Halldóra
Bjarnadóttir
|
Bernska
og menntun |
Höfundar: Edda Jóhannesdóttir og Sólbjörg Harðardóttir | |
Um og eftir aldamótin var mikið að
gerast í uppeldis- og menntamálum á Íslandi því æ fleirum fannst það
skipta verulegu máli fyrir börn að þau fengju menntun aðra en þá sem veitt
var heima fyrir. Með fræðslulögunum árið 1907 var sett á skólaskylda fyrir
börn frá 10-14 ára. Heimildarákvæði um lengri skólaskyldu var sett í lögum
árið 1926 og almenn regla um sjö ára skólaskyldu var sett árið 1936 (Jón
Torfi Jónasson, 2004).
Halldóra Bjarnadóttir var ein af þeim sem lét til sín taka í uppeldis- og menntamálum á þessum tíma. Ævi hennar var merkileg fyrir þær sakir að hún lét sig þessi mál mikið varða þó svo að hún hafi sjálf aldrei gifst og átt börn. Hún blandaði sér líka mikið í kvennabaráttuna og var ósátt við það að konur fengju ekki sömu laun og karlar fyrir sömu störf. Einnig var hún lengi vel elsti Íslendingurinn því hún náði að verða 108 ára gömul. Hér verður sagt frá æsku hennar á Íslandi og námi og starfi í Noregi.
Þá fjöllum við um kennarastörf hennar hér á landi, skólastjórastöðu hennar
við Barnaskólann á Akureyri og stofnun Tóvinnuskólans. Einnig gerum við
félagsstörfum hennar skil og nefnum nokkur rit sem eru um og eftir
Halldóru. | |
Bernska og menntun | |
Halldóra Bjarnadóttir fæddist 14.
október 1873 að Ási í Vatnsdal. Hún var dóttir hjónanna Bjarna Jónassonar
og Bjargar Jónsdóttur. Þegar hún var níu ára gömul skildu foreldrar hennar
og fluttist hún þá með móður sinni til Reykjavíkur. Skilnaður foreldra
hennar hafði djúpstæð áhrif á Halldóru og varð til þess að hún giftist
aldrei sjálf. Faðir hennar fluttist til Bandaríkjanna, giftist aftur og
eignaðist þar þrjár dætur. Halldóra hélt bréfasambandi við systur sínar og
hittust þær stöku sinnum (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson,1960).
Þegar Halldóra og móðir hennar komu til Reykjavíkur leigðu þær fyrstu tvö árin hjá vinafólki þar til þær eignuðust sitt eigið hús. Alltaf var mikill gestagangur hjá þeim og alltaf voru þær með leigjendur. Halldóra þráði strax ung að aldri að mennta sig og bað hún um að fá að fara í Latínuskólann, en á þessum árum þótti ekki álitlegt fyrir stúlkur að ganga menntaveginn (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, 1960). Árið 1886 var Halldóra fermd í Dómkirkjunni og sagðist hún ekki hafa haft mikinn áhuga á kverinu á þessum árum og að fermingin hafi ekki haft nein andleg áhrif á sig. Það var ekki fyrr en Halldóra fór svo fyrst að heiman 16 ára gömul sem trúin fór að færa henni mikinn styrk og las hún Helgapostillu, Biblíuna, Matthíasar- og Davíðssálma spjaldanna á milli (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, 1960). Þegar hún var 17 ára gömul bjó hún hjá móðurbróður sínum og konu hans á Sauðárkróki eitt sumar og fékk hún þar sína fyrstu kennarareynslu. Á þessum árum var mikil áhersla lögð á kennslu í heimilisfræðum og fór hún því að læra fatasaum. Halldóra hélt svo áfram að kenna víðsvegar um land næstu fimm árin og stundaði hún bæði farkennslu og heimiliskennslu. Hún fann fljótt hvað hana skorti menntun til kennarastarfsins en á þessum árum var engin stofnun á Íslandi sem veitti hana. Hún ákvað því að halda til Noregs í nám árið 1896 en á leið sinni þangað kom hún við í Kaupmannahöfn. Með henni á skipinu voru sjö ungir menn sem allir voru á leið til Kaupmannahafnar til náms. Meðal þeirra var einn helsti frumkvöðull íslenskra menntamála, Guðmundur Finnbogason. Halldóra lýsir þessari skipsför og stuttri dvöl sinni í Kaupmannahöfn áður en hún heldur til Noregs sem mikilli skemmtun og segist hún „aldrei hafa verið í svo glaðværum og góðum félagsskap sem þessum“ (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, 1960). Í Noregi leigði Halldóra herbergi í miðbæ Oslóar. Á því heimili var
heimilisfólkið strangtrúað og lærði hún þar fljótlega að meta og virða
helga siði og iðkaði hún þá sjálf alla tíð síðar (Vilhjálmur S.
