Að veita eða þiggja - verkaskipting kynslóða.

Fyrirlestur haldinn á ráðstefnu um sjálfsákvörðunarrétt aldraðra á vegum Siðfræðistofnunar H.Í., 26. nóvember 1999.

Fundarstjóri, ágætu fundargestir

Því er stundum haldið fram að við sem búum á þessari jörð eigum hana ekki. Við höfum hana eingöngu að láni frá afkomendum okkar. Þetta er að ýmsu leyti heillandi hugmynd. Sennilega stenst þessi túlkun á eignarrétti ekki ýtrustu kröfur lögspekinga en því verður þó ekki á móti mælt að það umhverfi sem hver einstaklingur fæðist inn í er mótað af athöfnum fyrri kynslóða. Þau veraldlegu gæði, þjóðskipulag, þekking og annað sem hver kynslóð fær í vöggugjöf eru arfur frá fyrri kynslóðum.

Ungiviðið fær fleira frá þeim sem fyrr eru fæddir, foreldrar ala upp börn sín, skattgreiðendur greiða fyrir menntun þeirra og heilsugæslu og smám saman vaxa úr grasi einstaklingar sem sjálfir skapa verðmæti, ala upp börn og greiða skatta. Einstaklingar sem byggja bæði upp þjóðfélag og erfingja til að taka við því.

Þannig hamast einn hópur þjóðfélagsþegna við að framleiða vörur og þjónustu, byggja upp fyrirtæki, hús, leggja vegi, gera hafnir, flugvelli og svo mætti lengi telja. Sumir skila sínu úti á því sem almennt er kallað vinnumarkaður, aðrir innan veggja heimilisins en það er engin ástæða til að gera greinarmun á þeim hér.

Annar hópur þjóðfélagsþegna undirbýr sig fyrir að taka við hlutverki fyrstnefnda hópsins. Þriðji hópurinn hefur þegar að mestu skilað sínu og er horfinn út af vinnumarkaðinum.

Þessi verkaskipting kynslóðanna er vitaskuld ekki ný af nálinni. Svona hefur þetta verið frá örófi alda. En þótt hlutverkin séu þau sömu og þau hafa alltaf verið hefur fjöldi þeirra sem leika hvert hlutverk gjörbreyst. Þeir yngstu eru miklu lengur að búa sig undir að fara á vinnumarkað. Að nokkru leyti endurspeglar það flóknara þjóðfélag, það tekur einfaldlega lengri tíma að læra á nútímann en einföld samfélög fyrri alda. Það er meira vitað og því meira að læra. Að öðru leyti endurspeglar það aukna framleiðslugetu hvers einstaklings og því minni þörf fyrir vinnu ungmenna. Þegar lífsbaráttan var hörð og ævin stutt þurftu allir að taka til hendinni um leið og þeir gátu að gagni komið.

Það er því sífellt verið að klípa neðan af, ef svo má að orði komast, hópi þeirra sem bera hitann og þungann af því að snúa hjólum efnahagslífsins.

Á efri mörkunum er myndin flóknari. Þegar lífsbaráttan var harðari vann fólk einfaldlega þangað til það var að þrotum komið. Sumir gera það enn en flestir hætta störfum áður. Sumir hætta vegna þess að þeir eiga ekki annars kost, er skipað að hætta störfum en aðrir hætta óþvingaðir. Margir vildu hætta fyrr en þeir gera en sjá fram á að þeir geta ekki veitt sér þau lífskjör sem þeir telja æskileg eða a.m.k. ásættanleg nema með því að halda áfram vinnu. Þarna er vitaskuld kominn snertiflötur við yfirskrift þessarar ráðstefnu; sjálfsákvörðunarréttur aldraðra. Hver tekur ákvörðun um það að einstaklingur fari út af vinnumarkaðinum aldurs síns vegna?

Hið opinbera miðar yfirleitt við 70 ár og það er líka algengt í einkageiranum. Fyrir vikið verða þeir sem ná sjötugsaldri og vinna hjá þessum aðilum að draga sig í hlé. Sumir atvinnurekendur nota önnur mörk, oftast lægri, einhverjir alls engin. Þeir sem eru sjálfstæðir atvinnurekendur þurfa ekki að bera ákvörðun um að halda áfram störfum undir neinn nema sjálfan sig.

