Ingibjörg H. Bjarnason
(1868-1941)



 

Inngangur
Lífshlaup
Kvennaskólinn í Reykjavík
Menntun kvenna á tímum Ingibjargar
Ingibjörg og menntamál á alþingi
Lokaorð
Heimildaskrá

Höfundar: Ragnhildur B. Bolladóttir og Þóra Björt Sveinsdóttir
Inngangur
Það er athyglisvert þegar að saga menntamála landsins er skoðuð, að hlutur kvenna er ekki áberandi. Oft virðast ýmsir merkismenn, þá karlmenn, og atburðir vera í hávegum hafðir á meðan hin þögla vinna kvenna gleymist. Ljóst er að margar konur hafa gegnt mikilvægu hlutverki í uppbyggingu menntunar og þá ekki síst í þágu kvenna. Árið 1874 var Kvennaskólinn í Reykjavík stofnaður en hann átti eftir að skipa stóran þátt í að bæta menntun kvenna ásamt því að vera stórt skref í rétta átt í réttindabaráttu þeirra. Ein af skólastýrum hans var Ingibjörg H. Bjarnason og var hún önnur til að gegna þeirri stöðu. Ritgerð þessi mun fjalla um líf hennar og starf á sviði menntamála þar sem hún kom víða við. Með þessari ritsmíð verður leitast við að svara þeirri spurningu hversu víðtæk áhrif hún hafði á menntun kvenna á sínum tíma? Til þess að svara því er nauðsynlegt að skoða lífshlaup hennar og áhrifavalda. Eins er mikilvægt að líta á störf hennar á Alþingi þar sem hún barðist fyrir ýmsum málefnum meðal annars bættri menntun kvenna.
Upp
 
Lífshlaup
Árið 1868 fæddist þeim hjónum Hákoni Bjarnasyni og Jóhönnu Kristínu Þorleifsdóttur dóttir sem þau nefndu Ingibjörgu H. Bjarnason. Alls áttu þau tólf börn en aðeins fimm þeirra komust á legg, Ingibjörg og fjórir bræður hennar. Faðir hennar rak verslun sem og þilskipaútgerð á Bíldudal og vegnaðist honum vel í viðskiptum. Ingibjörg missti föður sinn 1876 þá átta ára gömul en hann fórst í sjóslysi þegar eitt skipa hans lenti í ofsaveðri á leið sinni frá Kaupmannahöfn (Björg Einarsdóttir, 1986).

Þegar móðir Ingibjargar flutti til Reykjavíkur fjórum árum eftir andlát eiginmanns síns lét hún tvö börn sín í umsjón Páls Sigfússonar stud.jur en hann hafði þá þegar starfað í þrjú ár sem verslunarstjóri og heimiliskennari barna þeirra. Að lokinni fermingu flutti Ingibjörg suður til Reykjavíkur og hóf nám haustið 1881 í þriðja bekk Kvennaskólans í Reykjavík. Árin 1882-1884 naut Ingibjörg leiðsagnar Þóru Pétursdóttur, einnig þekkt sem Þóra biskups og stundaði hún hjá henni nám í teikningu, dönsku og ensku. Sú kunnátta átti eftir að koma sér vel er Ingibjörg stundaði nám í Kaupmannahöfn fyrst 1884 og svo aftur 1886-1893 (Björg Einarsdóttir, 1986).

Á námsárum sínum í Danmörku komst hún í kynni við Lingsleikfimi og lauk leikfimikennaraprófi fyrst Íslendinga vorið 1892 frá Poul Petersens Institut. Ingibjörg lagði alla tíð ríka áherslu á mikilvægi íþróttakennslu og má með sanni segja að hún hafi verið brautryðjandi á því sviði. Einnig stundaði hún nám í hinum ýmsu greinum er tengdust uppeldi- og menntun (Björg Einarsdóttir, 1986).
Ingibjörg vildi vera áfram í Kaupmannahöfn en það var eindreginn vilji móður hennar að börn hennar snéru aftur til Íslands að námi loknu (Sigríður Briem Thorsteinsson, 1974).