Vilhjálmsson, 1960). Halldóra undi sér vel í náminu og gekk henni vel. Hún
stundaði leikfimi og lagði hún alla tíð mikla áherslu á það að hreyfa sig
reglulega. Félagslífið stundaði hún af kappi og eignaðist í skólanum marga
vini og kunningja. Auk þeirra var hún í samskiptum við Íslendinga sem
dvöldu í Osló og var hún ein af stofnendum Íslendingafélagsins þar.
| |
Aftur til Íslands | |
Náminu lauk Halldóra árið 1899 og
snéri hún strax til Íslands og hóf þá kennslu við Barnaskólann í Reykjavík
auk þess tók hún að sér að kenna kristinfræði og landafræði í
Kvennaskólanum (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, 1960). Halldóra lagði mikinn
metnað í kennsluna og nýtti sér þær kennsluaðferðir sem hún hafði lært í
Noregi en hún var ekki sátt við launin. Hún var ekki fastráðin og fékk hún
því ekki sömu laun og aðrir kennarar sem höfðu kennarapróf. Sótti hún þá
um fastráðningu og hærri laun en kröfum hennar var hafnað. Þrátt fyrir
mótmæli innan skólans sem utan ákvað hún að segja upp starfi sínu og leita
á önnur mið. Þess má geta að Bríet Bjarnhéðinsdóttir, sem meðal annars
stóð að stofnun Kvenréttindafélags Íslands árið 1907
(Félagsmálaráðuneytið, 2004), skrifaði grein í Kvennablaðið þar sem hún
gagnrýnir ákvörðun bæjarstjórnar um að láta Halldóru fara og þar sem hún
lofar kennsluaðferðir hennar. Hún minnist meðal annars á það að Halldóra
hafi nýtt sér hugmyndir Guðmundar Finnbogasonar. Hugmyndir um að haga
náminu eftir þroska hvers barns og að tengja námið umhverfi barnanna og
kenna þeim í gegnum leik. Briet talaði einnig um að börnin sem hún kenndi
hafi verið auðþekkt úr stórum hópi nemenda þar sem þau hefðu þekkingu á
við mun eldri börn og að börnin hennar Halldóru hafi verið einstaklega
siðprúð og kurteis (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, 1960). Upp | |
Til Noregs á ný | |
Halldóra tók fljótlega þá ákvörðun
að fara aftur til Noregs og fékk hún strax kennarstarf í bænum Moss sem
var mun betur launað en kennarastarfið í Reykjavík. Hún leigði sér efri
hæð í húsi og leigði hún þar út tvö herbergi til þess að drýgja tekjurnar.
Móðir hennar fluttist út til hennar og var hjá henni þau sjö ár sem hún
dvaldi í Noregi. Kennslunni þar var þannig háttað að sami kennari fylgdi börnunum frá fyrsta og upp í fjórða bekk. Halldóru fannst þetta góð aðferð því með þessu móti átti kennarinn auðveldara með að fylgjast með hverju barni og þekkja hæfileika þeirra og takmarkanir. Þess var vandlega gætt að ekkert barn drægist aftur úr og mikill metnaður var lagður í að finna leiðir að hjarta hvers nemenda (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, 1960). Árið 1906 bauðst Halldóru að fara sem túlkur í bekkjarferð til Íslands
sem norskur samkennari hennar gekkst fyrir. Eftir þá ferð fór hún að
flytja erindi í Suður Noregi um Ísland og notaðist hún við skuggamyndir
til að kynna land og þjóð. Ferðaðist hún um helgar og þegar hún var í
fríum frá kennslu. | |
Skólastjóratíð og félagsstörf | |
Halldóra tók við skólastjórastöðu í
Barnaskólanum á Akureyri fyrsta árið sem skylda var að senda 10-14 ára
börn í skóla eða árið 1908. Þau tíu ár sem hún gegndi stöðunni var hún
aðeins fjarverandi eina viku vegna veikinda. Á þessum árum voru um 100 -
120 börn í skólanum. Ásamt skólastjórastöðunni kenndi hún kristinfræði og
handavinnu í efstu bekkjunum en handavinnukennsla var tekin upp í hennar
skólastjóratíð. Áður fyrr þótti óþarfi að kenna handavinnu í skólanum því
heimilin áttu að sjá um þá kennslu sjálf. Handavinna var aðaláhugamál
Halldóru í hennar kennslustarfi og fannst henni mikil nauðsyn að nemendur
hefðu góða undirstöðu í þeirri grein eins og áður kom fram (Vilhjálmur S.
