Byggðaþróun og byggðastefna

Byggðaþróun og byggðastefna

Eftir Gylfa Magnússon Hagfræðistofnun Háskóla Íslands


Inngangur

Líkan af ákvörðunum einstaklinga um búferlaflutning

Helstu niðurstöður

Neðanmálsgreinar

Heimildir

Erindi þetta var flutt á ráðstefnu um rannsóknir í félagsvísindum í Odda 22. febrúar 1997. Það er byggt á nokkrum þáttum í doktorsritgerð höfundar frá Yale háskóla, Internal and External Migration in Iceland 1960-94: A Structural Model, Government Policies and Welfare Implications. Framsetning hefur verið einfölduð til muna og allri stærðfræði sleppt til að gera efnið aðgengilegra leikmönnum. Þeim sem vilja fá nánari útskýringar er bent á doktorsritgerðina og þar er einnig að finna mun ítarlegri tilvísanir í heimildir.

Inngangur

Flutningur landsmanna úr dreifbýli í þéttbýli og einkum til höfuðborgarsvæðisins er ein róttækasta breyting sem orðið hefur á íslensku þjóðfélagi. Minnkandi vægi dreifbýlis og aukið vægi þéttbýlis er þó að sönnu ekki séríslenskt fyrirbrigði, svipuð þróun hefur orðið í flestum löndum heims samhliða breyttum atvinnuháttum. Þéttbýlismyndun á Íslandi á 19. öld og fyrri hluta þessarar aldar var mjög svipuð því sem gerst hefur í öðrum löndum, fólk flutti úr landbúnaðarhéruðum í nálæga smábæi. Á Íslandi mynduðust litlir þéttbýliskjarnar einkum þar sem skilyrði til útgerðar voru góð og því var hin nýja byggð dreifð um landið.

Á síðustu áratugum hefur þróunin á Íslandi nokkuð skorið sig úr. Í stað þess að íbúum fjölgi á mörgum þéttbýlisstöðum hefur eitt svæði skorið sig úr, höfuðborgarsvæðið. Nú búa um 60% landsmanna í Reykjavík eða nágrenni hennar og er það hærra hlutfall í einum þéttbýliskjarna en þekkist í öðrum löndum ef undan eru skilin borgríki eins og Lúxemborg, Singapúr og Hong Kong.1

Þróun atvinnuhátta og byggðar fylgist nokkuð að. Ísland var einfalt landbúnaðarþjóðfélag lengst af og byggð réðst einfaldlega af því hvar land var nógu gjöfult til að framfleyta fjölskyldum. Búið var á jaðri Malthusar.2

Þegar sjávarútvegur tók að vaxa af alvöru á Íslandi á 19. öld voru fleyin smá og afkastalítil og engan veginn fallin til langferða. Útgerð Íslendinga var vinnuaflsfrek en smábátar kröfðust lítils fjármagns samanborið við miklu stórtækari skip erlendra útgerðarmanna sem sóttu á Íslandsmið. Í ljósi þessa var eðlilegt að upp sprytti fjöldi lítilla útgerðarstaða. Útgerð með árabátum krefst hvorki umsvifamikils vinnumarkaðar né mikilla fjárfestinga í landi.

Nota má velþekkt hugtak úr hagfræði til að skýra hvers vegna byggð var dreifð, atvinnuhættir tryggðu dreifbýli hlutfallslega yfirburði yfir þéttbýli í samkeppninni um atvinnuuppbyggingu. Það þarf ekki að fjölyrða um það að landbúnaður krefst mikils landrýmis, jafnvel verksmiðjulandbúnaður eins og tíðkast á nútíma svína- og kjúklingabúum þrífst ekki í borgum. Sjávarútvegur krefst ekki rýmis á sama hátt en þegar gert er út með litlum fleytum skiptir nálægð við fiskimið sköpum. Útgerðarhættir tryggðu því litlum sjávarþorpum yfirburði yfir stærri þéttbýlisstaði.