Árið 1893 hóf Ingibjörg störf sem kennari við Barnaskólann og Kvennaskólann í Reykjavík. Hæfileikar hennar á sviði kennslu komu fljótlega í ljós. Eftir að hafa starfað sem nánasti samstarfsmaður Þóru Melsteð skólastjóra um nokkurt skeið tók Ingibjörg við starfi hennar er hún lét af störfum sökum aldurs 1906. Því starfi gegndi Ingibjörg í 35 ár. Greinilegt er að skólinn hefur skipað stóran sess í lífi Ingibjargar því við andlát hennar arfleiddi hún skólann að flest öllum eigum sínum og eru skrifstofuhúsgögn hennar enn á skrifstofu skólastjóra (Björg Einarsdóttir, 1986).

Ingibjörg lét einnig mjög til sín taka í félagsmálum og þá aðallega í málefnum kvenna. Var hún einn stofnenda Lestrarfélags kvenna í Reykjavík. Hún var einnig ein tólf kvenna er samdi frumvarp er flutt var á Alþingi árið 1915 um þörfina fyrir byggingu Landspítala. Má segja að það hafi verið upphafið á þeirri miklu fjáröflun sem fram fór á næstu árum. Ingibjörg var einnig skipuð formaður Landspítalasjóðs Íslands frá stofnun hans til æviloka (Björg Einarsdóttir, 1986). Einnig sat hún í menntamálaráði á árunum 1928-1932 (Alþingi 2001). Ingibjörg helgaði líf sitt baráttumálum sínum sem áttu hug hennar allan. Hún giftist aldrei og eignaðist engin börn. Henni er að jafnaði lýst sem ákveðinni konu sem jafnframt bjó yfir mikilli gæsku og kímnigáfu (Björg Einarsdóttir, 1986).
Ingibjörg tók svo sæti á alþingi 1922 fyrst íslenskra kvenna. Fjallað verður um vinnu hennar á Alþingi í þágu menntamála síðar í þessari ritgerð.
Upp
 

Kvennaskólinn í Reykjavík
Eins og áður hefur komið fram hóf Ingibjörg kennslu við Kvennaskólann í Reykjvík 1893 að lokinni dvöl sinni í Kaupmannahöfn. Fyrstu árin kenndi hún meðal annars leikfimi, teikningu og handavinnu. Dans kenndi hún svo í einkatímum utan skólatíma. Að lokinni tveggja ára dvöl í Mið-Evrópu 1901-1903 þar sem hún kynnti sér nýjungar í skólastarfi kenndi hún eingöngu teikningu, dönsku og heilsufræði fram til 1922 (Sigríður Briem Thorsteinsson, 1974).

Fyrsta verkefnið er beið Ingibjargar er hún tók við starfi skólastjóra af Þóru Melsteð var að útvega fullnægjandi húsnæði. Sökum mikillar aðsóknar var húsakostur skólans orðinn allt of lítill og vísa þurfti stúlkum frá er sóttu um. Ingibjörgu tókst að útvega leiguhúsnæði við Fríkirkjuveg sem mætti þörfum skólans betur og rúmaði fleiri nemendur. Húsmæðradeild skólans sem hafði verið lögð niður vegna plássleysis var þar opnuð á ný. Í þessari nýju deild voru 12 nemendur sem bjuggu í skólanum en þar að auki var heimvist fyrir 18 stúlkur. Skólinn bjó við góðan orðstýr undir stjórn Ingibjargar og sóttust margir eftir að koma dætrum sínum að. Greinilegt er að þegar lesið er um störf Ingibjargar að henni var annt um velferð nemenda sinna og ætlaðist til hins sama af samstarfsfólki sínu. Í ræðu sem Ingibjörg flutti við fyrstu skólasetningu Kvennaskólans í nýja húsnæðinu við Fríkirkjuveg og birt er útdráttur úr í bókinni Kvennaskólinn í Reykjavík 1874-1974 sést að Ingibjörg taldi að mikilvægt væri að læra fyrir lífið en ekki eingöngu til að ná prófum. Einnig talar hún um mikilvægi þess að nemendur skólans sýni ábyrgð og að menntun snúist um að auðga sálina. Hægt er að greina hjá henni mikla umhyggju fyrir starfi sínu sem og nemendum í þessari ræðu (Sigríður Briem Thorsteinsson, 1974).