Vilhjálmsson, 1960).
Í skólastjóratíð sinni tók Halldóra fljótlega upp á því að bjóða kennurum skólans heim til sín til að halda vikulega fundi með þeim. Hafði hún beinar kennsluæfingar á fundunum þar sem hún lagði mesta áherslu á kennslu í reikningi, landafræði, íslensku og handavinnu. Einnig var rætt um tornæma og baldna einstaklinga á þessum fundum og reynt að finna sem besta lausn fyrir þessi afbrigðilegu börn. Á þessum tíma vildi fólk sem minnst skipta sér af börnum sem þóttu frábrugðin öðrum börnum en Halldóra vildi gera vel við þau og útvegaði þeim sérkennslu í skólanum. Einnig fannst henni nauðsynlegt að taka upp nána samvinnu á milli heimila og skóla þar sem skólaskylda var ný af nálinni. Hafði hún áhyggjur af því að foreldrar teldu ekki skólann eins mikilvægan eins og löggjafinn og kennararnir héldu fram. Hún taldi að skólastarfið bæri meiri árangur ef gott samstarf væri á milli heimila og skóla (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, 1960). Halldóra lét aðbúnað nemenda sig miklu varða og lét meðal annars útbúa leikvöll við skólann. Einnig lagði hún grunn að skólabókasafni en þegar hún byrjaði sem skólastjóri átti safnið aðeins eina bók. Leikfimikennsla hafði legið niðri í skólanum um nokkurt árabil áður en Halldóra beitti sér fyrir því að hún yrði tekin upp að nýju. Orðin hreinlæti, reglusemi og sparsemi voru gerð að einkunnarorðum skólans og var henni mikið í mun að efla ábyrgðartilfinningu barnanna fyrir vistarverum skólans. Henni þótti mikilvægt að bregða út frá hinu hefðbundna skólastarfi og kom hún á þeirri reglu að halda litlu jólin sem ekki hafði áður þekkst í íslenskum skólum. Vettvangsferðir voru farnar reglulega í fyrirtæki og stofnanir í bænum og voru nemendur látnir vinna að þemaverkefni í tengslum við ferðirnar. Halldóra fékk mikla gagnrýni bæjarbúa fyrir allar þær breytingar sem hún kom á í umbótastarfi sínu við skólann, það var talið alltof kostnaðarsamt og í sumum tilfellum hreinn óþarfi (Jón Hjaltason, 2000). Halldóra sagði starfi sínu lausu eftir tíu ára starf. Þá sagðist hún vera orðin leið á „sífelldu naggi og nuddi á mannafundum og í blöðum“ (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, 1960). Var hún margbeðin um að hætta við þessa ákvörðun sína en henni var ekki haggað. Halldóra var áfram búsett á Akureyri næstu fjögur árin og hafði ýmislegt fyrir stafni þann tíma. Hún var til dæmis kosin í bæjarstjórn og skólanefnd, hún studdi kvennabaráttuna af fullum krafti og var í broddi fylkingar í mörgum hagsmunamálum kvenna. Einnig var hún virkur þátttakandi í kvenfélögum og flutti þar erindi um ýmis mál. Henni fannst hlutverk kvenfélaga vera fyrst og fremst að sameina konur, kenna þeim að starfa í félagsskap og tengja saman krafta þeirra til að vinna að góðum málum. Hún segir í ævisögu sinni, sem kom út árið 1960, að sér finnist ósanngjarnt að á þeim tíma „þekkist það enn að konum séu greidd lægri laun en karlmönnum þó að þau vinni á sama stað og við sömu störf“ (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, 1960). Halldóra var einnig meðal stofnenda og fyrsti formaður Sambands