Nokkrar athugasemdir um landbúnað

eftir Gylfa Magnússon

Áður birt í Morgunblaðinu 29. ágúst 1993.

Nokkur umræða hefur orðið um landbúnaðarmál í fjölmiðlum undanfarið og er það vel því að okkur Íslendingum verður vart hugsað nógu oft og mikið og hlýlega til þessarar undirstöðuatvinnugreinar. Þó er ýmislegt gagnrýnivert sem haldið hefur verið fram í þessum umræðum og er þessi bréfstúfur ritaður til að leiðrétta margs konar misskilning og brýna forsvarsmenn landbúnaðar til enn betri verka en áður.

Fyrst er þess að geta að svo virðist sem einhverjir óttist að Íslendingar muni upp til hópa hætta kaupum á innlendri framleiðslu ef þeim bjóðast erlendar landbúnaðarafurðir. Þetta er vitaskuld mesta firra enda vita allir sem neyðst hafa til að innbyrða þessar erlendu vörur eftir að hafa verið aldir upp á íslenskum náttúruafurðum að þær fyrrnefndu eru vart mönnum bjóðandi. Þó kann að vera að einhverjir Íslendingar hafi svo annarlega bragðlauka að þeir telji til dæmis Frakka standa framar þeim í Flóanum í Camembert framleiðslu eða að afurðir argentískra nautgripa séu hæfar í annað en skógerð. Slíkt fólk getur þó vart verið margt utan marmarahallar viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands og því vart við því að búast að það skipti sköpum fyrir eftirspurn eftir íslenskum landbúnaðarafurðum þótt það taki að kaupa erlendar afurðir. Margir eru líka eflaust þeirrar skoðunar að það sé bara gott á þetta lið að þurfa að svæla í sig götóttum ostum og öðru erlendu trosi. Ég tel því vart réttlætanlegt að banna innflutning landbúnaðarafurða á þeim forsendum. Þetta skiptir þó engu máli því að innflutningur landbúnaðarafurða er vitaskuld ekki bannaður af ótta við að einhverjir dragi úr neyslu á íslenskum afurðum. Innflutningur er eins og almenningur veit bannaður vegna þess að erlendar landbúnaðarafurðir og þá einkum ket eru að stórum hluta framleiddar úr alls konar veirum og bakteríum, hormónum, E-efnum og öðrum ófögnuði eins og glögglega má sjá á líkamsburðum og heilsufari neytendanna. Það kemur vitaskuld ekki til greina að hætta á að íslenska sauðkindin eða annar innlendur búfénaður fari að blanda blóði eða öðrum líkamsvessum við steikur af þessum erlenda stofni sem vafalaust myndu flækjast upp um jafnt fjöll sem dali ef innflutningur væri leyfður.

Forsvarsmenn hinna ýmsu þjóðþrifasamtaka hafa verið ötulir við að benda á þetta bæði í ræðu og riti og er því óþarfi að fjölyrða frekar um þessa hlið málsins. Það er þó önnur hlið sem lítið hefur verið fjallað um og taka þarf föstum tökum. Það er nefnilega svo að þrátt fyrir innflutningsbann berst hingað mikið af erlendu keti, mismikið meltu. Fyrst er þess að geta að alls konar fuglar hafa vanið komur sínar hingað eftir vetursetu í löndum böðuðum hormónum, veirum og bakteríum. Þetta verður auðvitað að taka fyrir enda auðsætt að sauðkindinni stendur mikil ógn af þessum illfyglum. Úrtölumenn kunna að tuða að það sé illframkvæmanlegt eða dýrt að hindra flug þessara fugla en ég tel að sauðkindin eigi þetta inni hjá Íslendingum eftir að hafa haldið í þeim lífinu öldum saman og veitt ómetanlegan félagsskap í fámenninu.

Annað ket berst einnig hingað til lands flugleiðina, að sönnu yfirleitt nokkuð melt en engu að síður stórhættulegt. Hér á ég að sjálfsögðu við þann ósið ferðamanna að belgja sig út af alls konar erlendu gumsi áður en þeir halda til Íslands og vaða síðan yfir landið með innyflin troðin af þessum ófögnuði. Sannir vinir sauðkindarinnar fasta vitaskuld í nokkra daga áður en þeir snúa heim ef þeir eru þá yfirleitt nokkuð að flækjast til útlanda enda fátt þangað að sækja nema annarlegar hugmyndir. Aðrir gera þetta því miður ekki. Nú er ég enginn ofstækismaður og vil því ekki leggja blátt bann við þessu sífellda rápi til útlanda en geri að tillögu minni að Íslendingar verði látnir laxera duglega við komuna til landsins og úrganginum eytt á öruggan hátt. Ferðir útlendinga um Ísland er sennilega best að banna með öllu enda margir nokkuð ketmiklir.

Forsvarsmenn bænda benda alls ekki nógu oft á þá miklu hættu sem er á að aðflutningar til landsins stöðvist og þá væri slæmt að vera t.d. upp á Dani kominn með spægipylsu eða Svisslendinga með osta. Raunar finnst mér að Íslendingar taki þessa hættu alls ekki nógu alvarlega og sumir virðast meira að segja halda að heimsstyrjöld sé ekki yfirvofandi með viðeigandi töfum á flutningi landbúnaðarafurða á milli landa. Það ætti að vera nóg að benda slíku fólki á legu landsins en allir sem eitthvað kunna í landafræði geta séð að ýfingar með Norðmönnum og Grænlendingum myndu koma mjög illa við Íslendinga. Vegna þessa þyrfti helst að auka íslenska landbúnaðarframleiðslu talsvert og um leið ættu Íslendingar að sjá sóma sinn í því að verða sjálfum sér nógir um helstu nauðþurftir og hefja strax framleiðslu dráttarvéla og annarra landbúnaðartækja sem helst þyrfti að vera hægt að knýja með mó því að hætt er við að erfiðlega gangi að fá olíu til landsins ef heimsstyrjaldir verða mjög tíðar eða langvinnar hér á norðurhjara. Þessar ábendingar snúa einkum að stjórnvöldum en allur almenningur getur vitaskuld lagt sitt af mörkunum, t.d. þannig að búa sig undir langvarandi sult og seyru með því að hlaupa duglega í spik.


Aftur til heimasíðu Gylfa