp í því sem
næst fullu samræmi við niðurstöður þjóðfundarins og samþykkti það einum
rómi með 25 atkvæðum gegn engu. Sjálfstæðismenn vefengdu umboð
Stjórnlagaráðs eins og Alþingi væri ekki heimilt að skipa ráðið og
kölluðu ráðið jafnvel „ólöglegt“.
|
Alþingi bauð kjósendum
til þjóðaratkvæðis um frumvarpið, og þar sögðust 67% kjósenda styðja
frumvarpið
sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá. Sjálfstæðismenn kölluðu
þjóðaratkvæðagreiðsluna „skoðanakönnun“ til að gera lítið úr henni og
eignuðu sér ógreidd atkvæði. Alþingi hefur kosið að gera tiltölulega
lítils háttar breytingar á frumvarpinu eftir að hafa ráðfært sig við
fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga. Frumvarpið eru nú fullbúið í
endanlegri gerð að loknum einhverju lengstu umræðum, sem nokkurn tímann
hafa farið fram um nokkurt mál á Alþingi.
Fyrir liggur, að 32 þingmenn af 63
hafa lýst því yfir, að þeir
muni „virða vilja kjósenda og greiða atkvæði
með nýju stjórnarskránni áður en Alþingi lýkur störfum fyrir kosningar“,
sjá
20.oktober.is. Í þessum 32ja þingmanna hópi eru 17 af 19 þingmönnum
Samfylkingar, allir nema nýkjörinn formaður flokksins og forseti
Alþingis. Formaðurinn hefur ásamt tveim öðrum flutt tillögu um frestun
málsins fram á næsta þing, sem ber dauðann í sér, og þingforsetinn gælir
við að trampa á þjóðarviljanum með því að slíta Alþingi, áður en til
afgreiðslu málsins kemur. Þau virðast líta á stjórnarskrármálið sem
hvert annað þingmál og skeyta í engu um niðurstöðu
þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október.
En þau eru í minni hluta í eigin flokki, meðal þjóðarinnar og einnig á
Alþingi og mega því ekki með nokkru móti fá að ráða ferðinni. Hvernig
eiga kjósendur að geta treyst loforðum þingmanna um bindandi
þjóðaratkvæði um væntanlegan ESB-samning, ef úrslit
þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýja stjórnarskrá 2012 verða að engu höfð?
Telji þingmeirihlutinn að baki nýrrar stjórnarskrár rétt að taka tillit
til óska sjálfstæðismanna á þingi þrátt fyrir allt, sem á undan er
gengið, er hægt að halda nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um endanlega gerð
frumvarpsins. Ekki tóku þó sjálfstæðismenn á Alþingi slíkt tillit til
framsóknarmanna, sem börðust af hörku gegn stjórnarskrárbreytingunum
1942 og 1959 til að verja hagsmuni sína.
|