 |
Þorsteinn Gíslason (1867-1938).
Ritstjóri og skáld. Las norræna tungu og bókmenntir í Háskólanum í
Kaupmannahöfn, en fékk ekki að taka próf, þar eð heimspekideild háskólans
viðurkenndi ekki íslenzkar bókmenntir eftir 1500 sem verðugt ritgerðarefni.
Þessi neitun gaf honum tilefni til að ítreka tillögu sína um stofnun íslenzks
háskóla, en tillaga hans um það hafði áður verið felld á fundi íslenzkra
stúdenta í Höfn með 20 atkvæðum gegn 1. Hann var skilnaðarmaður í stjórnlagadeilunni
við Dani. Þorsteinn var ritstjóri Sunnanfara
(1894-1898), Dagskrár (1896-1897,
með Einari Benediktssyni), Íslands
(1897-1899), Bjarka (1899-1904, með
Þorsteini Erlingssyni), Skírnis
(1903), Óðins (1905-1936), Lögréttu (1906-1936) og Morgunblaðsins
(1920-1924). Í bundnu máli birti hann Kvæði
(1893), Nokkur kvæði (1904), Ljóðmæli
(1920), Dægurflugur (1925) og Önnur
ljóðmæli (1933). Hann birti einnig laust mál, meðal annars Þætti
úr stjórnmálasögu Íslands árin 1896-1918 (1936) og margar þýðingar
á verkum eftir Björnstjerne Björnson, Fjodor Dostojevskí, Emile Zola,
Rudyard Kipling, Guy de Maupassant, Walter Scott, Gunnar Gunnarsson og Henrik
Ibsen.
|