Mynd 1 sýnir þróun atvinnuhátta og búsetu síðustu tvær aldir.

Annað á við um flestar þjónustu- og iðngreinar, þær geta þrifist ágætlega í borgum og sumar raunar ekki nema í þéttbýli. Hið sama má segja um útgerð með afkastamiklum skipum, hún krefst skilvirks vinnumarkaðar og mikilla fjárfestinga í landi en nálægð við fiskimið skiptir minna máli. Vöxtur slíkra atvinnugreina þýðir því yfirburði þéttrar byggðar yfir dreifða í samkeppninni um atvinnuuppbyggingu. Myndir 2 og 3 sýna hve mikill munur er á vægi atvinnugreina á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og á landsbyggðinni hins vegar á Íslandi.3

Landbúnaður bar enn ægishjálm yfir aðrar atvinnugreinar í byrjun 19. aldar, nær 90% starfa landsmanna voru í landbúnaði, um 6% við sjávarútveg og ámóta mörg störf í öðrum atvinnugreinum samanlagt.4 Vægi sjávarútvegs jókst hægt og bítandi alla 19. öldina og mest hafði nær fimmtungur landsmanna viðurværi sitt af honum. Það var ekki fyrr en undir lok aldarinnar sem aðrar atvinnugreinar tóku við sér af alvöru. Byggðin endurspeglaði þetta, langflestir bjuggu enn í sveitum en smátt og smátt fjölgaði íbúum fjölda lítilla sjávarþorpa.

Vægi sjávarútvegs hefur lítið aukist síðan í lok síðustu aldar. Hlutfall þeirra sem höfðu framfæri sitt af honum minnkaði aðeins á síðasta áratug þeirrar aldar en seig síðan hægt og bítandi upp aftur fram að kreppunni. Í kringum 1930 hafði rúmur fimmtungur landsmanna framfæri sitt af veiðum og vinnslu en síðan hefur hlutfallið farið minnkandi og nú starfar aðeins ríflega tíundi hver landsmaður við þessar greinar.

Miklu róttækari breytingar hafa þó orðið í landbúnaði. Störfum í þeirri atvinnugrein hefur fækkað linnulaust. Nú starfa einungis rúm 4% landsmanna við hana og hlutfallið fer enn lækkandi.

Erlendar kannanir á orsökum búferlaflutninga hafa oft stuðst við mun á raunlaunum og atvinnuleysi á milli svæða til að skýra ákvarðanir manna. Hugmyndin er afar einföld, fólk vill að öðru jöfnu flytja til svæða þar sem auðvelt er að fá vel launaða vinnu. Erfitt er að finna góð gögn um launamun á milli svæða, t.d. kjördæma, á Íslandi. Tölur unnar upp úr skattskýrslum um meðaltekjur eftir kjördæmum benda ekki til þess að há nafnlaun dragi fólk til höfuðborgarsvæðisins. Raunar eru tekjur í Reykjavík lítið eitt undir landsmeðaltali en aðeins yfir meðaltali í Reykjaneskjördæmi. Því er meðaltal höfuðborgarsvæðisins sennilega mjög nálægt landsmeðaltali.

Tölur um meðaltekjur úr skattframtölum eru þó ekki góður mælikvarði á launamun eftir kjördæmum af ýmsum ástæðum. Ein er að skipting starfa er mjög mismunandi eftir kjördæmum. Tölur Kjararannsóknarnefndar um tekjur einstakra starfshópa benda til þess að meðaltekjur launþega í flestum þeirra starfsgreina sem nefndin skoðar séu ívið hærri á höfuðborgarsvæðinu en utan þess.5 Þetta kann að virðast við fyrstu sýn koma illa saman við fyrrgreindar tölur úr skattskýrslum en margar skýringar koma til greina. Sú einfaldasta er að störf í greinum þar sem laun eru að jafnaði fremur lág séu hlutfallslega fleiri á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Einnig getur skipt máli að á höfuðborgarsvæðinu eru hlutfallslega fleiri nemendur en utan þess og þeir hafa flestir mjög lágar tekjur.6

