Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1996

Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1996

Tekið saman fyrir Fréttabréf Háskóla Íslands

af Gylfa Magnússyni Hagfræðistofnun Háskóla Íslands


Nóbelsverðlaunin í hagfræði í ár komu í ár í hlut Skota, James A. Mirrlees, og Kanadamanns, William Vickrey, fyrir rannsóknir þeirra á áhrifum þess ef aðilar að samningi hafa mismunandi upplýsingar um samningsefnið eða framkvæmd samningsins. Raunar á það við um flest viðskipti að samningsaðilar hafa ekki sömu upplýsingar um samningsefnið en í mörgum tilfellum skiptir það ekki máli því að allir geta aflað sér þeirra upplýsinga sem skipta þá máli með litlum tilkostnaði. Mirrlees og Vickrey hafa einbeitt sér að þeim tilfellum þar sem ókleift eða dýrt er að afla sér allrar vitneskju sem nýta má við töku ákvarðana. Hafa þeir báðir komið víða við.

Þetta er í annað sinn á þremur árum sem Nóbelsverðlaunin koma í hlut hagfræðinga sem hafa aðallega unnið á sviði leikjafræði. Árið 1994 fengu þeir Harsanyi, Nash og Selten verðlaun fyrir framlag sitt til leikjafræði og þeir sem heiðraðir eru í ár hafa mjög stuðst við niðurstöður og aðferðafræði leikjafræðinnar við rannsóknir sínar.

Það var ekki seinna vænna að útnefna Vickrey því að hann lést í hárri elli nokkrum dögum eftir að tilkynnt var að hann hefði hlotið verðlaunin. Vickrey gat sér fyrst frægðar fyrir skrif sín um uppboð á sjöunda áratuginum þótt skrif hans um skattlagningu á fimmta áratuginum þyki nú ekki síður athygli verð. Uppboð eru góð dæmi um viðskipti þar sem samningsaðilar verða að taka ákvarðanir án þess að hafa allar þær upplýsingar á takteinum sem þeir gætu haft not af. Þannig vildi sérhver kaupandi gjarnan vita hvað aðrir koma til með að bjóða og seljandi hefði hag af að vita hvað kaupendur eru mest tilbúnir að bjóða.

Til eru margar tegundir af uppboðum, þær algengustu tvær eru vel þekktar á Íslandi. Annars vegar eru uppboð þar sem allir hugsanlegir kaupendur koma saman og bjóða hver í kapp við annan þangað til enginn vill bjóða hærra en hæsta boð sem þegar hefur komið fram. Hins vegar eru uppboð þar sem hver hugsanlegur kaupandi leggur fram eitt tilboð án þess að vita hvað aðrir hafa boðið. (Síðari tegundin er reyndar algengari hérlendis við útboð, þ.e. uppboð þar sem hugsanlegir seljendur eru margir en einungis einn kaupandi en það skiptir ekki höfuðmáli frá sjónarhóli hagfræði hvort þeir sem leggja fram tilboð eru að kaupa eða selja.) Í báðum tilfellum hlýtur sá sem á hæsta boðið hlutinn sem verið er að selja og greiðir það verð sem hann bauð. Vickrey sá að ýmsir annmarkar eru á þeirri tegund uppboðs þar sem allir leggja fram eitt tilboð. Mesti annmarkinn er að hluturinn sem verið er að selja getur hæglega fallið í skaut annars en þess sem hefur mest not fyrir hann og væri til í að borga mest. Ástæðan er að tilboð manna fara ekki einungis eftir því hve mikils þeir meta það sem boðið er upp heldur líka því hvað þeir áætla að aðrir muni bjóða. Þar togast á að menn vilja gera sem hæst tilboð til að auka líkurnar á að þeirra boði verði tekið og sem lægst tilboð til að þurfa að greiða sem minnst.

