Næsti bær við landráð? – af gáleysi
Á fjölmennum útifundum á Austurvelli í vor leið voru haldnar margar
góðar ræður líkt og á útifundunum, sem steyptu ríkisstjórn
Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í febrúar 2009, fáeinum
mánuðum eftir hrun. Tilefni fundanna nú í vor var sú fyrirætlan Alþingis
að draga til baka umsókn Íslands frá 2009 um aðild að ESB, án þess að
fólkið í landinu fengi nokkuð um málið að segja. Þessi ráðagerð var
athugaverð af tveim ástæðum. Annars vegar höfðu báðir
ríkisstjórnarflokkarnir lofað því statt og stöðugt, að málið yrði til
lykta leitt með þjóðaratkvæði. Hins vegar hefði einhliða uppsögn
samningaviðræðna við ESB haft þau áhrif, að nær ógerlegt hefði verið að
taka þráðinn upp aftur á næstu árum, þar eð þá þyrfti upp á nýtt að afla
samþykkis allra einstakra aðildarlanda ESB; hvert einstakt land í
sambandinu hefði þá neitunarvald. Hér hugði ríkisstjórnin því á fáheyrt
skemmdarverk í skjóli meiri hluta síns á Alþingi.
Fólkinu, sem fylkti liði á Austurvöll laugardag eftir laugardag í vetur
og vor og skrifaði tugþúsundum saman undir áskorun til Alþingis um að
sjá sig um hönd, tókst að hrinda þessari árás Alþingis á lýðræðið. Enn á
lýðræðið samt undir högg að sækja. Það er varla tilviljun, að þessir
atburðir eiga sér stað hér heima á sama tíma og þjóðremba veður uppi í
evrópskum stjórnmálum og teygir sig jafnvel hingað heim í fásinnið í
fyrsta sinn frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Hér má greina munstur. |
Aðför Alþingis að lýðræðinu í ESB-málinu er angi á miklum meiði. Alþingi
situr á svikráðum við lýðræðið eins og dæmin sanna. Það tókst með
naumindum að fá þingið ofan af því eða a.m.k. fresta því að rjúfa heit
sitt um þjóðaratkvæði um ESB-málið. Alþingi lætur þó engan bilbug á sér
finna í stjórnarskrármálinu, miklu brýnna máli. Um það mál var haldin
þjóðaratkvæðagreiðsla 2012, þótt núverandi ríkisstjórnarflokkar reyndu
koma í veg fyrir hana. Tveir þriðju hlutar kjósenda lýstu stuðningi við
nýja stjórnarskrá. Með þeim úrslitum hefði málinu átt að ljúka. Alþingi
ætlar samt að láta þjóðaratkvæðagreiðsluna sem vind um eyru þjóta.
Það hefur aldrei fyrr gerzt í
lýðræðisríki, að löggjafarsamkoman virði að vettugi þjóðaratkvæði um
nýja stjórnarskrá. Þvílíkt athæfi er rétt nefnd tilraun til valdaráns.
Það hefur ekki heldur gerzt í nokkru lýðræðisríki, aldrei nokkurn
tímann, að þjóðkjör hafi verið úrskurðað ógilt í heilu lagi líkt og sex
hæstaréttardómarar, þar af fimm skipaðir í embætti af dómsmálaráðherra
Sjálfstæðisflokksins, gerðu að lokinni kosningu til Stjórnlagaþings
2010. Guðbjörn Jónsson fv. ráðgjafi færði í opnu bréfi til Hæstaréttar
sannfærandi rök að því, að úrskurðurinn væri beinlínis ólöglegur. |
Skoðanir einstakra manna innan þings og utan á nýrri stjórnarskrá hættu
að skipta hagnýtu máli, eftir að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012
lágu fyrir. Úrslitin voru endanleg líkt og úrslit allra annarra
kosninga. Engum leyfist, ekki heldur Alþingi, að vanvirða
kosningaúrslit. Þeir, sem telja sig hafna yfir úrslit
þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá eða úrslit annarra kosninga,
grafa undan lýðræðinu. Þeir, sem hefðu heldur kosið, að einstök ákvæði
nýrrar stjórnarskrár hljóðuðu öðruvísi, þurfa að bíða næstu
endurskoðunar, vonandi eftir 20-30 ár frekar en 70. Það er gangur
leiksins í lýðræðisríkjum.
Guðrún Pétursdóttir, fv. formaður stjórnlaganefndar, hvatti
fundarmenn á Austurvelli í vor til að rifja um skilgreiningu orðsins
landráð. Um þetta segir í hegningarlögum: „Hver, sem
sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með …
svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend
yfirráð… skal sæta fangelsi ekki skemur en 4 ár eða ævilangt.“ Á
þetta þrönga ákvæði hefur aldrei reynt fyrir dómstólum. Ákvæðið er barn
síns tíma: það voru þau ár um ofanverða nítjándu öld, þegar þjóðríkin
voru að hasla sér völl fyrir tíma alþjóðasamstarfs og efnahagsbandalaga
nútímans. Í nútíma lýðræðisríki væri nær, að í stað orðanna „ráða
íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð“ kæmi heldur „leysa
íslenska ríkið eða hluta þess undan yfirráðum kjósenda.“ Slíkur texti
leggur að jöfnu svik t.d. auðlinda í þjóðareigu undir erlend yfirráð og
undir yfirráð innlendra hagsmunahópa. |
Halldór Laxness skildi þetta. Hann lætur Arnald segja við Sölku Völku:
„Hvað var það, sem gerðist 1874, þegar fjárhagur okkar var aðskilinn
Danmörku? Í raun og veru ekki annað en það, að arðránið af alþýðunni
færðist inn í landið. Það voru bara höfð þjóðernaskipti á ræningjunum.“ |