Birt í Morgunblaðinu 17. júní 2000.

Ef Háskóli Íslands væri ríkasti skóli í heimi...

eftir Gylfa Magnússon

Sem kunnugt er mun Háskóli Íslands í haust bjóða fólki sem hefur lokið háskólaprófi og starfað um nokkurra ára skeið að snúa aftur á skólabekk og ljúka meistaranámi í viðskiptafræði, MBA prófi, í kvöldskóla með vinnu. Þegar er farið að taka við umsóknum og rennur umsóknarfrestur út í lok mánaðarins. Óhætt er að segja að viðtökur atvinnulífsins og tilvonandi nemenda hafa verið framar vonum, raunar er allt útlit fyrir að mun færri fái en vilji. Þó hafa heyrst raddir á vettvangi stjórnmálanna sem eru ósáttar við fyrirkomulag námsins og fulltrúar nemenda í öðru námi við H.Í. hafa beitt sér gegn því. Margt af því sem fram hefur komið við þessa umræðu er gagnlegt en annað því miður rangt og óhjákvæmilegt að leiðrétta það.

Helsti ásteytingarsteinninn hefur verið gjaldtakan en nemendur munu greiða 1250 þúsund fyrir tveggja ára nám. Fyrir liggur að þeir geta fengið lán á hagstæðum kjörum hjá LÍN til að greiða skólagjöldin. Almennir nemendur við skólann greiða 25 þúsund krónur í skólagjöld á ári.

Ör vöxtur hefur verið í ýmiss konar endurmenntun á Íslandi og H.Í. verið þar í fararbroddi. Fólk sem þegar hefur lokið námi og hafið störf hefur sest aftur á skólabekk um lengri eða skemmri tíma. Undantekningalítið hefur verið tekið gjald fyrir þessa endurmenntun, hvort heldur fyrir einstök námskeið eða lengra nám. Skýr lagaheimild er fyrir gjaldtökunni, hvort heldur er hjá ríkis- eða einkaskólum.

Hugsunin á bak við gjaldtökuna er auðskilin. Annars vegar hefur sérhver einstaklingur fengið góða almenna menntun greidda af skattfé, hvort heldur er í grunn-, framhalds- eða háskóla. Allt upp í doktorspróf ef áhugi og geta er fyrir hendi. Hins vegar þarf fólk að standa á eigin fótum þegar það er komið út á vinnumarkað með almennt nám sitt að vegarnesti og greiða fyrir endurmenntun.

Þeir sem vilja læra viðskipta- eða hagfræði geta m.a. gert það á þessum forsendum við H.Í. Viðskipta- og hagfræðideild hefur frá stofnun boðið upp á grunnnám í viðskiptafræði, boðið upp á rannsóknatengt meistaranám í áratug og býður nú einnig upp á doktorsnám. Allt er þetta nám án annarra skólagjalda en fyrrgreindra 25 þúsund króna. Ekkert af því er skipulagt sem endurmenntun og engin krafa gerð um starfsreynslu þótt ekkert sé því til fyrirstöðu að fólk sem hefur tekið sér hlé frá námi um tíma innriti sig á ný, á hverju ári gera það fjölmargir með ágætum árangri. Meistaranámið er framhaldsnám fyrir viðskipta- og hagfræðinga. Því lýkur með viðamikilli rannsókn og nemendur hljóta M.S. gráðu. M.S. námið hefur verið helsti vaxtarbroddurinn í starfi deildarinnar undanfarin ár þótt aðsókn í annað nám hafi líka aukist til muna og nú eru ríflega 100 nemendur skráðir í það.

Þótt H.Í. hafi þannig lagt mikið af mörkunum til þess að Íslendingar geti búið sig undir störf með því að mennta sig í viðskiptafræðum hefur berlega komið í ljós þörf fyrir meira nám og einkum fyrir þá sem þegar hafa lokið háskólanámi og hafið störf. Í þjóðfélagi sem tekur örum breytingum og þar sem þekkingu fleytir fram er þetta ekki skrýtið, sá sem ekki bætir við kunnáttu dregst smám saman aftur úr.

Þróunin er sú sama í nágrannalöndunum. Háskólar bjóða upp á sífellt meiri möguleika á endurmenntun. MBA nám er einn angi af þessum meið og enginn eðlismunur á honum og öðru endurmenntunarnámi, t.d. ýmiss konar nokkurra missera námi í viðskiptafræðum sem Endurmenntunarstofnun H.Í. hefur boðið upp á um árabil. Það er þó stigsmunur, talsvert meira er í lagt, bæði af hálfu nemenda og kennara í MBA námi, og nemendur fá prófgráðu.