Vickrey lagði til að leikreglunum væri breytt þannig að eftir sem áður væri hæsta tilboði tekið en sá sem það á þurfi ekki að greiða nema sem samsvarar næsthæsta tilboðinu. Ef þetta er raunin þá er hagkvæmast fyrir sérhvern kaupanda að bjóða það sem hann er mest reiðubúinn að borga fyrir hlutinn eða m.ö.o. það sem hluturinn er virði í hans augum. Því er ljóst að sá sem metur hlutinn mest kemur til með að eiga hæsta tilboðið. Þessi tegund uppboðs hefur verið tekin í notkun í ýmsum útfærslum víða um heim og er stundum kölluð Vickrey uppboð. Vickrey hafði ýmislegt fleira um uppboð að segja og leiddi meðal annars út reiknireglur sem sýndu hvaða tegund uppboðs væri líklegust til að skila hæstu verði til seljenda að gefnum mismunandi forsendum um fjölda kaupenda og áhuga þeirra á að kaupa vöruna sem verið er að selja. Sýndi Vickrey fram á að Vickrey uppboð ætti að skila nákvæmlega sömu tekjum til seljanda og uppboð þar sem allir kaupendur koma saman og bjóða hver í kapp við annan, sama hve kaupendur eru margir og hve mikið þeir eru mest tilbúnir að bjóða.

Þeir Mirrlees og Vickrey áttu aldrei neitt samstarf en komust næst því þegar þeir skoðuðu áhrif mismunandi skattlagningar á tekjudreifingu í þjóðfélaginu og vinnuvilja einstaklinga. Vickrey reið á vaðið og birti nokkrar greinar á fimmta áratuginum sem sýndu hvernig tekjuskattsþrep ættu að vera ef hámarka ætti þjóðarhag. Vickrey byggði á forsendum sem þykja nokkuð glæfralegar í dag. Helstu forsendur voru að leggja megi saman hag allra einstaklinga til að fá heildarhag þjóðarinnar. Hagur sérhvers einstaklings fari annars vegar eftir því hve miklar tekjur hann hefur að frádregnum sköttum og viðbættum greiðslum frá ríkinu og hins vegar því hve hart hann leggur að sér við vinnu og þar með hve mikinn frítíma hann hefur. Þá gerði Vickrey ráð fyrir því að eftir því sem tekjur manna hækki hafi þeir minna gagn af hverri krónu sem þeir afla. Var það í líkani hans ástæða þess að hægt var að bæta hag heildarinnar með því að færa fé frá þeim best stæðu til þeirra sem verr eru settir og byggði á hugmyndum sem Edgeworth setti fram undir lok síðustu aldar.

Vickrey komst nokkuð langt áleiðis í útreikningum sínum og sýndi meðal annars fram á að mjög ört hækkandi tekjuskattshlutfall er ekki endilega hagkvæmt því að það dregur mjög úr vinnuvilja þeirra sem hafa hæstar tekjur og þar með heildarframleiðslu. Sýndi Vickrey fram á að það væri jafnvel réttlætanlegt að láta þá sem hafa hæstar tekur greiða lægra hlutfall af þeim í skatt en þá sem hafa lægri tekjur vegna þess að svo miklu skipti að draga ekki úr vinnuvilja þeirra sem hafa mestu framleiðslugetuna og þar með hæstar tekjur.

