Lífshlaup

Helgi Björnsson
Mars 2015

Uppruni

Fæddur í Reykjavik 1942.

Menntun


Háskólinn í Osló
, cand. mag (1967).
Háskólinn í Osló, dr. scient. (1969).
H. H. Wills Physics Laboratory, University of Bristol, Postdoctoral Fellow, 1973-75.
Háskólinn í Osló, dr. philos. (1988)


Starfsferill


2013-        Vísindamaður Emeritus
1990-2012. Vísindamaður við Raunvísindastofnun Háskólans.
1994-2004. Adjunct Professor in glaciology, University of Oslo.
1991-1995. Head of the Division of Geophysics of the Science Institute, University of Iceland.
1982-1990. Fræðimaður
við Raunvísindastofnun Háskólans.
1975-1982. Sérfræðingur
við Raunvísindastofnun Háskólans.
1971-1973. Jöklafræðingur
við Raunvísindastofnun Háskólans.
1970-1971. Hydrologist, Norwegian Water and Electricity Board, Oslo.Æviágrip

Helgi Björnsson, jarðeðlisfræðingur við Raunvísindastofnun Háskólans, f. 6.12.1942 í Reykjavík.

Foreldrar: Droplaug Sveinbjarnardóttir húsmóðir, f. 28.5.1912, í Viðvík við Stykkishólm, d. 20.7.1945 og dr. Björn Sigfússon háskólabókavörður, f. 17.1.1905 á Stóru Reykjum í Reykjahverfi, S-Þingeyjarsýslu, d. 10.5.1991. Systkini: Hólmfríður ritari, f. 16.3.1934, Sveinbjörn f.v. háskólarektor, f. 28.10.1936, Sigfús prófessor emeritus, f. 25.3.1938 og Ólafur Grímur læknir og rithöfundur, f. 6.1.1944. Hálfbróðir samfeðra: Hörður, f. 5.5.1949.

Maki: Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor, f. 22.6.1954. Foreldrar maka: Esther Pétursdóttir húsmóðir, f. 27.12.1922, d. 3.1.1996 og Þórhallur Tryggvason bankastjóri, f. 21.5.1917, d. 5.2. 2008. Börn: Þórhallur f. 11.11.1990 og Valgerður, f. 10.1.1995 og af fyrra hjónabandi: Svanhildur, f. 5.1.1971, Björn, f. 18.9.1974 og Ásdís, f. 5.1.1982.

Stúdentspróf frá MR 1963, cand mag. frá Óslóarháskóla 1967, cand. real. 1969 og dr. philos. þaðan 1988. Vatnafræðingur við Orkustofnun Noregs 1970-1971, sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskólans 1971-1973 og frá 1975, forstöðumaður jarðeðlisfræðistofu stofnunarinnar 1991-1995, í stjórn Jarðvísindastofnunar Háskólans 2010-2012. Hefur annast kennslu í jöklafræði og grunnvatnsfræði við Háskóla Íslands. Gistisérfræðingur við Bristolháskóla 1973-1975, Stokkhólmsháskóla 1980, Óslóarháskóla 1986-1987, Institute of Arctic and Alpine Research, Boulder Colorado 1996 og British Antarctic Survey og Scott Polar Research Institute í Cambridge 1997, Department of Earth, Ocean and Atmospherice Sciences, University of British Columbia í Vancouver 2005. Prófessor í jöklafræði við Óslóarháskóla í hlutastarfi 1994 til 2004. Hefur frá árinu 2008 tekið þátt í samstarfi um jöklarannsóknir á Himalajasvæðinu og annast kennslu í jöklafræði við Indian Institute of Sciences í Bangalore í Indlandi.

Rannsóknum Helga má skipta í fimm meginsvið. Þær hafa beinst að öflun grunngagna um alla meginjökla Íslands, gerð korta af yfirborði og botni, mati á ísforða jöklanna og lýsingu á landslagi undir þeim: hásléttum, fjöllum, dölum og eldstöðvum.   Með því starfi hefur náðst mikilvægur áfangi í könnun á áður óþekktum tíundahluta landsins, landmótun þar og eldvirkni. Þetta hefur meðal annars verið gert með svonefndri íssjá, sem smíðuð var við Raunvísindastofnun Háskólans.

Þá hefur hann aukið þekkingu á vatnafræði landsins, einkum á rennsli vatns um jökla og eftir botni þeirra, afmörkun vatnasviða á jöklum til einstakra jökulfljóta, söfnun vatns í stöðuvötn undir jökli. Fræðilegt framlag Helga hefur vegið þungt til skilnings á jökulhlaupum, orsökum þeirra og einkennum.
Í þriðja lagi hefur Helgi rannsakað myndun og eðli jarðhitakerfa undir jöklum, þar sem leysingavatn sækir varma úr kviku grunnt í jarðskorpunni, og metið varmaafl jarðhitasvæða með mælingum á ísbráðnun og söfnun vatns í jökullón. Hann hefur einnig lýst viðbrögðum jökla við eldgosum.