Ingibjörg fylgdist vel með menntaumræðunni í samfélaginu og fór oft til útlanda til að kynna sér nýjar hugmyndir. Sem dæmi má nefna að Kvennaskólinn í Reykjavík var fyrsti skólinn sem kenndi umönnun ungabarna, skyndihjálp og heimahjúkrun (Sigríður Briem Thorsteinsson, 1974).
Upp
 

Menntun kvenna á tímum Ingibjargar
Ingibjörg er sem áður segir ef til vill hvað þekktust fyrir að vera fyrsta konan til að vera kosin á þing en það gerðist árið 1922 (Erla Hulda Halldórsdóttir og Guðrún Dís Jónatansdóttir, 1998). Hún komst á þing fyrir sérstakan kvennalista eftir mikla og kröftuga baráttu þeirra kvenna er skipuðu kvenréttindahreyfingar þessa tíma. Það er því ekki að undra að hún hafi fengið á sig harða gagnrýni þegar hún gekk síðar til liðs við Íhaldsflokkinn. Margir álitu hana hafa svikið sitt lið ef svo má að orði komast. Í dag þykir þó vitað að Ingibjörg hafi aldrei hætt að berjast fyrir réttindum kvenna og ef til vill hefur hún séð fyrir sér að hún gæti náð betri árangri í baráttumálum kvenna í samstarfi við karlaflokk. Hún viðurkenndi meðal annars að hafa kosið Kvennalistann á skjön við sinn eigin flokk (Sigríður Matthíasdóttir, 2004).

Það var um miðjan þriðja áratug 20. aldarinnar að kvenréttindahreyfingin stóð höllum fæti. Það var ekki síst vegna þeirrar togstreitu sem hafði myndast um afstöðuna til eðlis og hlutverks kvenna. Hún beindist að mestu leyti að því hvort konur gætu fært sig yfir á hið opinbera svið sem hafði verið þeim ósnertanlegt að mestu öll þessi ár (Sigríður Matthíasdóttir, 2004.) Þessari togstreitu verður ef til vill hvað best lýst með eftirfarandi orðum: „Átti þjóðfélagshlutverk kvenna fyrst og fremst að stjórnast af kynhlutverki þeirra eða skyldi einnig líta á konur sem einstaklinga sem færu með ákveðin völd innan þjóðarinnar“ (Sigríður Matthíasdóttir, 2004, bls. 300).

Ingibjörg setti málefni af þessu tagi á oddinn í kosningabaráttu sinni og hélt því fram að konur jafnt sem karlmenn gætu aflað sér þekkingar á ýmsum málefnum og konur gætu jafnvel bætt karlmönnunum upp ákveðinn skilning á löggjöfinni sem myndi skipta þjóðina miklu máli. Mikil umræða var um hvort að sókn kvenna út í atvinnulífið hefði slæm áhrif á fjölskyldulíf og börn. Skoðanir voru margbreytilegar og má sem dæmi taka þá hugmynd Ragnhildar Pétursdóttur fyrsta formanns Kvenfélagasambands Íslands, að hússtjórn og matreiðsla væri í raun þegnskyldunám fyrir konur. Ingibjörg var ekki sammála og hélt því staðfastlega fram að konur gætu vel sinnt störfum sínum utan heimilis ásamt því að sinna barnauppeldi og heimilishaldi (Sigríður Mattíasdóttir, 2004).

Húsmæðrakennsla styrkist mjög ört í byrjun 20. aldar og má sem dæmi nefna að Búnaðarfélagið tók að styrkja fjarkennslu fyrir húsmæður. Húsmæðraskólum fjölgaði einnig ört og var til dæmis stofnuð sérstök húsmæðradeild innan Kvennaskólans í Reykjavík árið 1905. Menntun kvenna jókst á nítjándu öld með tilkomu fjögurra kvennaskóla. Sú þróun í átt að auknum menntamöguleikum kvenna hélt áfram á tuttugustu öld og við lok hennar var ástandið gjörbreytt. Það er samt ljóst að skólakerfið var upphaflega hannað með drengi í huga (Jón Torfi Jónasson, 1997). Hlutverk kvenna hafði verið mjög hefðbundið í gegnum tíðina þar sem þær sinntu hústörfum og barnuppeldi. Þegar að kvennaskólarnir voru stofnaðir á síðari hluta 19. aldar var farið að bjóða upp á bæði bók- og verknám sem var sniðið að þeim þörfum sem konur þóttu hafa. Menntun kvenna átti síðan eftir að þróast þannig að þessi tvö svið skildust meira að. Á þessum tíma þótti mikilvægt að efla húsmæðrafræðslu kvenna vegna þess að hússtjórnin var á þeirra herðum og mikilvægt þótti að vera vel upplýstur (Sigríður Matthíasdóttir, 2004).
Upp
 