norðlenskra kvenna. Félagið var stofnað árið 1914 og var stofnun þess að hennar mati stórt spor í félagsmálum kvenna víða um land. Það hafði forystu á mörgum sviðum í hagsmunamálum og viðfangsefnum kvenna og auk þess beitti það sér fyrir bættum hag heimila í landinu (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, 1960). Seinni starfsárum sínum eyddi Halldóra að miklu leyti í útgáfu ársritsins Hlínar, málsvara Sambands norðlenskra kvenna sem kom út í fyrsta skipti árið 1917. Það efni sem birt var í Hlín var „fyrst og fremst um heimilisiðnað, hjúkrunarmál og hreinlætishætti, garðrækt, uppeldismál, réttindamál kvenna, smásögur, leiðbeiningar um nauðsynjamál og yfirleitt allt það, sem á einn eða annan hátt hefur getað stutt að eflingu heimilanna og aukinni þjóðrækniskennd“ (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, 1960). Halldóru tókst að fá ólíklegustu manneskjur til að skrifa í ritið. Henni leiddist þau rit þar sem formaður þeirra var sá eini sem sem sá um skrifin og einnig var hún þeirrar skoðunar að „hver einasti Íslendingur hafi eitthvað skemmtilegt og fróðlegt til brunns að bera, ef hann tekur sig til“(Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, 1960). Haustið 1922 flutti Halldóra ásamt móður sinni til Reykjavíkur þar sem henni hafði boðist að kenna handavinnu við Kennaraskóla Íslands. Hún sá sér þá leik á borði að ná til allra kennara með þeirri grein sem hún mat einna mest í barnaskólum og kenndi hún í átta ár við skólann. Hún bjó í þrettán ár í Reykjavík og hafði ýmislegt annað fyrir stafni heldur en kennsluna við Kennaraskólann. Hún hélt til dæmis ýmis námskeið um handavinnu og starfaði í Heimilisiðnaðarfélagi Íslands. Ferðaðist hún mikið á þessum árum, fór til dæmis til Norðurlanda og hélt vefnaðarsýningar þar. Einnig bauðst henni að fara til Kanada og Ameríku og þáði hún það boð að hluta til vegna þess að hana langaði að sjá systur sínar og kynnast fólkinu þeirra. Þar hélt hún erindi og hannyrðasýningar. Árið 1946 stofnaði Halldóra Tóvinnuskólann á Svalbarða við Eyjafjörð. Hún var ekki sjálf skólastjóri við skólann heldur heimsótti hún hann hálfsmánaðarlega og kenndi kristinfræði og flutti erindi. Einnig sá hún um fjárhag skólans, lagði til innanstokksmuni, áhöld og efni. Skólinn var lagður niður árið 1955 en þá var Halldóra orðin 82 ára gömul. Haustið 1955 fluttist Halldóra á Sjúkra- og elliheimilið á Blönduósi og
einbeitti sér að ritstjórn Hlínar og formennsku Sambands norðlenskra
kvenna. Hún var 87 ára gömul þegar Vilhjálmur S. Vilhjálmsson skrifar í
samvinnu við hana ævisögu hennar. Í lokaorðum bókarinnar er gaman að sjá
hvað hún er enn full af hugmyndum sem hana langar til að framkvæma. Hún
talar um að hún eigi enn margt eftir ógert en að líkindum endist henni
ekki aldur til að vinna öll þau störf sem hana langar til að vinna.
| |
Rit eftir Halldóru Bjarnadóttur | |
Kvæði og leikir, barnabók gefin út
fyrst árið 1917. Barnabók Hlínar árið 1951. Vefnaðarbók Sigrúnar Blöndal,
1932-1935. Einnig gaf hún út nokkrar íslenskar uppdráttarmöppur fyrir
útsaum og vefnað (Ólafur Þ. Kristjánsson, 1985).
