Hvenær er rétt að veita einkaleyfi?

eftir Gylfa Magnússon, flutt á málþingi Sambands ungra sjálfstæðismanna 22. ágúst 1998.

Fundarstjóri, ágætu fundargestir

Einkaleyfi hafa mjög verið til umræðu undanfarið vegna hugmynda um að veita einu fyrirtæki leyfi til að byggja upp og nýta gagnagrunn með upplýsingum úr heilbrigðisskýrslum Íslendinga. Það er ætlun mín að fjalla hér um nokkur álitamál þessu tengd sem hagfræði og viðskiptafræði geta varpað ljósi á. Meðal þeirra kosta sem skoðaðir eru er sá að veita það einkaleyfi sem lagt er til í frumvarpsdrögunum, takmarkaðara leyfi eða ekkert.

Hagsmunahópar

Gagnagrunnsfrumvarpið er óvenju flókið viðfangsefni vegna þess hve margir eiga hagsmuna að gæta og sérstaklega vegna þess að í sumum tilfellum birtast hagsmunirnir í þáttum sem erfitt eða ókleift er að meta til fjár. Þeir sem fjallað er um í heilbrigðisskýrslunum eiga hagsmuna að gæta, svo og aðrir sjúklingar, bæði innanlands og utan, sem njóta góðs af því ef lækning finnst við meinum þeirra, umsækjendur um einkaleyfi, starfsmenn þeirra og annarra heilbrigðisstofnana, vísindamenn, bæði hér heima og erlendis, skattborgarar, sem greitt hafa fyrir þá þjónustu sem fjallað er um í heilbrigðisskýrslunum og myndu njóta góðs af því ef hérlendis starfa öflug og arðbær fyrirtæki við að vinna úr heilsufarsupplýsingum, bæði í gegnum almennar skattgreiðslur slíkra fyrirtækja, starfsmanna þeirra og innlendra birgja og hugsanlega vegna einkaleyfisgjalds.

Þetta er löng upptalning og þó ekki tæmandi. Seilast mætti lengra og bæta t.d. við fólki sem finnst að rannsóknir á erfðaefni séu óæskilegar. Í þennan hóp falla m.a. sumir þeirra sem hafa miklar áhyggjur af því að þekking á því hvernig lesa má út úr erfðaefni manna ýmsa eiginleika þeirra geti valdið því að fólk með ákveðna eiginleika verði látið gjalda þess, t.d. við umsókn um vinnu eða kaup á líftryggingum. Þessi ótti er ekki ástæðulaus. Ég mun þó ekki hafa tíma til að ræða það frekar nú en geri vonandi síðar á öðrum vettvangi.

Ljóst virðist að ekki er hægt að finna lausn sem er að allra skapi. Ókleift virðist t.d. að sætta sjónarmið þeirra sem vilja litlar eða engar rannsóknir og þeirra sem vilja sem mestar rannsóknir í von um að lækningar finnist. Hagsmunir fleiri aðila stangast á að ýmsu leyti. Því er ekki hægt að komast að niðurstöðu um það hvort veita eigi einkaleyfi án þess að byggja hana á einhvers konar gildismati, þ.e. skoðun á því hvernig vega eigi og meta hagsmuni ólíkra aðila. Það verður verkefni alþingismanna í haust, í umboði þjóðarinnar.

Sjúklingar sem skráðir eru

Heilbrigðisskýrslur verða til fyrir samvinnu tveggja aðila, sjúklings og heilbrigðisstarfsmanna, en vinna þeirra er að stórum hluta greidd úr sameiginlegum sjóðum, þ.e. af skattborgurum. Ég ætla ekki að leggja mat á hvað þetta þýðir um ráðstöfunarrétt á slíkum skýrslum, hvað þá hvort þær geta talist eign annað hvort sjúklinga eða hins opinbera. Sé talið að aðrir eigi ekki einhvers konar eignarrétt virðist þó ljóst að sjúklingar og hið opinbera geta sameiginlega tekið ákvörðun um ráðstöfun þeirra án þess að brotinn sé réttur á neinum.

Í frumvarpsdrögunum er lagt til að sjúklingar geti fyrirskipað að gögn um þá fari ekki í miðlæga gagnagrunninn. Ef þögn er túlkuð sem samþykki þýðir þetta að gefi sjúklingur ekki slíka fyrirskipun hafa bæði sjúklingur og hið opinbera samþykkt að sjúkraskýrslur viðkomandi sjúklings fari í miðlæga gagnagrunninn. Ákvæðið um að samþykki sjúklings þurfi er einnig mikilvægt vegna þess að það þýðir að sjúklingar sem óttast mjög að upplýsingar um þá leki út úr gagnagrunninum hafa enga ástæðu til að forðast að leita sér lækninga. Þeir verða væntanlega í hópi þeirra sem gefa ekki samþykki sitt.

Ákvörðun sjúklings um að neita um aðgang að skýrslum sínum hefur áhrif á hag ýmissra annarra. Þótt slík ákvörðun valdi öðrum skaða er það að leyfa hana þó í samræmi við það að fólki er alla jafna heimilt að skaða fyrirtæki með því að neita að eiga viðskipti við þau og hindra vísindarannsóknir með því að neita að taka þátt í þeim. Það þarf ekki einu sinni góðar ástæður til slíks, meinfýsni dugar. Þeir eru þó til sem telja að fólk ætti ekki að eiga kost á því að neita að gögn um heilsufar þeirra verði notuð við rannsóknir sem geta leitt til þess að lækning finnst við sjúkdómum. Hér býr svipuð hugsun að baki og þegar fólk er sett í sóttkví gegn vilja sínum.

Þögn sama og samþykki

Ákvæðið um að þögn sé sama og samþykki er nokkuð sérstakt. Yfirleitt þurfa einstaklingar ekki að sýna neitt frumkvæði til að komast hjá því að taka þátt í vísindarannsókn eða eiga í annars konar viðskiptum. Hægt er að gera mönnum mjög auðvelt að neita, t.d. láta nægja að þeir fari á næstu heilsugæslustöð og fylli út eyðublað til þess að gögn um þá fari ekki í miðlæga gagnagrunninn. Þar eð neitun hefur slæm áhrif á hag og heilsu annarra má rökstyðja að einhver fyrirhöfn við neitun sé réttlætanleg.

Telji menn engu að síður óréttlætanlegt að túlka þögn sem samþykki er nokkuð einfalt að biðja alla núlifandi um samþykki. Hægt væri t.d. að hafa reit á næsta skattframtali sem menn merkja við ef þeir eru samþykkir því að gögn um þá séu nýtt. Slík leið hefði aukinheldur þann kost að spyrja mætti jafnframt hvort þeir sem veita samþykki sitt vilji vera látnir vita komi í ljós við úrvinnslu gagnanna að þeir séu í áhættuhópi vegna sjúkdóms. Þess má geta að ámóta aðferðum hefur verið beitt vandræðalítið erlendis til þess að fá samþykki fólks í tilfellum sem svipar til þessa, t.d. þekkist að fólk sem sækir um ökuskírteini sé spurt hvort það vilji gerast líffæragjafar eftir andlát.

Ofangreint snýr einkum að hagsmunum þeirra sem fjallað er um í heilbrigðisskýrslum. Helsta niðurstaðan er að hagsmunir þeirra séu ágætlega tryggðir með því að gefa þeim kost á að upplýsingar um þá verði ekki færðar í gagnagrunninn. Fyrir þá skiptir ekki verulegu máli hvort veitt er einkaleyfi á að starfrækja miðlægan gagnagrunn sé starfsleyfi veitt á annað borð nema að því leyti að einkaleyfið kemur í veg fyrir að mörg fyrirtæki sækist eftir upplýsingum þeirra til að setja í miðlægan gagnagrunn og bjóði jafnvel hvert í kapp við annað.

Einkaleyfi

Einkaleyfi eru nokkuð sérstök fyrirbrigði. Þau eru tæki, sem hið opinbera getur notað til að tryggja skilvirkni markaða - með því að koma í veg fyrir samkeppni. Þetta er heldur kúnstug niðurstaða í ljósi þess að á flestum mörkuðum er samkeppni aflvaki framfara og besta trygging neytenda fyrir góðum kaupum.

Einkaleyfi geta verið afar verðmæt og að sama skapi óþægileg fyrir viðskiptavini einkaleyfishafanna. Þau gegna þó viðurkenndu og mjög mikilvægu hlutverki, að tryggja að einhver sjái sér hag í að leggja út í áhættusama fjárfestingu, t.d. við þróun á nýjum vörum eða framleiðsluaðferðum.

Einkaleyfi er hægt að nota til að tryggja að einhver ríði á vaðið, hefji starfsemi á markaði, sem ekki er víst fyrirfram að borgi sig að starfa á - en mörg fyrirtæki munu vilja starfa á ef í ljós kemur að hægt er að hagnast á því. Höfundarréttur gegnir svipuðu hlutverki. Honum er ætlað að tryggja að arðurinn, sem fæst af sölu verks, renni til þess, sem lagt hefur í kostnað við að skapa það. Ef þessi réttur er ótraustur, t.d. vegna þess að auðvelt er að fjölfalda verkið, er hætt við því að ekkert verði framleitt vegna þess að enginn hefur hag af því að framleiða fyrsta eintakið. Þetta er ekki mjög flókið, nánast hagfræði Litlu gulu hænunnar.

Í sumum atvinnugreinum, t.d. lyfjaframleiðslu, er kostnaður við vöruþróun afar hár en kostnaður við framleiðslu, hafi varan á annað borð verið þróuð, yfirleitt lágur í samanburði. Því myndi verð lyfja oftast verða afar lágt ef hver sem er gæti framleitt lyf um leið og það hefur verið þróað og staðist próf, það lágt að enginn sæi sér hag í að leggja í kostnað við þróun þess. Til að veita hvata til að þróa ný lyf eru því veitt einkaleyfi þannig að fyrirtæki, sem þróar lyf, fær að sitja eitt að markaðinum fyrir það um skeið. Fyrirtækið á þó á hættu að aðrir þrói annað lyf sem keppir við þeirra.

Einkaleyfi eru aldrei veitt til eilífðarnóns. Þegar einkaleyfi hefur runnið út fá neytendur iðulega notið kosta samkeppni, hún knýr niður verð og um leið hagnað fyrirtækja. Þannig er reynt með tímabundnum einkaleyfum að ná tveimur markmiðum. Annars vegar er hvatt til áhættusamrar nýsköpunar, með því að veita leyfin. Hins vegar er samkeppni leyft að njóta sín, með því að láta leyfin renna út.

Hugmyndin sem sett er fram í frumvarpsdrögunum er mjög í anda þessarar venju en þar er þó gengið lengra en vaninn er. Ætlunin er að veita einkaleyfi til 12 ára sem er óvenju skammur tími fyrir einkaleyfi og mun styttri en almennt gildir um höfundarrétt að hugverkum.

Veikt eða sterkt einkaleyfi

Hugmyndin um að leyfa ákveðnum aðila að kosta gerð gagnagrunns og njóta allra tekna sem unnt er að láta hann skapa um skeið er í sjálfu sér ekki mjög róttæk. Fyrirtæki í mörgum greinum byggja upp alls konar þekkingu, þar á meðal gagnagrunna. Þessi gögn eru eign fyrirtækjanna og þau geta hindrað að aðrir hagnýti þau.

Hægt væri að hugsa sér að leyfi til að setja upp miðlægan gagnagrunn væri veitt í þessum anda. Það væri einkaleyfi á að hagnýta ákveðinn gagnagrunn en veitti enga tryggingu gegn því að aðrir fylgdu í kjölfarið og settu upp hliðstæða grunna sem byggðu á sömu frumgögnum, þ.e. heilbrigðisskýrslum. Til einföldunar mun ég hér eftir kalla slíkt fyrirkomulag veikt einkaleyfi og það sem lagt er til í frumvarpsdrögunum sterkt einkaleyfi. Hægt er að hugsa sér miklu sterkara einkaleyfi en lagt er til, jafnvel einkaleyfi á allri notkun heilsufarsupplýsinga Íslendinga til rannsókna en það er ekki til umræðu hér.

Það lægi í hlutarins eðli að þeir aðilar sem fetuðu í fótspor aðila sem fær einungis veikt einkaleyfi yrðu að vinna sömu vinnu og frumkvöðullinn, slá inn gögn að nýju, hanna tölvukerfi og hugbúnað og svo framvegis.

Það að veita veikt einkaleyfi hefur bæði kosti og galla samanborið við að veita sterkt einkaleyfi. Sumir gallarnir eru nokkuð augljósir og þá einkum sá að hafi menn áhyggjur af því að viðkvæmar upplýsingar leki út úr einum gagnagrunni þá er vart til bóta að láta hvern hópinn á fætur öðrum slá inn gögn og halda svo utan um þau. Annar galli er álíka augljós, starf sporgöngumannanna er næsta tilgangslítið, í raun hrein sóun.

Nokkrar líkur eru á því að einungis eitt fyrirtæki myndi smíða miðlægan gagnagrunn þótt mörgum væri það heimilt. Önnur fyrirtæki væru í mörgum tilfellum betur sett með því að kaupa aðgang að fyrsta gagnagrunninum frekar en að smíða sinn eigin. Kaupendur að afnotum af fyrsta gagnagrunninum verða í betri samningsaðstöðu en ella ef þeir geta hótað því að smíða sinn eigin grunn semjist ekki um nógu hagstætt verð. Spurningin um það hvort veitt er veikt eða sterkt einkaleyfi verður því spurning um það hve góð samningsstaða einkaleyfishafans verður gagnvart þeim sem vilja kaupa af honum upplýsingar.

Samningsstaða hins opinbera

En hvers vegna ætti hinu opinbera að vera umhugað um að bæta samningsstöðu eins fyrirtækis öðrum fremur? Skýringin á því er einföld, þeim mun betri sem samningsstaða einkaleyfishafans verður, eftir að hann hefur fengið einkaleyfið, því betri verður samningsstaða hins opinbera þegar það er að semja um veitingu einkaleyfisins. Vegna þess að veikt einkaleyfi er minna virði en sterkt er jafnvel hugsanlegt að enginn sækist eftir veiku einkaleyfi, þótt slíkt sé hægt að fá án endurgjalds, þótt einhver vilji sækja um sterkt einkaleyfi og sé jafnvel reiðubúinn að greiða talsvert fyrir það. Með öðrum orðum, það er hugsanlegt að ekki sé unnt að fá fé frá neinum einkaaðila til að kosta smíði gagnagrunns ef einungis er boðið upp á veikt einkaleyfi.

Í frumvarpsdrögunum stendur ekkert um það hvernig bregðast á við ef fleiri en einn aðili sækist eftir einkaleyfinu. Það er e.t.v. ekki skrýtið í ljósi þess að umræðan hefur að mestu snúist um eitt fyrirtæki, Íslenska erfðagreiningu. Þetta má orða sem svo að einungis einn „kaupandi“ að einkaleyfinu hafi látið í sér heyra. Vitaskuld á það fyrirtæki og forsvarsmenn þess allar þakkir skyldar fyrir að vekja athygli á því að hugsanlega sé hægt að gera sér meira fé úr upplýsingum í heilbrigðisskýrslum Íslendinga en áður var almennt ljóst. Þeir eiga líka þakkir skyldar fyrir ýmislegt annað, svo sem að færa mikla þekkingu til landsins, veita fjölda Íslendinga góða atvinnu og vonandi flýta því að ákveðnir hópar sjúklinga fái bót meina sinna.

Það er hins vegar ekki svo að sá sem fyrstur sýnir áhuga á að kaupa eitthvað, jafnvel fyrirbrigði sem engum hafði dottið í hug að kaupa eða selja áður, eigi að vera eini kaupandinn sem seljandi ræðir við. Enn síður er það viðurkennd regla að sá sem fyrstur sýnir áhuga eigi að fá fyrirbrigðið endurgjaldslaust. Í slíkum tilfellum sem öðrum er eðlilegt að seljandi leiti að þeim sem er reiðubúinn að greiða sem mest, t.d. með uppboði. Hugsanlegt er að tilboð hljóði ekki upp á ákveðna upphæð, í okkar tilfelli væri t.d. ýmislegt sem mælti með því að tilboð hljóðuðu frekar upp á ágóðahlutdeild seljandans af nýtingu hlutarins. Ef ljóst þykir að einungis einn aðili hafi áhuga á að kaupa er þó tilgangslítið að halda uppboð og hagsmunum seljanda betur borgið með því að semja beint.

Gallar einkaleyfa

Einkaleyfi eða höfundarréttur leiða í flestum tilfellum til þess að vörur eru seldar langt yfir kostnaðarverði. Verð varanna endurspeglar ekki kostnað við að framleiða meira af þeim. Of lítið verður keypt og selt. Einkaleyfi fyrirtækis á gagnagrunni, hvort heldur er veikt eða sterkt, hefði sömu áhrif. Aðgangur að gögnunum eða þeim upplýsingum sem lesnar væru úr þeim, yrði í þessum skilningi of dýr. Vegna þess að ætlunin er að gera greinarmun á notendum á Íslandi og notendum annars staðar, þannig að aðgangur til nota innan íslensku heilsugæslunnar sé ókeypis, væri þetta þó fyrirsjáanlega einkum íþyngjandi fyrir erlend fyrirtæki en þó þarf að huga að hagsmunum fleiri aðila.

Í frumvarpsdrögunum er tiltekið að veita eigi vísindamönnum sem starfa hjá stofnunum sem leggja til gögn í grunninn aðgang að gögnum úr honum ef ljóst þykir að það verði ekki til að skerða viðskiptahagsmuni einkaleyfishafans. Hætt er við að í mörgum tilfellum geti orðið erfitt að leggja mat á það hvenær viðskiptahagsmunir skerðast. Þetta ákvæði veitir því ekki mjög trausta vernd fyrir starf þeirra vísindamanna sem starfa hjá fyrrgreindum stofnunum og enga vernd fyrir vísindamenn sem starfa hjá stofnunum sem ekki leggja til gögn í grunninn.

Hafa ber þó í huga að frumvarpið nær eingöngu til miðlæga gagnagrunnsins, gagnagrunns sem er ekki til nú og ekkert benti til að yrði smíðaður áður en hugmynd Íslenskrar erfðagreiningar kom til sögunnar. Sérstaklega er tekið fram að lögin nái ekki til annarra gagnagrunna sem þegar eru til eða kunna að verða settir saman á afmörkuðum sviðum. Þetta skiptir höfuðmáli því að í raun ætti þetta að þýða að aðgengi annarra að gögnum versnar ekki frá því sem hefði orðið ef miðlægi gagnagrunnurinn hefði ekki orðið til. Þó virðist þurfa að skerpa á skilgreiningu á því hvað miðlægur gagnagrunnur er, þ.e. á hverju veitt er einkaleyfi. Sérstaklega þyrfti að vera skýrara hvaða skilyrði gagnagrunnur þarf að uppfylla til að teljast miðlægur. Verður öðrum en einkaleyfishafanum til dæmis óheimilt að tengja saman skrár sem upprunnar eru á tveimur mismunandi stofnunum?

Frumvarpsdrögin gera ekki ráð fyrir einkaleyfi til að rannsaka ákveðin fyrirbrigði en slíkt væri augljós skerðing á hagsmunum annarra vísindamanna. Einkaleyfið virðist ekki takmarka möguleika vísindamanna sem starfa fyrir aðra en einkaleyfishafann til að gera neitt sem þeim hafði þegar dottið í hug að gera. Það er þó ekki þar með sagt að hagsmunir þeirra skerðist ekki við útgáfu einkaleyfis því að eftir situr tvennt. Í fyrsta lagi er ekki loku fyrir það skotið að þeim hefði dottið í hug einhvern tíma í framtíðinni að setja saman miðlægan gagnagrunn en nú verður þeim það óheimilt. Í öðru lagi er hugsanlegt að staða þeirra versni vegna þess að þau gögn sem þeir nú hafa aðgang að eru ekki lengur þau bestu fáanlegu og það torveldi t.d. að fá styrki eða samstarfsaðila. Þótt kunnátta þeirra og gögn hafi ekki versnað verði þeir ekki samkeppnisfærir við einkaleyfishafann.

Allt snýst þetta um þekkingu á því hvernig best er að veita læknismeðferð. Hægt er að rökstyðja að vangaveltur um hag vísindamanna, skattborgara, lyfjafyrirtækja og annarra slíkra aðila séu aukaatriði í samanburði við hagsmuni þeirra sem eiga eða hugsanlega munu eiga við sjúkdóma að stríða.

Ef möguleikar annarra vísindamanna en þeirra sem starfa fyrir einkaleyfishafann til rannsókna eru lítt þrengdir við veitingu einkaleyfisins frá því sem þeir hefðu verið ef gagnagrunnurinn hefði aldrei orðið til virðist næsta víst að tilurð gagnagrunnsins verður ekki til að koma í veg fyrir eða tefja þróun þekkingar á viðfangsefnum rannsóknanna. Sama máli gegnir þótt miðlægi gagnagrunnurinn þyki hafa slíka yfirburði yfir aðra gagnagrunna hérlendis að færri en áður eða jafnvel engir fáist til að leggja fé í rannsóknir sem nýta smærri innlenda gagnagrunna, jafnvel þótt aðgangur að miðlæga gagnagrunninum sé dýr en ekki þurfi að greiða fyrir notkun hinna. Það kann að vera slæmt fyrir ákveðna vísindamenn en engu að síður gott fyrir framþróun vísindanna.

Frá sjónarhóli þeirra sem vilja sem mestar rannsóknir í læknisfræði er þróun undanfarinna missera á Íslandi góð. Til landsins hafa flykkst vísindamenn sem starfa við góðan aðbúnað, gögnum hefur verið safnað og mest allt er þetta hrein viðbót við þá starfsemi sem fyrir var. Uppbygging miðlægs gagnagrunns og úrvinnsla hans væri síðan enn eitt skrefið fram á við í þessum skilningi. Það er þó ekki þar með sagt að veita eigi einkaleyfi, veikt eða sterkt, á uppbyggingu hans. Að minnsta kosti einn annar kostur er í boði.

Skattgreiðendur borga

Hægt er að hugsa sér að skattgreiðendur, væntanlega íslenskir, greiði fyrir gerð miðlægs gagnagrunns. Því getur fylgt verulegt óhagræði því að hver króna, sem aflað er í ríkissjóð með sköttum, kostar þjóðfélagið meira en krónu. Þess utan er starfsemi á við gerð og rekstur slíks gagnagrunns dæmi um verkefni, sem fellur sérlega illa að ríkisrekstri. Í fyrsta lagi er kostnaður mjög óviss, til lítils að bera hann saman við kostnað við önnur verkefni og erfitt eða ókleift fyrir aðra en þá, sem byggja grunninn, að gera sér grein fyrir því hvort kostnaðurinn er óþarflega mikill. Slík verkefni henta einkar illa fyrir ríkisrekstur. Í sumum tilfellum er þó hægt að fá þau unnin með eðlilegum tilkostnaði með útboðum, í þessu tilfelli fá einkaaðila til að setja upp gagnagrunninn og halda utan um hann en ríkið hafi fullan ráðstöfunarrétt yfir upplýsingum úr honum. Skilyrði þess er að margir ráði við verkefnið og bjóði í það.

Í öðru lagi eru tekjurnar af gagnagrunninum mjög óvissar og það mælir einnig gegn ríkisrekstri, því að þá verður afar erfitt að gera sér grein fyrir því hve vel gengur að gera sér fé úr honum eða nýta á annan hátt. Aðhald að ríkisfyrirtæki sem sæi um reksturinn væri mjög erfitt. Þetta kynni að skipta litlu ef slíku fyrirtæki væri beinlínis ætlað að hafa minni tekjur af starfsemi sinni en einkafyrirtæki hefði haft eða jafnvel engar tekjur. Það á við um mörg ríkisfyrirtæki sem framleiða fyrir innanlandsmarkað. Það er hins vegar vaninn að ríkisfyrirtæki reyni að hámarka hagnað af viðskiptum við útlönd. Sennilega hafa fáir efasemdir um ágæti þess að útlendingar greiði sem hæst verð fyrir fisk eða rafmagn en öðru máli kann að gegna um upplýsingar sem nýttar eru við læknisfræðirannsóknir.

Helstu kaupendur heilbrigðisupplýsinga eru lyfjafyrirtæki sem sjálf sækjast eftir einkaleyfum á lyfjum og setja upp það verð fyrir lyf sem þau telja að hámarki hagnað þeirra. Meðal kaupenda eru Íslendingar en við flytjum inn lyf og lækningavörur fyrir ríflega þrjá milljarða króna á ári. Það er vandséð hvers vegna Íslendingar ættu að gefa erlendum lyfjafyrirtækjum verðmætar upplýsingar. Skilyrði þess að upplýsingar nýtist við læknisfræðirannsóknir er að þær komist í hendur aðila sem geta unnið úr þeim. Það er hins vegar ekki skilyrði að þær séu gefnar, einungis að verðið sem sett er upp sé ekki svo hátt að ekkert verði af viðskiptum. Hér gildir í raun það sama og um fyrrgreind lyfjafyrirtæki, það er ekki skilyrði þess að lyf þeirra nýtist fólki að lyfin séu afhent endurgjaldslaust.


Síðustu breytingar 15/10/98 GM