Hvers vegna setur hið opinbera - eða einkageirinn - slík mörk? Ríkisvaldið setur reyndar alls konar aldursmörk, það þarf að vera sautján til að fá bílpróf, átján til að gifta sig, kjósa og taka lán, tvítugur til að drekka áfengi og svo mætti lengi telja. Öll þessi mörk eru vitaskuld nokkuð handahófskennd en tekin hefur verið ákvörðun á vettvangi stjórnmálanna um að svona eigi þau að vera. Rökstuðningurinn er yfirleitt af þeim toga að yngra fólk en mörkin tilgreina kunni ekki nógu vel fótum sínum forráð til að taka sjálft ákvarðanir sem eru þeim sjálfum og meðborgurum sínum fyrir bestu. Mörkin eru m.ö.o. sett til að koma í veg fyrir að fólk sem samfélagið telur ekki hæft til að taka ákvarðanir taki þær.

Það er erfitt, svo að ekki sé meira sagt, að sjá hvers vegna setja eigi reglur til að vernda fólk á t.d. sjötugsaldri fyrir sjálfu sér. Það breytist ýmislegt með aldri en heilbrigð manneskja tapar ekki dómgreind vegna aldurs, tapar ekki hæfileikanum til að meta hvað er henni sjálfri fyrir bestu.

Er þá hugsanlegt að þótt fólk geti sjálft metið hvenær því er sjálfu fyrir bestu að draga sig út af vinnumarkaðinum geti verið að eigi það þess kost muni það vinna svo lengi að það skaðar með einhverjum hætti hagsmuni annarra? Þetta hljómar sennilega dálítið undarlega í eyrum flestra; hvernig getur það skaðað hagsmuni annarra að einstaklingur mæti samviskusamlega í vinnuna þótt roskinn sé?

Víða erlendis hefur slík röksemdafærsla þó verið notuð til að nánast reka kerfisbundið fólk á sjötugs- og jafnvel sextugsaldri út af vinnumarkaði. Í löndum eins og Þýskalandi og Frakklandi þar sem atvinnuleysi er landlægt hefur þessi hugmynd átt sérstaklega mikinn hljómgrunn. Þá er ætlunin að rýma með einhverjum hætti fyrir yngra fólk á vinnumarkaði með því að ýta eldra fólki út af honum. Það er út af fyrir sig álitamál hvort þetta er hægt, hvort þetta virki í þeim skilningi að fleiri ungir fái vinnu fyrir vikið. Ef fjöldi starfa væri óbreytanleg stærð ætti þetta kannski við en það er fátt sem bendir til þess. Angi af sama meiði er að sífellt er verið að stytta vinnuvikuna til að reyna að fjölga störfum í þessum löndum. Það er fátt sem bendir til þess að það hafi tilætluð áhrif heldur.

Hvað um það. Á Íslandi hefur lengst af ekki verið neitt atvinnuleysi sem heitið getur. Þvert á móti hefur verið nóg fyrir allar vinnufúsar hendur að gera. Hvort sem það er hægt að rýma til fyrir ungum á vinnumarkaði með því að ýta út öldruðum erlendis eða ekki ætti því að vera ljóst að engin ástæða er til að reyna það á Íslandi.

Ef það er ekki verið að vernda aldraða sjálfa og ekki verja hagsmuni annarra sem keppa við þá um störf með því að setja reglur um hámarksaldur starfsmanna eru fáir eftir nema atvinnurekendur. Er hugsanlegt að verið sé að vernda hagsmuni þeirra með þessu?

Alla jafna virðist óhætt að treysta því að atvinnurekendur séu fullfærir um að vernda hagsmuni sína sjálfir, þar á meðal að velja og hafna starfsfólki. Ef atvinnurekendur setja reglur um hámarksaldur þá telja þeir væntanlega að það þjóni hagsmunum fyrirtækjanna.

Það getur raunar líka verið að svo sé. Það væri merki um vinnumarkað sem er óskilvirkur í þeim skilningi að þeir sem eru vinnufúsir og vel hæfir til verka ná ekki að selja vinnu sína.

