MBA nám við Háskóla Íslands

Ræða flutt á Háskólafundi 19. maí 2000

Eitt helsta viðfangsefni hagfræði er skortur, raunar snýst fræðigreinin um þetta hugtak og viðbrögð manna við því. Skortur birtist t.d. í því að Háskóli Íslands getur ekki boðið nemendum sínum upp á alla þá þjónustu sem hugsanleg er, getur ekki kennt allar námsgreinar sem til eru, getur ekki rannsakað öll fyrirbrigði sem vert er að rannsaka og getur ekki greitt starfsmönnum sínum ótakmörkuð laun. Skortur birtist líka í því að ríkið getur ekki veitt þegnum sínum alla þá þjónustu sem þeir óska, það er ekki hægt að grafa öll þau jarðgöng sem að gagni gætu komið, tvöfalda alla vegi, lækna alla sem þjást af læknanlegum kvillum, bjóða öllum foreldrum dagvist fyrir börn þeirra og svo mætti lengi telja. Það skiptir engu hve þungar byrðar vilji er til að leggja á skattborgarana, fyrr eða síðar þrýtur ríkissjóð fé og óendanlega mörg þörf verkefni verða óleyst.

Viðbrögðin við skorti eru margvísleg en eitt er alltaf óhjákvæmilegt, að velja og hafna eða m.ö.o. forgangsraða. Þegar stjórnmálamenn taka ákvarðanir um skiptingu ríkisútgjalda eru þeir að forgangsraða, það er svo og svo mikilvægt að stytta biðlista á sjúkrahúsum, svo og svo mikilvægt að gera göt á tiltekin fjöll og svo mætti lengi telja. Einhvers staðar í forgangsröðinni lendir starfsemi Háskóla Íslands. Allt of neðarlega að mínu mati og sennilega allra hérna inni.

En jafnvel þótt það takist að þoka Háskólanum eitthvað ofar í þessari forgangsröð og auka það sem er til skiptanna innan hans verður það aldrei nóg. Sem dæmi má nefna að það myndi sennilega kosta eitthvað nálægt 100 milljónum króna á ári að veita nemendum í viðskiptafræði við H.Í. sambærilega þjónustu hvað varðar fjölda í námskeiðum og fjölda nemenda á hvern kennara og tíðkast í öðrum skólum á landinu sem kenna viðskiptagreinar á háskólastigi. Þá þyrfti enginn að sitja lengur í tíma með 600 manns í kvikmyndahúsi, skrifandi glósur í stílabók sem hann hefur í kjöltunni. Ef meira fé fæst til kennslu í viðskiptafræðum væri þetta sennilega efst í forgangsröðinni innan viðskipta- og hagfræðideildar. Ef meira fé fengist mætti bæta lesaðstöðu nemenda, fjölga tölvuverum, kaupa fræðirit og svo mætti lengi telja, raunar nær út í það óendanlega - og þó er ég ekki einu sinni búinn að nefna rannsóknir.

Eitt af þeim verkefnum sem er þarft, fjöldi manns hefur áhuga á og viðskiptalífið hefur tekið opnum örmum er ýmiss konar nám með starfi, menntun fyrir fólk sem hefur þegar lokið háskólaprófi en vill setjast aftur á skólabekk í kvöldskóla og bæta við sig þekkingu í viðskiptafræði. Háskólinn hefur brugðist við þessari þörf á myndarlegan hátt og í nokkur ár boðið upp á slíka kennslu. Námskeiðin hafa verið haldin á vegum Endurmenntunarstofnunar, og kennarar að stórum hluta komið úr röðum kennara viðskipta- og hagfræðideildar. Viðtökurnar hafa verið svo góðar að námsframboðið hefur sífellt aukist og nú er t.d. hægt að taka þar 5 missera nám í viðskiptafræði sem metið er til 30 eininga. Allt þetta nám hefur þá sérstöðu innan Háskólans að það stendur undir sér sjálft með greiðslum frá nemendum. Það er með öðrum orðum tekið út úr forgangsröðinni og um leið komið í veg fyrir að það keppi við annað nám innan skólans á takmörkuðu fjármuni sem fást frá ríkinu. Á þessu hagnast allir sem að málinu koma, nemendur fá góða menntun, þjóðfélagið fær betur mennað fólk, kennarar fá greitt fyrir vinnu sína. Háskólinn sem heild getur verið stoltur af þessari starfsemi.