Ekki er þó rétt að einblína á tölur um tekjur eða laun í krónum talið, nafnlaun. Kaupmáttur ráðstöfunartekna, raunlaun, skiptir meira máli. Tölum um raunlaun eftir svæðum hefur ekki verið safnað skipulega enda ekki hægt um vik þegar hvorki eru til góð gögn um nafnlaun eftir svæðum né verðlag. Þær litlu upplýsingar sem er að hafa um verðlag benda þó eindregið til þess að það sé ívið hærra á flestum vörum utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess. Þó er húsnæði ódýrara utan höfuðborgarsvæðisins.7

Tölur um atvinnuleysi duga heldur ekki til að skýra fólksflutning til höfuðborgarsvæðisins. Atvinnuleysi hefur verið svo lítið á Íslandi nema e.t.v. á allra síðustu árum að það getur vart hafa skipt sköpum.

Ef litið er á einstök kjördæmi þá kemur í ljós að atvinnuleysi hefur iðulega verið yfir landsmeðaltali í Reykjavík. Fólksflótti hefur verið mestur frá Vestfjörðum en í því kjördæmi hafa tekjur yfirleitt mælst hæstar á skattframtölum og atvinnuleysi verið lægst. Það virðist því til lítils að ætla að skýra búferlaflutninga á Íslandi með því að mata erlend hagfræðilíkön sem skýra fólksflutninga á íslenskum tölum um tekjur og atvinnuleysi.

Tiltölulega lítill munur á raunlaunum og atvinnuleysi getur einfaldlega þýtt að íslenski vinnumarkaðurinn sé skilvirkur; að landið allt sé nánast sami vinnumarkaðurinn. Lykillinn að því er að búferlaflutningar lagi framboð á vinnuafli á einstökum svæðum að breyttum atvinnuháttum.

Mynd 4 sýnir þróun búsetu síðasta aldarfjórðung.

Þegar skoðaðar eru tölur um fólksstraum til höfuðborgarsvæðisins sést að straumurinn hefur verið linnulítill frá því að hann hófst fyrir alvöru undir lok 19. aldar. Einungis eitt tímabil sker sig úr, frá 1968 til 1980 stóð hlutfall íbúa höfuðborgarsvæðisins af heildarmannfjölda nánast í stað. Ein skýring virðist líklegust. Á þessum árum tók íslenskur sjávarútvegur það sem sennilega verður hans síðasti fjörkippur í þeim skilningi að hlutfall þeirra landsmanna sem höfðu framfæri sitt af fiskveiðum og vinnslu fór hækkandi.8 Ýmislegt gekk á. Greinin hafði orðið fyrir miklu áfalli skömmu áður þegar síldin hvarf, en nú var landhelgin færð út og lagt í mikla fjárfestingu í togurum og fiskvinnsluhúsum, m.a. fyrir fé sem nánast var stolið frá sparifjáreigendum á tímum óðaverðbólgu og lágra nafnvaxta. Þótt vægi landbúnaðar hafi haldið áfram að dvína á þessum árum þá virðist fjörkippurinn í sjávarútveginum hafa dugað til að gera landsbyggðina samkeppnishæfa við höfuðborgarsvæðið um tíma. Frá um 1980 hefur fólksstraumurinn haldið áfram til höfuðborgarsvæðisins. Mynd 4 sýnir þróunina frá 1970.

Líkan af ákvörðunum einstaklinga um búferlaflutning

Hagfræðingar ganga oftast út frá því að einstaklingar taki ákvarðanir með það að leiðarljósi að hámarka eigin hag í ljósi þeirra upplýsinga sem þeir hafa á hverjum tíma. Stundum er einungis litið á áhrif ákvarðana á ákveðnu tímabili, t.d. einu ári, og gert ráð fyrir að einstaklingar líti ekki lengra en það. Önnur og flóknari líkön líta til lengri tíma, jafnvel allrar ævi einstaklings, og gera ráð fyrir að hann taki á hverjum tíma tillit til áhrifa ákvarðana á hag sinn það sem eftir er.

Ákvörðun um búferlaflutning er ein mikilvægasta ákvörðun sem hægt er að taka. Með henni er í raun verið að ákveða í hvaða umhverfi fólk vill lifa, við hvað það vill starfa, hvaða vini það umgengst og svo mætti lengi telja. Búferlaflutningi fylgir iðulega mikill kostnaður, bæði þarf að fórna beinhörðum peningum og öðru sem erfiðara er að meta. Það er því ekki skrýtið að flestir flytja ekki mjög oft, að meðaltali flytja Íslendingar á um 11 ára fresti.9

Í ljósi þessa er eðlilegt að þegar reynt er að smíða líkan af búferlaflutningum sé gert ráð fyrir að einstaklingar líti til nokkuð langs tíma við ákvarðanir sínar. Hér verður gert ráð fyrir að einstaklingar líti á þann tíma sem eftir er af starfsævinni þegar þeir ákveða hvort þeir eiga að flytja. Til einföldunar verður gert ráð fyrir að starfsævi ljúki ætíð við 65 ára aldur.

Þótt tíminn sem horft er til skipti máli þá skiptir auðvitað meiru hvað það er sem einstaklingar reyna að hámarka. Hér sem oftar í hagfræði kemur hugtakið notagildi að góðum notum - þótt það sé óáþreifanlegt, ómælanlegt og ótamt öðrum en hagfræðingum. Í raun mætti allt eins kalla það sem reynt er að hámarka ánægju, lífsfyllingu eða eitthvað ámóta.

Gera má ráð fyrir að notagildi einstaklings sem býr á ákveðnum stað fari að nokkru eftir kaupmætti hans en einnig eftir þáttum eins og félagslífi á staðnum, búsetu ættingja og vina, fegurð fjalla, því hvort hann á kost á dagheimilisrými fyrir börn sín og svo mætti lengi telja. Sumir þættir sem ráða notagildi manna hafa svipuð áhrif á alla en aðrir eru einstaklingsbundnir. Í líkaninu verður til einföldunar gert ráð fyrir að notagildi ákvarðist einu sinni á ári. Hægt sé að skipta notagildi einstaklings á hverjum tíma í tvennt, annar hlutinn sé sá sami fyrir alla af sömu kynslóð (jafnaldra) hans sem búa á sama stað en hinn hlutinn sé einstaklingsbundinn. Heildarnotagildi einstaklings ákveðið ár fæst með því að leggja saman hlutana tvo. Flytji einstaklingur ákveðið ár nýtur hann frá og með næsta ári notagildis nýja staðarins.

Yfirleitt gera hagfræðingar ráð fyrir að einstaklingar meti meir að fá ákveðna peningaupphæð greidda samstundis en að fá sömu upphæð síðar. Þetta er grundvöllur þess að í lánsviðskiptum tíðkast að greiða vexti. Talað er um að núvirða peningaupphæð sem greiða á einhvern tíma í framtíðinni þegar reiknað er út hve háa fjárhæð þarf að greiða einstaklingi í dag til þess að hann sætti sig við að verða af framtíðargreiðslu. Á sama hátt verður hér gert ráð fyrir að einstaklingar núvirði notagildi sem þeir eiga von á í framtíðinni. Til þess að einstaklingur sætti sig við tímabundna skerðingu notagildis í dag þarf hann að gera ráð fyrir því að fá skerðinguna bætta ríflega í framtíðinni, m.ö.o. fá endurgreitt með vöxtum.

Núvirðing þýðir meðal annars að einstaklingar verða enn tregari enn ella til að flytja búferlum því að kostnaður við það fellur fljótt til en ábatinn skilar sér ekki fyrr en með tíð og tíma. Í raun má líta á það að flytja sem eins konar fjárfestingu sem vonast er til að skili ábata yfir langan tíma.

Í líkaninu verður til einföldunar gert ráð fyrir að kostnaður allra einstaklinga af því að flytja sé sá sami og þar með óháður því hvaðan er flutt og hvert og t.d. hve gamall sá sem flytur er. Ein afleiðing þessa er að búast má við að einstaklingur sé þeim mun tregari að flytja því eldri sem hann er. Ástæðan er að þeim mun skemmra sem eftir er af starfsævinni því meiri þarf ábatinn að vera á hverju ári til þess að það borgi sig að leggja út í kostnað við að flytja. Þetta kemur vel heim og saman við gögn um fólksflutninga á Íslandi, flestir flytja á tvítugsaldri en síðan lækkar hlutfall þeirra sem flytja hægt og sígandi þangað til eftirlaunaaldri er náð. Hlutfall barna og eftirlaunaþega sem flytja fylgir nokkuð öðrum lögmálum, börn flytja með foreldrum sínum og eftirlaunaþegar flytja iðulega á elliheimili og sjúkrastofnanir en hefja sárasjaldan störf á nýjum stað. Á mynd 5 má sjá hve hátt hlutfall Íslendinga á hverjum aldri flutti á milli sveitarfélaga á árunum 1990-92.10

Forsendurnar sem tilgreindar eru að ofan og nokkrar fleiri tæknilegs eðlis gera kleift að herma eftir búferlaflutningum Íslendinga á tölvu og meta til dæmis hve mikið má rekja til einstaklingsbundinna þátta og hve mikið til áfalla sem dunið hafa á einstökum sveitarfélögum. Þá er hægt að meta kostnað við búferlaflutning, hve mikla kröfu fólk gerir um vexti þegar það núvirðir og hvaða áhrif breyttir atvinnuhættir hafa haft á hag manna á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og landsbyggðinni hins vegar. Loks er hægt að skoða áhrif þess ef ríkið grípur til aðgerða sem ætlað er að hafa áhrif á búsetuþróun, t.d. niðurgreiðslu á kostnaði við að búa úti á landi.

Þótt tæknileg útfærsla matsins sem lýst er að framan sé flókin og krefjist tímafrekrar keyrslu á öflugum tölvum er grunnhugmyndin einföld. Byrjað var með ákveðnar forsendur um þætti eins og kostnað við búferlaflutning, vaxtakröfu og eðli þeirra breytinga sem verða á notagildi einstaklinga á milli ára. Smíðað var tölvuforrit sem hermir eftir þjóðfélagi þar sem þessar forsendur gilda og athugað hvernig hegðun íbúa þessa ímyndaða þjóðfélags kom heim og saman við gögn um Ísland. Þessi samanburður var notaður til að áætla hvernig breyta átti forsendunum til þess að hegðun ímyndaða þjóðfélagsins líktist betur hegðun þess íslenska. Tölvuforritið var síðan matað á þessum nýju forsendum og aftur athugað hvernig íbúar ímyndaða þjóðfélagsins höguðu sér. Hegðun þeirra að gefnum nýju forsendunum var síðan borin saman við gögn um Ísland og samanburðurinn notaður til að koma með betri tillögu að forsendum og þannig koll af kolli. Ferlið hætti ekki fyrr en hegðun ímyndaða þjóðfélagsins var orðin slík að gögn um það þjóðfélag voru orðin nánast eins og gögnin sem fyrir liggja um þjóðfélag Íslendinga.

Helstu niðurstöður

1. Greinilegt er að mjög hefur hallað á íbúa landsbyggðarinnar og kemur sú niðurstaða varla á óvart. Þeir sem fæddust úti á landi hafa þurft að bera stóran hluta kostnaðar vegna breyttra atvinnuhátta, bæði þeir sem flutt hafa til höfuðborgarsvæðisins og þeir sem enn búa úti á landi.