Við fyrstu sýn kann vandamálið með að finna hagkvæmustu tekjuskattsþrep ekki koma ónógum eða misskiptum upplýsingum mikið við en það er nú samt raunin. Vickrey setti dæmið fram á þann hátt að hann leit á skattlagninguna sem samning á milli ríkisins og einstaklinga. Einstaklingar vita hve mikið þeir geta haft í tekjur en ríkið veit eingöngu hve mikið einstaklingarnir hafa í tekjur (og stundum tekst einstaklingunum jafnvel að fela það fyrir ríkinu en það er annað mál). Skattlagning tekna þýðir að hluti af afrakstri vinnu rennur ekki til þeirra sem inna hana af hendi og því hvetur hún fólk til að vinna minna en ella. Þetta er í raun afar einfalt vandamál, tökum sem dæmi hárskera sem er að velta því fyrir sér hvort hann eigi að hafa opið aðeins lengur til að geta klippt einn viðskiptavin í viðbót. Gerum ráð fyrir að þjónusta hárskerans sé 1000 króna virði fyrir viðskiptavininn. Ef hárskerinn verður að innheimta 25% virðisaukaskatt af þjónustunni og greiða 40% tekjuskatt af því sem eftir er þá fær hann ekki í sinn hlut nema 480 krónur. Mismunurinn, 520 krónur, eru fleygur sem skattlagningin rekur á milli þjóðhagslegs ábata (ábata viðskiptavinarins) af því að hárskerinn vinnur meira og ábata hárskerans af viðskiptunum. Þetta getur hæglega leitt til þess að hárskerinn tekur ákvörðun sem ekki hámarkar þjóðarhag. Ef það er t.d. 750 króna virði fyrir hann að hætta aðeins fyrr þá mun hann ekki klippa einn í viðbót þótt þjóðarhagur myndi vaxa við það um 250 krónur (1000 - 750). Eftir því sem skatthlutföllin eru hærri eru meiri líkur á að hárskerinn taki ákvörðun sem ekki hámarkar þjóðarhag.

Ef ríkið hefði hins vegar upplýsingar um það hve miklar tekjur hugsanlegt er að hárskerinn hefði, þ.e. hver framleiðslugeta hans er, gæti það miðað skattlagningu sína við það, alveg óháð því hve mikið hann vinnur. Þar með myndu tekjur hárskerans aukast um 1000 krónur við það að klippa einn í viðbót og hann verða við þeirri beiðni ef það er innan við 1000 króna virði fyrir hann að hætta störfum aðeins fyrr. Lykillinn er að ef menn geta ekki haft áhrif á það með hegðan sinni hve mikinn skatt þeir greiða þá munu þeir ekki breyta hegðan sinni til að komast hjá því að greiða skatta.

Vickrey gerði sér grein fyrir að því hærri sem tekjuskattshlutföll væru væri ríkari tilhneiging hjá fólki til að draga úr vinnu og þar með framleiðslu og því væru því takmörk sett hve langt væri hægt að ganga í þá átt að auka þjóðarhag með því að skattleggja tekjur þeirra best settu og færa afraksturinn þeim sem verr eru staddir. Leiddi hann meðal annars út reiknireglur sem sýndu hvaða skatthlutföll væru hagkvæmust að gefnum ákveðnum forsendum. Honum tókst þó ekki að leysa vandamálið fullkomlega.

Mirrlees kom síðar að þessu vandamáli og leysti meðal annars nokkur tæknilega hnökra sem Vickrey hafði ekki tekist að komast fyrir. Lausn Mirrlees er talsvert auðveldari í notkun en lausn Vickrey og hefur verið grunnur að frekari rannsóknum á þessu sviði hagfræði. Lausn hans hefur raunar nýst á fleiri sviðum því að hana er hægt að nota í mörgum tilfellum þar sem samningsaðilar hafa mismunandi upplýsingar og hagsmuni, t.d. við að hanna launakerfi þegar það er kostnaðarsamt fyrir vinnuveitanda að fylgjast mjög grannt með því hve hart launþegar hans leggja að sér. Afkastahvetjandi launakerfi, t.d. ábataskiptakerfi, hlutaskiptakerfi og akkorð, eru dæmi um samninga þar sem reynt er að komast hjá vandræðum vegna þess að launþegi hefur annarra hagsmuna að gæta en atvinnurekandi og að það er dýrt fyrir atvinnurekanda að fylgjast með hverju handtaki launþegans. Slíkir samningar láta hagsmuni launþega fara að einhverju leyti saman við hagsmuni atvinnurekanda og draga því úr þörf á dýru eftirliti af hálfu atvinnurekandans.


Hér er að finna frekari upplýsingar um Nóbelsverðlaunahafana.

Aftur til heimasíðu Gylfa