Slík staða getur komið upp fyrir ýmissra hluta sakir. Ein hugsanleg ástæða er vanmat atvinnurekenda á getu aldraðra. Það kemur sjálfsagt fyrir en ekki er mjög trúverðugt að sú skýring dugi nema skammt, einfaldlega vegna þess að væri þetta tilfellið væri hægt að hagnast og það jafnvel verulega á að ráða í vinnu aldraða sem hafa verið neyddir til að leggja niður störf áður en þeir óskuðu þess og áður en starfskraftar þeirra þrutu.

Önnur hugsanleg skýring er stífni kjarasamninga. Að vinna aldraðra sé seld of dýru verði. Það er algengt að í kjarasamningum séu ákvæði sem tryggja launþegum aukin réttindi með aldri, þar á meðal launaflokkahækkanir. Ef afkastageta vex ekki með aldri, hvað þá ef hún dvínar að einhverju marki, þá geta slík kerfi auðveldlega gert það ódýrara fyrir atvinnurekendur að ráða unga en aldraða og freistandi að reyna að koma elstu starfsmönnunum út af launaskrá.

Þriðja skýringin er eiginlega félagsleg, það er ekkert tilhlökkunarefni fyrir atvinnurekanda að þurfa að velja á milli starfsmanna sem e.t.v. hafa unnið lengi hjá fyrirtæki, ákveða hvenær hver og einn á að hætta og leggja með þeim hætti dóm á hæfni hans. Það er heldur ekkert ánægjuefni að vera dæmdur óhæfur til verka með þeim hætti. Það er mun einfaldara að vísa bara í ákveðna reglu; eitt verði yfir alla að ganga, þótt við það verði fyrirtæki óhjákvæmilega stundum fyrir því að afar verðmætir starfsmenn séu látnir hætta þótt þeir væru óðfúsir að starfa lengur.

Ég ætla ekki að reyna að svara því hér hver þessara skýringa á því að atvinnurekendur setja flestir efri mörk á aldur starfsmanna er rétt, ef nokkur. Það er vissulega áhugaverð spurning og sennilega er hægt að svara henni en ég hef ekki svarið.

Engu að síður virðist ljóst að slík aldursmörk hafa ýmsa ókosti sem mikið væri til vinnandi að komast hjá. Það má skoða ýmsar leiðir. Sveigjanlegri vinnutíma, svo að hægt sé að minnka við sig vinnu án þess að ljúka alveg störfum. Möguleika á að færa sig til innan fyrirtækja, hugsanlega í störf sem nýta betur kosti eldri starfsmanna, svo sem reynslu og yfirsýn, en fela yngri starfsmönnum störf sem nýta betur aðra eiginleika. Launakerfi sem býður fólki sem vill draga úr álagi að halda áfram störfum við lægri launum og svo mætti lengi telja. Lausnarorðin eru sveigjanleiki og samningalipurð.

Í samfélögum fyrri alda þar sem fróðleikur var ekki nema að litlu eða jafnvel engu leyti skrifaður niður gegndu þeir eldri og reyndari lykilhlutverki löngu eftir að líkamlegt þrek þeirra fór minnkandi. Þeir varðveittu reynslu fyrri kynslóða og miðluðu henni til komandi kynslóða. Í krafti fróðleiks síns stjórnuðu öldungar iðulega samfélögum sínum.

Nú er allt skrifað niður eða geymt á tölvum svo að minni öldunga gegnir ekki lengur sama hlutverki og áður. Það er því athyglisvert að ýmis lönd hafa valið sér leiðtoga og ráðamenn sem eru talsvert eldri en sá aldur sem aðrir opinberir starfsmenn þurfa að leggja niður störf við. Sem dæmi má nefna þá Winston Churchill, Ronald Reagan og François Mitterrand, sem allir voru um áttrætt þegar þeir fóru frá völdum. Það er líka algengt að öldungar séu á launaskrá ríkis sem hæstaréttardómarar. Það virðist óneitanlega öfugsnúið að treysta fólki sem komið er yfir eftirlaunaaldur eingöngu fyrir æðstu embættum ríkis en meina því að gegna hversdagslegri störfum. Það sakar heldur ekki að hafa í huga að engum datt í hug að taka tónsprotann af Karajan eða pensilinn af Picasso þótt þeir væru komnir vel við aldur.