2. Einungis er hægt að rekja lítinn hluta, um það bil þriðjung, allra fólksflutninga til atvika sem hafa snert alla íbúa ákveðinna sveitarfélaga. Meiri hlutann má rekja til einstaklingsbundinna atburða. Þetta þarf ekki að koma á óvart ef gögn um fólksflutninga eru skoðuð gaumgæfilega því að í ljós kemur að þótt sífellt fjölgi á höfuðborgarsvæðinu þá er einnig mikið um að fólk flytji frá því og á sama hátt flytur fólk í talverðum mæli bæði til og frá flestum öðrum sveitarfélögum.

3. Búferlaflutningi fylgir mikill kostnaður. Það er að nokkru leyti ókostur að aðferðin sem notuð er metur hann ekki í krónum heldur í notagildi, stærð sem erfitt er að festa hönd á. Þetta er þó líka kostur því að ljóst er að þættir eins og laun, vinnuframboð og verðlag skýra ekki nema lítinn hluta fólksflutninga. Lífið snýst ekki bara um peninga. Ef borið er saman það áfall sem fólk verður fyrir við flutning og þau áföll til góðs eða ills sem það getur búist við á hverju ári ef það flytur ekki kemur í ljós að það fyrrnefnda er miklu meira, eða um 16 sinnum stærra. Það þarf því mikið að ganga á til þess að fólk ákveði að flytja búferlum.

4. Vextirnir sem fólk gerir kröfu um virðast um 5% á ári.

Greining á áhrifum byggðastefnu og skilvirkni einstakra aðgerða leiddi eftirfarandi í ljós:

1. Ef unnt er að beita beinskeyttum aðferðum, skattlagningu á íbúa höfuðborgarsvæðisins og beingreiðslum til íbúa annarra svæða, er hægt að hafa umtalsverð áhrif á byggðaþróun án þess að kostnaður þjóðfélagsins af aðgerðunum sé teljandi í fyrstu. Einkum var litið á aðgerðir sem hefðu haldið hlutfalli íbúa á höfuðborgarsvæðinu nokkuð stöðugu, nánar tiltekið svipuðu því sem það var árið 1980, um 53%. Í fyrstu (þ.e. upp úr 1980) hefði þurft mjög lága skatta og beingreiðslur til þess að halda hlutfallinu á milli íbúa höfuðborgarsvæðisins og íbúa annarra landshluta stöðugu. Skattarnir og beingreiðslurnar hefðu þó þurft að fara sífellt hækkandi með árunum til þess að halda aftur af fólksstraumi til höfuðborgarsvæðisins. Þessar aðgerðir hefðu fyrstu árin haft lítil áhrif á heildarvelferð þjóðarinnar, mældri í samanlögðu notagildi allra þegnanna, en þegar fram liðu stundir hefði kostnaðurinn orðið sífellt meiri.

2. Skattar á fólksflutninga virtust ekki vera skilvirk leið til að hafa áhrif á búsetuþróun. Reyndar hefði verið hægt að minnka heildarfjölda þeirra sem flytja en vonlítið að hafa áhrif á það hve hátt hlutfall landsmanna bjó á höfuðborgarsvæðinu nema með afar háum sköttum. Skattar á fólksflutninga virtust hafa slæm áhrif á velferð.

3. Niðurgreiðslur á kostnaði við fólksflutninga virtust hafa sáralítil áhrif á heildarmannfjölda á höfuðborgarsvæðinu en talsverð áhrif á það hve margir flytja á hverju ári. Þetta bendir til þess að hægt sé að létta a.m.k. einhverjum hluta af kostnaði þjóðfélagsins vegna breyttra atvinnuhátta af þeim sem flytja og dreifa honum á fleiri landsmenn án þess að hafa mikil áhrif á búsetu á einstökum stöðum.

4. Tímabundnar aðgerðir virtust ekki hafa áhrif á búsetu nema á meðan þær eru í gangi og í nokkur ár þar á eftir en fyrr eða síðar hefði búsetudreifing orðið nánast sú sama og ef aldrei hefði verið gripið til þeirra.