Fyrirhugað MBA nám er næsta skrefið. Þetta er nám fyrir fólk sem hefur þegar lokið háskólaprófi, hefur staðið sig vel í starfi í nokkur ár, og vill setjast aftur á skólabekk til að bæta við sig þekkingu í viðskiptafræði. Það leikur því enginn vafi á því að þetta er endurmenntun, fólk snýr aftur í skóla til að bæta við sig þekkingu. Það er enginn eðlismunur á MBA náminu og því rekstrar- og viðskiptanámi sem Endurmenntunarstofnun hefur byggt svo glæsilega upp undanfarin ár. Það er að sönnu meira í lagt í MBA náminu, það kostar meira, er á meistarastigi og nemendur hljóta á endanum háskólagráðu í stað viðurkenningarskjals en annar er munurinn ekki.

Þetta er sama leið og þær þjóðir sem við berum okkur yfirleitt saman við hafa farið. Á Norðurlöndunum er tekið gjald fyrir MBA nám jafnvel þar sem annað háskólanám er að fullu greitt af skattgreiðendum. Þar eins og hér vegur þetta á engan hátt að jafnrétti til náms. MBA nám er ágætis fjárfesting og þeir sem vilja leggja út í hana geta fengið til þess lán, á Íslandi frá LÍN. Gjaldið sem hefur verið rætt um hérlendis er með því lægsta sem þekkist og mun lægra en það sem hæst tíðkast. Þeir sem fara í námið hafa alla jafna a.m.k. þokkalegar tekjur fyrir og þær hækka að námi loknu, það sýnir reynslan. Fjárfestingin borgar sig því upp á fáum árum. Þetta er vitaskuld ekki nám fyrir hvern sem er, frekar en annað nám, en skólagjöldin hindra engan frá námi. Það er vitaskuld lykilatriði fyrir þá sem er annt um jafnrétti til náms og ég er tvímælalaust í þeirra hópi.

Námsmenn hafa skiljanlega af því nokkrar áhyggjur að skref eins og þetta verði til þess að skólagjöld verði almennt lögð á í Háskólanum. Það er erfitt að sjá að sá kvíði sé á rökum reistur enda hafa engar tillögur komið fram í þá vegu og slíkar hugmyndir virðast lítinn sem engan hljómgrunn hafa, hvorki meðal almennings, stjórnmálamanna né háskólakennara. Námsmönnum er því alveg óhætt að koma upp úr skotgröfunum þess vegna. Það hefði líka þann kost að útsýnið batnaði, það er mun betra úr fílabeinsturninum en skotgröfunum.

Það er í þessu samhengi vert að hafa í huga að innan viðskipta- og hagfræðideildar hefur verið byggt upp, af miklu harðfylgi en með mjög takmörkuðum fjármunum, myndarlegt M.S. nám undanfarin tíu ár og fyrstu doktorsnemarnir eru væntanlegir í haust. Þetta er helsti vaxtarbroddurinn í starfi deildarinnar, það eru komnir á annað hundrað nemendur í M.S. nám og fer ört fjölgandi.

Þetta nám er hefðbundið háskólanám, sérfræðinám í dagskóla fyrir fólk sem hefur lokið B.S. prófi í viðskiptafræði eða hagfræði eða öðru sambærilegu námi. Þetta nám er í örum vexti og verður vitaskuld eftir sem áður í boði fyrir svona á að giska fjórðung af verði sólarlandaferðar á ári. Um þriðjungur, í sumum tilfellum helmingur, af námi hvers nemanda í þessu námi er fólginn í viðamikilli rannsókn. Nemendur vinna sem sé í eitt eða tvö misseri og yfirleitt kauplaust að rannsóknum. Það væri afar langsótt að ætlast til að fólk greiði með sér í slíku námi enda er engin önnur leið jafnódýr fyrir hið opinbera til að fá þessar rannsóknir unnar.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá tapar enginn á því að leyfa fyrirhugað MBA nám við HÍ. MBA nemarnir koma af fúsum og frjálsum vilja og fá gott nám við góðar aðstæður, annað nám og rannsóknir við skólann verða ekki af neinu fé, kennarar fá greitt og þjóðfélagið fær betur menntað fólk. Hinn kosturinn er að segja við þá sem vilja hefja nám, nei því miður, það er að vísu búið að skipuleggja ágætis nám og útvega til þess kennara og aðra aðstöðu en það má ekki gera þetta nema ókeypis og til þess er ekkert fé.