Tímans vegna verður þetta að nægja um þá sem hætta fyrr en þeir æskja en snúum okkur í þess stað að þeim sem vilja hætta fyrr en þeir gera og jafnframt kjörum þeirra sem eru hættir störfum.

Það er síðara tíma fyrirbrigði að til sé fjölmennur hópur fólks sem hefur hætt störfum á vinnumarkaði. Tilkoma þessa hóps endurspeglar í grófum dráttum tvennt, lengri ævi og miklu meiri framleiðslugetu sem hefur gert það kleift að láta sífellt minni hluta þjóðarinnar standa undir framleiðslu hennar. Í einfaldari samfélögum eru þeir sem eru þrotnir að starfskröftum yfirleitt upp á erfingja sína komnir um framfærslu. Þess gætir raunar enn í fátækum ríkjum að fólk eignast fjölda barna til að reyna að tryggja afkomu sína í ellinni.

Á Íslandi til forna tók hið opinbera í formi hreppa við þegar ættingjar gátu það ekki. Það var eins konar vísir að almannatryggingakerfi, þar á meðal ellilífeyri, þótt mjór væri. Tína má til fleiri slík dæmi en nútíma almannatryggingar eru yfirleitt raktar til Þýskalands undir forystu Bismarck á síðari hluta síðustu aldar - og já, Bismarck var kominn vel á áttræðisaldur þegar hann fór frá völdum.

Hvort heldur litið er til upphaflegs kerfis Bismarck eða til annarra landa sem hafa tekið upp ellilífeyrisgreiðslur frá hinu opinbera síðar þá kemur í ljós að undantekningalítið eða -laust hafa slík kerfi í fyrstu náð til mjög fárra. Aldursmörkin hafa verið svo há að einungis örlítið brot þjóðarinnar hefur náð þeim í fyrstu. Síðan hafa mörkin stundum verið lækkuð en meiru skiptir að ævi manna hefur lengst til muna. Fyrir vikið ná kerfi sem upphaflega voru hugsuð fyrir þá örfáu sem lifðu umtalsvert lengur en aðrir nú til stórs hluta þjóðarinnar. Sem dæmi má nefna Bandaríkin, sem tóku einna síðust vestrænna ríkja upp ellilífeyri sem hluta almannatrygginga, árið 1936. Þá var miðað við 65 ára aldur, aldur sem einungis lítið brot þjóðarinnar náði. Ágætur bandarískur fræðimaður, Peter Drucker, sem enn stundar ritstörf á tíræðisaldri, hefur áætlað að samsvarandi aldur í dag væri 79 ára þegar búið er að taka tillit til þess hve langlífi hefur aukist og heilsa aldraðra almennt batnað.

Hér er rétt að staldra við og til að setja hluti í samhengi velta því fyrir sér með hvaða rökum almennt eru teknar ákvarðanir á vettvangi stjórnmála um að skattleggja einn hluta samfélagsins til að styrkja annan hluta þess. Sú skýring sem hér skiptir mestu er viðleitni til tekjujöfnunar. Er ekki auðsýnt að þeir sem eru hættir að vinna hafa lægri tekjur en þeir sem vinna? Svo kann að virðast við fyrstu sýn - og jafnvel líka þegar nánar er að gáð - en það má þó ekki gleyma því að þeir sem eru hættir að vinna höfðu áður tekjur, jafnvel í sumum tilfellum mjög ríflegar, í öðrum tilfellum minni eins og gengur. Ef litið er á heildartekjur manna yfir alla ævi þeirra er ekki jafnauðsýnt að greiðslur sem renna til aldraðra frá þeim sem yngri eru sé hægt að réttlæta með viðleitni til tekjujöfnunar.