Neðanmálsgreinar:

1: Tölur um mannfjölda í ritgerðinni voru flestar fengnar frá Hagstofu Íslands, úr Landshögum, Tölfræðihandbók, Manntali, Mannfjöldaskýrslum, Hagtíðindum, Hagtölum á geisladiski og óbirtum gögnum.

2: Thomas Malthus (1766-1834) var breskur klerkur. Hans er helst minnst fyrir kenninguna um að mannkynið væri dæmt til þess að lifa á hungurmörkunum, jaðri Malthusar, um aldur og ævi. Ástæðuna sagði hann vera að matvælaframleiðsla gæti í mesta lagi vaxið línulega en mannkynið hefði tilhneigingu til að vaxa veldisvexti. Kenningar á við þessa hafa vafalaust átt sinn þátt í því að hagfræðin fékk viðurnefnið hin döpru vísindi. Sjá t.d. Ingrid Hahne Rima: Development of Economic Analysis, 4. útg. 1986, bls. 100 til 117.

3: Heimild: Landshagir 1996.

4: Þetta er nokkur einföldun því að algengt var að fólk starfaði einungis við sjávarútveg hluta úr ári en annars við landbúnað.

5: Heimild: Útreikningar höfundar byggðir á fréttabréfum Kjararannsóknarnefndar frá 1990 til 1995.

6: Heimild: Landshagir 1996.

7: Sjá t.d. Framfærslukostnaður heimilanna, skýrsla unnin fyrir Forsætisráðuneytið 1996.

8: Hér verður ekki lögð fram spá um þróun sjávarútvegs í framtíðinni nema að benda á að ef framleiðsla á vinnandi mann í sjávarútvegi á að vaxa í takt við það sem gerist í öðrum greinum er allt útlit fyrir að starfsmönnum þurfi að fækka eða a.m.k. fjölga hægar en í öðrum greinum. Á árunum 1950 til 1990 jókst framleiðsla á vinnandi mann á ári á Íslandi um 2,7% en 2,6% í sjávarútvegi. Það er reyndar ýmislegt sem bendir til þess að hægja muni á þessum vexti í framtíðinni. Jafnvel þótt ekki sé miðað við nema um helming síðari tölunnar (1,3% á ári) og við bætt væntri fjölgun fólks á aldrinum 20 til 64 ára (skv. spá Hagstofu, sjá Landshagi 1996) þá þarf framleiðsla í sjávarútvegi að vaxa um rúm 40% frá 1995 til 2010 til þess að framleiðsla á mann í sjávarútvegi vaxi jafnhratt og í öðrum greinum ef starfsmönnum í þeirri grein fjölgar jafnhratt og í öðrum greinum. Vandséð er í hvaða fiskstofna er hægt að sækja til þess að standa undir þessum vexti.

9: Ekki er reiknað með flutningi innan sveitarfélags. Árið 1995 fluttu rúm 9% Íslendinga úr einu sveitarfélagi í annað, af þeim fluttu 8.567 innan sama kjördæmis eða innan höfuðborgarsvæðisins, 9.193 á milli svæða og 7.152 til eða frá útlöndum. Heimild: Landshagir 1996.

10: Heimild: Landshagir, ýmis ár.

Heimildir:

Framfærslukostnaður heimilanna, skýrsla unnin fyrir Forsætisráðuneytið 1996.

Fréttabréf Kjararannsóknarnefndar, Kjararannsóknarnefnd, ýmis ár.

Gylfi Magnússon: Internal and External Migration in Iceland 1960-94: A Structural Model, Government Policies and Welfare Implications, óbirt doktorsritgerð, Yale háskóli 1997.

Landshagir, Hagstofa Íslands, ýmis ár.

Rima, Ingrid Hahne: Development of Economic Analysis, 4. útg. Irwin 1986.


Aftur til heimasíðu Gylfa