Þess misskilnings hefur gætt hjá nokkrum sem hafa tjáð sig opinberlega um MBA námið að þeir telja að H.Í. hafi skipulagt námið sem endurmenntun gagngert til að geta tekið fyrir það gjald. Því fer fjarri, MBA nám er alls staðar með sama hætti og hér verður. Gerð er krafa um að nemendur hafi þegar lokið háskólaprófi og starfað í nokkur ár en séu að snúa aftur til að setjast á skólabekk. Algengt er að krafist sé þriggja ára starfsreynslu en að jafnaði hafa nemendur verið mun lengur frá námi.

Vitaskuld er þó ekki sjálfgefið að mörkin á milli þess náms sem skattgreiðendur standa straum af og þess sem nemendur greiða sjálfir liggi á línunni á milli almenns náms og endurmenntunar. Það er í eðli sínu pólitísk spurning en þetta eru mörkin sem Alþingi hefur sett. Nágrannaþjóðir okkar hafa sett svipuð mörk. Ekki er því langt að sækja fyrirmyndir að því fyrirkomulagi sem Háskólinn leggur til. Sem dæmi má nefna að við Verslunarháskólann í Kaupmannahöfn er boðið upp á MBA nám. Annað nám við skólann, þ. á m. almennt meistaranám í viðskiptafræði, er án skólagjalda. Skólagjöldin fyrir MBA námið eru hins vegar 140.000 danskar krónur eða rétt um 1,4 milljónir íslenskar. Við Verslunarháskólann í Gautaborg eru skólagjöld í MBA námi svipuð eða 148.000 sænskar krónur, en almennt háskólanám án endurgjalds. Í Bergen eru tveir verslunarháskólar og tekur annar 160.000 norskar krónur en hinn 136.000 fyrir MBA nám. Skólagjöldin í MBA námi við H.&Iacuth;a svipuð og við þessa skóla í nágrannalöndunum og raunar í lægri kantinum. Þetta er einfaldlega sú upphæð sem það kostar að kenna til MBA prófs með því fyrirkomulagi sem almennt tíðkast.

Efist einhver enn um að MBA nám sé endurmenntun má geta þess að í Danmörku er nafnið videre- og efteruddannelse notað til að lýsa náminu og í Noregi etter- og videreutdanning eða bara etterutdanning.

Í nýlegri samantekt tímaritsins U.S. News and World Report um MBA nám í Bandaríkjunum kom fram að skólagjöld í 50 helstu viðskiptaskólum þar væru að meðaltali um 3,3 milljónir króna. Í sumum fylkisskólum fá heimamenn smáafslátt en hann lækkar þó meðaltalið lítið. Námið í þeim dýrustu kostar yfir fjórar milljónir. Af þessum 50 skólum tekur einungis einn lægri skólagjöld en H.Í. en þó rúm 1.200 þúsund. Þetta er skóli mormóna í Utah.

Nemendur fá góða ávöxtun á þetta fé. Meðaltekjur þeirra hækka talsvert meira en þarf til að endurgreiða skólagjöldin og bæta nemendum tekjur sem þeir verða af meðan á námi stendur. Það stuðlar því ekki að jafnari aðgangi að menntun að bjóða upp á MBA nám án skólagjalda. Þeir sem á annað borð eiga erindi í það geta fengið til þess lán sem þeir eiga ekki í erfiðleikum með að endurgreiða. Reynslan sýnir að námið verður sennilega með betri fjárfestingum sem þeir gera um ævina.

Sömu sögu er að segja um skólagjöld í öðrum löndum og hefur undirritaður ekki fundið neinn skóla sem býður upp á MBA nám án skólagjalda þrátt fyrir talsverða leit. Það væri því sérkennilegt ef H.Í. hefði gert það og furðuleg ráðstöfun í ljósi þess að skólann sárvantar fé til að bæta almenna kennslu og rannsóknir. Ókeypis MBA nám væri í engu samræmi við það sem tíðkast erlendis, ekki einu sinni í þeim löndum sem mesta áherslu leggja á jafnrétti til náms óháð efnahag. Það væri eiginlega merki þess að Háskóli Íslands væri ríkasti háskóli í heimi.

Höfundur er dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands