Hallinn á jólunum

Hallinn á jólunum

Áður birt í Morgunblaðinu 20. desember 1996

eftir Gylfa Magnúson Hagfræðistofnun Háskóla Íslands


Gjafaflóð þykir tilheyra jólunum jafnt á Íslandi sem í öðrum löndum er halda þau hátíðleg. Pakkarnir gleðja að sjálfsögðu þiggjendur í flestum tilfellum. Sumar gjafir nýtast vel og flestar eitthvað en svo eru til gjafir sem nýtast hreint ekkert - og eru jafnvel í sumum tilfellum til hreinna vandræða. Hagfræðiprófessor við Yale háskóla í Bandaríkjunum, Joel Waldfogel, hefur hugleitt þessi mál og komist að þeirri niðurstöðu að það sé umtalsverður halli á jólunum.

Waldfogel segir að kveikjan að rannsóknum hans hafi verið er hann fékk enn eitt árið í röð bindi sem var honum lítt að skapi að gjöf frá móðursystur sinni. Hann gerði könnun meðal háskólanema á því hvaða gjafir þeir hefðu fengið á jólunum, frá hverjum gjafirnar hefðu verið og hve mikið þiggjendurnir mátu hverja gjöf ef þeir táku ekki tillit til þeirrar væntumþykju sem þær endurspegla. Hann kannaði sérstaklega hvaða gjöfum var skipt og hve mikið þiggjendur hefðu verið tilbúnir að borga fyrir gjafirnar ef þeir hefðu þurft að greiða þær úr eigin vasa.

Niðurstöðurnar sýndu að því fjarskyldari sem gefandinn var, þeim mun verr nýttust gjafir hans. Þær gjafir sem nýttust best komu frá mökum þiggjenda og gjafir frá vinum, foreldrum og systkinum nýttust einnig vel. Gjafir frá öfum og ömmum og fjarskyldara fólki nýttust mun verr. Yfirleitt nýttust gjafir betur ef lítill aldursmunur var á gefanda og þiggjanda en ef aldursmunur var mikill. Það var líka greinilegt að fjarskyldir ættingjar gerðu sér grein fyrir því að þeir áttu erfitt með að meta hvað myndi nýtast þiggjandanum best og algengt var að þeir gæfu peninga. Svipað virðist vera raunin á Íslandi eins og sést á því að algengt er að fjarskyldir ættingjar gefi peninga í fermingargjafir í stað þess að reyna af veikum mætti að komast að því hvað helst fellur í kramið hjá unglingunum á hverjum tíma.

Waldfogel reyndi að meta hve miklum verðmætum væri sóað vegna þess að gjafir væru þiggjanda minna virði en gefandi greiddi fyrir þær. Komst hann að þeirri niðurstöðu að umtalsverð hluti færi í súginn eða um fimmtungur þess sem varið er í jólagjafir vestra. Svipuð lögmál gilda væntanlega um gjafir sem gefnar eru af öðrum tilefnum svo sem við fermingar, afmæli og á hátíðum annarra trúfélaga. Heildarupphæðin sem fer í súginn við gjafir er því afar há.

Waldfogel gerir enga tilraun til að koma með lausnir til úrbóta. Það væri vissulega hægt að koma í veg fyrir sóun ef allir gæfu peninga. Vart þætti nú samt til bóta að undir jólatrénu væru bara umslög með ávísunum svo að sennilega verða hér ekki breytingar á. Prófessor Waldfogel gerir alla vega ráð fyrir að fá enn eitt bindi frá sinni ástkæru móðursystur í ár.


Aftur til heimasíðu Gylfa