Halldóra skrifaði ótal greinar í ársritið Hlín sem hún gaf sjálf út í 44 ár eða frá árinu 1917 (Guðrún Helgadóttir, 1966). Í þriðja árgangi ársritsins, frá árinu 1919, talar hún um það hversu erfitt það geti reynst þeim sem fara utan til náms að staðfæra námið íslenskum aðstæðum. Henni finnst vera vöntun á góðum skólum hér á landi og vill þá leggja sérstaka áherslu á verknám. Einnig talar hún um mikilvægi þess að koma á stofn kennaraskóla hér á landi (Halldóra Bjarnadóttir, 1919). Í 35. árgangi Hlínar frá árinu 1951 er grein eftir Halldóru þar sem hún
leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að vernda öll þjóðleg verðmæti sem
best. Að vernda málið, halda tryggð við allt sem íslenskt er, matargerð,
heimilishætti og venjur. Íslenskri handavinnu varð að hennar mati að halda
í heiðri og ekki síst íslenska þjóðbúningnum. Halldóra er mjög framsýn að
þessu leyti og sér fyrir sér mikilvægi þess að Íslendingar haldi fast í
menningu sína „í stað þess að elta allar útlendar tískur“. Í greininni
talar hún einnig um mikilvægi þess að styrkja og styðja stúlkur til náms
(Halldóra Bjarnadóttir, 1951). Halldóra skrifaði formála og síðasta kafla ævisögu sinnar sem
Vilhjálmur S. Vilhjálmsson tók saman árið 1960 í samvinnu við hana. Einnig
tók hún saman bókina Vefnaður á íslenskum heimilum á 19. öld og fyrri
hluta 20. aldar sem gefin var út árið 1966 þegar Halldóra var komin yfir
nírætt. Í þeirri bók gerir hún meðal annars grein fyrir áhöldum og efnum
sem notuð eru við handavinnu og eru þar frásagnir fjölda fólks um hvernig
verkin skuli unnin. Þá segir hún frá handavinnu úr hverjum landsfjórðungi
fyrir sig sem hún kynntist á ferðum sínum um landið. Einnig prýðir bókina
fjöldi ljósmynda af handverki og vélum sem notaðar hafa verið til
handverks. Hún tileinkar foreldrum sínum bókina og í formála hennar ritar
hún að hún hafi heyrt talað um ullina frá því að hún man fyrst eftir sér.
Einnig ritar hún þar að „við föður- og móðurhné hafi hún kynnst ullinni og
lært að virða eiginleika hennar. Seinna kom svo spuni og vefnaður til
sögunnar“ (Halldóra Bjarnadóttir, 1966). Hún hefur því kynnst
handavinnunni strax í barnæsku og hafði hana að aðaláhugamáli sínu allt
sitt líf eins og áður kom fram. | |
Rit um Halldóru Bjarnadóttur | |
Halldóra Bjarnadóttir ævisaga rituð
af Vilhjálmi S. Vilhjálmssyni, gefin út árið 1960. Jenný Karlsdóttir og
Þórdís Ingvadóttir skrifuðu B.ed.ritgerð við Kennaraháskóla Íslands árið
1982 um Halldóru Bjarnadóttur og störf hennar að skólamálum. Auk þess sem
skrifaðar hafa verið margar greinar um Halldóru (Landsbókasafn, 2004).
Í þriðja bindi ritraðarinnar Fæðing nútímamannsins er að finna nokkuð
góða umfjöllun um skólastjóratíð Halldóru á Akureyri. Þar kemur meðal
annars fram að baráttumál Halldóru um úrbætur í skólanum voru fjölmörg og
lét hún fátt stöðva sig í þessari baráttu (Jón Hjaltason, 2000). | |
Lokaorð | |
Áður en gagnasöfnun og lestur um ævi
og störf Halldóru Bjarnadóttur hófst höfðum við litla hugmynd um hver hún
var. Það fáa sem við vissum um hana var að hún hafði unnið mikið og gott
starf í Barnaskólanum á Akureyri á árunum 1908-1918. Eftir að hafa lesið
ævisögu hennar, greinar og rit eftir hana sjálfa og um hana erum við
sammála því að hér var á ferðinni alveg einstök kona. Hún var mjög
sjálfstæð, vinnusöm og kraftmikil og lét fátt stöðva sig í því sem hún
hafði hug á. Hún sóttist eftir að ganga menntaveginn þrátt fyrir að það
væri ekki algengt á þessum tíma hjá stúlkum og fór utan til náms og
starfs. Lífssýn Halldóru hefur eflaust mótast mjög á unga aldri. Á heimili
móður hennar var mjög gestkvæmt og dvöldu ungir menntamenn þar um lengri
og skemmri tíma. Halldóra var mikill frumkvöðull á sviði uppeldis- og
menntamála og var óhrædd við að láta skoðanir sínar í ljós. Hún ólst upp
við hannyrðir og var það hennar aðaláhugamál í kennslunni og lagði hún
mikla áherslu á það alla tíð. Hún skrifaði ótal greinar og hélt fjölda
erinda bæði hérlendis og erlendis um ýmis málefni sem hún lét sig varða.