Með nokkurri einföldun má segja að þrír möguleikar séu á því að greiða fyrir neyslu þeirra sem hætt hafa störfum á vinnumarkaði, það er hægt að greiða fyrir hana með skattlagningu þeirra sem vinna, með því að þeir öldruðu gangi á eignir sínar eða með blöndu af þessu tvennu. Í raun er þetta val um annars vegar sjóðsmyndunarkerfi, þar sem fólk safnar í sjóð meðan það er á vinnumarkaði og gengur svo á hann eða gegnumstreymiskerfi, þar sem greiðslur frá þeim sem vinna renna beint til þeirra sem eru hættir að vinna. Að mörgun leyti er þetta þó bara spurning um mismunandi færslur í bókhaldi því að eftir sem áður stendur að þeir sem eru á vinnumarkaði framleiða öll þau gæði sem þjóðin neytir, hvaða leið svo sem farin er.

Sjóðsmyndunarkerfi er að því leyti betra að það verður augljóst að þeir sem fá greitt úr því eru ekki að þiggja ölmusu, þeir hafa unnið fyrir hverri krónu á sínum tíma. Greiðslur úr gegnumstreymiskerfi, þar með taldar lífeyrisgreiðslur almannatryggingakerfis, eru auðvitað heldur ekki ölmusa. Þeir sem fá þær hafa svo sannarlega unnið fyrir þeim meðan þeir voru á vinnumarkaði, þá framleiddu þeir þau gögn og gæði sem afkomendur þeirra og lífeyrisþegar þess tíma neyttu.

Spurningin um það hvort skattleggja eigi núverandi kynslóðir starfandi Íslendinga til að veita fé til aldraðra er auðvitað pólitísk spurning þegar öllu er á botninn hvolft. Alveg eins og spurningin um það hvort skattleggja á starfandi Íslendinga til að greiða fyrir menntun þeirra sem munu erfa landið svo að notaður sé þreyttur en mjög viðeigandi frasi.

Svarið við fyrri spurningunni verður um leið svar við spurningunni um það hve langt samfélagið vill ganga til að auðvelda þeim sem vilja hætta störfum snemma að gera það. Og þá um leið hluti af svarinu við spurningunni um það að hve miklu leyti fólk getur sjálft ákveðið hvenær það hættir störfum. Hinn hlutinn snýr að því sem áður var rætt um þvingun fólks til að hætta störfum fyrr en það þess óskar.

Ég hef auðvitað ekkert einhlítt svar við þessum spurningum enda verður þeim ekki svarað nema á vettvangi stjórnmála. Ég tel þó að þeir sem nú íhuga að setjast í helgan stein geti bent á ýmislegt því til stuðnings að þeir sem nú eru á vinnumarkaði taki þátt í kostnaði við framfærslu þeirra sem hafa lokið störfum.

Ekki bara það sem áður hefur komið fram um að sú kynslóð sá á sínum tíma fyrir sér yngri og eldri kynslóðum heldur einnig að verðmætin sem hún skilar til næstu kynslóða eru gífurleg.

Ef við lítum á árin frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar þá kemur í ljós að verðmæti þeirra helstu veraldlegu gæðu sem þjóðin á, húsa, vegakerfis, virkjana og annarra mannvirkja hefur um það bil áttfaldast. Á sama tíma hefur fjöldi Íslendinga tvöfaldast svo að verðmæti á mann hafa því sem næst ferfaldast. Allt hefur þetta verið byggt upp með vinnu þeirra Íslendinga sem voru á vinnumarkaði á þessum tíma, þar á meðal þeirra sem nú eru farnir að reskjast. Og allt erfist þetta með einum eða öðrum hætti frá kynslóð til kynslóðar. Það hefur líka verið byggt upp nútímalegt þjóðfélag með stjórnkerfi, reglum og reynslu, hagkerfi með öflugum fyrirtækjum, hagnýtum viðskiptavenjum og umfram allt vel menntað fólk til að reka allt saman. Þetta þjóðfélag framleiðir um sjö sinnum meira á hverju ári en gert var 1945. Þær kynslóðir sem smám saman hafa dregið síg í hlé, hvatt vinnumarkaðinn á þessum tíma, hafa því ekki skilið eftir sviðna jörð heldur miklar eignir og þjóðfélag sem ekki þarf að þrengja neinar sultarólar til að tryggja elstu þegnum sínum áhyggjulaust ævikvöld.

Aftur til heimasíðu GylfaSíðast breytt 26. nóvember 1999. GM