Ingibjörg og menntamál á alþingi
Miklar umræður voru um húsmæðraskóla á árunum kringum þriðja áratuginn. Ein þessara umræðna endaði á Alþingi sem frumvarp um að gera Kvennaskólinn í Reykjavík að ríkisskóla. Það mætti mikilli mótspyrnu og þykir gott dæmi um hversu erfitt það var að koma siðferðislegum kvenréttindahugmyndum á legg. Málið fékk aldrei brautargengi á Alþingi eitt og sér því fljótlega var talað um að gera Kvennaskólann á Blönduósi að ríkisskóla og sameina þannig skólana tvo að vissu leyti. Þessu var Ingibjörg mjög á móti og benti á að Kvennaskólinn í Reykjavík væri bæði eldri og einnig landsskóli. Henni fannst ekki rétt að steypa þessum tveim skólum undir sama hatt (Sigríður Matthíasdóttir, 2004).

Athyglisvert er að á þessum tíma þegar að opinberu jafnrétti kynjanna var að fullu náð var tækifærið notað til að setja svokallaða húsmæðrastefnu í enn fastari skorður en áður. Eitt af aðalmálum umræðunnar var hvort að sérskólar fyrir stúlkur ættu rétt á sér. Ingibjörg var einn heitasti talsmaður sérskólanna og átti sér hauk í horni sem var Jón Magnússon forsætisráðherra. Jónas frá Hriflu var aftur á móti einn helsti andstæðingur þeirra og talaði alfarið gegn því að Kvennaskólinn í Reykjavík yrði ríkisskóli í þeirri mynd sem hann var. Hann mælti með því að honum yrði breytt í húsmæðraskóla. Ingibjörg var mjög á móti þessu og taldi nauðsynlegt fyrir konur að hafa tækifæri til að ganga í sérskóla án þess þó að um húsmæðraskóla væri að ræða og gerði hún mikinn mun á þessum tveimur gerðum skóla. Henni þótti það mjög brýnt að konur mættu nú ganga í þá skóla sem þær lysti að þær hefðu val um sérskóla fyrir konur (Sigríður Matthíasdóttir, 2004).

Ingibjörg hélt staðfastlega í sannfæringu sína að konur gætu vel sómað sér annars staðar í lífinu en innan heimilisins. Hún hnykkti á því í snörpum orðaskiptum við Jónas frá Hriflu að konur hefðu sál og gáfur og gætu meira en staðið bak við eldavélina. Málflutningur hennar þykir benda til siðferðislegrar kvenréttindastefnu þar sem einkenni hennar er að konur séu taldar hæfar á öllum sviðum samfélagsins en ekki aðeins á húsmæðrasviðinu (Sigríður Matthíasdóttir, 2004).

Það sem bar hvað hæst í umræðunni var hvernig skilgreina ætti sérskóla og hvort stúlkur þyrftu vegna séreðlis síns á slíkum skólum að halda. Ingibjörg lagði ríka áherslu á að stúlkur hefðu val um hvað þær vildu gera. Hún benti á að hina hefðbundnu gagnfræðaskóla væri hægt að kalla drengjaskóla og ekki myndu foreldrar vilja senda drengina sína í kvennaskóla. Hún svaraði þeim ásökunum um að Kvennaskólinn í Reykjavík væri ekkert annað en venjulegur gagnfræðaskóli á þann hátt að hann væri það alls ekki þar sem að hann væru byggður upp til að þjóna séreðli kvenna sem best og búa þær undir lífið. Hún sagði að ef hann sinnti ekki þeim hluta þá væri varla hægt að kalla hann sérskóla fyrir ungar stúlkur (Sigríður Matthíasdóttir, 2004). Þessu er ef til hvað best lýst með eftirfarandi orðum: ,,Kvennaskólinn var að hennar mati sérsniðinn að þörfum ungra stúlkna; bóklega námið samsvaraði nokkurn veginn almennri gagnfræðamenntun en auk þess fengi hver stúlka sem þaðan lyki námi ,,allmikla kvenlega sjermenntun “ (Sigríður Matthíasdóttir, 2004, bls. 323).