Fjórða verksvið Helga hefur verið könnun á skriði jökla og hvernig breytingar á rennslisháttum vatns undir jöklum tengjast hreyfingu þeirra, m. a. framhlaupum. Slíkar rannsóknir fá nú aukið alþjóðlegt vægi þegar bráðnun vex á heimskautajöklum og vatnsrennsli við botn flýtir fyrir skriði jöklanna til sjávar. Þá hefur Helgi mælt afkomu jökla og staðið að umfangsmiklum veðurathugunum á jöklum og síðan tengt jöklabreytingar við loftslag nú á dögum, en einnig fyrr á tíð og loks metið hver gætu orðið líkleg viðbrögð jökla við loftslagsbreytingum á komandi árum.
Ritverk Helga eru um 260, þar af um 140 greinar í ritrýndum fræðiritum; alþjóðlegar ritaskrár (Science Citation Index) sýna 4965 tilvísanir í vísindatímaritum í verk hans; annar mælikvarði á virkni og áhrif birtra verka, h-stuðull er 40, sem segir að í 40 greinar hefur verið vitnað oftar en 40 sinnum. Þetta telst hátt meðal jöklafræðinga um allan heim. Í 97 greinar hefur verið vitnað til 10 sinnum eða oftar (en frá 2010, 2010 tilvísanir, h-index 25, og 10-index 51).  Tilvitnanir í bókarkafla eru ekki meðtaldar. Auk ritverka hefur Helgi birt kort af jöklum Íslands. Sjá nánar ritskrár háskólakennara og vefsíðu Raunvísindastofnunar (http://www.raunvis.hi.is/ og  http://www.raunvis.hi.is/~hb/).

Helgi hefur átt áratugalangt samstarf við vísindamenn vestanhafs og austan frá á annan tug landa og hin síðari ár einnig frá Asíu. Rannsóknir hans nutu styrkja frá Evrópusambandinu samfellt frá árinu 1996 til 2005; alls fjögur verkefni í samvinnu jöklafræðinga frá 10 löndum. Hann hefur unnið að jöklarannsóknum og kennslu í Noregi og á Svalbarða, og Svíþjóð (m. a. vann hann fyrstu mælingar á landslagi undir sænskum jöklum árið 1979), og hann staðsetti 1983 átta bandarískar herflugvélar í Grænlandsjökli, sem þar grófust 1942. Hann hefur tekið þátt í að koma á norrænu samstarfi háskóla og rannsóknastofnana að kennslu til doktorsnáms í jöklafræðum (SVALI öndvegisverkefni). Hann hefur átt langt samstarf við Landsvirkjun og Vegagerðina um jöklarannsóknir og verið Almannavörnum ríkisins til ráðuneytis um snjóflóðamál og hættu af jökulhlaupum.

Helgi hefur sinnt margvíslegum stjórnunarstörfum og félagsmálum.  Var í tvo áratugi annar ritstjóri Jökuls og sat jafnframt í stjórn Jöklarannsóknarfélags Íslands, þar af formaður,  1987-1998.  Hann sat í stjórn Alþjóðlega jöklarannsóknafélagsins 1978-1981, 1984, 1990-1993 og varaforseti þess 1999-2002. Hann hefur komið að skipulagi margra alþjóðlegra ráðstefna jöklafræðinga hér á landi og erlendis og starfað í alþjóðlegum vinnuhópum um vatnafræði jökla og um líkanagerð af jöklum, verið fulltrúi Íslands í ýmsum alþjóðlegum nefndum og ráðum á sínu vísindasviði (m. a. á vegum International Arctic Science Committee, European Science Foundation og Rannís). Hann var ritstjóri Annals of Glaciology 1985-1986, 1991-1992 og 2002. Helgi hefur verið ötull við að flytja fyrirlestra um rannsóknir sínar fyrir fræðimenn og almenning.

Helgi var kjörinn í Vísindafélag Íslendinga 1985. Honum var veitt viðurkenning Menningarsjóðs VISA fyrir vísinda og fræðastörf 1999. Árið 2002 var hann sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Stokkhómsháskóla, og hlaut 2003 viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir lofsverðan árangur við rannsóknastörf. Honum var veittur  Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 2008 fyrir framlag til íslenskra og alþjóðlegra jöklarannsókna og vísindalegrar samvinnu. Árið 2009 hlaut hann íslensku bókmenntaverlaunin i flokki fræðirita fyrir verk sitt Jöklar á Íslandi. Helga voru veitt verðlaun Ásu Guðmundsdóttur Wright árið 2013.