Einnig lét hún ekki sitt eftir liggja í kvennabaráttunni. Starfsævi Halldóru var óvenjulöng; ekki eingöngu vegna þess að hún varð 108 ára gömul heldur var hún mjög starfssöm og einstaklega dugleg kona og hélt hún andlegum kröftum sínum fram yfir tírætt (Guðrún Helgadóttir, 1996). Halldóra framkvæmdi hluti sem margir hefðu ekki haft kjark til að gera.
Eftirfarandi frásögn er gott dæmi um það hvernig Halldóra lét þá sem minna
máttu sín skipta sig miklu máli og var boðin og búin að aðstoða þá: Halldóra lést á Héraðssjúkrahúsinu á Blönduósi 28. nóvember 1981 þá 108
ára gömul, elst allra Íslendinga (Jenný Karlsdóttir og Þórdís Ingvadóttir,
1982). Hennar er nú einkum minnst sem helsta málsvara gamla íslenska
heimilisiðnaðarins, íslenskrar ullar og tóvinnu. Nægir þar að minna á
Halldórustofu í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi, þátt Halldóru í söfnun
muna úr íslenskri ull og skrif hennar um heimilisiðnað
(Heimilisiðnaðarsafnið Halldórustofa, 2005). Einnig var Halldóra fyrsta
íslenska konan sem stjórnaði stórum barnaskóla hér á landi. Gerði hún það
af mikilli framsýni og skörungskap eins og svo margt annað sem hún tók sér
fyrir hendur á sinni löngu og árangursríku ævi. | |
Heimildaskrá | |
Félagsmálaráðuneytið. (2004).
Fréttir og tilkynningar. Minnisvarði í minningu Bríetar
Bjarnhéðinsdóttur. Sótt 24. febrúar 2005 af:
http://felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/1501 Guðrún Helgadóttir. (1996). Um störf Halldóru Bjarnadóttur að skólamálum. Sótt 24. febrúar 2005 af: http://holar.is/~gudr/kennslufr/HBAK.doc Halldóra Bjarnadóttir. (1966). Vefnaður á íslenskum heimilum á 19.öld og fyrri hluta 20.aldar. Reykjavík: Bókaútgáfa menningarsjóðs og þjóðvinafélagsins. Halldóra Bjarnadóttir. (1919). Skólar. Hlín. 3. 42-48. Halldóra Bjarnadóttir. (1951). Uppeldis og fræðslumál. Nokkrir fréttaþættir frá félagssamtökum kvenna á Íslandi. Hlín, 35. 5-9. Halldóra Bjarnadóttir. (1956). Uppeldis og fræðslumál. Kristinfræðikennsla í Kvennaskólanum. Hlín, 40, 54-56. Heimilisiðnaðarsafnið Halldórustofa. Sótt 24. febrúar 2005 af: http://www.icom.is/Sofn_5/HeimilisidnHalldora.htm# Jenný Karlsdóttir og Þórdís Ingvadóttir. (1982). Halldóra Bjarnadóttir og störf hennar að skólamálum. Óbirt B.Ed. ritgerð: Kennaraháskóli Íslands. Jón Hjaltason. (2000). Fæðing nútímamannsins 1906-1918. Akureyri 3.bindi bls. 199-204. Akureyrarbær. Jón Torfi Jónasson. (2004). Þróun menntakerfis. Óútgefið rit. Landsbókasafn Íslands. (e.d.). Gegnir. Sótt 24. febrúar 2005 af: www.bok.hi.is Ólafur Þ. Kristjánsson. (Ritstj.). (1985). Kennaratal á Íslandi. Reykjavík: Prentsmiðjan Oddi hf. (Upphaflega kom ritið út 1958). Vilhjálmur S. Vilhjálmsson. (1960). Halldóra Bjarnadóttir ævisaga. Reykjavík: Setberg sf. Upp |