Ingibjörg og stuðningsfólk hennar lagði ríka áherslu á sérskóla því þeir væru í samræmi við nýjar uppeldisstefnur og væru betur sniðnir að kvenlegu séreðli. Það skal taka það fram að Ingibjörg trúði á séreðli kvenna og taldi að hlúa skyldi að því sérstaklega. Hún var á þeirri skoðun að karlmenn gætu aldrei sett sig fullkomlega í spor kvenna og því væri stúlkum hollt að umgangast eldri konur. Þetta þýddi þó að sjálfsögðu ekki það að stúlkur ættu ekki að njóta sömu réttinda og karlmenn. Í kjölfar þessa komu upp alls kyns undarlegar kenningar samstarfsmanna Ingibjargar á þingi um andlegt atgervi kvenna. Þeir töldu það vera rök fyrir þörfina á sérskóla því þær þyldu ekki sama álag og drengir og þyrftu því annað uppeldi. Ingibjörg mótmælti þessu aldrei og var stuðningnum fegin. Andstæðingar hennar börðust þó af mikilli snilld þar sem þeir spiluðu með nýjar hugmyndir um jafnrétti. Þeir vildu ekki leggja ólíkt eðli til grundvallar menntunar. Í raun voru hugmyndir þeirra byggðar á gömlum hugmyndum um stöðu kynjanna sem að þeir vildu byggja heila menntastefnu á eða hina svo kölluðu húsmæðrafræðslu (Sigríður Matthíasdóttir, 2004).
Upp
 

Lokaorð

Ingibjörg var merkiskona. Hún lifði fjölbreyttu og áhugaverðu lífi. Það hefur örugglega ekki reynst auðvelt að vera fyrsta og eina konan á Alþingi á þessum tíma. Hún lét það þó ekki á sig fá og fann ætíð leiðir til að koma hugðarefnum sem og baráttumálum sínum á framfæri. Starf hennar innan veggja Kvennaskólans í Reykjavík má heldur ekki gleymast en þar vann hún mikið og gott starf. Hún kom á ýmsum nýjungum svo sem kennslu í skyndihjálp og umönnun ungbarna sem án efa hefur verið mjög nauðsynlegt. Einnig er varla hægt annað en að minnast á sérstöðu hennar í íþróttakennslu en hún var fyrst Íslendinga til að taka próf í slíkum fræðum. Starf hennar á Alþingi vegur sem fyrr segir þungt þegar litið er á ævi hennar. Þar kom hún fram hugmyndum sínum um skólann sinn og menntun kvenna og hafði án efa gífurlegur áhrif á þá umræðu. Hún barðist fyrir því að konur fengju að mennta sig og eiga möguleika á starfi utan heimilis. Á sama tíma vildi hún að hlúð yrði að því séreðli sem henni fannst konur hafa sem aðalábyrgðarmenn uppeldis og heimilis. Hún vildi veita stúlkum sérstaka menntun sem myndi gagnast þeim í lífinu sjálfu. Hún var þó ekki að meina með þessu að konur hefðu ekki sömu réttindi og karlmenn og lagði ríka áherslu á jafnrétti kvenna. Það er því ljóst að hún hafði víðtæk áhrif á menntun kvenna bæði með starfi sínu á Alþingi og við Kvennaskólann í Reykjavík. Hún var sannur málsvari kvenna hvarvetna eins Kristín Ástgeirsdóttir orðar á svo skemmtilegan hátt í meistaraprófsritgerð sinni, bæði í sambandi við menntun og almenna réttindabaráttu.
Upp
 

Heimildaskrá
Alþingi. (2001,10. ágúst). Þingmenn og embætti. Sótt 9. febrúar 2005 af http://www.althingi.is/cv.php4?nfaerslunr=263

Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna. (1998). (Ritstj. Erla Hulda Halldórsdóttir og Guðrún Dís Jónatansdóttir). Reykjavík.

Björg Einarsdóttir. (1986). Úr ævi og starfi íslenskra kvenna II. Reykjavík: BÓKRÚN hf.

Jón Torfi Jónasson. (1997). Þjóðsögur úr skólakerfinu. Íslensk félagsrit, 7-8. Bls. 41-69. Reykjavík: Félagsvísindadeild Háskóla Íslands.

Sigríður Briem Thorsteinsson. (1974). Kvennaskólinn í Reykjavík 1874–1974. Í Aðalsteinn Eiríksson, Björg Einarsdóttir, Guðrún P. Helgadóttir, Halldóra Einarsdóttir, Margrét Helgadóttir (Ritstj.), Ingibjörg H. Bjarnason (bls. 207-224). Reykjavík: Almenna bókafélagið.

Sigríður Matthíasdóttir. (2004). Hinn sanni Íslendingur: þjóðerni, kyngervi og völd á Íslandi 1900-1930. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Upp
 
Til baka á aðalsíðu